Liverpool 2 – 0 Southampton

Mörkin

1-0 Mané (31. mín)
2-0 Thiago (90. mín)

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði frekar óvenjulega fannst manni, þ.e. að Southampton voru talsvert meira með boltann fyrstu mínúturnar, en þó voru það leikmenn Liverpool sem áttu hættulegustu færin. Mané fékk boltann við vítateigslínuna eftir góða sendingu frá Trent, en skaut yfir. Hefði sjálfsagt getað lagt hann á Salah í betra færi, en gerði það ekki. Salah fékk líka færi við markteigshornið hægra megin, en Foster varði vel. Maður spurði sig: “Verður þetta enn einn leikurinn þar sem markvörður andstæðinganna mun eiga leik lífs síns?” (N.b. þá hefur Foster alveg átt nokkra svoleiðis gegn Liverpool áður). En á 31. mínútu fékk Fab boltann rétt fyrir framan vítateiginn eftir ónákvæman varnarskalla, renndi honum á Salah sem átti góða fyrirgjöf á markteigshornið vinstra megin, og þar var Mané mættur og stangaði boltann í netið. Þetta var n.b. fyrsta mark leiktíðarinnar þar sem Salah og Mané hjálpast að (annar skorar og hinn leggur upp).

Þetta gerðist tæpri mínútu eftir að Saints höfðu átt stórhættulega sókn sem endaði með algjöru dauðafæri sirka á vítapunktinum, en Alisson átti þá nokkuð sem mætti kalla “match-winning” markvörslu – og svo aðra þegar leikmenn Southampton unnu boltann eftir frákastið og áttu annað skot, reyndar talsvert hættuminna. En engu að síður var þetta svona “stöngin út/stöngin inn” dæmi, þarna hefði staðan auðveldlega getað verið 0-1 fyrir gestunum, en í staðinn komust okkar menn yfir. Sanngjarnt, engu að síður.

Seinni hálfleikurinn var svo öllu erfiðari. Mané skoraði mark sem var dæmt af vegna augljósrar rangstöðu, en annars var minna um færi. Firmino var svo sá fyrsti til að koma inn af bekknum fyrir Jota, en sá síðarnefndi hafði átt mistækan leik. Átti gott gegnumbrot í fyrri hálfleik en skaut beint á Foster, en virðist vera í smá lægð núna í síðustu leikjum. Ox og Jones komu líka inná, en reyndar bara í blálokin. Segja má að þar með hafi Klopp klárað varamannabekkinn, því restin af útileikmönnunum þar verða að teljast meðal kjúklinganna okkar (ok, Shaqiri er nú vissulega í reyndari kantinum).

En það var svo á 90. mínútu að boltinn vannst á vinstri kantinum (mögulega fór boltinn í höndina á Mané í aðdragandanum, en það var a.m.k. ekki talið nægilegt til að breyta neinu), Firmino fékk boltann og renndi á Thiago sem hafði gott pláss fyrir utan vítateiginn, og skaut hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Frábær tímasetning til að opna markareikning sinn fyrir félagið! Þetta gerði út um leikinn, og eftir þetta var bara spurning um að sigla þessu í höfn.

Bestu/verstu menn

Alisson hlýtur ótvírætt titilinn maður leiksins. Hann varði 6 skot að marki, og það hefur ekki gerst að markvörður Liverpool verji svona mörk skot og haldið hreinu síðan Pepe Reina gerði það gegn Wigan árið 2013. Það hefur að vísu eitthvað að gera með það hvað vörn Liverpool hefur verið góð, en engu að síður… Alisson gerði reyndar sitt til að hækka þessa tölu með því að eiga klaufalega sendingu út úr vörninni, en bjargaði því með góðri vörslu sem betur fer. En hann sýndi okkur þarna af hverju hann er talinn með bestu markvörðum í heimi í dag. Þetta telst líka vel af sér vikið í ljósi þess að hann var með Nat og Rhys fyrir framan sig í miðvörðunum. Nat hefur vissulega vaxið við hverja áraun á síðustu vikum, en Rhys er greinilega ekki tilbúinn til að vera miðvörður í liði eins og Liverpool. Miðað við hvað hann er lappalangur, þá er fáránlegt hvað hann er hægur.

Umræðan eftir leik

Fyrst um meiðslalistann: fyrir leik voru 10 leikmenn á meiðslalista Liverpool, sem er met. Í þessu tvíti er svo sýnt hvernig fjöldi leikmanna á meiðslalistanum helst í hendur við stigasöfnun:

Semsagt, mögulega hafa öll þessi meiðsli haft neikvæð áhrif á gengi liðsins.

Aðal málið er auðvitað hvort Liverpool eigi ennþá séns á að hirða 4. sætið. Jú, möguleikinn er fyrir hendi. En þá má helst ekkert klikka. Líklegt er að í mesta lagi megi Liverpool gera eitt jafntefli í síðustu 4 leikjum, helst þarf að vinna rest. Okkar menn eru núna með 57 stig í 6. sæti. Sem stendur er Leicester í 4. sæti með 63 stig, og eiga eftir að spila við United (á þriðjudaginn), Chelsea og Tottenham. Við gætum alveg séð þá tapa 1-2 leikjum af þessum, jafnvel 3 ef mjög illa fer. En svo þarf líka að hafa annað augað á West Ham sem eru stigi á undan okkar mönnum með 58 stig, og eiga eftir að spila við Everton (á morgun), Brighton, WBA og Southampton. Þeirra prógram virkar “léttara” við fyrstu sýn, en auðvitað er ekkert tryggt að þeir vinni alla sína leiki. Ef maður ætti að veðja á hvort Leicester eða West Ham tapi fleiri stigum á lokametrunum, þá myndi ég veðja á að Leicester tapi fleiri stigum. Chelsea held ég að séu stungnir endanlega af, og gætu jafnvel komist framúr United þó það velti mjög á því hvernig rauðu djöflunum gangi t.d. í næstu tveim leikjum gegn Leicester og okkar mönnum. Markamunur þessara liða er þannig að Leicester og Liverpool eru á svipuðu róli, en West Ham með nokkuð lakara markahlutfall. Við þurfum semsagt að treysta á að okkar menn vinni 3-46-7 stigum meira en Leicester í síðustu leikjunum (Liverpool getur unnið 12 stig, Leicester 9), og a.m.k. 1 meira en West Ham, að því gefnu að þeir fari ekki að bæta markahlutfallið eitthvað svakalega. Útilokað? Nei alls ekki. Líklegt? Ég myndi ekki veðja húsinu og bílnum á að þetta takist, en við vitum alveg að þetta Liverpool lið er fært um ýmislegt þegar það er komið með bakið upp við vegg. Okkar menn eiga n.b. eftir að spila við United, WBA, Burnley og Palace. Mest leikir sem maður hefði haft litlar áhyggjur af á síðasta tímabili, en miðað við gengi okkar manna á þessari leiktíð verðum við með hjartsláttartruflanir yfir öllum þessum leikjum.

Næsti leikur er svo þessi alræmdi leikur gegn United sem var frestað um síðustu helgi. United mun koma inn í þann leik eftir að hafa mætt Villa (á morgun) og Leicester (á þriðjudaginn). Við megum því eiga von á því að Solskjaer mæti með B-liðið gegn Leicester og skíttapi þeim leik, en svo með sitt allra sterkasta lið á fimmtudaginn.

En á meðan það er enn von að krækja í 4. sætið, þá höldum við í þá von. Og það að halda í vonina er sannarlega eitthvað sem Liverpool aðdáendur þekkja mjög vel!

15 Comments

 1. Mané GOAL
  Salah ASSIST
  Firminho ASSIST

  Það mætti halda að gömlu góðu dagarnir séu mættir aftur… neinei ágætur sigur en með þessari spilamennsku vinnum við ekki united þó þeir verði bensínlausir.. þessi færanýting í ár (fyrir utan CP leikinn?) Er búin að vera vandræðalega slök… ég trúi enn á meistaradeildarsæti en það verður hrikalega erfitt

  Ynwa

  4
 2. Stór 3 stig í hús og setur pressu á Leicester sem eiga mjög erfiða leiki eftir, ég hef ekki trú á öðru en að chelsea vinni sína leiki og svo er west ham að þvælast þarna líka.
  En þessi leikur var ekki vel spilaður og við vorum heppnir að Allison var í stuði.
  Núna þarf að vinna rest og vona það besta.

  6
 3. Alisson átti stórleik og bjargaði úrslitunum.

  Enginn í sjálfu sér með slæman dag. Williams vann á eftir mistæka byrjun. Gott að hafa Fab. á miðjunni. Jota átti góða spretti og maður nennir ekki að tuða yfir sóknarmönnum sem skora/leggja upp. Gaman að Thiago skyldi skora – þessu beið maður eftir.

  Gríðarlega dýrmæt stig.

  5
 4. Vantaði ekki færin frekar en fyrri daginn, en maður væri órólegri ef liðið væri ekki að skapa sér nein færi, ég man þá tíð. Thiago var frábær í þessum leik og Allison líka. Ég var líka hrifinn af frammistöðu hægri bakverðinum hjá Soton, Walker-Peters. Heilt yfir rock solid frammistaða hjá liðinu í heild. Þrjú góð stig og veik von um CL sæti lifir.

  2
 5. Alisson bjargaði okkur í kvöld. Stundum held ég að Salah og Mane hafi veðjað á að við töpum leikjunum,miðað við klúðrið hjá þeim. Ánægður með Nat í vörninni. Hann á skilið samning og verður okkar fjórði til fimmti miðvörður á næsta tímabili. Er þetta ekki komið gott með að hafa gini inná , hvað þá sem fyrirliða ?

  11
 6. Stórfurðulegt að Mané og Salah hafi ALDREI gefið stoðsendingu á milli sín í allan vetur, fyrr en í kvöld.

  Ég veit alveg að það eru samtals þrír menn í framlínunni, en að þessir tveir vinni ekki betur saman en þetta, það er bara rídikkjúlös! Sýnir svart á hvítu að Firmino er sáttasemjarinn og þegar Firmino getur ekki neitt (lesist: í marga marga mánuði) þá er útkoman eftir því. Mané gefur ekki á Salah, Salah gefur ekki á Mané = enginn skorar.

  Að öðru leyti:
  a) frábær tilfinning að vinna leik með tveggja marka mun
  b) Walker-Peters á framtíðina fyrir sér

  2
 7. Sigur er sigur hvernig sem hann kemur. Þó sennilega sanngjarnt ef á allt er litið en þó má þakka Allisson fyrir að ekki kom mark á okkar menn. Margt jákvætt….
  …halda hreinu þrátt fyrir breytt hafsendapar enn á ný
  …Fabhino í sinni stöðu
  …skora tvö mörk
  …Thiago með mark
  …þríeykið okkar frammi kom allt að markaskorun, mark og stoðsendingar
  …Allisson virkilega góður
  …Klopp yfirvegaður
  Ef hægt er að finna eitthvað neikvætt….
  …meiðslalistinn hann styttist lítið og mætti halda að eitthvað grín væri í gangi

  Góðar stundir

  5
 8. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna Daníel hún segir flest sem segja þarf. Þó vil ég bæt nokkrum atriðiðum við:

  1 – Alisson bjargaði þessum leik það er engin spurning hvernig sem það er togað og teygt.

  2 – Salah hefur átt nokkrar sendingar á Mané í vetur og sett hann í dauðafæri. Mané einfaldlega klúðaraði þeim færum. Mané hefur einnig átt einhverjar á Salah sem klðuðraði þeim líka. Stoðsendingastaðan milli þeirra ætti að vera allt önnur en hún er ef þessir leikmenn væru eitthvað líkir sjálfum sér.

  3 – Ég bjóst við liðinu miklu sprækara en raun var á. Skrítið hvað liðið er alltaf þúngt eftir góðar pásur.

  4 – Ótrúlegt að Jota þurfi endilega að vera í lægð núna eins og hinir framherjarnir. Það er eitthvað að í hópnum sem verður að laga. Sjálfstraust og yfirvegun sést ekki lengur í framlínu liðsins, allt fer í fát og mistök þegar þessir leikmenn fá tækifæri. Það er þó helst Salah sem skilar mörkum þó það hafi ekki verið þannig í gær. Þetta er verðugt umhugsunarefni.

  5 – Merkilegt hvað Williams er hægur. Þetta er grannur og hlaupalegur strákur en þegar hann hleypur er eins og hann sé á kafi í vatni. Vantar greinilega mikið uppá líkamlegan styrk.

  6 – Hvað er að plaga menn eins og Nabi Keita? Klopp heldur því fram að hann sé í framtíðarplönum liðsins. Samt hefur þessi drengur ekki leikið fótbolta mánuðum saman. Ég get ekki kallað frammistöðu hans á móti RM að spila fótbolta. Þetta er eitt mesta undur fótboltasögunnar að þessi drengur kallist fótboltamaður. Sama má segja um Ben Davis.

  7 – Guðsástarþakkir fyrir að Alisson var í stuði í þessum leik. Annars hefði hann einfaldlega tapast.

  8 – Við höfum ekki fengið mark frá miðvörðum síðan Virgil meiddist. Skalli Natans í leiknum í gær var frekar varnarskalli í vítateig andstæðingins en sóknarskalli. Kabak sem á að vera sterkur í loftinu hefur ekki ennþá átt sóknarskalla í föstum leikatriðum sem hefur ógnað marki andstæðinga Liverpool. Enn ein ástæðan til að sakna VvD.

  9 – Liðið verður að leika betur en í gær ef við eigum að landa meistardeildarsæti. Natan Phillips og Kabak eru þó sýnu betri en miðvarðarparið frá í gær. (var það ekki 20.eða 21. parið í vetur?) Natan er búinn að vera magnaður og ekkert undan honum að kvarta og þó hann skorti hraða þá vinnur hann það upp með frábærum staðsetningum og líkamsstyrk. Minnir á einn ljóshærðan Finna sem er legend hjá Liverpoll að þessu leyti.

  10 – að lokum vil ég þakka Klopp fyrir að skipta Thiago ekki útaf eins og í síðasta leik. Gott að sjá að menn læra af mistökum sínum. Og meðan ég man – takk Allisson fyrir stigin þrjú. 🙂

  Það er nú þannig

  YNWA

  8
 9. Það er kannski rétt að þetta sé fyrsta markið þar sem bæði Mané og Salah koma við sögu en ég man eftir þó nokkrum tilfellum (og horfi ég nú ekki á alla leiki) þar sem þeir gefa á hvorn annan en það hefur ekki komið mark út úr því. Ýmist ekki nógu góð sending/móttaka eða bara illa nýtt færið. Að því sögðu þá er fáránlega oft sem þeir reyna sjálfir í stað þess að gefa boltann og finnst mér halla frekar á Salah þar.

  1
 10. Mér fannst þetta bara mjög solid sigur á Southampton.

  Við stjórnuðum leiknum eins og reyndar flestum leikjum. Við skoruðum tvö mörk en þau hefðu getað orðið fleiri og Alisson gerði vel í markinu en það er ástæða fyrir því að hann er heimsklassa markvörður eins og sást í gær.

  Mér fannst við spila betur meirihlutan af leiknum gegn Newcastle sem við enduðum bara með 1 stig en þessi leikur var mjög svipaður Leeds leiknum sem við vorum betri aðilar í en enduðum bara með 1 stig.

  Nú tókum við 3 stig og ég ætla bara að gleðjast yfir því.
  Mane náði að skora og lagði upp færi fyrir bæði Salah og Jota sem þeir hefðu líka átt að skora úr.
  Thiago náði loksins að skora með flottu marki og finnst mér allt annað að sjá Thiago á miðju þegar Fabinho er með honum.
  Miðverðirnir okkar eru ótrúlega hægir en við eigum ekki aðra valmöguleika eins og er svo að þetta verður bara að duga.

  Næsti leikur verður gríðarlega erfiður gegn Man utd því að þeir spila svipaðan fótbolta og Southampton nema eru með meiri gæði í sínu liði. Þeim líður ekki illa að verjast aftarlega og vilja vera fljótir fram (sem hræðir mann pínu með þessa hægu miðverði)

  12 stig í pottinum og tel ég að ef við náum í þessi 12 stig þá verðum við helvíti nálagt meistaradeildarsæti(eða jafnvel náum því)

  YNWA

  4
 11. Flottur sigur hjá okkar mönnum.
  Ég viðurkenni að mér leið ekki vel yfir leiknum þangað til Tiago settann í lok leiks.

  Svo til að auka á gleðina hafa önnur úrslit heldur betur dottið okkur í hag.
  Nú þurfum við að taka fullt stím áfram því Leicester eiga mjög erfitt prógram eftir.

  YNWA

 12. Mér fannst þessi leikur svipað basl og verið hefur undanfarið. Núna hélt Alison okkur frá því að missa þetta í jafnteflið en ég sé ekkert í kortunum sem gefur tilefni til mikillar bjartsýni um eitthvað run í loka leikjunum. Við þurfum að stóla á að önnur lið misstígi sig og á sama tíma helst að vinna okkkar leiki. Það hefur ekki verið að gerast frá áramótum og því ólíklegt að það gerist á næstu vikum þar sem fátt hefur breyst til batnaðar heldur þvert á móti með meiðslum Kabak.

  Liverpool hefur einfaldlega ekki verið eitt af fjórum bestu liðum deildarinnar á þessu tímabili og mér finnst bara eðlilegt að liðið verði utan Meistaradeildar í ljósi frammistöðunnar á tímabilinu, því miður.

  4
 13. Verð að viðurkenna að ekki varð ég rólegur fyrr en að Thiago setti mark nr. 2 og jafnvel ekki þá heldur. Það verður að segjast eins og er að þetta var leikur sem við gátum alveg tapað miðað við hve mörg færi eða hálffæri andstæðingarnir fengu. Tek þessum 3 stigum fagnandi og get varla beðið eftir næsta leik. Furðulegt finnst mér þó hversu fá comment koma inn á síðuna þegar sigur vinnst, eitthvað annað en ef við töpum eða missum leiki niður í jafntefli ? Þá vantar ekki að hraunað sé yfir allt og alla, margt var vel gert í þessum leik þó annað hafi verið miður vel gert. Allison bjargaði klárlega því að ekki fór ver í leiknum þrátt fyrir að hafa átt einhverjar feilsendingar. Okkur bráðvantar eins og fleiri hafa sagt einhverja ógn í föstum leikatriðum og mikið söknum við Van dijk og meira að segja Matip.
  Þetta er vonandi eitthvað til að byggja á og næst er að tapa ekki stigi eða stigum í næsta leik

  2

Liðið gegn Southampton

Létt spjall við fótbolta.net