Tveir hálftíma æfingaleikir í dag

Það má segja að undirbúningstímabilið hafi byrjað fyrir alvöru með tveim leikjum í dag. Reyndar hófst dagurinn á tilkynningu á brottför tveggja leikmanna: Marko Grujic er farinn endanlega til Porto, og Taiwo Awoniyi er farinn til Union Berlin. Sá síðarnefndi fékki aldrei sénsinn hjá aðalliði Liverpool þrátt fyrir að hafa verið hjá klúbbnum lengur en margir núverandi aðalliðsmenn, en atvinnuleyfið var alltaf að þvælast fyrir honum. Þessar tvær sölur ættu að hafa skilað sirka 17 m punda í kassann, og báðir eru víst með “sell-on” klausu sem gæti skilað einhverjum aurum síðar meir.

Hvað um það. Leikirnir tveir voru 30 mínútna langir hvor um sig, og uppstillingin var sem hér segir:

Karius

Trent – Matip – Davies – Beck

Cain – Clarkson – Morton

Gordon – Origi – Minamino

Semsagt, afskaplega óreynd miðja, og liðið í heild sinni svosem afar óreynt.

Seinna liðið var svona skipað:

Adrian

Bradley – Konate – R.Williams – Tsimikas

Milner – Keita – Elliott

Salah – Ox – Mané

Á bekknum sátu (í báðum leikjum) Harvey Davies varamarkvörður, Neco, Harry Wilson og Billy the kid Koumetio. Neco og Harry komu bara inn í hópinn í gær og því varla komnir úr sundskýlunni eftir sumarfríið.

Allnokkrir leikmenn komu ekki við sögu, t.d. eru hvorki VVD né Gomez orðnir leikfærir og munu ekki sjást í æfingaleiknum gegn Mainz á föstudaginn. Aðrir leikmenn sátu og horfðu á: Kelleher, Woodburn, Curtis, Musialowski, Nat Phillips og hugsanlega einhverjir fleiri sem ég er að gleyma.

Það er skemmst frá því að segja að báðum leikjum lauk með 1-1 jafntefli. Origi skoraði mark okkar manna í fyrri leiknum eftir full harðan vítaspyrnudóm, en Mané í þeim seinni eftir að frábær fyrirgjöf Milner hafði ratað á tærnar á Tsimikas sem renndi honum inn á markteiginn og á Mané.

Helstu nöfnin sem maður tók eftir í fyrri leiknum voru Owen Beck og Kaide Gordon, þó hvorugur þeirra hafi átt eitthvað fullkominn leik, en voru báðir að reyna. Elliott virkaði mjög frískur í seinni leiknum, Tsimikas kom mjög sterkur inn, Keita sýndi ágæta takta á miðjunni, og Ox kom bara nokkuð vel út sem fölsk nía. Sagði einhver “new signing”?

Eins og áður sagði verður næsti leikur á föstudaginn gegn Mainz, og það verður gaman að sjá hvernig liðið lítur þá út.

5 Comments

  1. Sá bara seinni leikinn og þar var klárlega Elliot og Tsimikas sem áttu besta leikinn og gaman að sjá Elliot einmitt spila á miðjunni eins og hann gerði oft í fyrra.
    Hann er sókndjarfur með gott auga fyrir spili og gæti orðið flottur kostur sem varamaður á miðjuna hjá okkur.
    En ég sá ekkert um af hverju Curtis Jones var ekki að spila.
    Konate virkaði nokkuð sprækur og verður gaman að sjá hvort að hann nái að slá Gomez úr liðinu.

    3
  2. Kaide Gordon í fyrri leiknum og Harvey Elliott í seinni leiknum komu heldur betur skemmtilega inn úr ungliðadeildinni. Annar 16, hinn 18. Vona að þeir fái fljótlega tækifæri hjá Klopp.

    1
    • Já, Kaide var sprækur. Byrjaði reyndar ekki vel, missti boltann í fyrsta skiptið sem hann fékk hann, en svo fór líklega mesti spenningurinn úr honum. Verður gaman að sjá hvaða tækifæri hann fær á næstunni.

      2
      • Gæti reyndar alveg trúað Klopp til að lána hann, til að bæta reynslu í tankinn.

        2
  3. Nú er Rafa að kaupa Demarai Gray frá Bayer Leverkusen til Everton. Þeir í Bayer Leverkusen vilja fá Sheyi Ojo frá okkur til að fylla hans skarð. Ojo komst ekki einu sinni í 34 manna hópinn sem fór til Austurríkis.

    2

Liverpool drama 2020/21

Gullkastið – Æfingaleikir, sölur og samningar