Liverpool 2-0 Crystal Palace

Mörkin

1-0  Sadio Mané 36. mín
2-0  Sadio Mané 74. mín

Liverpool tryggja sér Meistaradeild á næsta tímabili!!!!

Leikurinn

Leikurinn byrjaði með miklum skjálfta í okkar röðum. Palace voru afar skeinuhættir í sínum skyndisóknum og fengu fínt færi strax á 4.mínútu er Alisson varði vel frá Zaha. Ekki skánaði það þegar að slæm baksending til Phillips hleypti Townsend einum í gegn en sem betur fer setti hann skotið rétt fram hjá stönginni.

Eftir þetta stressaða upphafskorter tóku okkar menn þó öll völd og herjuðu stíft á Palace-vörnina með mörgum hálffærum sem þó hefðu getað endað með mörkum. Það var ekki fyrr en á 36. mín að múrinn brast og heimamenn náðu forystu í leiknum. Hornspyrna frá Robertson var fínlega flikkuð af Rhys Williams inn í markteiginn og á endanum tókst Mané að pota boltanum í netið af stuttu færi. Rauði herinn kominn yfir og hálfeikurinn fjaraði út með ríflegum uppbótartíma sökum blóðgunar hafsentanna okkar.

1-0 fyrir Liverpool í hálfleik

Lítið var að frétta framan af seinni kapitula leiksins en okkar menn virtust ekki alveg vissir hvort þeir ættu að bæta við markatöluna eða að verja sigurstöðuna. Misvísandi skilaboð úr leikjum Leicester og Chelskí urðu kannski til þess að bændur brettu upp ermar og spýttu hraustlega í lófa.

Í það minnsta þá sótti Salah upp vænginn á 74. mínútu og boltinn endaði hjá Mané fyrir utan teiginn. Sadé lét vaða með þeim ágætu afleiðingum að bolti hrökk af varnarmanni og skaust í marknetið. Traustu forskoti var náð og á endanum dugði þessi markaskorun þó að nokkur hálffæri hefðu gefist.

2-0 lokatölur og Meistaradeildarsæti tryggt.

Bestu menn Liverpool

Liðið stóð saman sem ein heild og allir stóðu sig frábærlega fyrir málstaðinn þannig að meðaleinkunn liðsins er sérlega há í ljósi þess að augljósum árangri var náð. Miðverðirnir misstu massíft blóð en vörnin hélt hreinu og mikið hrós fer því til „Rambó“ Phillips og Rhys Williams fyrir þeirra varnarvinnu. Miðjan var frábær og Thiago hélt áfram með sína frábæru frammistöðu en hans framlag í síðustu leikjum hefur verið lykilatriði í þessum flotta endaspretti í 3. sætið.

Framlínan vann flotta vinnu en voru mistækir í færanýtingu eins og áður í vetur. Á góðum degi hefði Salah tryggt sér markakóngstitilinn með því að skora nógu mikið til að toppa Kane en er samt að enda með 20+ úrvalsdeildarmörk í þriðja sinn með Liverpool sem telst magnaður árangur. Eina LFC-tímabilið undanskilið hjá Salah er þegar hann setti 19 mörk þannig að þessi „ónáttúrlegi“ markaskorari er einstaklega stabíll fyrir framan markið fyrir Rauða herinn.

Maður leiksins er þó augljóslega Mané sem setti vinningsmörkin og hefur verið að stíga upp eftir erfitt tímabil þar sem hann fékk Covid og hefur gengið illa fyrir framan markið. Skýrsluhöfundur er handviss um að Senagalinn okkar muni stíga upp fyrir næsta tímabil með miklum krafti enda lykilmaður í okkar titlum síðustu ár.

Vondur dagur

Enginn hjá Liverpool átti vondan dag en af þeim sem tengjast Liverpool þá var það helst okkar fyrrum stjóri Brendan Rodgers sem getur verið sérlega svekktur eftir dagsvinnuna. Með úrslitunum hjá Chelskí þá hefði sigur á heimavelli duga Leicester til að komast í Meistaradeildina en annað tímabilið í röð þá tapa þeir „úrslitaleiknum“ til að komast í þann forréttindahóp. Rodgers og Refirnir geta þó huggað sig við að hafa landað FA Cup til sárabóta sem er þó stórsigur fyrir þann klúbb.

Tölfræðin

Í síðustu 10 deildarleikjum Liverpool þá vinnum við 8 sigra og 2 jafntefli þannig að endataflið hjá okkar mönnum er frábært. Það undirstrikar þó það hrun sem við þurftum að upplifa í byrjun árs (rifjum það ekki) og hvernig við vorum í efsta sæti um jólin að þetta er sveiflukenndast tímabil allra tíma.

Umræðan

Eftir rússíbanareið þar sem Liverpool toppaði deildina um jólin þá tókum við dýpstu dýfur niður í hyldýpi miðjumoðsins þannig að svartnætti beið Englandsmeistaranna. En okkar menn hafa heldur betur girt sig í brók til að bjarga tímabilinu og á endanum höfum við unnið sigur í að vinna Meistaradeildarsæti sem er þeim mun sætara eftir hörmungarniðursveifluna.

Við Púlarar getum borið höfuð hátt í lok tímabils eftir annus horribilis sem tekst að að bjarga fyrir skjóttekið horn. Það er spenna og eftirvænting fyrir næsta tímabil þar sem að við erum klárlega með heimsklassalið í hópnum og með nokkrum alvöru styrkingum þá er góður séns á topptímabili að ári. Klopp er á sínum stað og með innkomum meiðslamanna síðasta tímabils þá er fyllsta ástæða til bjartsýni um glytrandi medalíur í framtíðinni.

Til hamingju með Meistaradeildarsætið og með von í Liverpool-hjarta um glæsta framtíð.

You’ll Never Walk Alone

38 Comments

  1. 3dja sætið staðreynd og CL sætið staðreynd..
    Mané maður leiksins fannst lika Nat standa sig eins og hetja.

    4
  2. Þetta féll fyrir okkur! Og liðið gerði það með baráttuþreki og dugnaði. Það er virðingarvert miðað við hvernig staðan var um tíma.

    Þrautseigja, þolinmæði og samstaða. Önnur lið hafa mætt getunni og tækninni af hörku og í vetur margbraut það liðið okkar líkamlega. En andinn er sannur. Og hann blífur.

    Takk Klopp og allir leikmenn fyrir að hafa klárað þetta. Og takk kop.is fyrir að halda okkur við efnið í fögnuðinum þótt stundum blási á móti.

    Geggjaður endir á tímabilinu.

    YNWA

    15
  3. Flott. Þriðja sætið er staðreynd. Peningar og sexí klúbbur f. leikmenn.

    Nú er það bara: ÁFRAM VILLAREAL!!!

    þá getum við sagt að slakasta síson Klopps og besta síson Sólskérs hafi skilað sömu niðurstöðu…

    11
    • LOL satt.
      Fyndið að sjá liðið hérna fyrir austan að flagga United fánunum sínum yfir öðru sætinu þannig er mentality hjá þeim núna ..litla liðið í manchester.

      8
  4. Hefði ekki verið hægt að enda þetta á betri nótum meðað við hversu hrikalega illa þetta leit út fyrir nokkrum vikum en þeir hysjuðu upp um sig og núna hægt að tala um að leikurinn þegar Alisson skoraði á síðustu sekundum leiks séu ástæða fyrir því að við séum á leið í meistaradeildina á komandi tímabili

    SKÁL !!!!!!!!!!!!!

    YNWA !!!

    ES. Nýji búningurinn kom bara vel út í sjónvarpinu 😀

    11
  5. Ótrúlegt að við endum í 3 sæti eftir þetta hörnumgar meiðsla tímabil, 5 stigum frá 2 sæti.
    Nú verða eigendurnir að setja vænan aur í leikmenn og við munum gera atlögu að titlinum næsta síson.

    YNWA

    8
  6. Síðustu 10 leikir í deildinni…… 8 sigrar, 2 jafntefli! Snillingar allir saman!

    Eigum þetta svo sannarlega skilið og kærkomið sumarfrí!

    YNWA

    12
  7. Flottur endir, flottur sigur. Aldrei að efast, tímabilið er ekki búið fyrr en það er búið. 3. sæti ásættanlegt og hefði sennilega allt þurft að ganga upp í vetur til að hanga í MC. Þessi lokakafli gefur góðar vonir fyrir næsta tímabil sem verður þá vonandi í takt við árangur síðustu leikja. Að minnsta kosti var árangurinn í vetur í takt við lokin á síðasta tímabili en það er allt önnur saga. Þó veturinn sé titlalaus þá gengur maður nokkuð sáttur frá borði.
    Góðar stundir og áfram Liverpool.

    10
  8. Ekki fallegur en afar sætur sigur og ótrúleg seigla í liðinu á lokametrum tímabilsins. Tíu taplausir leikir í röð í deildinni eftir tap gegn Fulham 7. mars. Það að ná Meistaradeildinni mun skipta gríðarlegu máli, bæði varðandi liðssafnað í sumar og það að halda okkar bestu mönnum og launa þeim frammistöðu sína.

    8
  9. Rosalega öflugur endir á tímabilinu með 5 sigra í röð.
    Núna tekur vonandi við gott sumar varðandi kaup og sölur. Margir leikmenn sem kveðja liðið og þar á meðal Gini Wijnaldum sem er ákaflega sterkur leikmaður sem þarf að finna staðgengil fyrir.
    Takk fyrir veturinn kop.is og allir þessir skemmtilegu pennar hérna.

    9
  10. Dásamlegur endir á algjöru hörmungarári! Eða Annus Horribilis eins og Beta drottning myndi segja. Sérstakar þakkir fá kop.is umsjónarmenn, sem hafa heldur betur bætt kjöti á beinin fyrir okkur sem heima sitjum. Ég hlakka til haustsins!

    15
  11. Nat Philiips spilaði ekki í jafnteflunum gegn Leeds og Newcastle. En síðustu 8 leikir sem hann hefur byrjað hafa farið svona: WWWWWWWW

    Og þetta með Williams og Kabak sér við hlið.

    30
    • Það verður magnað að fylgjast með nýja miðvarðaparinu Van Dike og Nat Phillips næsta veturQ

      7
  12. Þetta er endir á tímabilinu sem öllu skiptir, miðað við allt það sem á undan er gengið. Ég er í sjöunda himni!!!! Til hamingju Liverpoolfólk innan sem utan vallar.

    YNWA

    8
  13. Fullkomlega sturlað að ná Meistaradeild og hvað þá 3. sæti ekki það langt frá 2.
    Eyðilögðum bara þetta tímabil ekki næsta líka.
    Klopp by far stjóri ársins

    Já og þetta Alisson mark núna!!!

    21
    • Millljarðamarkið er og verður ogleymanlegt! Hlakka til næsta gullvarps.

      8
  14. Games missed by LFC players in all competitions through injury 2020/21:
    Diogo Jota – 21
    Virgil Van Dijk – 46
    Joe Gomez – 40
    Joel Matip – 28
    Jordan Henderson – 17
    James Milner – 13
    Naby Keita – 24
    Alex Oxlade-Chamberlain – 20
    Fabinho – 11
    Thiago – 21
    Alisson – 8
    Finished 3rd. INCREDIBLE.

    26
    • Merkilegt að Keita hafi ekki misst af fleiri leikjum. Mér finnst hann alltaf vera týndur einhversstaðar, 52-53 kúlur í hafið????

      6
  15. Klopp er klárlega stjóri PL, engum hefði tekist þetta með öll þessi meiðsli, ég bara fullyrði það.
    3ja sætið og CL.

    15
  16. Nú datt allt í góðan takt í lokin. Því má næsta tímabil í raun og veru bara koma. Fer það ekki að byrja?

    Fyrirliðinn Henderson og Jota komnir á línuna og rúmlega það.

    Valkvíðavandamál mun blasa við Klopp við að velja menn í vörn næsta vetur. Hann mun aftur og aftur geta valið úr solid mönnum og svo mönnum sem nú þegar hafa orðið og geta bara orðið betri undir hans leiðsögn.

    Með góða vörn þá verður markvarðarstaðan lítið vandamál. Alison alltaf fyrstur, Kelleher líka góður sérstaklega ef varnarvalmöguleikarnir verða eins og áður er sagt. Eitthvað mætti kannski íhuga og hræra í framhaldsmöguleikunum.

    Í framlínunni verða þar helst fjórir topp einstaklingar að berjast um þrjár stöður. Íhuga þarf backupið.

    Það er helst miðjan sem þarf styrkingu þá helst til að auka valmöguleikanna þegar koma upp meiðsli. Tveir á útleið Wijnaldum og Milner sem hlýtur nú bara að fara að eldast? (Milner mun samt stýra hliðarverkefnum áfram.) Aðrir hugsanlega á útleið. Höfum Henderson, Fabinho, Thiago og Jones sem kjarna, en það þarf að hræra upp í og auka næstu valmöguleika.

    7
    • Gleymdi síðan að skrifa niður aðalatriðið fyrir næsta vetur.

      ÞAÐ VERÐA ÁHORFENDUR Á ANFIELD!!

      15
  17. Takk fyrir veturinn þið skríbentar á Kop.is þið eruð búnir að vera haldreipið á erfiðum vetri, hafið komið með uppbyggjandi gagnrýni og stundum ekki eins uppbyggjandi en sanngjarna þrátt fyrir allt. Takk fyrir veturinn Herr Klopp fyrir að bjarga því sem bjargað varð þegar allt virtist komið í vaskinn og síðast en ekki síst takk kæru leikmenn fyrir ómælda baráttugleði og trú á erfiðum tímum. Get ekki verið stoltari af liðinu mínu sem (ólíkt okkur stuðningsmönnum , mörgum hverjum og undirritaður ekki undanskilinn) virtust vaxa með hverri raun. Komið með næsta tímabil takk. Y.N.W.A.

    14
  18. Að enda í 3ja sæti, einungis 5 stigum á eftir fullmönnuðu liði ManUtd er hreint út sagt stórkostlegt miðað við allt sem liðið gekk í gegnum.
    Sýnir hversu magnaður stjóri Klopp er.
    Nú er eins gott að FSG bakki manninn upp með þykku veski í sumar því ef við ætlum í alvöru að keppa við olíuliðin og það ríksasta þá verður Klopp að fá verulegan stuðning.
    Áfram gakk.

    10
  19. Kórónum svo dásemdar vor eftir harðindavetur og þurrkatíð með stórsigri VILLAREAL gegn litla liðinu frá manséster!!!

    VILLA VILLA VILLAREAL!!!

    We all live in the yellow submarine!

    11
  20. Segi það og skrifa … Thiago yfirburðamaður ásamt Arnold í síðustu leikjum. Allisson markið gullið á tímabilinu en án Thiago hefðum við einfaldlega ekki klárað þetta … hrikalega góður …

    13
  21. Ásættanlegt úr því sem var komið. Þurfum að kaupa toppmenn í hryggjarstykkið til að fara að berjast aftur á toppnum.
    Verðum að klára kaupin á Erling Braut Haaland, B. Fernandes, Soucek og Skrinirar fyrir EM.
    YNWA

    7
    • Góðir punktar en ég held að ef mannskapurinn okkar helst meira og minna eitt tímabil þá þurfi ekki svo mikla styrkingu. Vissulega fyrir Gini. Það þyrfti sjálfsagt að greiða 150 kúlur fyrir þessa gaura sem er óvíst að Liverpool hafi efni á.

      2
  22. Sælir félagar

    Einfaldlega: bezti stjórinn, bezta liðið, bezta staffið, beztu stuðningmennirnir, og jafnvel beztu eigendurnir enda hafa þeir séð a’ð sér og svona bull eins og þeir voru í í vor kemur ekki fyrir aftur því stuðningmenn í Liverpool munu sjá um það.

    Það er nú þannig

    YNWA

    14
  23. Erfitt tímabil, á toppnum um áramót, síðan hrundi allt, síðan reis það upp aftur. Hvaða lið hefði getað náð þessum árangri með 16 miðvarðarpör ? neville talar um að utd hafi átt erfitt útaf meiðslum harry, city útaf meiðslum laporte. Rhys og hvað þá NAT eru búnir að stíga þvílíkt upp. Ég vill að NAT fái langtímasamning. Það er bara algjört kraftaverk að LFC hafi náð þriðja sætinu með eitt byrjunarlið næstum því í meiðslum allt tímabilið. Slæmt að missa Gini, og verðum að fá einhvern klassa miðjumann í staðin fyrir hann, ég er spenntur fyrir Sanchez , er hann ekki hjá Lille sem er að taka titilinn núna í Frakklandi. Þvílíkur klúbbur sem maður heldur með. Takk fyrir mig, YNWA !

    9
    • Ég sé nú ekki eftir Gini Wijnaldum. Vinnuhestur en jafnvel með greiða leið að marki, þá tekur hann tvær sneringar, snýr sér í hálfhring, aðra tilgangslausa snertingu, svo heilan hring,….

      4
  24. Dásamlegt. Sturlað að ná 3 sæti eftir allt saman.

    Getum við ekki staðfest það núna að þetta hlýtur að vera dýrasta mark sögunnar hjá markmanni.

    Takk Alison.

    YNWA

    11
  25. Ég held að það gæti verið góð lausn fyrir Rhys Williams að fara á lán, hann hefur staðið sig með ágætum og farið vaxandi með hverjum leiknum en vegna þess hversu hægur hann er þá á hann ekki framtíð á Anfield eins og er.
    Nat Philips stóð sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður og að þurfa að taka að sér leiðtogahlutverkið í vörninni.
    Ég held að hann eigi alveg framtíð hjá sér hjá liðinu ef hann sættir sig við mikla bekkjarsetu, við þurfum breidd í vörnina og það tel ég vera hans hlutverk, Gomez eða jafnvel betri miðvörður þarf að vera við hlið Van Dijk.
    Losa okkur við Matip undir eins.
    Skipta þeim Origi og Shaqiri út og taka inn Harway Elliot og Suarez sem backup.
    Suarez er orðinn 34 en ennþá geggjaður leikmaður og myndi klárlega vilja vinna deildina með Liverpool og myndi þurfa að sætta sig við aukahlutverk í liðinu.
    Ég vil sjá alvöru tiltekt í liðinu og losa út þá leikmenn sem eru sífellt meiddir og eða skila litlu sem engu til liðsins.
    Haaland, Mbappe og Harry Kane eru því miður ekki á færi Liverpool held ég.

    5
  26. Núna er Gini Wijnaldum farinn frá félaginu og við óskum eftir klassa miðjumanni í staðinn, en hvernig sjáum við þetta fyrir okkur með alla heila.
    Fabinho er 1 kostur á miðjuna og spilar alla leiki ef hann er heill og fer vonandi aldrei aftur í vörnina.
    Henderson er 2 kostur á miðjuna og spilar alltaf þegar hann er heill.
    Thiago sem loksins fór að sýna sitt rétta andlit er svo algjör lykilmaður á miðjunni og var trúlega fengin til þess að taka við af Wijnaldum þegar hann færi.
    Við eigum svo Keita, Milner, Chamberlain og Curtis Jones og mögulega Marko Grujic, ég veit ekki hvernig hann hefur staðið sig hjá Porto.
    Ég myndi segja að liðið með alla heila sé frábært lið og ef það ætti að eyða fjármunum í heimsklassa þá myndi ég vilja sjá pjúra sóknarmann eins og Kane eða Haaland.
    Liðið er á þeim stað að það þarf gæði framyfir magnkaup.
    1-2 geggjaða leikmenn á ári er nauðsynlegt til að viðhalda gæðum liðsins og félagið hefur heldur betur haldið að sér höndum lengi sem gefur manni von um að þetta sé sumarið sem verður eytt í alvöru leikmenn. Þrátt fyrir covid.
    Losa alla farþega frá félaginu.
    Origi, Shaqiri, Adrian, Matip, Woodburn, Keita, Minamino, Karius og Harry Wilson, vonandi verður hægt að nota Tsimikas á næstu leiktíð til að hvíla Robertson eitthvað þó að hann sé eins og vélmenni sem gæti spilað endalaust.

    2
    • Sammála með að taka vel til í hópnum og styrkja okkur vel með gæða kaupum.
      Að mínu mati þurfum við einn klassa leikmann til að keppa við fremstu fjóra og erum þá með fimm sem geta spilað þessar þrjár stöður. Inni á miðjunni höfum við not fyrir amk tvo til viðbótar því ég vil aðeins halda Fabinho, Ox, Henderson, Thiago, Jones og Milner, aðra má selja og skipta út.
      Svo er það hausverkurinn í vörninni, við þurfum að kaupa tvo half-center með þá von í huga að van Dijk komi strax, eða amk mjög fljótlega, inn í haust á sama getustigi og hann var fyrir meiðslin og haldist meiðsla lítill, líkt og ferill hans hefur verið fram að þessu. Það er fínt að halda Gomez með þá von að með hækkandi aldri aukist styrkurinn og hann verði aðeins minna meiddur. En s.s. kaupa tvo, að mínu viti, og ég verð að segja að meiðslasaga Konate (þar sem nokkuð hávært slúður er um að hann sé að ganga í raðir okkar) gerir mann ekki bjartsýnann um að þar sé leikmaður á ferð sem spilar marga leiki í röð.

Byrjunarliðin í lokaleiknum vs. Crystal Palace á Anfield

Bikarúrslitaleikur U18 gegn Villa