Upphitun: Leedsarar heimsóttir á mánudagskvöldi

Á morgun mun Liverpool mæta Leeds á Elland Road í fyrsta sinn í deildarkeppni síðan 2004 undir Gerard Houllier þegar liðin gerðu 2-2 jafntefli. Þá var einn James Milner í byrjunarliði Leeds. Leedsarar féllu það árið og áttu erfitt með að komast aftur upp í efstu deild en tókst það loks undir stjórn hugsjónamannsins Bielsa og hafa heillað marga á sínu fyrsta ári aftur í deild þeirra bestu.

Liðin mættust á Anfield í fyrsta leik tímabilsins, fyrir öll meiðsli, þegar bjartsýni réði ríkjum og við ætluðum okkur helst deildar og meistaradeildartitil áður en vonir okkar hrundu og eftir að hafa fallið úr Meistaradeildinni í vikunni gegn Real Madrid er ekkert eftir nema barátta um þáttökurétt í sömu keppni að ári. Leikurinn reyndist þó hin mesta skemmtun, Liverpool vann 4-3 en nýliðar Leeds sýndu strax á fyrsta degi að þeir væru engin lömb að leika sér við.

Leeds mun koma inn í leikinn fullir sjálfstrausts eftir að hafa unnið sigur á Man City í síðustu umferð þrátt fyrir að hafa misst mann af velli í fyrri hálfleik. Ekki nóg með það heldur hafa Leeds unnið síðustu þrjá deildarleiki og eru búnir að koma sér upp í efri hluta töflunnar. Bielsa kom nokkuð á óvart gegn City þar sem hann lét sína menn spila nokkuð varnarsinnaðara en venjulega en það er ólíklegt að hann geri það aftur á morgun. Leikurinn gæti því, líkt og fyrri leikurinn, verið mjög opinn og hin mesta skemmtun.

Í fjarveru Liam Cooper sem fékk rautt spjald gegn City er líklegt að Robin Koch og Diego Llorente verði saman í hjarta varnarinnar hjá Leeds á morgun en þeir hafa aðeins spilað rétt um þrjátíu mínútur saman í deildinni í vetur og gæti það opnað vörn Leeds enn frekar sem hafa verið frekar duglegir að fá á sig mörk.

Liverpool

Nú er það að duga eða drepast fyrir okkar menn. Hafa þeir hug í að fara og sækja 4.sætið, það verður vissulega erfitt að koma inn í þennan leik eftir að hafa fallið úr leik í Meistaradeildinni en nú má ekki hengja haus heldur mæta sterkir til leiks og sýna að þeir eiga heima meðal þeirra allra bestu á næsta tímabili.

Það hefur hinsvegar ekki gengið sérlega vel að byrja leiki af krafti að undanförnu og síðan um áramót hefur Liverpool aðeins skorað tvö mörk í fyrri hálfleik og komu þau bæði í uppbótatíma og það er án efa eitthvað sem þarf að batna hratt. Það er ekki eins og liðið sé ekki að fá tækifærin, við erum hreinlega ekki að grípa þau. XG tölfræði í fyrri hálfleik síðan um áramót er rétt rúmlega tíu mörk þannig tækifærin eru þarna fyrir menn sem vilja nýta færin sín.

Einn maður sem vill án efa gera það er Mo Salah en ekki aðeins er hann í harðri baráttu við Kane um gullskóinn heldur mun hans næsta mark vera það tuttugasta á tímabilinu og ef hann nær því verður hann fyrsti leikmaður Liverpool til að skora tuttugu deildarmörk þrjú tímabil í röð frá stofnun Úrvalsdeildar. Fowler var nálægt því en hann skoraði 18 mörk 96/97 eftir að hafa farið vel yfir tuttugu árin tvö á undan og Owen daðraði við þetta með því að vera rétt undir tuttugu mörkum nánast öll árin sín án þess þó að ná því nokkurn tíman.

Það verður áhugavert að sjá hvernig Klopp stillir upp á morgun. Öftustu sex eru frekar sjálfvaldir þessa dagana ásamt Salah en ég hef sjaldan verið jafn óviss um jafn margar stöður á vellinum þegar ég er að reyna tippa á byrjunarliðið. Klopp hefur yfirleitt gert frekar fáar breytingar og þegar allt gekk vel var þetta yfirleitt spurning um eina eða tvær stöður. Ég ætla hinsvegar að skjóta á að liðið verði svona.

Hvort það verði Mane eða Firmino sem víkji fyrir Jota er ég ekki alveg viss um en hef verið hrifnari af Jota þegar hann spilar fyrir miðju frekar en úti vinstra megin svo ég geri ráð fyrir að Mane fái að byrja. Á miðjunni hefur Milner komið með ákveðinn kraft í síðustu tvo leiki en ég býst við að sjá Thiago kom inn fyrir hann á morgun.

Spá

Ég held að þetta verði frekar opinn og skemmtilegur, en þó drullu stressandi, leikur. Við brjótum á bak þessa fyrri hálfleiks grýlu og vinnum leikinn 4-2 með tveimur mörkum í fyrri hálfleik. Salah setur tvö, Jota eitt og Saido Mane mætir aftur til leiks og skorar loka markið.

4 Comments

  1. Eins og áður hefur komið fram þá vona ég að lukkudísirnar hans Henderson14 verði með okkur á morgun – sannarlega á því að halda og sérstaklega í ljósi þess að önnur úrslit eru að falla með okkur.

    Sömuleiðis sammála Henderson14 með hversu mikilvægt hefði verið núna að vera með nafna hans inni á miðjunni til að berja mönnum baráttu í brjóst – líklega enginn betri en hann á þeim vettvangi.

    Koma svo, nú er að duga eða drepast!

    2
  2. Sælir félagar

    Ef Liverpool ætlar að taka þátt í þessu ofurdeildarkjaftæði er nærri 6 áratuga stuðningi mínum við liðið lokið. Ég er algerlega sammála Carra hvað þetta ofurdeildarmál varðar. Þetta er ógeðslegt og engum unnanda íþróttarinnar samboðið. Ég nenni ekki einusinni að lesa upphitun fyrir Leeds leikinn og mun ekki horfa á hann að öllum líkindum. Þetta er andstyggilegt mál.

    Það er nú þannig

    6
    • Algjörlega sammála þér þarna Sigkarl!! Þetta lyktar ógeðslega af Mammon konungi! Trúi því ekki að óreyndu að þetta verði að veruleika! Treysti á að UEFA, enska knattspyrnusambandið og öll þau batterí spyrni við fótum!

      Verður fróðlegt að heyra frá eigendum Liverpool, Klopp, leikmönnum og fleirum hvað þetta varðar!

      2
    • Þetta eru hrikalegar fréttir! Hvaða Gordon Gekko “greed is good” ógeð er þetta? Og hvar ætli þetta neutral venue fyrir úrslitaleikinn verði? Ég giska á Abu Dhabi, Qatar, Kína eða Rússland. Klopp er örugglega að semja uppsagnarbréfið núna…

      1

Liverpool – Real Madrid 0-0 [1-3]

Liverpool með í stofnun “Súperdeildar Evrópu”! (Uppfært)