Southampton á Anfield (Upphitun)

Apríl mánuður byrjaði nokkuð vel, 0-3 sigur á Emirates og 2-1 sigri gegn Aston Villa á Anfield í fyrstu tveimur deildarleikjunum með reyndar svekkjandi tapi gegn Real þar á milli. Eftir það hefur liðið getað lítið sem ekki neitt og þrjú virkilega döpur og svekkjandi jafntefli í röð hafa skilað okkur út úr einu keppninni sem við áttum einhvern möguleika á titili ásamt því að við sitjum nú í 7 sæti heilum 7 stigum frá meistaradeildarsæti, með leik til góða. Andstæðingarnir í þetta skiptið eru Southampton og fer leikurinn fram á nokkuð þægilegum tíma eða kl. 19:15 á laugardagskvöldi.

Formið og sagan

Þó svo að okkar mönnum hafi gengið nokkuð brösulega síðustu misserin er það ekki jafn slæmt og hjá gestunum. Við förum inn í þennan leik með 11 stig af síðustu 15 á meðan að Soton hefur ekki náð nema 4 stigum af 15 mögulegum og hafa ekki unnið leik í deildinni í meira en mánuð (4 apríl gegn Burnley). Ég veit ekki afhverju en það hræðir mig örugglega meira en ef þeir væru að mæta til leiks með fullt hús stiga…

Okkur hefur gengið nokkuð vel gegn Southampton síðastliðin ár og vorum t.a.m. á 5 leikja sigurhrinu gegn þeim í deild áður en kom að ósigrinu í fyrsta leik ársins á St Mary´s. Síðustu tveir deildarleikir á Anfield hafa verið nokkuð þægilegir, 4-0 sigur í febrúar 2020 og 3-0 í september 2018.

Ég veit ekki alveg hve oft ég ætla að leyfa mér að vonast eftir viðsnúningi og meistaradeildarsæti. Leicester tapaði illa í kvöld og hélt þessari baráttu um 3-4 sæti opinni þar sem þeir eiga virkilega erfitt prógram framundan. Það verður þó heldur betur að vera viðsnúningur hjá okkar mönnum ef það á að ganga upp. Nákvæmlega engar vísbendingar þess efnis en við sjáum hvað setur.

Southampton

Ég sagði það fyrr á þessu tímabil að þetta Soton lið væri virkilega skemmtilegt með frábæran stjóra. Þeir hafa reyndar fallið talsvert niður töfluna síðan þá en þeir mega eiga það að þeir reyna að spila fótbolta.

Þeir hafa verið að spila án sín mesta markaskorara þorran af apríl mánuði en Ings er þó farinn að æfa aftur en nær ekki leiknum á morgun. Bertrand er einnig frá vegna meiðsla og þessi leikur kemur líklega of fljótt fyrir Romeu einnig. Þar fyrir utan má Minamino auðvitað ekki spila heldur en aðrir eru heilir og ætti liðið því að vera nokkuð nálægt liðinu sem náði jafntefli gegn Leicester í síðustu umferð.

Liverpool

Af okkar mönnum er það helst að frétta að Jones og Phillips eru orðnir heilir eftir að hafa misst af leikjunum gegn Leeds og Newcastle. Phillips átti að hefja leik gegn Man Utd svo við ættum að fá að sjá Fabinho á miðjunni, blessunarlega!

Fyrir utan þessa “usual suspects” þá eru allir meira og minna heilir. Meira að segja Henderson er annars farinn að hlaupa aftur, eftir aðgerðina sem hann fór í í vetur en það verður samt að teljast ólíklegt að hann spili meira á tímabilinu, mesta lagi þá eitthvað í síðustu tveimur umferðunum eða svo.

Miðjan hjá okkur hefur litið mun betur út með Fabinho. Þar sem að Phillips er orðinn heill þá fáum við vonandi að sjá hann með Thiago og Gini/Jones á miðjunni. Jota hefur verið dapur síðustu 3-4 leiki eftir að hafa komið sterkur til baka fyrst eftir meiðslin. Ég ætla því að skjóta á að Klopp fari í “gömlu góðu” fremstu þrjá, með Gini á miðjunni við hlið Thiago og Fabinho og vörnin verði óbreytt eins og hún var áður en Phillips smitaðist af miðvarðarmeiðslukrísunni. Liðið myndi þá líta út einhvernveginn svona:

Alisson

TAA – Phillips – Kabak – Robertson

Thiago – Fabinho – Gini

Salah – Firmino – Mané

 

Spá

Sigur. Þó ég myndi alveg þiggja annan þægilegan sigur gegn dýrlingunum þá vil ég bara 3 stig úr þessum leik og er alveg sama hvernig þau koma í hús. Ég á ekki von á neinni sérstakri flugeldasýningu, þetta tímabil hefur bara ekki boðið upp á þær margar. Ég ætla samt að spá okkar mönnum sigri. Það verður djúpt á því og það verður frekar ljótt, en sigur engu að síður. 2-1 eftir mörk frá Firmino og Thiago, loksins.

Þar til næst.

YNWA

11 Comments

  1. Takk fyrir þetta lýst vel á þessa uppstillingu en hlakka mest til að sjá Nat Phillips aftur í liðinu.

    5
  2. Takk fyrir þetta. Flott að Phillips sé kominn aftur og nánast merkileg að hann er bara einn mikilvægasti maður liðsins eins og staðan er akkúrat núna. Milner gæti alveg eins verið í byrjunarliðinu en kannski er gott að hvíla hann. Hann hefur reyndar verið betri en bæði Thiago og Gini sl mánuð. Vonandi næst upp gamla stemmingin og bókstaflega nauðsynlegt fyrir Firmino og Mane að hrökkva í gang. Spái því að annar þeirra skori eða jafnvel báðir. Ef Shagiri kemur inná setur hann eina snuddu í netið.
    Áfram svo Liverpool.

    5
  3. Eftir góða hvíld undanfarna daga er ekki annað í boði en að mæta til leiks með “heavy metal” fótbolta og pressa og sækja fram í anda “blitzkrieg” frá fyrstu mínutu! Ég er ekki að fara fram á 9 – 0 en allt að því!

    YNWA

    4
  4. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Eyþór og margt þar sem ég er sammála. Ég held þó að Nabi Keita komi inn í stað Gini í þessum leik eða jafnvel Ox. Ég tel nefnilega að Klopp sé orðinn úrkula vonar um að Gini verði áfram hjá liðinu eftir leiktíðina og hann verður að sýna þessa tvo leikmenn hvort sem það verður í söluskyni eða bara til að nota þá. Hann verður að sannfæra amk. okkur stuðningsmenn , nú eða þá tilvonandi kaupendur, um að þeir séu nógu góðir. Keita er búinn að vera ómeiddur í mánuð en aldrei spilað svo . . .

    Hvað miðjuna varðar að öðru leyti þá verður Tiago Alacantara þar örugglega enda bezti framliggjandi miðjumaður liðsins samkvæmt allri tölfræði. Hann hefur skapað fleiri marktækifæri en nokkur annar miðjumaður og uþb. þrefalt fleiri en Milner og hefur að vísu spilað meira en hann. Fab er svo sjálfkjörinn sem varnartengiliður og mun gera það þar sem hann gerir bezt að verja vörnina og spila menn uppi fram á vellinum.

    Sóknin verður að líkindum eins og Eyþór leggur til og nú verða flieri en Salah að skora mörk. Ekkert afsakar það að liðið spili ekki eins og maskína í hæsta gír. Liðið er úthvílt og hefur enda ekki spilað leik í hálfan manuð. Þar með eiga leikmenn að geta spilað eins og brjálæðingar í öllum stöðum og eiga að geta keyrt endalausar sóknir á andstæðinginn. Það þýðir að marktækifæri eiga að koma á færibandi og ég vil sjá minnst 4 mörk frá okkar mönnum. Það gátu leikmenn Newcastle gegn Leicester og það eiga okkar menn að geta gegn Soton í kvöld. Mín spá 4 – 0 og ekkert væl.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  5. Ég held að við förum í 4-2-3-1 með Jota fremstan og Mane, Uxinn og Salah þar fyrir aftan.
    Fabinho og Thiago á miðjunni og vörnin sama og venjulega.
    Gríðarlega mikilvæg 3 stig í boði þar sem ekkert nema sigur kemur til greina.

    4
  6. Liðið okkar vantar sjálfstraust og ég vona að það komi í dag eftir flottan sigur.

    Í þessari viku var 2 ára afmæli 4-0 sigurs gegn Barcelona. Það sem sumir gleyma(ekki allir )er að í þeim leik vantaði okkur Salah og Firmino.
    Í byrjunarliðinu í þeim leik voru kappar eins og James Milner, Shaqiri og D.Origi og svo meiðist Andy Robertson sig og þurfti Milner að klára síðari hálfleikinn í vinstri bakverði.

    Þetta lið okkar þá var að drukkna í sjálfstrausti og var það algjör lykill á að hafa trú á verkefninu því að ég held að ef liðið okkar í dag myndi lenda í sömu aðstæðum þá væri úrslitin önnur.

    YNWA – Ég ætla að vera bjartsýn og spá því að við klárum þennan leik 3-0.

    2
  7. Lukkudísirnir eru ennþá að reyna að hjálpa okkur. Leicester tapaði í gær og Tottenham í dag. Ef við hefðum nú bara Hendó kallinn til að öskra mannskapinn áfram… en svo er víst ekki.

    2
  8. Nú má City vinna Chelsea í dag þá er þetta orðið galopið fyrir okkar menn….

  9. Við flækjum þetta ekki fyrir okkur í kvöld. 3-1 og mér er alveg sama hverjir skora.

  10. Úrslit leikja þeirra liða sem eru rétt fyrir ofan okkur eru hingað til að spila hlutina upp í hendurnar á okkur. En eins og sagt er ,,ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið,, í okkar höndum að komast á smá skrið, ekki á leikjaálagið fyrir þeim að liggja í þeirri ætlan, bara drullast til að vinna það sem eftir er.
    5-0.

    YNWA

  11. Afhverju er kabak ekki aö spila.
    Erim við i alvöru að lata 2 miðverði spila sem hafa ekki spilað lengi saman

Stórleikurinn í hættu – Óvíst hvort hann fari fram Uppfært: Samkvæmt Guardian er búið að fresta leiknum

Liðið gegn Southampton