WBA 1 – 2 Liverpool

Við kíkjum inn á fund hjá handritshópi stórs kvikmyndafyrirtækis í Hollywood:

– “OK, við þurfum að koma með eitthvað alveg nýtt í þessu handriti. Lið sem er að eltast við að komast í Meistaradeildina, hvernig eigum við að skrifa handritið fyrir þennan leik?”
– “Hvað með að liðið nái varla að hitta rammann í 94 mínútur, en svo komi markvörðurinn og skori sigurmarkið með skalla í síðustu snertingu leiksins?”
– “Nei kommon, við höfum nú skrifað alls konar vitleysu sem ekki ganga upp, en það myndi enginn trúa þessu!”

En þetta gerðist nú bara samt. Jesús minn hvað pirringurinn var orðinn áþreifanlegur, enda hafði Liverpool liðið verið í fyrsta eða í mesta lagi öðrum gír allan leikinn. Leikmönnum virtist fyrirmunað að hitta á markið, og fengu þó færin: Mané, Trent, Gini, Thiago… jú og Salah sem skoraði jöfnunarmarkið á 33. mínútu eftir flotta pressu upp við vítateiginn frá Mané og Bobby. Fyrsta mark leiksins hafði komið eftir ónákvæmni í varnarvinnu: Rhys steig fram til að slást um boltann á meðan Nat beið í sömu línu og spilaði þar með Robson-Kanu réttstæðan. Annars einkenndist leikurinn af því að menn voru alls ekki að finna fjölina sína. Robbo og Fab áttu óvenju slæma leiki. Nat virkaði óöruggari en hann hefur verið, og þurfti að láta Trent bjarga sér með flottu varnarhlaupi í fyrri hálfleik eftir að hafa misreiknað skallabolta (sjaldséð, en getur greinilega gerst). Liðið var vissulega að sýna betri leik á síðari 20-25 mínútum fyrri hálfleiks, og það dugði til að jafna, en síðari hálfleikur einkenndist af pirringi. Mané skoraði vissulega mark en það var réttilega dæmt af vegna rangstæðu. WBA náðu líka að skora, og það var e.t.v. tæpara, en þó var það þannig að leikmaður þeirra byrgði Alisson sýn, aðstoðardómarinn flaggaði, og VAR staðfesti svo dóminn. En við horfðum á klukkuna tifa og spurðum okkur: eru Meistaradeildardraumar Liverpool að fjara út fyrir framan nefið á okkur? Dómarinn tíndi 4 mínútur í uppbótartíma upp úr bókinni sinni, og þær mínútur virtust ætla að fara í vaskinn með ennþá fleiri ónákvæmum sendingum, skotum framhjá og hægum sóknarbolta.

Þangað til í síðustu sókninni. Boltinn berst upp vinstri kantinn og WBA menn hreinsa í horn. Trent hleypur að hornfánanum og býr sig undir að taka hornið. Á sama tíma trítlaði Alisson fram, og þegar boltinn er gefinn fyrir er Alisson kominn í nálægð við markteigshornið nær. WBA menn gerðu eins og þeir gátu í að dekka leikmenn Liverpool, en annaðhvort gleymdu þeir Alisson eða hreinlega voru bara ekki nógu margir.

Sendingin frá Trent rataði semsagt beint á pönnuna á Alisson og hann skallaði gjörsamlega óverjandi í fjærhornið, Sam Johnstone hreyfði sig varla á línunni enda átti hann engan séns á að ná til boltans. Þetta var líka enginn grísaskalli, það hefði hvaða framherji sem er í heiminum verið fullsæmdur af þessu. Tæknin alveg upp á 10.

Maður leiksins

Alisson Becker.

Umræðan eftir leik

Liverpool FC var stofnað árið 1892, og Alisson Ramses Becker er fyrsti markvörðurinn til að skora mark fyrir Liverpool (fyrir utan vítakeppnir að sjálfsögðu). Við erum að tala um 129 ár! Þá er hann fyrsti markvörðurinn í úrvalsdeildinni til að skora með skalla, en 6 markverðir hafa náð að skora mark í deildinni.

Já og Liverpool er núna það lið sem oftast hefur skorað mark á síðustu mínútu leiks í úrvalsdeildinni, og eins hefur liðið núna skorað í uppbótartíma í 3 síðustu leikjum.

Það eru tveir leikir eftir, annar þeirra gegn Burnley á Turf Moor, og það mega mæta 10.000 áhorfendur á þann leik. Það verður ekki auðvelt. Og svo er það leikur gegn Roy Hodgson og hans mönnum í Crystal Palace á Anfield. Þetta eru tveir RISA leikir. Nú er að vona að leikmenn nái að nýta þennan meðbyr til að klára þessa tvo síðustu leiki, við getum hvorki treyst á gjafir frá Aston Villa (gegn Chelsea) né Tottenham Hotspurs (gegn Leicester) í síðustu umferðinni, jafnvel þó svo það sé alls ekki búið að afhenda Chelsea eða Leicester þessi 3 stig sem eru í boði í þeim leikjum, þetta eru stig sem þarf að vinna fyrir eins og öll önnur.

En það þurfa okkar menn líka að gera. Núna þarf að gíra sig upp í næsta leik. Strákar mínir: látið nú þessa hetjudáð Alisson skipta máli þegar á hólminn er komið, og klárið þessa leiktíð þannig að við getum öll brosað!

30 Comments

 1. Eg held að meistari Alisson hafi bjargað lifi minu i dag !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  17
 2. Hversu geggjað! Þvílíkur negluskalli! Ég trúi þessu ekki ennþá!

  #Alisson Trölli Becker

  10
 3. Markmaðurinn okkar reddar því sem Mane og félagar þarna frammi gátu ekki!

  SNILLINGUR….. segi og skrifa!!

  YNWA

  10
 4. sæl og blessuð!

  Já, einmitt… eftir að framherjadraumarnir okkar nían og tían misstu marks úr dauðafæri þá kom markvörður vor, sá teiginn og sigraði hann.

  Mmmmmmama

  Var kominn djúpt niður í hvert stigið á fætur öðru í sorgarferlinu… kaótískur, reiður, sorgmæddur, sáttfús… og svo bara kemur þessi draumamarkvörður og bjargar deginum.

  22
 5. Vá, þegar trúin er lítil eftir þá kemur þessi markmaður og setur einn óverjandi skalla. Þvílík gæsahúð !

  13
 6. Jesús Kristur, ég var búin að biðja nokkrum sinnum án alls djóks fyrir leik og í seinni hálfleik og bað bara um sigur sama hversu ljótt það yrði og allann tímann hélt ég í veika vonina sem ég sá bara fjara út en hversu oft hefur þetta lið boðið manni í slíka rússíbana. Og Allison Jesús heilagur þetta er sennilega besta móment sem ég hef séð síðan ég fór að fylgjast með fyrir 30 árum.

  Arsenal 2001 í FA bikar
  Olympiakos 2005
  West ham 2006
  AC Milan 2005
  Dortmund 2016

  Endalaus svona atvik og þegar við fengum síðasta hornið hugsaði ég bara getur einhver orðið hetja núna vitandi að ég held við höfum varla skorað mark eftir horn síðan van dijk meiddist..

  10
 7. Fallegasta fótboltaaugnablikið síðan Barcelona, mikið var þetta gífurlega sætt. Tár felldu, viðurkenni það. Og ó elsku Allison hvað hann á þetta skilið eftir allt sem hann hefur þurft að standa í gegnum þetta erfiða tímabil. Mæli með að hlusta á frábært viðtal við hann eftir leik. Þvílíkur maður! Meistaradeildardraumurinn lifir – YNWA

  24
 8. Hvernig er það,, Chelsea endar í 5. sæti en vinnur CL. Mun þá 4. sæti duga til CL þátttöku?

  3
 9. Þetta var enn albesti endir á leik í langan tíma, þvílíkur skalli hjá Alisson (gæðahúð)
  Núna þarf að klára þessa 2 leiki og tryggja 3-4 sætið í deildinni.
  Vonandi koma einhverjir til baka úr meiðslum, ég get ekki meira af Shaqiry og Rhys Williams, þeir eru bara ekki með þau fæði sem til þarf.

  7
 10. Þetta tímabil bara neitar að drepast, núna bara verða okkar menn að láta þetta rosalega mark telja. Ljóst að Liverpool endar mótið með alla þrjá miðverðina meidda, líka þá tvo sem komu í janúar og eins fyrirliðanna sem var farinn að leysa af aftast. Auk þess er sóknarmaðurinn sem var keyptur fyrir tímabilið úr leik núna. Það að þetta lið sé bara í séns ennþá er ótrúlegt.

  18
 11. Sælir félagar

  Ég fór í fjallgöngu í hálfleik og þegar ég var kominn uppá topp á Reykjafellinu var staðan 1 – 1 og komið fram í uppbótartíma. Ég og vinkona mín röltum af stað niður af fjallinu og ég var svo sem ekkert fúll yfir niðurstöðunni. Þegar Mané og Firmino misnota færi eins og þeir fengu í fyrri háklfleik þá er það bara þannig að þessi leikur á ekki að vinnast – því miður.

  Þá hringdi síminn og ég settist á stein og svaraði. Þetta var bróðir minn sem hringdi og sagði “þetta var verulega erfitt”. “Já” sagði ég, “ég veit það enda fór ég bara í fjallgöngu”. “Þú misstir þá af lokamarkinu” sagði bróðir minn. “Hvaða marki – hvernig fór leikurinn”? “Nú hann fór tvö, eitt”. “Fyrir Liverpool”? “Já Alisson skoraði sigurmarkið á 5. mínútu uppbótartíma”. Ég hélt fyrst að hann væri að fíflast í mér en svo trúði ég – og því lík hamingja. Niðurgangan var létt og leikandi og hugurinn heiður og tær eins og himininn.

  Alisson Ramses Becker “bjargvætturinn á grasinu”.

  Það er nú þannig

  YNWA

  22
 12. Sem betur fer þarf maður bara að skrifa en ekki tala Alison sá til þess að ég öskraði yfir eðlileg hávað mörkum og misti röddina allt þér að þakka Alison guð hvað þetta fáránlega flott á ekki nòg gòð orð til að lýsa þessu bra takk Alison.

  YNWA

  4
 13. Jeddúdamía. Hér situr maður daginn eftir að bíða eftir að vinnan hefjist og er einfaldlega glottandi hringinn. Viðbragð mitt við þessu absúrd marki var einfaldlega að hlæja. Ég held að ég hafi síðst hlegið yfir marki á þennan hátt þegar Origi skoraði gegn Everton. Þetta er augnablik sem mun lifa í minningarbankanum um ókomna tíð og ég verð illa svikinn ef Kop stúkan skrifar ekki lag um þessa gargandi öskrandi snilld.

  4
 14. Þunnskipað liðið okkar marði W.B.A og maður fagnaði eins og það væri Istanbul 2021. Ótrúlega vel gert hjá Brasilíu-Becker.
  Hvað er annars að frétta af Origi? Tímabilið hangir á bláþræði og gamla hetjan fær ekki minútu. Þarf nú eitthvað að hrista upp í liðinu í sumar.

  1
 15. Þetta var tæft hjá okkar mönnum ekki góður leikur hjá mörgum og voru W.B.A fúlir með að markið þeirra sem dæmt var af vegna rangstöðu fengi ekki að standa veit ekki hvað menn væru að seigja hér hefðum við lent í því sama.Góður sigur hjá okkar mönnum með miklill dramatík en spila mennska okkar manna ekkert spes og enginn að spila sinn besta leik en áfram gakk og vonandi klárum við næstu 2 og megi þetta vera okkar lukkhjóls viðsnúningur

  4
 16. Þetta var fullkomlega stórkostlegt hjá Alisson.
  Ég var staðinn upp úr sófanum þegar viðbótartíminn byrjað, drullu pirraður og handviss um að þetta væri að renna okkur úr greipum, en nei.
  Þetta var eins og kemur fram í pistlinum, sögulegt sigurmark og svo fullkomlega framkvæmt hjá okkar frábæra markverði sem hefur heldur betur á erfitt tímabil utanvallar.
  Og viðtalið við hann eftir leikinn var svo kapítuli útaf fyrir sig, hjartað og einlægnin þannig að ég táraðist.

  Þegar Sky var búið að sýna markið svona 30 sinnum og svo viðtalið við Alisson sagði þulurinn að viðtalið væri mögulega það besta sem hann hefði séð eftir nokkurn leik. Svo fallegt.

  YNWA.

  13
 17. Ég mæli með að framherjarnir okkar setji upp markmannshanska.

  Þetta er besta, fallegast og yndislegasta mark sem ég hef séð skorað.

  6
 18. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér svona fallega leikskýrslu…

  6
 19. Ef þetta moment sparkar ekki í framlínuna við að nýta færin og aðra til að gefa allt í þessa tvo leiki…..

  5

Liðið sem heimsækir WBA

Gullkastið – Heilagur Alisson Becker