West Brom – Liverpool, upphitun: Fallnir fjendur heimsóttir

Eftir hamfaravetur á vellinum þá eiga Liverpool séns að ná því sem verður að kallast lágmarksárángur fyrir liðið: Sæti í Meistaradeild Evrópu. Þrátt fyrir að spennan á toppi deildarinnar hafi verið lítil í ár, þá er sú ótrúlega staða komin upp að þrjú lið geta sagt að þau hafi Evrópu örlög sín í eigin höndum þegar þrjár umferðir eru eftir. Það sem Liverpool þarf að gera er að vinna sína þrjá leiki. Það gæti reyndar þurft markatölu eftir því hvernig hin liðin standa sig. Fyrsta verkefnið af þessum þremur úrslitaleikjum eru lærisveinar Stóra Sáms: West Brom.

Andstæðingarnir.

West Brom er einn af eldgömlu klúbbunum á Englandi. Liðið var stofnað 1878 í Birmingham og hafa verið meira í efstu deild en ekki þessa tæpu eina og hálfu öld síðan. Þeirra síðasti titill vannst 1968, þegar þeir stóðu upp sigurvegarar í bikarnum. Þegar úrvalsdeildin var stofnuð var liðið komið niður í C-deildina, þeir stukku uppúr henni 1993 og eyddu næsta áratug í Championship deildinni. 2010-11 kom Roberto De Matteo þeim svo upp og hóf langt tímabil í deild hinna bestu.

Síðasti titill West Brom

Það var á þessum árum sem West Brom virkilega unnu sér inn orðspor fyrir að spila stórkallabolta par excelance. Roy Hodgon tók við af Di Matteo, Steve Clarke tók við af Roy. Tony Pulis átti tvö tímabill um miðbik áratugarins, Alan Pardew eitt og svo nú síðast tók Sam Allardyce við þeim í desember í fyrra.

En það er ekki þannig að West Brom hafi bara verið í þessum klassíska breska bolta. Þeir hafa oftar en einu sinni sagt: Nei nú breytum við og förum að spila boltanum meira. Þetta sést á að þeir hafa tekið inn þjálfara eins Pepe Mel og Slavan Bilic á þessum árum. Þeir hafa reyndar verið með Chelsea level hringekju á þjálfurunum sínum, búnir að vera með fjórtán skráða aðalþjálfara á síðasta áratug.

Það var Slavan Bilic sem byrjaði tímaibilið 2020-21 sem þjálfari liðsins. Hann hafði komið þeim upp eftir stutta vist í Championship deildinni en liðið var einfaldlega ekki tilbúið í deild þeirra bestu. Gengið var vægast sagt hörmulegt. Þeir unnu sinn fyrsta leik í tíundu umferð og þegar að Stóri Sámur var fengin inn til að reyna að bjarga sæti í deildinni, í desember, voru þeir ekki búnir að vinna annan. Þeir náðu reyndar að kreysta út jafntefli á Anfield skömmu seinna, í leik sem ég er hreinlega búin að ákveða að gleyma.

” Er of seint að aflýsa tímabilinu?”

Eftir áramót hefur gengi þeirra reyndar verið aðeins betra en það var hreinlega of seint í rassinn gripið. Fyrir viku var endanlega staðfest að þeir myndu falla. Þetta er mikið högg fyrir þjálfaran, sem hefur talað opinskátt um að það skipti hann máli að hafa alltaf náð að forðast fallið. Það verður áhugavert að mæta þeim á morgun. Staðreyndin er að þegar lið falla fer öll pressan af þeim og þá verður oft afar snúið að mæta þeim.

Okkar menn.

Ákveðnir hlutir í þessu lífi eru til þess fallnir að menn brosa aðeins í nokkra daga á eftir. Skrefin verða léttari, bjartsýni meiri og maður horfir dreyminn út í heiminn. Ég er að tala um hluti eins og sólríkan sumardag, börnin manns að brosa og Liverpool sigur á Old Trafford.

Þessi þrír punktar voru einfaldlega risastórir fyrir Liverpool liðið. Liverpool vann síðast á heimavelli erkifjendanna 2014 (leikurinn sem Gerrard skoraði 2 úr vítum og klikkaði úr þriðja ef ég man rétt) og að gera það er pressan er komin í hámark, með miðverði númer fimm og átta er einfaldlega risastórt. Þannig að okkar menn fara fullir sjálfstraust inní leikinn gegn West Brom. Það segir eitthvað um tímabilið að þegar maður flettir upp meiðslalistanum og sér töluna 8 hugsar maður: Ok, ekki svo slæmt miðað við.

Tek fram að ég er að nota síðuna Injury Tracker, sem hefur ekki alltaf verið 100% nákvæm. En samkvæmt henni vantar Keita, Hendo og Milner á miðjunni. Van Dijk, Davies, Kabak, Gomez og Matip eru allir meiddir.

Þannig hvernig spáir maður byrjunarliðinu? Vörnin er einföld: Trent, Nat Phillis , Rhys Williams og Robbo. Fabinho er sjálfskipaður í djúpa hlutverkið á miðjunni og get ekki ímyndað mér að Thiago missi sæti sitt. En það er spurning með síðasta miðju sætið. Gini hefur ekki verið sama ofurmenni síðustu vikur og hann var lengst af á tímabilinu og Curtis Jones var sannarlega betri en engin þegar hann kom inn á. Hann er líka leikmaður sem sækir aðeins meira á markið en Gini, sem er betri í að halda boltanum innan leiksins. Það er útaf þessari ógn sem ég vil sjá scouserinn byrja leikinn.

Svo eru það fremstu þrír. Það er ótrúleg gleði að geta skrifað að það er engan vegin augljóst hverjir verða fremstir. Bobby var stórfenglegur í síðasta leik, Salah heldur áfram að vera vanmetnasti kóngur í fótboltanum, Jota var góður gegn United og skoraði geggjað mark og Mané… já. Mané er einn af mínum uppáhaldsleikmönnum en hann hefur sjálfur sagt að hann sé að eiga slæmt tímabil. Það sást eftir leikinn gegn United að honum er alls ekki sama. En hinir þrír voru bara það góðir síðast að ég sé ekki Klopp setja þá að bekkinn.

Þannig að þetta verður svona, með þeim fyrirvara að það eru ekki margir klukkutímar milli leikja og gæti verið að einhverjir gætu þurft meiri hvíld en aðrir.

Sorry Mané.

Spá.

Það sem ég elskaði mest við síðustu tvo leiki er að við sáum aftur karakterinn sem Liverpool var orðið þekkt fyrir. Þess vegna spái ég Liverpool 2-0 sigri í þessum leik, en staðan verður 1-0 eftir fyrri hálfleik eftir skallamark frá Nat Phillips og svo skorar Salah í restina.

13 Comments

 1. Þetta er einfaldlega “must win” leikur, og eins og Ingimar bendir réttilega á er pressan farin af WBA og þeir geta því spilað nokkurnveginn eins og þeim sýnist.

  Það er líka áhugavert í öllum þessum stigaútreikningum sem við óhjákvæmilega erum í þessa dagana, að liðin í kringum okkur eru enn að tapa stigum á skrítnum stöðum, og svo líka að vinna óvænt stig þar fyrir utan. Ef einhver hefði t.d. fullyrt fyrir rúmri viku að Chelsea myndu fá 3 stig úr næstu tveim leikjum (gegn City og Arsenal), þá hefði maður líklega tekið undir að það væri mjög líkleg spá. En að þeir myndu gera það með því að vinna City og tapa fyrir Arsenal? Ég sá það ekki fyrir. Svipað gildir um síðustu tvo leiki Leicester: 3 stig gegn Newcastle og United hljómaði mjög sannfærandi, en bara ekki akkúrat svona. Ég ætla því ekkert að fullyrða um það að Chelsea muni örugglega vinna Villa, eða að Leicester muni örugglega vinna Spurs. En best er ef Liverpool nær bara að spila þannig að það skipti ekki máli þó þessir leikir vinnist hjá okkar helstu keppinautum.

  Svipað má segja ef einhver hefði sagt í haust að miðvörður Liverpool yrði mikilvægasti leikmaður liðsins undir lok tímabilsins. Jú, maður hefði kinkað kolli. En að það reyndist svo vera Nat Phillips en ekki VVD, nei ég hefði ekki trúað því. Hingað erum við samt komin. Er fólk t.d. búið að átta sig á því hvenær Liverpool spilaði síðast deildarleik með Nat í miðverði og vann ekki? Jú það var 7. mars sl. gegn Fulham, 0-1 tap. Allir deildarleikir síðan þá með hann í miðverði hafa unnist. Og jú, ég get alveg tekið undir að stór hluti þeirrar ástæðu er sjálfsagt að Fab hefur þá fengið að spila í sinni eðlilegu stöðu á miðjunni, og svo hjálpar að það er aðeins að færast líf í framlínuna. Samt.

  Nóg um það, ég vona að leikmenn nái að fókusera á þennan leik og láti hina tvo leikina framundan ekki íþyngja sér.

  12
  • Og það sorglega er að Nat Philips er búinn að vera í þessum hóp allt tímabilið en Klopp þrjóskaðist við að setja flest alla á undan honum í þessa stöðu.
   En hann er þarna núna og hefur staðið sig gríðarlega vel, hann er samt frekar takmarkaður sem fótboltamaður sem slíkur en hann er 100% nagli sem gefur ekkert eftir.

   8
 2. Hvað þýðir FA-sigur Leicester? Fara þeir í Meistaradeild óháð því hvort þeir ná 4ða sæti í deild eða ekki? Hefur þetta áhrif á möguleika Liverpool?

  3
  • Eini sénsinn á því að 4. sætið myndi EKKI gefa sæti í Meistaradeildinni var ef Arsenal hefði komist í úrslit EL og unnið, og Chelsea myndi vinna CL, en bæði hefðu síðan lent fyrir utan topp 4. Það getur ekki gerst lengur og því er tryggt að 4. sætið gefur sæti í CL.

   5
 3. Sælir félagar

  Takk Ingimar fyrir upphitunina. Ég hefi alveg trú á Mané í næsta leik. Mér fannst Jota afspyrnulélegur í fyrri halfleik alveg fram að markinu. Hann barggaðist aðeins eftir markið en að skora mark vigtar alltaf, eða næstum alltaf. Mané Skoraði í síðasta leik fyrir leikinn geng MU en var samt settur á bekkinn svo það er aldrei á vísan að róa. Mér fannst Gini eiga sinn bezta leik í langan tíma gegn MU og reikna með að hann byrji leikinn á morgun. Hvernig er það er Kabak ekkert að lagast? Voru þetta ekki einhver smá meiðsli að honum?

  Ég vil sjá sömu miðju byrja þennan leik og á móti MU og vil fá Mané inn fyrir Jota. Firmino er besti knattspyrnumaður liðsins og á alltaf að byrja alla leiki. Salah er “The King” og ég vil að hann skori þrennu í leiknum við WBA. Hann á það skilið. Hinsvega væri ég sáttur við eitt á mann Mané, Firmino og Salah. Svo finnst mér að Nat eigi inni að skora eitt. Mér finnst Liverpool vera bezta lið í heimi – líka þegar ég er alveg brjálaður út í þá fyrir spilamennskuna eins og hefur skeð í vetur.

  Það er nú þannig

  YNWA

  6
 4. Mér er alveg sama hvernig Klopp stillir upp – bara 3 stig í hús takk fyrir!

  YNWA

  4
 5. Það er þó nokkuð síðan að sá sem þetta skrifar sætti sig við að fimmtudagskvöldin yrðu frátekin á næsta tímabili, sirka eftir tapið gegn Fulham á Anfield. Mér fannst það í raun bara sanngjarnt miðað við frammistöðuna í vetur. Ég hafði því litla trú á að CL verkefnið ætti einhvern möguleika fyrir leikin við mutd ekki síst í ljósi stöðunnar á miðvarðaflotanum. En nú hefur þetta andskotans fótboltalið sem maður er dæmdur til að fylgja kveikt aftur þennan vonarneista um að það sé þarna möguleiki. Það þarf bara að vinna þrjá leiki af þeirri tegund sem hafa nánast allir verið tómt basl á þessu tímabili. Helst að vinna stórt ef leikir Chelsea og Leicester spilast þannig að markatala ræður úrslitum.

  Því er svo komið að í stað þess að fylgjast afslappaður með framgangi mála á Livescore appinu er maður núna komin í þá stöðu að sitja í stresskasti yfir sjónvarpinu á morgun þegar Liverpool fara á The Hawthorns. Og ef svo ólíklega vill til að liðið vinnur þann leik, þá er það sama upp á teningnum næsta miðvikudag. Svei þér Jurgen Klopp, svei þér.

  5
  • Hahahaha…… góður! Ég er á sama báti og þú hvað þetta varðar. Miðað við miðvarðakrísuna í vetur þá var ég illa svartsýnn fyrir MU leikinn og tók þann pól í hæðina að sleppa við stress, pirring og VAR, sleppti leiknum og fór í hjólatúr í staðinn.

   Núna er ég orðinn hjátrúarfullur og kominn í klípu með það hvort ég eigi að sleppa leiknum í dag og fara í annan hjólatúr!

   1
 6. Takk fyrir upphitunina. Það var gaman að sjá að Tussel vann ekki bikar með chelskí-liðinu sínu en ekki má gleyma því a hann hefur bara ca. tvö tímabil til að vinna með liðið, svo fær hann sparkið.

  Varðandi okkar menn að þá erum við búnir að sýna flottan karakter að undanförnu og vinna góða sigra. Sigurinn á móti ofmetnasta liði deildarinnar var mjög sanngjarn og núna er bara vonandi að við klárum okkar dæmi svo við getum (vonandi) náð CL-sætinu okkar aftur.

  YNWA!!

  4
 7. Liðið er með þetta í sínum höndum, ætla þeir að ná meistaradeild á næsta tímabili? Nú bíðum við og sjáum. Það sem þarf að gera er að markatöluna þarf að laga, uppá leicester að gera. Það er bananahýðið okkar.
  Koma svo.

  3

Manchester United 2 – 4 Liverpool (Skýrsla uppfærð)

Liðið sem heimsækir WBA