Þróun liðsins eftir Wijnaldum?

Brottför Gini Wijnaldum verður óhjákvæmilega til þess að töluverð breyting verður á Liverpool liðinu. Hann hefur verið að spila tæplega 3.000 mínútur á hverju tímabili frá því hann kom eða um 33 deildarleiki. Það er miklu miklu meira en aðrir miðjumenn hafa spilað og hann er mun sjaldnar spilað úr stöðu en samherjar sínir á miðsvæðinu.

Wijnaldum er sá fyrsti úr innsta kjarna liðsins sem vann bæði Meistaradeildina og Úrvalsdeildina sem kveður og eðlilega mun hann skilja eftir sig töluvert skarð. Tilfinningin er engu að síður sú að ef Klopp hefði talið Gini alveg ómissandi næstu árin þá væri hann ekkert að fara. Samningsstaða og aldur hafa auðvitað áhrif en ef að Liverpool ætlar að brjóta upp Fabinho, Henderson og Wijnaldum miðjuna er það líklega alltaf á kostnað Gini.

Þessir þrír ásamt Milner hafa verið hjartað á miðsvæðinu megnið af tíma Klopp hjá Liverpool og hefur starf þeirra þróast þannig að miðjan sér að mestu um skítverkin til að bakverðirnir geti tekið miklu meira þátt í sóknarleiknum og eins auðvitað til að gefa sóknarlínunni tíma og pláss til að athafna sig. Þetta hefur gengið stórvel en er alls ekkert endilega það sem liðið mun gera í framtíðinni og alls ekkert eina leiðin til að spila fótbolta.

Þáttaka miðjumanna Liverpool í mörkum liðsins tímabilið sem Liverpool burstaði deildina var alls ekkert merkileg og sýnir að það skiptir ekki öllu máli hvaðan mörkin koma í öflugri liðsheild.

Engu að síður komu 20 mörk og 14 stoðsendingar frá þeim átta leikmönnum sem spiluðu hvað helst á miðjunni á því tímabili.

Það er ekki sanngjarnt að dæma miðjuna of hart út frá síðasta tímabili enda mikið um meiðsli og helstu lykilmenn lengi vel alls ekkert að spila á miðjunni. Sama hvernig þessu er samt snúið komu bara 6 mörk og fimm stoðsendingar frá miðsvæðinu sem er vandræðalega hræðilegt. Thiago kom inn í hópinn fyrir Lallana en það breytti þessari tölfræði ekki neitt. Miðjan var á of löngum köflum í vetur fullkomlega steingeld og tengdi hvorki vel við sóknarlínuna og hvað þá við alla þá sem voru að rembast við að mynda einhverskonar varnarlínu.

Þetta er líklega mun frekar rót þess að Liverpool sé tilbúið að þróa leik liðsins á miðsvæðinu frá Wijnaldum. Raunar held ég að bæði Ox og Keita hafi átt að koma inn á miðsvæðið í þetta hlutverk og bæta miðjuna en þeir hafa bara alls ekki náð því enn sem komið er.

Liverpool þarf líka að þróa leikstíl liðsins og endurnýja meistaraliðið hægt og rólega til að lenda ekki á vegg með þá eftir ekki svo langan tíma. Við sáum alveg merki þess í vetur að mörgum liðum gekk ágætlega að drepa leik Liverpool og loka á þá.

Brottför Wijnaldum hefur líklega verið í undirbúningi í heilt ár og með Thiago er Liverpool nú þegar með arftaka sem er betri leikmaður og núna búinn að aðlagast deildinni og félögum sínum yfir heilt tímabil. Sama hvort Liverpool kaupi einhvern miðjumann í sumar þá er erfitt að sjá nokkurn mann koma á undan Thaigo í byrjunarliðið, þá í skarðið sem Wijnaldum skilur eftir sig. Vonandi verður öllu liðinu skipt út með þessum hætti næstu árin, ekki með neinum látum og meira en tilbúin arftaki mættur áður en einhver lykilmaður kveður. Þannig að maður nánast taki ekki eftir því.

Henderson og Fabinho verða auðvitað áfram lykilmenn en ef að Liverpool kaupir miðjumann í sumar er ekki ólíklegt að þar verði hugsunin að sá taki mögulega við af Henderson hægt og rólega. Það er mjög sjaldgæft að Klopp kaupi leikmann og hendi honum beint í liðið, sérstaklega ekki á miðjunni sem er afar erfið staða í Klopp fótbolta.

Mesti veikleiki Liverpool á miðjunni er að enginn getur fyllt skarð Fabinho. Henderson kemst næst því og Thiago þar á eftir þannig að án Fabinho er alltaf rót á tveimur hlutverkum. Keita, Ox og Jones fylla alls ekki skarð Fabinho og ekki heldur Milner sem væntanlega verður ennþá meiri varaskeifa næsta vetur en hann var á þessu tímabili.

Saga Naby Keita hefur verið fullkomlega óþolandi hjá Liverpool, kaupin á honum eru enn sem komið er einu stóru leikmannakaupin undanfarin ár sem hafa floppað algjörlega. Gæðin eru reyndar klárlega til staðar en hann hefur ekki náð að sýna meira en tvo góða leiki í röð í þrjú ár núna. Ef hann nær einu helvítis tímabili án meiðsla er þetta samt leikmaður sem Klopp á algjörlega inni og gæti mjög vel fyllt skarð Wijnaldum nái hann einhverntíma takti í byrjunarliðinu yfir lengri tíma. Hann er geggjaður í pressufótbolta Klopp og miklu hættulegri framávið en núverandi miðjumenn liðsins. Vandamálið er að maður treystir honum ekki.

Oxlade-Chamberlain er með jafnvel lengri meiðslasögu en Keita, hann var alltaf meiddur hjá Arsenal og það hefur lítið breyst hjá Liverpool. Hann var að þróast frábærlega undir stjórn Klopp tímabilið 2018/19 en síðan þá höfum við varla séð hann. Hann var reyndar ekki mikið meiddur síðasta vetur en kom engu að síður ótrúlega lítið við sögu og sýndi sama og ekkert þegar hann fékk sénsinn. Ef að hann verður áfram hjá Liverpool finnst mér allt eins líklegt að hann verði varaskeifa fyrir Trent Alexander-Arnold heldur en miðjumennina. Klopp var harður á því í vetur að Ox væri alls ekki búinn sem leikmaður og er ennþá í hans framtíðarplönum. Standist það og Ox komi sterkur til leiks eftir meiðslalaust undirbúningstímabil er þetta annar leikmaður sem Liverpool á alveg inni.

Curtis Jones er ennþá töluvert frá því að ná sínu þaki sem leikmaður enda aðeins tvítugur. Síðasta tímabil var hans breakthrough tímabil hjá Liverpool, hann spilaði 1/3 af deildarleikjum liðsins og sýndi að hann ræður vel við þetta level. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig Klopp mótar hann á næstu árum. Jones er líka með sjálfstraustið í botni og mun klárlega krefjast þess að fá mikið af mínútum næsta vetur. Hann hefur klárlega ekki þolinmæði til að hanga á bekknum í mörg ár, frekar fer hann annað býst ég við. Hann var byrjaður að heimta fleiri mínútur af Klopp fyrir tveimur árum, eitthvað sem ég held að Klopp fíli mjög vel við Jones.

Það er erfitt að meta hversu mikið af mínútum Jones fær í vetur en ef við reynum að reikna út hvernig Liverpool fyllir upp í þær tæplega 3.000 mínútur sem Wijnaldum spilaði í deildinni síðasta vetur er ekki ólíklegt að þær skiptist á Thiago og Jones. Mögulega Keita ef hann verður á lífi ennþá.

Nýtt blóð?

Helsta slúðrið af mögulegum leikmannakaupum Liverpool er einmitt nýr miðjumaður, þýski landsliðsmaðurinn Florian Neuhaus, leikmaður Borussia Mönchengladbach.

Sama hvað Liverpool á mikið inni í Keita, Ox og Jones er ljóst að ekki er hægt að styrkja miðsvæðið með því að selja Wijnaldum og kaupa ekkert í staðin. Henderson, Fabinho og Thaigo eiga auk þess allir sína meiðslasögu og hlutverk Milner er ekkert að verða stærra.

Neuhaus er ólíkur Wijnaldum, hann er sagður mun meira Xabi Alonso tegund af miðjumanni en vinnuhestur eins og Gini hefur verið hjá Liverpool. Neuhaus er sóknarþenkjandi leikmaður og meðal þeirra miðjumanna í Evrópu sem hefur hvað hæst hlutfall sendinga sem leita fram á völlinn.

Edwards horfir líklega í slíkar tölur því sama var sagt um Thiago og Keita sem dæmi. Hann er einnig góður (líkt og Thiago og Keita) í að taka menn á og bera boltann af miðsvæðinu fram á við. Hann er líkt og Gini góður á boltanum og tapar honum ekki svo auðveldlega undir pressu. Mikilvægast við hann er kannski að hann hefur ekki meiðst neitt að ráði síðan 2017.

Neuhaus hefur verið að leggja upp mörk og skora í Þýskalandi en það er ekkert víst að hann fengi eins hlutverk á miðjunni hjá Liverpool, Wijnaldum t.a.m. hættir ekki að skora fyrir Holland og kom til Liverpool sem miklu sókndjarfari leikmaður en við fengum að sjá.

Ef ekki Neuhaus þá er afar líklegt að Liverpool bæti við sig einum miðjumanni af hans ættbálki í sumar.

 

 

4 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta Einar frábær pistill og segir okkur að enn er langt þangað til glugginn lokar. Ég vona samt að Klopp og félagar klári innkaup sem fyrst svo nýir leikmenn geti fengið amk. hluta af undirbúningstímabilinu.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  2. (Fæ ég að setja þetta hérna þar sem meistari Babú setti inn annan snilldarpóstinn á meðan ég hripaði niður vangaveltur í gömlum þræði?)

    Ég held að City taki Kane. Vonandi selja þeir B. Silva fokkfeis og Sterling Júdas til Spánar. Þeir ná sér í sóknarþenkjandi miðjumenn ef þeir fara, jafnvel þrjá, just for the fun of it. Spurning hvort Laporte vilji komast aftur til “heimalandsins”, það væri fínt en þá tekur City B.White þá fyrir 50kúlur og breiddin þar í fínum málum áfram.

    Man.Utd eru líklegir að ná í Sancho. Það virðist vera forgangsatriði. Hefði samt haldið að nr.9 væri fyrsta mál á dagskrá hjá þeim. Kannski eru þeir í Kane pælingu en persónulega myndi ég setja allt púður í Haaland ef ég væri innkaupastjóri þar. Þeir hljóta samt líka að splæsa í einhvern miðvörðinn og jafnvel back-up fyrir AWB. Sé ekki fyrir mér að þeir selji einhvern lykilmann en ef Martial fer þá kaupa þeir pottþétt einhverja nr.9.

    Chelsea er með flottan hóp en þeir gera eitthvað rosalegt. Svolítið smeykur með að Haaland endi þar. Roman kallinn er með kistur fullar af gulli og ætlar að koma liðinu aftur á toppinn í deildinni. Þeir voru með langtum betri glugga en LFC í fyrra og náðu þessum flotta árangri með fullt af nýjum mönnum. Werner og Havertz verða örugglega betri núna. Chelsea selur jafnvel einhverja leikmenn og fá fullt í kassann. Ziyech, Tammy, Loftus Cheek o.fl. T.d. seldu þeir Tomori fyrir 30m evra til Milan! Talað líka um að þeir séu að reyna við Hakimi hjá Inter. Það er kannski eitthvað sem LFC ætti að pæla í. Ná í Hakimi og setja Trent á miðjuna.

    Leicester líklegastir að ná í Daka. Spilatími virðist hafa ráðið mestu þar um. Skiljanlegt svo sem en hann er ungur og þrusu potential og LFC ætti að reyna ná honum að mínu mati. Bjóða þá hærri laun og lofa stærra hlutverki eftir eitt tímabil, ætti samt að ná 10-20 byrjunarliðsleikjum plús að koma inná af bekknum. Annars eru Leicester með svipaða hópa að gæðum eins og Ars, Tot og Nev en munurinn er stjórinn, Mr. Rodgers, sem mögulega tekur við af Guardiola eða Ole áður en langt um líður.

    Liverpool…tja. Liðið gæti gert það sama og 19/20 tímabilið, það er ekkert því til fyrirstöðu en tel það ólíklegt. Það eru svo mörg spurningarmerki. Hvernig koma VVD og Gomez tilbaka? Hverjir hverfa frá hópnum auk Gini (sem btw skorar jafnmikið í riðlakeppni Euro og allt síðasta tímabil hjá LFC þrátt fyrir að spila nánast alla leiki !!). Ef Ox og Keita verða áfram finnst mér mikilvægara að ná í back-up fyrir Fabinho, einhvern alvöru sko, sem hægt er að nota líka sem áttu. Dettur fyrst í hug Bissouma hjá Brighton, hann ætti ekki að vera svo dýr er það? Nr.1 væri samt Ndidi hjá Leicester en hann er 40plús, geggjaður leikmaður. Líka hægt að leysa þetta allt “eftirmann Gini” dæmi með því að setja Trent á miðjuna, finnst í raun ótrúlegt að hafa ekki séð svo mikið sem einn leik með hann þar. Hann spilaði mikið yngri flokkana þar og með þessa skot-og sendingagetu er það nánast glæpur að hann sé ekki miðjumaður. En já, ég veit, hann er playmaker þarna í right back og með krossa vinstri hægri en hvernig væri hann sem playmaker á miðjunni…hmm? Hakimi sem er víst falur því Inter er í ruglinu. Hann var með 7 mörk og 11 assists í 45 leikjum hjá Inter. 23ja ára og verður bara betri. Annars finnst mér Liverpool vanta world-class sóknarmann, þetta vita allir. Einhvern slúttara, Haaland er auðvitað draumurinn en ég er með einn óvæntan. Ef Tammy Abraham er til sölu mætti skoða það. Hef mikið álit á honum og hann hefur margt að sanna. Alls ekki einhver varaskeifa fyrir Bobby og gæti sett alvöru pressu á hann. Snöggur, góður í boxinu, góður skallamaður og teknískur. En ef eini leikmaðurinn sem verður keyptur í viðbót er Mbappe þá er það allt í lagi sko.

    11
  3. Eins hvers staðar las ég að með komu Konate gæti Liverpool notað þriggja hafsenta kerfi og færa þannig bakverðina á miðjuna og þannig þyrfti Liverpool bara að vera með tvo miðjumenn inná miðri miðjunni og svo skytturnar þrjár frammi (3 – 4 – 3). En jú Liverpool er að skoða miðjumenn.

    1
  4. Burtséð frá því að markaskorun og stoðsendingar hafi verið við frostmark, þá voru sóknarmenn “well below sero”. Þar fóru ansi margar stoðsendingar forgörðum.

Hvernig eru hóparnir hjá stóru liðunum?

Nathaniel Phillips halda eða sleppa?