Alisson, Fabinho og Trent búnir að framlengja

Þó að það sé lítið að frétta af leikmannakaupum hjá Liverpool enn sem komið er má ekki vanmeta hversu hrikalega jákvætt það er að félagið er að semja hægt og rólega við sína mikilvægustu og bestu menn. Núna á nokkrum dögum er búið að klára nýja og mikið endurbætta samninga við Trent Alexander-Arnold, Fabinho og Alisson. Áður en tímabilið byrjar verða vonandi Van Dijk, Robbo, Salah og mögulega Mané búnir að bætast við.

Trent var að öllum líkindum forgangsmál númer eitt hjá Edwards enda heimamaður í algjörum heimsklassa og framtíð félagsins. Hann er langbesti hægri bakvörður sem ég hef séð hjá Liverpool og klárlega einn sá besti í boltanum, hann er samt bara 22 ára! Flestir lykilmenn í þessari stöðu hjá öðrum liðum voru hvergi nærri byrjunarliði í Úrvalsdeildarliði á þeim aldri. Ef að 26 ára Jack Grealish sem enn hefur ekki spilað Evrópuleik og varla landsleik kostar 100m, hvað kostar Trent þá?

Fabinho er sömuleiðis besti varnartengiliður sem ég man eftir hjá Liverpool og leysir frábærlega stöðu sem var nánast ómönnuð í tæplega áratug. Ég er of ungur til að muna eftir Souness og félögum og fyrir mér er Fabinho betri alhlliða leikmaður en Hamann og Mascherano voru. Liverpool fór að vinna stóru titlana þegar Fabinho fór að spila fyrir framan vörnina og Liverpool fór að vinna leiki aftur á síðasta tímabili þegar Fabinho fór að verja vörnina, hvorugt er tilviljun.

Núna í dag var það Alisson sem skrifaði undir sex ára samning. Hann kom inn í liðið í staðin fyrir Mignolet og Karius þannig að hann gat ekki annað en bætt þessa stöðu en það er fullkomin bónus að hann er í alvörunni einn af þremur bestu markmönnum í heimi í dag.

Allt leikmenn sem eru núna búnir að semja við Liverpool fyrir sín bestu ár frá aldurssjónarmiðum. Nýr samningur við Andy Robertson ætti að detta inn fljótlega enda nokkuð ljóst að hann hefur engan áhuga á að fara frá Liverpool. Áður en hann kom til Liverpool höfðum við talað um stöðu vinstri bakvarðar sem einn mesta veikleika liðsins í tæplega áratug, á það hefur ekki verið minnst síðan.

Van Dijk er sérstakt tilfelli þó að hann röngu megin við þrítugt, hann er bara það góður og mikilvægur liðinu. Auk þess sem það eru ekki sömu lögmál um miðverðir og aðrar stöður framar á vellinum.

Salah er svo klárlega efstur á blaði hvað sóknarlínuna varðar þó þeir eigi allir jafn mikið eftir af samningi. Hann er sá eini sem hefur eitthvað aðeins daðrað við brottför undanfarna mánuði.

Jurgen Klopp ásamt FSG leggja jafn mikla áherslu ef ekki meiri á að halda sínum bestu mönnum og þróa unga leikmenn en að kaupa alltaf nýja. Sama hvað okkur kann að finnast þessi stefna pirrandi þá er þetta bara staðreynd og hefur gengið vel hingað til. Sumarið áður en Liverpool vann loksins deildina er besta dæmið um þetta. Fyrir utan hversu miklu hagkvæmara þetta er fjárhagslega þá sparar það gríðarlega vinnu á æfingasvæðinu að halda áfram þróun leikmanna sem þekkja nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim.

Curtis Jones sem hefur sem dæmi verið hjá Liverpool öll ár Jurgen Klopp, hann er tvítugur, mjög hungraður með mikla hæfileika og gæti vel hentað betur og átt auðveldara með að aðlagast leik liðsins heldur en 50-60m nýr miðjumaður með mun meiri reynslu (og jafnvel aðeins minna hungur). Klopp hefur sagt frá því áður að hann vill oftar en ekki vinna svona, ekki til að spara pening heldur vegna þess að hann er í alvörunni á því að það sé betra fyrir þróun liðsins. Auðvitað viljum við öll bæði fá Jones inn í liðið og þennan nýja 50-60m miðjumann. Það má heldur ekki vanmeta hversu mikilvægt hungrið er hjá nýjum leikmönnum sem brjóta sér leið inn í þetta Liverpool lið sem er að verða nokkuð rótgróið og má klárlega við nýju og fersku blóði sem heldur mönnum á tánum.

5 Comments

  1. Gott og blessað að semja við þessa góðu leikmenn en ég bara neita að trúa því að það verði ekki keyptir nýir menn og reynt að styrkja aðeins hópinn, því það veit sá sem allt veit að sömu meislapésanir verða orðnir meiddir eftir nokkar vikur og hvað þá á kannski að treysta á einhverja krakka eins og síðasta vetur. Sorry en öll liðin eru að styrkja sig og á meðan selur Liverpool bara leikmenn og kaupir börn inn í staðin og treystir á einhverja heppni og kænsku Klopp en það mun bara ekki hjálpa þeim endalaust. Ég veit ekki um ykkur kæru púllarar en ég er drullu stressaður fyrir þetta tímabil og vona að það verði keyptir góðir menn á síðastu metrunum en þetta lítur ekki vel út núna í dag.

    4
    • Sælir félagar

      Anzi mikið til í því sem Rabbi nefnir hér að ofan. Þó liðið sé mjög gott (byrjunarliðið) þá þarf ekki mikil meiðsli til að það fari að hökta. Meiðslasaga hópsins er ótrúleg og hvað segir að það sé að fara að breytast? Það er því full ástæða til þess að hafa áhyggjur af styrkingu liðsins og allir muna síðustu leiktíð. Loforð eigendanna eru innihaldslítil ef ekkert á að kaupa í sumar nema krakka til að selja með ágóða á komandi árum. Þetta er svo sannarlega áhyggjuefni.

      Það er nú þannig

      YNWA

      1
  2. Það er ótrúlega mikilvægt að halda okkar bestu mönnum áfram hjá félaginu. Hver man ekki þá tíma þegar nýr leikmaður var keyptur og oftar en ekki var sá leikmaður síðasti bitinn í púslið sem myndi tryggja liðinu deildartitilinn ? Þetta gerðist yfirleitt hvert einasta sumar en aldrei var viðkomandi leikmaður púslið sem á þurfti að halda. Bestu mennirnir voru svo kroppaðir burt af öðrum liðum (Real og Barca mest) af því að liðið náði aldrei þeim hæðum sem búist var við.

    Auðvitað er pirringur í gangi yfir því að fleiri leikmenn hafi ekki verið keyptir en ég myndi allan daginn skipta á þeirri stöðu sem er núna fyrir þá stöðu sem ég nefni hér að ofan. Það mætti segja mér að t.d. United séu í þessari stöðu núna. Á pappír virðist auðvitað staðan vera þannig að þeir hafi keypt eintóm gæði í Varane og Sancho, þeir fara beint í byrjunarliðið og styrkja það. En aðlögunartíminn í ensku deildinni er alltaf einhver og menn þurfa að læra inná leikstíl liðsins og þekkja samherja sína. Eins og EMK bendir svo vel á í síðasta pistli um vanmat og hungur núverandi hóps þá er ekkert víst að þetta fari illa. Það getur bara ekki verið að meiðsli síðasta tímabils verði jafn alvarleg á því næsta. Ef svo er þá þarf einhver að taka vúdú dúkkuna af Gary Neville og stoppa það ferli strax 🙂

    Ég hef trú á því að amk einn leikmaður verði keyptur áður en glugginn lokar og líklegast verður það miðjumaður. Því miður er ekki hægt að treysta á Naby Keita ennþá en ég er tilbúinn að gefa honum þetta tímabil til að sýna hvað hann getur.

    Lítum á björtu hliðarnar, ég endurtek, það er svo mikilvægt að binda bestu leikmennina á langa samninga því allir hafa þeir áfram trú á verkefninu og vita hvað þarf til að vinna, þeir hafa verið þar áður og langar þangað aftur. Það er ekki alltaf hægt að kaupa það af næsta liði, því miður.

    2
  3. Afhverju er Liverpool í Man chest hair United búningum á móti Bologna?

    2

Núverandi hópur vanmetin og hungraður

Æfingaleikur gegn Bolognia (2 x 60 mín leikir)