Hverjir taka við hlutverki Wijnaldum?

Það versta við brottför Gini Wijnaldum er að með honum fer eini áreiðanlegi miðjumaður Liverpool undanfarin ár. Hann hefur aldrei verið besti miðjumaður liðsins en undanfarin ár hefur hann bókstaflega verið sá eini sem Klopp hefur eitthvað getað treyst á að haldist heill marga leiki í röð. Það er oft mikilvægari eiginleiki en að vera bestur en aldrei í leikhæfu ástandi. Ekki það að Wijnaldum var það að auki vanmetið góður leikmaður mest allan sinn feril hjá Liverpool.

Það er áhugavert að skoða þetta út frá spiluðum mínútum í deildarleikjum undanfarin ár. Liverpool spilar auðvitað miklu meira en bara deildarleiki yfir heilt tímabil en Klopp stillir jafnan upp sínu sterkasta liði í deildinni. Þetta er ekki síst áhugavert núna í ljósi þess að 31 árs gamall Jordan Henderson er að gefa það út að hann geti jafnvel yfirgefið Liverpool í sumar þar sem samningsviðræður ganga illa.

Svona eru spilaðar mínútur helstu miðjumanna Liverpool í deildinni undanfarin sex tímabil (frá því Klopp tók við). Heilt tímabil er 3.420 mínútur og ætli sweet spot fyrir bestu miðjumenn hvers liðs sé ekki einhversstaðar í kringum 2.500 – 3.100 mínútur á heilu tímabili. Þ.e.a.s. 75% eða meira. Bruno Fernandes sem dæmi spilaði 3.110 á síðasta tímabili fyrir United.

Jordan Henderson

Eins frábær þjónn og hann hefur verið undanfarin tíu ár er alls ekkert víst að það yrði svo mikið áfall ef Liverpool myndi horfa til næstu ára með annan leikmann í því viðamikla hlutverki sem Henderson hefur nú hjá Liverpool. Hann spilaði 38% af leikjum Liverpool fyrsta ár Klopp við stjórnvölin. Eftir það var hann að skila rétt rúmlega helmingnum af deildarleikjum liðsins þar til á síðasta tímabili að hann spilaði minna en helming leikja liðsins og ekki nærri því alla þeirra á miðjunni. Hann er ekkert líklegur til að verða minna meiddur núna eftir þrítugt og hefur aðeils spilað 56% deildarleikja Liverpool undir stjórn Klopp (þegar hann var 25-30 ára).

Hvað leiðtogahlutverkið varðar þá skal alls ekki vanmeta hversu mikilvægur hann hefur verið fyrir Liverpool og er ennþá. En liðið mun þróast áfram eftir hans tíð og það eru nú þegar nokkrir tilbúnir að taka við því hlutverki komi til þess.

Hversu mikilvægur gæti leikmaður í svipuðum gæðaflokki verið sem spilar 1.000 mínútum meira en Henderson á tímabili? Segjum Saul Niguez sem dæmi?

Ég held að Liverpool sé ekkert stressað yfir því að samningsviðræður gangi illa við Henderson, hann á ennþá tvö ár eftir af núverandi samningi og félagið því með öll spilin.

Wijnaldum

Gini var að spila 82% leikja Liverpool að meðaltali undanfarin fimm ár og í mörgum af þessum 18% sem hann spilaði ekki var hann á bekknum. Næsti miðjumaður hvað spilaðar mínútur varðar er Fabinho með 65% að meðaltali síðan hann kom. Wijnaldum er þannig að meðaltali að spila sex leikjum meira á tímabili en Fabinho. Hann spilar 10 leikjum meira en Henderson að meðaltali sem er helvíti mikið á 38 leikja tímabili. Hvernig gengi United t.d. með tíu leikjum minna frá Bruno Fernandes að meðaltali?

Það ætti að vera vel hægt að fá inn betri leikmann sóknarlega og þróa þannig liðið áfram frekar en að semja við þrítugan Wijnaldum til þriggja ára á mjög háum launum. Miðjan fékk inn Thiago síðasta sumar og má ennþá alveg við frekari endurnýjun.

Fabinho

Tölfræðin er aðeins skökk fyrir Fabinho þar sem hann var lengi vel á bekknum fyrsta tímabilið sitt hjá Liverpool. Raunar fáránlegt hvað Klopp beið lengi með hann því hann var löngu byrjaður að sýna að hann væri miklu betri aftast á miðjunni en Wijnaldum og Henderson sem þrjóskast var með lengi.

Hann missti af 25% deildarleikja síðasta tímabils og spilaði líklega helminginn af rest í miðverðinum.

Liverpool á Fabinho satt að segja alveg inni frá síðasta tímabili og hann þarf að spila +80% af leikjum liðsins, alla sem miðjumaður.

Líklega mikilvægasti leikmaður liðsins og klárlega besti vinur Nat Phillips og Rhys Williams á lokaspretti síðasta tímabils. Liverpool var bókstaflega að vinna titla þegar hann var með Van Dijk og Gomez fyrir aftan sig.

Thiago

Það er auðvitað Richarlison gerpinu að kenna að hann spilaði aðeins 54% af deildarleikjum síðasta tímabils. Ef að hann getur spilað eitthvað í kringum 1.000 fleiri mínútur á þessu tímabili styrkir það Liverpool gríðarlega.

Miðað við sögu hans hjá Bayern er ekkert rosalega líklegt að svo verði. Hann spilaði mest tæplega 2.500 mínútur 2018/19 en hefur núna spilað vel undir 2.000 mínútum síðustu þrjú af fjórum tímabilum.

Þetta er samt lang eðlilegasti arftaki Wijnaldum í liðinu hvað hlutverk og stöðu varðar og betri leikmaður (þegar hann er heill). Hann býr auðvitað að síðasta tímabili og ætti að vera klár í slaginn nánast strax frá byrjun núna og vonandi með byrjunarliðið í kringum sig á vellinum, ekki lið uppfullt af leikmönnum sem aldrei höfðu spilað saman áður líkt og var þema síðasta tímabils.

Ox

Ekki bara hefur spilatími Ox verið hrein hörmung hjá Liverpool heldur var hann alls ekki það mikið betri þegar hann var leikmaður Arsenal. Hann hefur núna tekið eitt tímabil þar sem hann spilaði 19 mínútur og annað þar sem hann spilaði 246.mínútur. Náði samt tæplega 1.500 mínútuna tímabili þar á milli!

Þegar hann meiddist gegn Roma vorið 2018 var hann loksins farinn að sýna hvað hann hefur hæfileika í sem miðjumaður. Hvað voru þetta, 2-3 alvöru góðir mánuðir? Síðan þá hefur hann verið meiddur eða verulega ryðgjaður eftir meiðsli og satt að segja aldrei komist almennilega í gang. Það eru meira en þrjú ár síðan hann var borin af velli gegn Roma!

Þetta er búið með hann og satt að segja var hann ekki það góður fyrir utan nokkrar vikur. Hann er svosem tiltölulega ungur ennþá og þetta bókstaflega getur ekki versnað hjá honum. En Liverpool þarf að fækka umtalsvert nákvæmlega þessum hópi leikmanna.

Naby Keita

Guð minn góður! Hann er búinn að spila 27% af deildarleikjum Liverpool og þar af aðeins 15,3% á hörmungartímabilinu 2020/21. Hann hefur ennþá hæfileika til að verða besti miðjumaður liðsins og sýnir af og til sýnishorn af þeim potential sem Liverpool borgaði fyrir.

Hann var ekki svona mikill Harry Kewell áður en hann kom til Liverpool og vonandi tekst félaginu að snúa gengi hans við á þessu ári. Hann var settur í sérmeðferð meira og minna allt þetta ár til að ná sér endanlega af meiðslum og er núna að fá bæði góða hvíld í sumar og byrjar undirbúningstímabilið frá fyrsta degi.

Mjög mjög mjög stórt ef, en takist að ná bara eðlilegu +70% spilaðra mínútna tímabili frá Keita er Liverpool klárlega með arftaka Gini Wijnaldum. Vandamálið er að maður hefur meiri trú á að Harry Kewell komi aftur og spili þennan leikjafjölda.

Keita hefur verið ári styttra en Ox þannig að gefum honum séns þetta tímabil, hann er samt alveg eins og Ox, einmitt tegund af leikmanni sem þarf að losna við úr hópnum. Það er ekkert gagn af leikmönnum sem spila 15% og 7% af deildarleikjum á tímabili þar sem allir sem þeir eru að keppa við um stöðu eru meiddir eða að spila úr stöðu.

James Milner

Um þrítugt var Milner svipuð vél og Gini Wijnaldum og spilaði m.a.s. 92% deildarleikja Liverpool 2016/17. Þá var hann að spila sem bakvörður og raunar er ástæða færri mínútna hjá honum sú að mikilvægi hans hefur jafnt og þétt verið að minnka og er ekki líklegt til að aukast á næsta tímabili.

Ef að Milner er að spila meira en þessi 30% sem hann gerði á síðasta tímabili er það vegna þess að Liverpool styrkti hópinn ekki nóg því að það er varla hægt að lenda í meira veseni en Klopp lenti í fyrra. Ekki það að hann var að vanda janfnan betri en enginn þegar það var leitað til hans.

Curtis Jones

Jones spilaði meira en Milner síðasta vetur, hann spilaði miklu meira en Ox og Keita samanlagt og ekki það mikið minna en Henderson. Hérna sér Klopp líklega töluvert svigrúm fyrir meiri mínútufjölda næsta vetur jafnvel þó að hann styrki miðjuna. Það er miklu nær að gefa Jones séns og þróa hann heldur en að vonast eftir Ox enn eitt árið og ætli það sé ekki stór partur ástæðunnar fyrir því að Ox hefur verið settur í annað hlutverk.

Emre Can

Höfum Can með í samanburðinum, síðasti byrjunarliðsmiðjumaðurinn sem yfirgaf Liverpool. Hann var alls ekki allra en var að skila 68% spilaðra mínútna þessi þrjú tímabil undir stjórn Klopp. Meira en allir núverandi miðjumenn liðsins geta státað sig af.

Hvernig fyllum við Wijnaldum skariðið?

Hvernig vinnur Klopp upp þessari tæplega 3.000 mínútur sem Wijnaldum spilaði síðasta vetur? Auðvelda svarið er með því að kaupa nýjan miðjumann, en líklegra er að hann horfi til þess að fá meira frá gjörsamlega öllum hinum (ásamt því að bæta við sig nýjum leikmanni).

Fabinho spilar á eðlilegu tímabili helmingi fleiri mínútur á miðjunni en hann gerði síðasta vetur

Henderson spilar sömuleiðis um 20% (7-8 leikjum) meira á miðjunni á eðlilegu tímabili.

Thiago getur vonandi bætt við sig 25-30% fleiri deildarleikjum og helst alla með Fabinho fyrir aftan sig og alvöru miðverði fyrir aftan hann. Höfum satt að segja bara fengið að sjá sýnishorn af honum það sem af er.

Naby Keita heill væri bókstaflega eins og nýr leikmaður þó maður sé því miður ekki að gera sér neinar vonir um það lengur.

Curtis Jones spilaði 34% af deildarleikjum Liverpool í fyrra. Mikið af því vegna meiðsla auðvitað en árinu eldri og reynslunni ríkari stefnir hann klárlega á meira en 50% af deildarleikjum núna.

Fyrir utan þessa jöfnu eru svo Harvey Elliott, Ox og Shaqiri sem allir geta spilað á miðjunni. Þeirra mínútur á miðjunni verða þó líklega ekki í deildarleikjum.

Draumurinn væri því að nýr miðjumaður komi inn, taki nokkra mánuði í að læra á liðið og hópinn líkt og t.d. Fabinho gerði og komi svo smátt og smátt meira inn í leik liðsins. Eftir því sem lengra líður á undirbúningstímabilið þeim mun ólíklegra er að nýr miðjumaður fari beint í byrjunarliðið.

9 Comments

  1. Skemmtileg yfirhalning á miðjumönnunum okkar 🙂

    Það væri líka hægt að bæta við Adam Lallana þegar hann var hjá okkur. Sorgarsagan sem hann var hjá okkur öll þessi ár og aðeins 6 mánuðir sem við fengum svo sannarlega að sjá hans hæfileika af fullri alvöru. Naby Keita Eins og ég var spenntur fyrir honum þegar við sömdum við hann og þessi bið í 1 ár eftir honum gerði ekkert annað en að auka væntingarnar að þetta væri frábær leikmaður. Maður er eiginlega búin að gefast upp á honum. 1-4 leikir sem hann er að spila sig í form svo koma á milli 7-15 leikjameiðsla eru ekki að gera sig lengur.

    Það sem ég fýlaði við Gini var þessi stöðugleiki sem hann var með í spiluðum leikjum. Maður fékk oftar enn ekki solid leiki frá honum. Hann var kannski aldrei langbesti maður vallarins enn hann fór heldur aldrei í þann stað að vera lélegasti maður vallarins. Það er erfitt að fylla svona skarð að geta stólað á leikmann sem spilar 85% af tímabilinnu. Vonandi verður þetta skarð fyllt í sumar.

    Það er samt áhyggjuefni hvað margir af okkar leikmönnum eru svona tæpir á meiðslum það er ekki bara miðjan – vörnin og sóknin hafa bæði verið stimpla sig inn í þetta helvíti. Vonandi er komið að öðrum liðum að lenda í þessu meiðslahelvíti sem er víst partur af leiknum :/

    5
    • Það var nú lengi sagt um GW að hann nennti ekki að spila útileikina. Mér fannst hann í raun frekar óstöðugur leikmaður þar til á þriðja tímabili með LFC, þegar liðið virkilega fór að smella saman og hann var kominn með harðari samkeppni frá Fabinho og Keita.

      Á síðasta tímabili gat enginn séð fyrir hvað fengist frá honum, hann virtist á löngum köflum andlega fjarverandi og slæmu leikirnir voru fleiri en þeir góðu. Sökum meiðslakrísu var þó nær ómögulegt að droppa honum en maðurinn má eiga það að hann var alltaf tiltækur og laus við meiðsli.

      Varðandi samningavirðræðurnar sýndi ég honum skilning. Launalega var GW hálfdrættingur á við hina miðjumennina. FSG höfðu takmarkaðan áhuga á að brúa það bil fyrr en langt var liðið á samninginn.

      GW átti eftir að skrifa undir stærsta samning sinn á ferlinum og vissi allan tímann að fengi hann mun stærri og lengri samning og margfalt meira undirritunarfé annars staðar. Því tekur hann þá ákvörðn sem flestir aðrir í hans sporum hefðu tekið og í raun þarf hann ekkert að skammast sín fyrir að elta peninginn. Þessi afneitun hans gangvart því og tilraun til að snúa þessu yfir á samfélagsmiðla er frekar vandræðaleg.

      10
      • Ég held að það sé kannski erfitt að dæma GW fyrir að virka Andlega fjarverandi og slæmu leikirnir fleiri…Ertu ekki hálfpartin að tala um hálft liðið okkar í sömu setningu? Þótt ótrúlega meigi virðast þá var Vinstri vængurinn nokkuð solid varðandi að vera laus við meiðsli AR – GW – SM sluppu allir við meiðsli, Má alveg færa rök fyrir því að slæmu leikirnir hafi verið margir hjá þeim öllum! Reyndar var viðbúið að við myndum missa dampinn aðeins eftir 2 ótrúlegstu tímabil sem ég hef orðið vitni af hjá Liverpool. Enn að svona mikil Krísa myndi ganga á grunaði enginn.

        GW verður samt alltaf Cult leikmaður í sögu Liverpool. á magnaðar 3 mínutur í innkomu í hálfleik sem kom titlasöfnunn í gang hjá okkar mönnum. Þrátt fyrir að hafa farið í smá leiðindum þá held ég að stuðningmenn munu meta hann meira í framtíðinni fyrir hans þátt í þessu ótrúlegu liði sem við urðum vitni af í 2017-20

        5
  2. Takk fyrir þessa góðu yfirferð um miðjuna hjá okkar liði. Það hefði verið gaman að sjá alla töfluna með mínútur í öllum keppnum því þó deildin sé mikilvægust þá þarf og spilar liðið líka í öðrum keppnum. Með því að dreifa álaginu og minnka það td í Deildabikar og FA bikar þá gefur það okkar helstu miðjumönnum möguleika á að spila meira í deildinni. Eitthvað sem sum önnur lið hafa ekki verið að gera eins mikið og Liverpool þ.e. stilla upp B eða C liðum í bikarkeppnunum.
    Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Ég er pínu smeykur um að liðið eigi eftir að sakna Gini í vetur. Vona að ég hafi rangt fyrir mér en með óvissa stöðu á Hendó, meiðslapésana Ox og Keita þá verður að treysta mikið á Fabhino og Thiago. Efast þó um að Thiago endist á fullu gasi heilt tímabil. Það jákvæða er að menn virðast vera frískir og Jones er ári eldri og með dýrmæta reynslu frá sl vetri. Það mætti halda að tölurnar um Keita séu eitthvert grín en þessi kaup ætla að enda sem einhver mestu vonbrigði, nú eða fíflagangur, í sögu félagins og er þó því miður slatti í þeim pakka, Benteke, Markovic, Balotelli, Carroll svo einhver nöfn séu talin upp.

    5
  3. Hver tekur við að Wijnaldum.

    Góð spurning. Má vera að það sé í rauninni Thiago Alcantara ? Að við höfum verið ofmannaðir á þessum stað á kostnað varnar og núna þegar Konate kom inn var verið að laga ójafnvægið sem varð milli varnar og miðju.

    Reyndar setur eitt strik í reikninginn. Núna var Shaqiri að fara fram á sölu og það eitt og sér bíður upp á kaup á leikmanni sem hefur einhverja eiginleika – Vængmanns/Miðjumanns.

    Það kæmi mér ekkert á óvart að Klopp hugsi sér það þannig að hann vilji gefa Eliiot og Jones aukið vægi því hann telur þá hafa gæði til að spila í úrvaldsdeildinni. Það væri mjög mikið í hans stíl.

    Ég man að það var mikið æpt eftir miðverði á sínum tíma – fyrir nokkrum tímabilum og það var skondið hvað margir urðu reiðir þegar Klopp sagði þá að hann hafði ekki séð neinn í glugganum sem væri með ámóta gæði og Joe Gomez. Það varð uppi fótur og fit og margir reiddust en auðvitað, eins og alltaf þá hafði Klopp rétt fyrir sér og Gomez var lengi vel það tímabilið með Van Dijk við hlið sér í hjarta varnarinnar og sannaði sig endanlega þá. Minnir að þetta var tímabilið sem við fengum 97 stig og urðum Evrópumeistarar.

    6
  4. Ég pirrq mig ekkert á gini, gangi honum vel.
    En hvenær á að kaupa leikmenn sem styrkja okkur strax?

    3
  5. En hvað er í gangi, ManU að kaupa og kaupa en LFC að prófa menn í nýjum stöðum.

    Maður er starx orðin stressaður fyrir næsta tímabil.

    3
    • Man utd hafa vantað miðvörð mjög lengi og þetta var staða sem þeir voru alltaf að fara að styrkja sig eftir að hafa prófað nokkra þarna með Harry með ekki góðum árangri.

      Að Liverpool séu að fá til baka Van Dijk, Gomez, Matip og fá vonandi fleiri leiki frá Thiago, Henderson og Jota það gefur manni von um að liðið okkar styrkist mikið án þess að gera neitt aukalega í leikmannakaupum. Svo má ekki gleyma að Jones er vel nothæfur og Elliot er mættur aftur eftir mjög gott tímabil hjá Blackburn(var að skrifa undir langtíma samning við okkur)

      Liverpool eru samt líklegir til að fá inn 1-2 leikmenn áður en glugginn lokar og stress er óþarfi á þessum tímapunkti en það má alveg koma ef/þegar menn fara að detta í sína meiðslarútínu.

      YNWA

      9
  6. Sælir félagar

    Takk fyrir þennan pistil og var gott innlegg að venju. Ég og fleiri hafa bent á að það er ekki einfalt að kaupa menn sem hafa þau gæði að bæta liðið. Það held ég að sé vandamál Klopp og félaga sem örugglega vilja samt auka breiddina í liðinu. En sjáum hvað setur.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4

Liverpool – Mainz 1-0

Gullkastið – Leikmannamarkaðurinn á Englandi