Um “heimaræktaða” leikmenn

Þá styttist í ágústmánuð sem ef allt fer á réttan veg markar upphaf nýs leiktímabils í enska boltanum, Covid 19 hefur ýft sinn úfna haus í Englandi síðustu daga en við skulum ganga út frá því að ekki leggist allt á hliðina þar í landi og við mætum Norwich í fyrsta leik laugardaginn 14.ágúst.

Töluverðar vangaveltur hafa verið um leikmannakaup okkar manna – og sölur – en í þessum pistli langar mig að varpa aðeins ljósi á það hvernig staða hópsins okkar er útfrá reglum um “heimaræktaða” menn, eða kannski réttara þá skyldu að í EPL og CL gilda reglur um hámarksfjölda leikmanna sem leyfilegir eru í leikmannahópum liða en hafa ekki alist upp í félaginu eða í heimadeild þess.

Skoðum fyrst reglurnar sem eru samhljóða í þessum keppnum.

Að hámarki mega vera í leikmannahópnum 25 leikmenn eldri en 21s árs og af þeim verða 8 leikmenn a.m.k. að vera aldir upp sem knattspyrnumenn í heimalandi deildarinnar (í þessu tilviki Englandi) um þriggja ára skeið fyrir 21s árs afmæli sitt og í leikmannahópnum þurfa að vera fjórir leikmenn sem voru aldir upp hjá félaginu sjálfu. Sem þýðir í raun að 17 leikmenn mega að hámarki hafa hafið sinn feril utan landsins.

Í stuttu máli sagt eru í leikmannahópi okkar í dag 17 leikmenn sem einmitt hafa farið þá leið, þ.e. að vera rankaðir sem “utanlandsleikmenn” í regluverkinu. Sérstaklega skal bent á að Skotland, Írland og N.Írland teljast því sem útlönd þó að oft sé horft til þeirra sem samveldistengdu landi, Wales er þó á gráu svæði þar sem að þrjú lið þaðan eru í enskum knattspyrnudeildum og hafa því fengið “beint á ská” þau réttindi sem fylgja enskum leikmannareglum. Semsagt, Andy Robertson er þarna jafn mikill útlendingur og Sadio Mané.

Mörgum, þ.á.m. mér kom því á óvart þegar Adrian fékk nýjan samning hjá okkur, það er klassískt að markmenn séu enskir til að uppfylla þennan kvóta hjá stóru liðunum en við fórum þá leið að halda honum þrátt fyrir að staðan væri þessi hjá okkur. Gini fór og Konaté er kominn í staðinn, ekki skipti máli fyrir okkur að Grujic, Awoniyi og Grabara fóru enda engir þeirra hluti af okkar hópi í fyrra.

Hverjir eru þá uppaldir í landinu hjá okkur og eldri en 21s árs? Þar er fyrst að nefna fyrirliðann Henderson en auk hans eru í þeirri stöðu þeir James Milner, Alex Oxlade Chamberlain, Joe Gomez og Ben Davies. Ef við finnum svo þá sem eru eldri en 21s árs og uppaldir alveg hjá félaginu eru það Trent Alexander Arnold, Caoimin Kelleher og Nat Phillips (sem þó sleppur naumlega held ég enda kom hann til LFC 19 ára frá Bolton). Líklega má alveg rökstyðja samning Milner á sínum tíma og marga möguleika Ox til þess að hluta að þeir uppfylla þessa kvóta. Auðvitað ekki eina ástæðan.

Allir leikmenn yngri en 21s árs við upphaf tímabils eru svo undanþegnir reglunum og þar höfum við t.d. Curtis Jones og Neco Williams, sem og Harvey Elliott blessaðan og nokkra efnilega sem hafa aðeins birst í sumar. Þeir fara á svokallað “B-lista” sem að alltaf má sækja í.

Fækkar í hópi útlendra?

Töluverð er umræðan um brotthvörf. Ég vil sérstaklega benda á að ég er ekki með Karius inni í þessari 17 manna tölu enda hlýtur hann að fara. Staðan er einfaldlega sú að ef á að kaupa erlendan leikmann þá þarf að fækka í þeim hópi á Anfield. Líklega er það eina af ástæðum þess að við höfum enn ekki keypt fleiri en Konaté utan Englands og við þurfum að sjá brotthvörf áður en meginlandsnöfn koma upp á borðið. Það er klárlega verið að vinna að sölu Shaqiri en er það nóg fyrir okkur að eiga þá eitt laust sæti inn í leikmannahópinn utan Englands?

Líkur eru á að það muni ekki duga félaginu og verið sé að vinna í að losa um fleiri erlenda leikmenn. Origi mest ræddur en þar hafa líka komið upp nöfn Minamino og á tímabili í sumar var Naby Keita nafn sem hugsanlega yrði losað um. Samningur hans, sem og hjá Origi, eru ansi launaháir og því virðist erfitt að hreyfa þá til og ef ekki tekst að selja neinn þá eru meiri líkur en minni að LFC versli ekki leikmann þessarar gerðar enda þyrfti þá einhver að vera alfarið utan leikmannahópsins allt tímabilið…eða a.m.k. í annarri keppninni.

Michael Edwards og félagar eru pottþétt að vinna í að losa um þessa stöðu en þar þarf líka að horfa til þess að Brexit mun hafa áhrif á leikmannakaup allra ensku félaganna. Nú er það svo að allir leikmenn sem ekki eru enskir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá atvinnuleyfi, sérstök stigatafla hefur verið smíðuð sem byggir á landsleikjafjölda viðkomandi með tengingu við styrkleikaröðun þess landsliðs í bland við styrkleika þess liðs og þeirrar deildar sem leikmaðurinn kemur frá. Það þýðir t.d. að nær vonlaust væri fyrir íslenskan leikmann með fáa A-landsleiki fyrir Ísland að fá samning á Englandi.

Í bland var því svo líka breytt að ensk lið mega ekki sækja yngri leikmenn en 18 ára út fyrir landsteina Englands nema svo vilji til að foreldrarnir flytji þangað og fái atvinnuleyfi í landinu og atvinnu…og svarið er já…það er farið að henda að fjölskyldur bara flytja óvænt flotta fótboltaunglinga til landsins sem fara svo að spila fyrir ensk stórlið væntanlega næsta vetur. Þetta er þó mjög flókið og hefur stórminnkað flæði ungra leikmanna til enskra sem hafa mörg hver verið dugleg að sækja efnivið yfir hafið. Við þar framarlega í flokki.

Það er því ljóst að í Kirkby eru blikur á lofti er horft til þessa regluverks og hefur því aukið mjög á vangaveltur um enn meira mikilvægi þess að ensku liðin sæki sér “heimaræktaða” leikmenn frá sínu landi. Það hefur klárlega litað umræðu um okkar leikmannakaup í sumar og því er vert að velta upp þeim nöfnum sem hvað mest hafa verið rædd og svo kannski læða inn nöfnum sem pistlahöfundur persónulega myndi vilja velta upp sjálfur sem kostum. Endilega bætið inn nöfnum í umræðuna í athugasemdum ef þið vitið um fleiri. Sama staðan er hjá flestum stóru ensku liðunum sem mun auðvitað bara hækka verðmiðann.

Allavega skoðum nokkra kosti.

Möguleikarnir í stöðunni

Jarred Bowen

Það nafn sem oftast hefur verið uppi í sumar og satt að segja ekki vakið slef í munnvikum margra. Þessi 24ra ára framherji hefur farið erfiðu leiðina á ferlinum sínum, vísað frá Aston Villa og fór til Hereford utan deilda þar sem Hull City keypti hann og þar var hann lykilmaður um 5 ára skeið þar til West Ham keypti hann á lokadegi janúargluggans 2020. Frá þeim tíma hefur hann skorað 9 mörk í 51 leik, ekki brjáluð tölfræði þar. Hins vegar eru margir þættir í leikfræðinni sem ýta við, hann skorar mjög hátt í “second assist” og hefur eina bestu pressutölfræði í ensku deildinni. Hann er vissulega ekki að spila með sókndjarfasta liði landsins svo það yrði allt annað uppi á tening á Anfield þar. Örvfættur á hægri kanti, góður að dribbla og með öflugan vinstri fót. Sögurnar hafa kólnað síðustu daga en þó er hann enn efstur á listanum yfir líklegustu “heimakaupin”.

Jude Bellingham

Þessi strákur varð 18 ára nú í júní og hefur býsna mikið verið um hann rætt enda orðinn stór hluti af aðalliðshóp Dortmund eftir að hafa verið keyptur frá Birmingham sumarið 2020. Þetta er box-to-box miðjumaður sem heldur betur komst í umræðu meðal aðdáenda LFC eftir að hafa tístað um það að Stevie G hafi verið hans fyrirmynd í uppvextinum. Echoið gekk svo langt að henda upp bakmynd af treyjunni sem hann gæti náð. Í sumar var þessi strákur í landsliðshóp Englands og þar var um það rætt að Hendo hafi tekið hann undir sinn væng og ekki dró það úr spennunni. Hins vegar er ljóst að þessi strákur er ekki á neinum sölulista. Dortmund nýbúnir að fá fullt af peningum fyrir Sancho og líklega verður Haaland næstur af færibandinu þar. Það dregur þó ekki úr spennunni enda flestir okkar miðjumenn í kringum þrítugt og þar þarf að bæta við, Bellingham er svo sannarlega spennandi kostur.

Kalvin Phillips

Næstur í röðinni er einn af lykilmönnum enska landsliðsins í sumar, Kalvin Phillips hjá Leeds. Þessi 26 ára miðjumaður hefur sprottið fram á sjónarsviðið síðustu tvö tímabil en þó líklega hvergi frekar en eftir EM í sumar. Hann spilar sem djúpi miðjumaðurinn hjá Leeds og hefur þar stýrt varnarleik og brotið upp sóknir líkt og Fabinho hjá okkur en í landsliðinu spilaði hann framar á vellinum með varnartengilið fyrir aftan sig. Þegar rýnt er í tölfræðinni var hann í fimmta sæti yfir sköpuð marktækifæri hjá miðjumönnum í deildinni síðasta vetur og mjög ofarlega í meðaltalskílómetrum hlaupnum. Töluverð leikreynsla liggur hjá kappanum enda búinn að vera lykilmaður hjá Leeds síðan 2016 og þrátt fyrir að Leeds sé sögulega stór klúbbur er alveg ljóst að fyrir rétt verð yrði hann seldur til stærri klúbbanna.

Harvey Barnes

Hér er kominn einn af mínum uppáhaldskostum (ætla ekki að stinga upp á Grealish sem er of augljós kostur) þar sem hér er á ferð mikill Klopp-leikmaður. Réttfættur vængmaður með heilmikla skotgetu og ofboðslega duglegur pressari. Það mætti alveg horfa til þess að hrunið hjá Leicester síðasta vor kom í kjölfar meiðsla hans í leik gegn Arsenal enda alger lykill í sóknarleiknum þeirra. Hann verður 24ra ára á árinu og væri augljósi kosturinn til að bakka Mané upp. Hann er þó kannski ekki sami raðskorarinn og Mané er núna en tölfræðin hans er ekki ólík þeirri sem hún var þegar sá var hjá Southampton. Leicester eins og Dortmund eru ekkert að selja menn ódýrt og þeir eru alveg líklegir til að heimta yfirverð fyrir hann. Það er þó þannig að hann horfir mjög til enska landsliðsins og það er bara staðreynd að regluleg þátttaka í CL og stórum leikjum hjálpar til, sjáið bara Mason Mount.

Ollie Watkins

Við þekkjum víst þennan eftir þrennuna sem hann henti á okkur í fyrra. Öskufljótur framherji sem hefur leikið sem nía með Aston Villa en lék líka á vinstri vængnum með Brentford á sínum tíma með góðum árangri. Skoraði 14 mörk á sínu fyrsta tímabili í Úrvalsdeildinni sem er sannarlega góður árangur þegar horft er til þess að Villa var um miðja deild og þessi 26 ára gaur myndi fá miklu fleiri færi hjá okkur en á Villa Park og er kostur sem margir horfa til enda sennilega sá leikmaður sem er ólíkastur okkar framherjum og gæti brotið upp sóknarleikinn með sínum kostum.

Bukayo Saka

Það er nú bara komið svo að maður horfir til þess að Arsenalleikmenn séu mögulega farnir að óska eftir því að yfirgefa sitt félag til að keppa um stóru titlana en þannig er nú bara lífið. Þessi strákur stökk upp á stóra sviðið á þessu ári og gerði þá langtímasamning við Arsenal sem á víst að innihalda klásúlu um söluverð ef ekki næsti CL sæti. Hann verður 20 ára á árinu og allt við hann gargar á mann “SPENNANDI”, öskufljótur með mikla tækni og frábæran vinstri fót. Líklegasti arftaki Salah til lengri tíma í raun. Mun svo sannarlega ekki fara ódýrt en ætti að vera hvers punds virði fyrir lið sem gæti nýtt hann mögulega næstu 10 árin. Þetta mun þó eingöngu verða ef Arsenal verða áfram í bulli.

Aðrir mögulegir kostir

Hér að ofan eru þeir kostir sem pistlahöfundur hefur helst nefnt en það eru alls konar nöfn í viðbót á listanum sem vert er að skoða stuttlega en hægt væri að bæta við í athugasemdum. Förum yfir nokkur nöfn hratt.

Fyrst ber þar að nefna Dele Alli sem auðvitað var nefndur sem mögulegur kostur fyrir Liverpool á sínum tíma. Náði heilmiklum hæðum hjá Spurs þar til Mourinho kippti honum út úr öllu og hefur heilmarga hæfileika sem Klopp gæti ræktað.

Þá kynni ég til leiks Callum Hudson-Odoi sem virðist ekki ætla að skrifa undir annan samning hjá Chelsea. Annað nafn sem Liverpool hefur verið orðað við og getur leikið allar þrjár sóknarstöðurnar og jafnvel inni á miðju.

Umræðan um að Raheem Sterling snúi til baka fór í gang síðasta vor þegar hann virtist vera að tapa í samkeppninni á Etihad. Hann sjálfur hefur ekkert útilokað það en líklega er brúin sem hann þyrfti að ganga til baka ekki alveg klár í þann túr eftir það hvernig hann fór frá félaginu.

Þegar við horfum svo til þess að við erum í brasi í backup í hægri bakverði þá væri hægt að horfa til Ola Aina sem lék með Fulham í vetur. Þessi nígeríski bakvörður sem er í eigu Torino er fæddur og uppalinn í London og fellur því undir heimavallareglu. Strákur sem spilaði 32 leiki í deildinni í vetur og væri líklegur á góðu verði.

Svo kemur hér nafnalisti yfir aðra sem eru kannski minna líklegir, þar set ég Declan Rice sem er líklega of dýr og leikur mest bara eina leikstöðu sem Fab mun eiga á Anfield. Þar kemur líka James Maddison sem er gamaldags tía sem fellur ekki inn í leikstilinn okkar og markmaðurinn Nick Pope sem ekki væri tilbúinn að vera varamaður hjá LFC.

Síðast en ekki síst hendi ég hér inn tveimur “wildcards”. Annars vegar er það Joe Willock sem mér finnst spennandi leikmaður sem að Arteta virðist bara ekki ætla að nota og svo ungstirnið Noni Madueke sem leikur með PSV. Þessi 19 ára vængmaður fór til Hollands eftir að hafa verið uppalinn hjá Tottenham og var í vetur orðinn einn lykillinn í sóknarleik þeirra. Vissulega hrár en mjög spennandi.

Það eru mörg nöfn hér á lofti og vel má vera líka að LFC ætli bara að einbeita sér að þeim ungu mönnum sem nú þegar eru í Kirkby. Mér þætti þó gaman að vita hvaða menn hér á þessum lista eru spennandi í augum lesenda kop.is, endilega skutla vali ykkar hér að neðan og þá endilega með rökstuðning. Önnur nöfn eru örugglega þarna úti sem gaman væri að heyra af líka.

Svo er bara að sjá hvort á næstu 32 dögum einhver “heimaræktaður” dettur inn um dyrnar!

18 Comments

  1. Flott samantekt, regluverk sem maður hefur kannski ekki hugsað nóg útí varðandi kaup og sölur en gerir allt flóknara og svifaseinna.
    Greinlilega eru þó margir spennandi kostir í stöðunni.

    1
  2. Hvernig væri að fá Daniel Sturridge aftur 🙂
    Hann er búinn að vera að æfa sjálfur undanfarið ár að vinna í sér. Hann er markamaskína, er Enskur og kæmi frítt.
    Væri margt vitlausara en að bjóða honum árs samning, hann er 31 árs og gæti alveg gert góða hluti sem partur af hópnum og komið sterkur inn sem varamaður.
    Það er nokkuð ljóst að eigendur Liverpool eru ekki að fara að eyða peningum i sumar og þá væri tilvalið að losa okkur við Origi og fá Sturridge inn.

    2
    • Manni finnst einhvernveginn eins og FSG sé ekki klúbbur sem leitar í fyrrverandi leikmenn. Ekki það að ég hef alltaf verið hrifinn af nafna mínum sem leikmanni, og þætti síst leiðinlegt að sjá hann aftur í rauðu treyjunni. Sé það bara ekki gerast, því miður.

      2
  3. Frábær pistill og er farið vel yfir reglur sem voru að vefjast fyrir mér. Takk fyrir

    3
  4. Ég er kominn á þá skoðun að ef að Liverpool ætlar ekki að kaupa stórstjörnu á miðjuna sem er ólíklegt hvort eð er útaf því að við erum með Henderson, Thiago og Fabinho þar, þá ætti Klopp að gefa Harvey Elliot eins mikinn spilatíma og hægt er.
    Kaupa Mbappe og þá erum við í toppmálum, sýna smá statement að Liverpool ætli sér sigur í deild og meistaradeild.

    3
  5. Frábær pistill Maggi og þarfur.

    J. Justin hjá Leicester. Getur spilað báðar bakvarðastöðurnar og myndi veita Robbo og Trent almennilega samkeppni.

    Grealish auðvitað. Að leyfa City að hirða hann ber vott um metnaðarleysi. Allir styrktarsamningar og sölur leikmanna fara lóðbeint ofan í vasa eigendanna. Gef þeim 1 ár í viðbót áður en ég fer að kyrja fsg out!

    JWP hjá S’ton. Flottur leikmaður og þarf að færa sig uppá annað level. Frábær í föstum leikatriðum.

    Lamptey hjá Brighton. Mjög spennandi og sóknarsinnaður bakvörður.

    Smith-Rowe hjá Arsenal. Kom sterkur inn hjá nöllurum og gæti sprungið út á þessu tímabili.

    2
  6. Takk fyrir flottan pistil, Maggi!

    Það eru tvö nöfn þarna sem vekja áhuga minn, Jude Bellingham og Bukayo Saka. Þeir virkuðu báðir mjög spennandi í leikjum enska liðsins á EM í sumar.

    Harvey Elliott er klárlega sá sem mestar vonir eru bundnar við af núverandi up-and-coming innanhússmönnum og það verður fróðlegt að sjá hvar og hvernig Klopp ætlar að nota hann í vetur.

    Raheem Sterling mun aldrei koma aftur til Liverpool og aveg óþarfi að hafa hann á óskalistanum. Sagan er á móti honum (#júdas2) og svo er hann vonlaus slúttari. Okkur vantar ekki fleiri marklausa menn…

    Og djöfull er Brexit að flækja málin. Ég er ekki viss um að enska deildin sætti sig við þessi stífu skilyrði til langframa. Fótboltinn er stóriðnaður og peningamaskína. Boris hefur líklega ekki fattað það ennþá.

    2
  7. ps. Gleymdi að nefna Kaide Gordon í up-and-coming deildinni. Hann er náttúrlega hrikalegt efni en verður líklega ekki settur í stórt hlutverk í vetur, til þess er hann of ungur. Stórhættulegt að setja of mikla pressu á unglingana.

    • Sammála, Gordon er í hópi með Musialowski, Balagizi o.fl. sem verður mjög spennandi að fylgjast með. Jafnvel þó svo það verði bara 1 eða 2 af þeim sem nær upp í aðalliðið, þá væri það samt frábær árangur. Við þurfum líklega að bíða þangað til þeir ná tvítugsaldri til að sjá hvað verður úr þeim.

      1
  8. Ég fékk nú smá kitl þegar ég las Ollie Watkins en ein sé ég Kalvin Phillips alveg sem áhugaverðan kost, af þeim sem þú nefndir. Ef ég ætti að velja enskan leikmann þá væri það samt alltaf Jack Grealish.

    3
  9. Eru ekki fimm Welsh lið í Ensku deildinni ? Ekki að það sé skipti höfuð máli varðandi þessa góðu samantekt takk fyrir.

    YNWA

    1
  10. Samkeppnin um leikmenn er orðin mikil og kaupupphæðir svakalegar. Það eru mörg dæmi þess að leikmenn standi ekki undir upphæð né launum og þá er ekki hægt að losna við þá á samningstímanum. Sjáið t.d. Oregi með svakaleg laun sem enginn vill taka við að greiða. Bale með svakaleg laun við að spila golf sér til ánægju og öðrum væntanlega til leiðinda. Ég vil að mitt elskulega félag sé vel rekið svo ég fái að njóta út ævina. Ég er bara sófasérfræðingur en ef félagið ætlar að borga um 100 milljónir punda þá eru bestu kaupin í manni sem er ungur og kemur til með að selja mikið að treyjum og þá koma bara tveir til greina og þið vitið hverjir það eru.

    2
    • Alveg sammála, ef að Keita nær að sýna af hverju Klopp var svona spenntur fyrir honum þá ætti hann að geta orðið okkar besti miðjumaður, hann hefur svo sannarlega gæðin í það.
      Vonandi helst hann meiðslalaus og byrja tímabilið af krafti.

      2
    • Keïta meikar ekki líkamlegu hörkuna í enska boltanum. Það er það sem er að honum. Sanniði til, hann verður kominn aftur á meginlandið eftir ár.

      7
  11. Þessi hefur fengið sér aðeins of margar Gull stundir.

    3
  12. Við eigum svo sannarlega eftir að eiga annað vandræða tímabil ef enginn frekari styrking kemur. Getum einnig gleymt titlum, sjáið önnur félög. Er klopp kannski bara að búa félagið undir komu gerrard með akademíunni?
    Annars myndi ég vilja fara að sjá eitthvað gerast.
    Við erum með gífurlega sterkt byrjunarlið, thats it ( nánast)!
    Hvers vegna getur mu náð í svona leikmenn? Og já, ég vil launaþak svipað og á spáni. Manchester liðin þurfa ekki að uppfylla fp reglurnar, veit ekki með chelsea.

    3

Græða á ungum leikmönnum innan vallar sem utan.

Núverandi hópur vanmetin og hungraður