Kjúklingarnir í U18

Það hefur alltaf ríkt talsverð spenna yfir ungu kynslóðinni hjá Liverpool, pjökkunum sem eru að spila með U23 og U18 og sem við erum alveg 100% viss um að verði næsti Messi, næsti Gerrard, næsti __________ (setjið inn ykkar eftirlætis leikmann). Því miður hafa þessar vonarstjörnur ekki allar náð að skjótast upp á sjöunda himinn. Nægir að nefna nöfn eins og Jordon Ibe, Jerome Sinclair, Dani Pacheco, Adam Morgan o.fl. o.fl. Við ættum því að vera farin að læra að stilla væntingunum í hóf.

Þessu algjörlega ótengt: núverandi U18 lið er líklega efnilegasta lið sem á þessa jarðarkringlu hefur stigið, liðið inniheldur núna leikmenn eins og hinn pólska Messi, besta leikmann sem komið hefur frá akademíunni í Derby (og líklega úr ensku unglingastarfi yfirhöfuð) og svona mætti lengi telja. Liðið hefur í síðustu leikjum verið að valta yfir andstæðinga sína: 6-0 gegn Middlesbrough, 5-1 gegn Leicester, 6-1 gegn Leeds, 4-1 gegn Úlfunum, 1-0 gegn United (manni færri síðasta hálftímann), 6-1 gegn Sutton, 3-0 gegn Newcastle og svona mætti lengi telja. Kíkjum aðeins stærstu vonarstjörnurnar.

James Balagizi

Þessi strákur verður 18 ára síðar á árinu, en hann kom til Liverpool frá City árið 2015. Það hefur lítið farið fyrir honum þar til núna seinnipart vetrar, að hluta til vegna þess að hann var meiddur í tvo mánuði fyrr á leiktíðinni (ætti því að smellpassa í aðalliðið). Þetta er framliggjandi miðjumaður, stór og sterkur, óhræddur við að taka menn á og opnaði markareikning sinn hjá félaginu í leiknum gegn Leicester eftir að hafa verið meira í því að leggja upp mörk fram að því.

Kaide Gordon


Það var bara núna í byrjun febrúar sem þessi strákur kom til Liverpool, en er uppalinn hjá Derby. Hefur verið talinn mikið efni í talsverðan tíma, og mörg lið vildu fá hann en hann endaði í Liverpool. Hann þótti standa sig vel í æfingaleik á æfingasvæðinu í Kirkby í síðasta landsleikjahléi, og hefur svo haldið áfram að heilla með góðri frammistöðu. Þetta er leikmaður sem gæti passað einhversstaðar í fremstu þrjár stöðurnar, fremst á miðju, eða úti á kanti.

Mateusz Musialowski

Þessi 17 ára strákur kom til Liverpool frá pólska liðinu SMS Lodz síðasta haust, og þótti þá einn efnilegasti leikmaður Evrópu. Sem dæmi þá var hann búinn að skora einhver 130 mörk í 80 leikjum fyrir sitt félag. Hann hefur ekkert slegið á þær væntingar undanfarið, og skoraði m.a. mark marsmánaðar í leik gegn Newcastle, og sló þar við keppinautum eins og Mo Salah og Bo Salah. Hann er talinn upp meðal miðjumanna á heimasíðu félagsins, en er klárlega sóknarþenkjandi týpan af miðjumanni, og gæti sjálfsagt tekið nokkurnvegin hvaða stöðu sem er í framlínunni sömuleiðis.

Max Woltman

Þessi 17 ára strákur hefur kannski einna helst verið sá sem hefur farið undir radarinn, en hefur verið að raða inn mörkum í síðustu leikjum. Þrátt fyrir að nafnið hljómi þýskt, þá er hann uppalinn í Wirral, og er því pjúra scouser. Hann hefur notið góðs af því að hafa hina þrjá fyrir aftan sig í síðustu leikjum, og hefur oft verið sá sem hnýtti endahnútinn á sóknir sem hinir í liðinu sköpuðu.


Þetta eru þau nöfn sem helst hafa verið í umræðunni, en það eru fleiri efnilegir strákar í þessum hóp. Það hefur nú gerst áður að efnilegir strákar hafi flogið undir radarinn, en svo allt í einu poppað upp í aðalliðinu. Neco Williams er mögulega nýjasta dæmið, hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu í október 2019 í deildarbikarnum, Einar Matthías hafði tekið fyrir efnilegustu strákana úr U23 í pistli þá um vorið og þar var hann hvergi að finna. Sama gæti gerst hér, hér er ég að nefna þá sem virka mest spennandi í augnablikinu, en fleiri leikmenn eiga örugglega eftir að blómstra á næstunni. Enda fjölmörg dæmi um að leikmenn þyki efnilegir á sínum yngri árum en fjari svo út, og eins leikmenn sem virka kannski lítið spennandi fyrir tvítugt en blómstra svo þegar þeir fullorðnast.

Þið sem hafið verið að fylgjast með U18, mynduð þið bæta fleiri pjökkum á þennan lista? Eru menn kannski spenntari fyrir Frauendorf, Owen Beck, Quansah eða Cannonier?

Það verður gaman að sjá hvort eitthvað af þessum leikmönnum fara að æfa með aðalliðinu eins og Clarkson og Cain hafa verið að gera á síðustu mánuðum, við munum fylgjast spennt með.

13 Comments

 1. Takk fyrir þessa kynningu á flottum efnivið yngri leikmanna.
  Verður spennandi að fylgjast með hverjir komast alla leið af þessum drengjum.

 2. Bæði Kaide Gordon og Owen Beck voru á æfingu með aðalliðinu í dag, ef ég skil það rétt.

  • Já, ef eitthvað er að marka Liverpool Echo a.m.k.

   Var alveg á báðum áttum með hvort ég ætti að setja Owen Beck í upptalninguna, hann er ekki eins “flashy” og þessir fjórir, enda eru þeir jú teymið sem sér að mestu um markaskorunina. En ég yrði ekkert hissa ef hann fengi fleiri sénsa á æfingasvæðinu með aðalliðinu.

 3. Miðað við kröfuna um að keyptir séu stærri stjörnur og dýrari þá er ekki mikil von fyrir þessa gutta eða þolinmæði til að bíða eftir tækifæri með þeim stóru ? Að því sögðu þá hefur Herr Klopp verið duglegur að gefa þessum kjúklingum einn og einn leik með aðalliðinu. Myndi halda að Harvey Elliot ætti að skila sér í aðalliðið á næstu leiktíð miðað við hæpið í kringum hann hjá Blackburn. Vonandi munu einhverjar stjörnur verða úr þó ekki nema einum eða tveimur af þeim aragrúa sem eru að koma í gegnum unglingastarfið á næstu árum. Flott samantekt hjá þér Daníel.

  1
  • Nei akkúrat, í dag virðist þetta snúast meira um að “búa til” efnilega leikmenn sem er áhugi fyrir hjá öðrum klúbbum og sem er hægt að selja fyrir 5 – 25 milljónir punda, og fjármagna þannig kaup á eins og einum Mo Salah með kannski 4-5 kjúklingum (ef allt gengur upp).

   1
 4. Ég horfði á 10 mínútna syrpu úr Middlesborough leiknum. Mér fannst lengi eitthvað svo skrýtið við þann leik og eitthvað sem ég var ekki að tengja við Liverpool búninginn. Svo fattaði ég að þarna var ég að horfa á lið sem sótti á fleiri en cirka þremur mönnum og miðjumennirnir mættu inn í teig…

  1
 5. Ótengt kjúklingunum en ég horfði á ManU – Roma og get ekki sagt að ég hlakki til sunnudagsins. Miðað við samspil Pogba, Fernandes og Cavani þá eru okkar piltar eins og tannlaus gamalmenni í samanburði. Ég efast t.d. stórlega um að Firmino eigi eftir að koma til baka úr núverandi ástandi. Held að þetta sé einfaldlega búið hjá honum. Og hvaða miðjumann eigum við á sama level og Fernandes? Engan.

  1
  • Fernandes er lúxus leikmaður eins og Pogba.
   Hann er frábær gegn minni spámönnum en á það til í stórleikjum að gjörsmanlega hverfa. Fernandes er góður þegar liðið hans liggur í sókn og hann fær pláss til að skapa og þarf ekki að pæla mikið í varnarleik. Þegar liðið þarf að verjast virkar hann oft pirraður og á það til að hlaupa úr stöðu af því að honum langar svo að vinna boltan(gott og slæmt) og stundum nennir hann ekki að spila vörn.

   Við áttum leikmann sem var á þessu leveli eins og Fernandes og var líklega okkar besti leikmaður á þeim tíma. Hann hét Coutinho og við seldum hann á 142 m punda til Barcelona og þá héldu menn að við værum að taka skref til baka(en hann var að skora, skapa og frábær í föstum leikatriðum) en hvað gerðist?

   Jú miðjan okkar var Fabinho, Henderson og Gini að mestu og þótti mönnum það ekkert rosalega sexy að vera með frábæran djúpan miðjumann og svo tvo vinnuhesta sem eru ekki þekktir fyrir að skapa eða skora mörk. Þetta var samt nákvæmlega það sem okkur vantaði.

   Með því að vera með þessa vinnuhesta og þennan dugnað á miðsvæðinu fengu bakverðinu okkar skotleyfi til þess að keyra upp völlinn vitandi að vinnumennirnir á miðjuni væru alltaf til staðar að hlaupa í þeira skarð eða stopa sóknir. Sóknarmennirnir okkar þrír gátu einbeit sér að sækja og vissu 100% að þegar þeir færu í hápressu að þá væru vinnuhestarnir fyrir aftan með í þeirri hápressu.
   Þetta hentaði okkur frábærlega og við urðum Evrópu, heims og Englandsmeistara með þessa miðju og mann ég ekki eftir einhverjum sem var að tala um að við söknuðum Coutinho eða skapandi miðjumaður væri númer 1,2 og 3 hjá okkar liði.

   Mér hlakkar til sunnudagsins því að mér langar að sjá liðið mitt mæta af krafti í stórleik. Mér langar að sjá viðbrögðin og hvort að við séum alveg búnir á því eða það er smá kraftur eftir. Ég hef engar áhyggjur af miðsvæðinu sem mun líklega vera Fabinho, Thiago, Gini en ég hef meiri áhyggjur af Phillips(verður líklega með) og Kabak í miðverðinum.

   YNWA – Ef við töpum á sunnudag þá er þetta bara einn af mörgum lélegum úrslitum á tímabilinu en ef við sigrum þá er þetta sjaldgæfur útisigur en við höfum ekki sigrað þarna síðan 2014.

   p.s Þetta Roma lið í kvöld einfaldlega gafst upp og í stöðunni 3-2 voru lýsendur á BBC að furða sig á uppgjöf Roma liðsins og töluðu um að þetta gæti endað í stóru tapi(sem það gerðist) því að þeir virkuðu einfaldlega hættir.

   1
   • Talandi um lúxusleikmenn: Fernandes er búinn að skora 25 mörk í öllum keppnum fyrir MU. Hvað er Thiago búinn að gera mörg?

   • Er nú á því að Fernandes sé sannarlega búinn að afsanna að hann sé bara einhver lúxusleikmaður, hann hefur snúið þessu United liði síðan hann kom. Væri einmitt til í að fá akkurat svona leikmann til Liverpool. Þ.e. annan svona “lúxusleikmann” á miðjuna eins og Coutinho.

    Eins er verulega ósanngjart að bera hann saman við Thiago enda spila þeir ekkert sama hlutverkið í sínum liðum. Thiago fyrir það fyrsta missti af hálfu tímabili og kom inn í allt annað Liverpool lið en hann var keyptur inn í (vegna meiðsla). Hann hefur verið að spila sem aftasti eða einn af tveimur dýpri miðjumönnum líkt og hann hefur gert mest allan sinn feril. Fernandes er miklu meira partur af framlínu United og tekur öll föst leikatriði. Nóg fá þeir líka af þeim öfugt við Liverpool.

    2
 6. Hvað er Thiago búinn að spila marga leiki vs Fernandes?! Ljótt að segja það en því miður hefur Fernandes spilað nánast alla leiki MU í vetur án meiðsla. Þetta MU lið væri hvorki fugl né fiskur án hans!

 7. Smáfuglarnir stóðu sig aldeilis vel í FA ungmenna-bikarnum í dag! Woltman, Musialowski og Balagizi funheitir. Og Klopp fylgdist með af hliðarlínunni. Ekki veitir af að finna vænlegt ungviði til að þétta og styrkja raðir aðalliðsins fyrir komandi vetur!

  • Það bara hreinlega *hlýtur* að vera freistandi fyrir Klopp að hóa í þetta þrí/fjóreyki (held að Kaide Gordon sé ekki löglegur í bikarnum), a.m.k. á æfingar, jafnvel á bekk.

   1

Gullkastið – Þar fór það

Upphitun: Björgum við andliti á Old Trafford