Liverpool – Real Madrid 0-0 [1-3]

Þannig fór um sjóferð þá. Liverpool er úr leik í meistaradeildinni þetta tímabilið og þar með fór síðasti möguleikinn á dollu þetta árið og ljóst (ef það var ekki nokkuð ljóst fyrir löngu) að þetta tímabil fer í bækurnar sem algjör vonbrigði frá upphafi til enda, jafnvel meiri vonbrigði en að undanúrslit meistaradeildarinnar þetta árið skuli vera skipað þremur liðum sponseruð af olíufurstum. Allavega, snúum okkur annars að leiknum sjálfum.

Liverpool var mikið betri aðilinn í þessum leik og átti að vinna í kvöld með 2-3 mörkum. Gestirnir buðu upp á nánast ekki neitt sóknarlega séð á meðan að Liverpool átti að vera komið í 1-0 eftir 2 mínútur þegar Salah fékk besta færi kvöldsins, fékk þá sendingu út í teig en skaut beint á Courtois, algjört dauðafæri og í raun bannað að klikka á svona færum á þessu sviði.

Liverpool náði upp góðri pressu og voru að vinna boltann hvað eftir annað á hættulegum stöðum. Upp úr einni slíkri sókn fékk Milner boltann rétt fyrir utan teig en Courtois varði skot hans frábærlega í horn.

Gestirnir vörðust vel og áttu ekki margar sóknir í dag. Það var þó úr einni slíkri sem að skot Benzema fór af Phillips og í utanverða stöngina

Korteri síðar, eða á 28 minútu eða svo komst Liverpool í hættulega sókn og voru 4 á 3 en Firmino átti skelfilega sendingu á TAA sem varnarmenn Real Madrid lásu í síðustu viku.

Undir lok hálfleiksins fengu heimamenn tvö mjög góð færi til að komast yfir. Fyrst á 40 mínútu þá barst boltinn á Gini á miðjunni sem átti frábæran snúning, sendi boltann á Mané sem renndi boltanum út í miðjan vítateig á Salah en skot hans fór vel yfir, virkilega flott sókn. Mínútu síðar átti TAA góðan sprett og náði með einhverjum ótrulegum hætti að vinna boltann aftur í miðjum teig gestanna, sendi til baka á Gini sem átti hrikalegt skot yfir markið úr algjöru dauðafæri!

Liverpool hefði átt að fara inn í hálfleikinn í sigurstöðu en svona er þetta stundum. 0-0.

Síðari hálfleikur

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn eins og þeir luku þeim fyrri. Firmino átti strax gott færi, skot út þröngri stöðu beint á Courtois eftir frábæra sendingu frá TAA. Heimamenn ógnuðu talsvert fyrstu fimm mínúturnar eða svo en svo datt þetta svolítið niður um miðjan hálfleikinn. Jota og Thiago komu svo inn á 60 min í stað Milner og Kabak.

Salah átti enn eitt færið á 66 minútu en var einhvern veginn með allt of mikinn tíma á boltann og skot hans að lokum blokkerað í horn. Firmino fékk svo annað gott færi á 69 mínútu þegar skot hans var líka blokkerað, að þessu sinni inn í markteig vinstra meginn.

Afskaplega lítið gerðist næstu 10 mínúturnar eða svo. Benzema fékk líklega besta færi gestana eftir að fyrirgjöf barst frá hægri kannti en slakur skalli frá þeim franska úr dauðafæri fór niður í jörðina og yfir. Liverpool gerði aðra breytingu strax í kjölfarið, Mané og Firmino útaf og inn komu Shaq og Ox. Kannski ekki mikil breyting, allir fjórir verið meira og minna fjarverandi allt tímabil og þar varð engin breyting á.

Maður sá strax þegar fór að líða á hálfleikinn að trúin minnkaði með hverri mínútunni og hverri sókninni. Þetta fjaraði að lokum út, hellings yfirburðir en ekkert mark. Einvígið tapaðist í einum hálfleik í fyrri leik liðanna og þar við situr. Liverpool getur farið að einbeita sér að baráttunni um 4 sætið (hrikalegt að vera að tala um fjórða sætis bikarinn aftur) og leggjast á bænir að meiðslalistinn minnki með hækkandi sól svo við getum fengið að sjá A-liðið okkar næsta haust.

Bestu menn Liverpool

Ég blótaði því þegar ég sá liðið að miðjan væri með bæði Milner og Gini. Þeir voru hins vegar báðir mjög góðir og mikilvægir í fyrri hálfleik þegar liðið lék sem best. Thiago bætti nákvæmlega ekki neinu við liðið eftir að hann kom inn og því erfitt að gagnrýna þá ákvörðun eitthvað sérstaklega.

Þó svo að það hafi ekki reynt neitt sérsaklega á vörnina hjá okkur þá ætla ég að velja Phillips og TAA sem okkar bestu menn. Báðir virkilega öflugir í dag og stigu ekki feilspor. Menn geta sagt hvað þeir vilja um gæði miðvarðanna okkar en Phillips verður seint sakaður um að leggja sig ekki fram. Hefur stigið upp og farinn að eiga fínar frammistöður.

Umræðan

  • Sóknin. Þegar vörnin er ekki lengur gatasigti þá er sóknin lítið að skána. Þetta þríeyki frammi hjá okkur sem hefur verið algjörlega sturlað síðustu 3-4 árin er í dag einleikur Mo Salah, silkileikmaðurinn Firmino er allt í einu farinn að hafa snertingu tvö sem tæklingu og Mané… jesús. Líklega best að lýsa hans frammistöðu sem svo að hún er jafn léleg þetta tímabil og hún var góð það síðasta…. Og hann var geggjaður á síðustu leiktíð.
  • Thiago. Ekki að honum verði kennt um þetta, alls ekki. Við vorum samt að ræða um daginn, hverju hefur hann skilað nákvæmlega síðan hann kom til liðsins? Ég man ekki eftir einum leik þar sem hann var sá sem skar á milli. Auðvitað erfitt að koma inn í lið sem hefur nákvæmlega ekkert jafnvægi en ég bjóst samt við meiru.

Næsta verkefni

Svekkjandi, vissulega. Sérstaklega því heilt yfir fannst mér þetta Real Madrid lið ekkert sérstakt lið og við getum vel unnið þá á sæmilegum degi. Það þýðir ekki að gráta það – næsta verkefni er n.k. mánudag þegar við heimsækjum Leeds á Elland road í leik sem skiptir gríðarlega miklu máli áður en við tökum á móti Newcastle fimm dögum síðar.

Þar til næst.

YNWA

38 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Svekkur sveins. Fullt, fullt af færum en engin mörk. Rangar ákvarðanir, beðið með að skjóta, halla sér frá boltanum þegar látið er vaða, sendingar ónákvæmar í lokin… enginn á fjarstönginni, vantar þetta aukaskref, þennan aukakraft og aukavilja sem fleyttu okkur í gegnum alla skaflana í fyrra.

    OK. Magnað spil oft fyrir utan teig en svo koðnaði þetta niður í fyrirsjáanlegar vippur inn í teig sem enduðu á kollum alhvítra. Varnarmenn okkar reyndust vandanum vaxnir og miðjan var öflug. Hefði viljað sjá þessa frammistöðu úti í Madrid. Sá leikur hefði ekki þurft að enda svona illa.

    En við erum á tímabilinu þar sem við gleymdum næstum því hvernig á að skora mörk – og þá vinnast fáir leikir. Höfum tapað ansi oft í vetur fyrir miklu lakari andstæðingum, einmitt út af þessu.

    Þetta verður súrt síson. Nú er að vona að við náum fjórða sætinu. Svo þarf að taka til. Annað hvort í hausum eða (sem er líklegra) í liðinu.

    17
    • Nákvæmlega Lúðvík. Það þarf svo sannarlega að taka til í þessu liði

      4
  2. Sælir félagar

    Það má kalla þennan leik leik hinna glötuðu tækifæra. Liverpool átti að skora amk. 2 mörk í fyrri hálfleik og að nýta ekki dauðafærin sín er dýrara en orð fá lýst. Það féll ekkert með liðinu í þessum leik. Liðið skapaði sér færi til að vinna leikinn en ekkert féll með því. Ekki eitt einasta atriði. Allir lausir boltar duttu á Real menn. Þeir þvældust fyrir skotum okkar manna án þess að vita í þennan hein né annan og annað var í þeim dúr. Sorglegt og greinilegt að lukkan var ekki okkar megin í leiknum

    Dogog Jota átti skelfilega innkomu og átti aldrei að koma inná, Ox svipaður og Saq var þó að reyna að gera eitthvað við boltann en ekkert gekk hjá honum frekar en öðrum. Nat Phillips maður leiksins eins og stundum áður og Fab var mjög góður líka. Salah að koma sér í 2 til 3 færi sem hann hefði alltaf klárað á eðlilegum degi. Firmino líka góður inn á milli en átti fleiri feilsendingar í þessum leik en alla leiktíðina fram að þessu. Niðurstaðan 0 – 0 þar sem leikplan Zidane gekk fullkomlega upp. Sorglegt en sanngjarnt tap í einvígi liðanna staðreynd.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  3. Ég hélt að ég myndi aldrei segja þetta en núna er komin tími á að hrista vel upp í þessari sóknarlínu.
    Ég fá Mane á bekkinn í svona 2-3 leiki og hafa Shaqiri eða Chamberlain í staðinn.
    Mane er bara ekki að skila neinu til liðsins leik eftir leik og hefur gott af því að setjast aðeins niður.
    Miðjan var fín í kvöld, flott barátta og Real áttu nánast engin færi fyrir þetta skot í stöng en þeir gerðu nákvæmlega það sem þeir þurftu að gera sem var að sitja djúpt og halda hreinu.
    Ég nenni ekki að pirra mig á þessu ömurlega tímabili, núna er bara nauðsynlegt að klára þessa deildarleiki og tryggja okkur í topp4 fyrir næsta tímabil.
    Það er svo klárt að það þarft að fá öflugan sóknarmann sem virkilega kann að skora mörk og miðjumann sem kann að skjóta af 25 metrunum.

    12
  4. Kasta meira grjóti í andstæðingana er eina leiðin til að komadt áfram.

    3
  5. Hvað er orðið um þann glimrandi sóknarbolta sem Jurgen Klopp var svo frægur fyrir ? Nú orðið býður Herr Klopp bara oftast upp á árangurslausan og illa skipulagðan sóknarbolta.

    3
    • Mané er veiki hlekkurinn í sókninni því miður og því gengur “hinn glimrandi sóknarbolti bara als ekki upp

      2
      • Firmino hefur líka dalað gríðarlega og er ekki svipur hjá sjón. Ég held hreinlega að líkaminn sé að svíkja hann.

        5
      • Sigkarl

        “Mané er veiki hlekkurinn í sókninni því miður og því gengur “hinn glimrandi sóknarbolti bara als ekki upp”

        Það er vitað að Bobby Firmino er þér kær

        4
  6. Blendnar tilfiningar eftir þennan leik.
    Staðan var ekki góð en það var alltaf von.
    Við byrjuðum af gríðarlegum krafti og svona eftir á þá var það þetta ótrúlega klúður hjá Salah í upphafi sem hefði getað verið vítamínsprautan sem við þurftum.
    Fyrirhálfleikur var vel leikinn en Salah með tvö færi og Gini með eitt en inn vildi boltinn ekki.
    Síðarihálfleikurinn virtist ætla að vera eins og sá fyrri þegar Firmino komst í skotfæri en það var varið.
    Pressan okkar hélt áfram án þess að við værum að opna þá mikið.
    Thiago og Jota komu inn á þegar rúmlega hálftími var eftir og þá hélt maður að allt færi á fullt en nei hvorugur breytti miklu og svo kom Ox/Shaqiri síðustu 10 en það breytti bara engu.

    Við vorum betri en Real í kvöld og áttum að sigra þennan leik í það minnsta en þetta einfaldlega gekk ekki.
    Bestu menn Liverpool í þessum leik fannst mér vera Phillips sem var eins og klettur í varnarleiknum, Trent sem ætlaði greinilega að svara fyrir ömurlegan fyrri leik og svo var Fabinho solid.
    Mér fannst eiginlega engin lélegur hjá Liverpool. Salah átti að skora að minnsta kosti eitt, Mane byrjaði af krafti og átti að vera með tvær stoðsendingar eftir fínan fyrirhálfleik(Salah að klúðra) en fann sig ekki í síðari. Mér fannst Jota ótrúlega daufur eftir að hann kom inn á og Firmino var með næstum því leik. Kabak var ágætur en hraðinn hans(sem er lítil sem engin) og boltatækni láta manni finnast að hann er aldrei svarið við spurningunni um að fjárfesta í miðverði í sumar.

    Það var ótrúlega ólíklegt að við færum alla leið með Phillips/Kabak í miðverðinum og svo án Henderson sem við söknuðum gríðarlega í þessum leik en það er pínu óbragð í munninum að hafa ekki náð að skora þetta mark í kvöld sem þurfti að gera þetta virkilega spennandi.
    = Fín leikur en verðum að drulla boltanum í helvítis markið.

    YNWA – Leeds næsti andstæðingur og þurfa leikmenn að gíra sig upp í þann leik ef þeir vilja eiga séns á að spila í meistaradeildinni á næstu leiktíð.

    12
  7. Að mörgu leiti vel spilaður leikur hjá liðinu sem skapaði sér feyki nóg af færum til að klára einvígið. Ef við lögum þessa færanýtingu eru fleiri titlar framundan hjá þessum hóp.

    7
  8. Leikur hinna glötuðu marktækifæra
    YNWA, komum sprækir til leiks í PL.

    2
  9. það blæs á okkur núna úr öllum áttum.

    hægt að gagnrýna þetta endalaust, þessi mannskapur er hinsvegar ný búinn að vinna meistaradeild og deildina, þannig að þeir eiga svosem alveg inni 1 ömurlegt tímabil.

    6
  10. Leikkerfið virkar ekki á móti liðum sem spila 451 eða 541 nema hægt sé að taka miklar áhættur sóknarlega. TAA og Robbo eru að spila of mikla vörn. Miðjan er að spila of mikla vörn. Og um leið og hún gerir það ekki fáum við á okkur mörk af því að miðverðir nr. 6 og 7 hjá liðinu eru ekki nógu góðir.

    En við höfum ekki mannskap í “kick and run.” Og því ekki auðvelt að skipta um kerfi. Sem betur fer. Þetta tímabil klárast og betri tíð tekur við með blóm í haga.

    6
  11. Mér fannst það jákvæðasta við kvöldið að Klopp var algjörlega spot on og sjálfum sér líkur í viðtalinu eftir leik; Við töpuðum þessu alls ekki í kvöld og þetta súmmeraði soldið upp seasonið, það er allt soldið erfitt. Sérstaklega fyrir framan markið þar sem menn eru að flækja hlutina óþarflega mikið.
    Við erum með flott lið þegar allir eru heilir og það er af og frá að það þurfi að fara í einhverjar allsherjar hreinsanir. Það væri ansi undarlegt, tæpu ári eftir glæsilegan sigur í deildinni. Gleymum því heldur ekki að við erum ekki fyrsta liðið sem hefur dottið út fyrir Real Madrid. Öndum rólega og tölum skynsamlega kæru vinir. YNWA

    16
  12. Miðjan var frábær í dag, Milner, Wijnaldum og Fabinho áttu þetta kvöld alveg skuldlaust. Við gjörsamlega áttum miðjuna og menn eins og Kroos, Modric og félagar áttu engan möguleika. Við áttum meira en nóg af færum. Herra Milner stjórnaði ferðinni. Þess vegna var ég sérstaklega gáttaður þegar Milner fór útaf. Hann var gjörsamlega búinn að stjórna ferðinni fannst mér á miðjunni. Við áttum að vinna þennan leik auðveldlega cirka 3-4 núll, þetta er story of the season, við bara nýtum ekki okkar færi.

    2
    • Og ég verð að viðurkenna að dómarinn spilaði góðan leik í kvöld. Það var spurning með Casemeiro, en það var alltaf bara gullt

      5
  13. Nat … alvöru köggull með Dijk …. ágæt frammistaða m v allt …

    4
  14. Ég verð að viðurkenna að Liverpool spilaði mjög vel í dag. Þeir nýttu ekki sín færi en það er nákvæmlega vandamálið sem hefur verið að hrjá okkur undanfarið. Menn hafa verið að koma með hitt og þetta en þegar upp er staðið þá höfum við einfaldlega ekki verið að nýta okkar færi. Það hljápar auðvitað ekki að vörnin hefur ekki verið uppá sitt besta en þegar upp er staðið þá höfum við einfaldlega ekki nýtt okkar færi eins og við höfum gert seinustu tímabil. Mane er augljósasta dæmið, en þetta á við um alla okkar leikmenn í rauninni fyrir utan kannski Salah

    2
  15. YFIRLÝSING

    Er hér með hættur að hafa áhyggjur af gengi Liverpool þessa leiktíðina. Ástæður fyrir gengi liðsins eru bæði augljósar, en einnig óljósar. Eitt er samt kristaltært í mínum huga, liðið hrundi ekki saman eins og loftlaus blaðra bara sí svona milli tímabila. Eftir sem áður, þá er okkar lið enn í baráttu um meistaradeildarsæti og megi allar vættir heimsins vera með okkur í þeirri baráttu.

    YNWA

    3
  16. Fínn leikur en Real virtist vera komnir til að parkera rútunni , við höfum verið í vandræðum allt tímabilið gegn liðum sem hafa spilað með tíu leikmenn fyrir aftan boltann. Ég var hissa á hversu seint herr Klopp ákvað að taka séns og henda ferskum löppum inná, Milner og Gini flottir í fyrri hálfleik en fljótlega í seinni fór að draga af þeim og þá sérstaklega Milner en þetta var heilt yfir mjög góður leikur hjá okkar mönnum en það verður að bæta færanýtinguna ef svona leikir eiga að vinnast. Geng sæmilega sáttur frá borði og nú er bara eitt markmið eftir og það er að einblína á að ná í 4ða sætið, ég nenni ekki fótbolta á fimmtudögum í einhverri c.deild þannig að ef 4ða sætið næst ekki má ég þá biðja um það 8 og sleppa Evrópudeildinni eða nota hana næsta ár fyrir kjúklingana í unglingaliðinu ? Næsta ár á svo að einblína að ná í allar þær dollur sem eru í boði í Englandi þ.m.t. FA bikarinn og deildarbikarinn svo ekki sé minnst á þann stóra . Keep on rocking þó dansinn sé svona meira í átt við Abba en ekki headslammara fyrri ára !

    2
  17. Gaman verður að spá í framhaldinu – hvað gerist nú þegar tiltekt hefst og nýir vendir verða fengir í stað hinna gömlu.

    Miðverðir: klárlega nýr miðvörður. Hreystimenni sem minnkar ógn í okkar teig og skapar ógn í teig andstæðinga í föstum leikatriðum. Philips er uppáhalds-ekki-nógu-góður-fyrir-toppklassalið-leikmaðurinn minn. Það verður geggjað að hafa hann á bekknum en hann er aldrei fyrsti kostur. Matip og Gomez eru eins óstabílir og íslenska krónan. Og við vitum ekkert hvað hefur gerst með Virgil á þessu langa tímabili þar sem hann hefur verið frá. Laporte sem city saknaði með verkjum er ekki lengur í byrjunarliði eftir meiðsli sín.

    Trent – er hann að færa sig yfir á miðjuna? Er kominn tími til að stokka upp skipulagið og breyta út frá gamla bakvarðasóknarkerfinu? Þarf að fara að finna ,,hreinræktaðan bakvörð”?
    Robbo – að sama skapi þarf að fara að gefa honum smá breik af og til en við erum jú með varaskeifu fyrir hann.

    Gini – farinn. Vantar skapandi mann á miðjuna og gaur sem getur skorað fyrir utan teig. Thiago átti að fylla í þau box en hann er ekki að yngjast og hefur satt að segja valdið þvílíkum vonbrigðum eftir spræka byrjun. Bið ekki um lítið – veit vel – en við erum jú miklu lengra frá þeim stað sem við vildum vera á en við gerðum okkur grein fyrir hérna í upphafi tímabils.
    Hendo – lykilmaðurinn sjálfur en hann er alltof meiðslagjarn. Milner hefur axlað leiðtogahlutverkið en við þurfum slíkan mann. Finnum við hann í einu ári eldri Trent?

    Sóknin – mæómæ. Hvað er til ráða? Jota og Salah mega vera en hjálpi mér – hvað á að gera við Mane og Firmino? Á að losna við þá og skapa aukið svigrúm fyrir Edwards og co til að kaupa óslípaða demanta (eins og Jota)? á að spandera í agressívari leikmenn og hafa hina á bekknum? Ég nenni þeim ekki lengur, satt að segja. Jafnvel á gósenskeiðinu í fyrra fann maður að það var eitthvað að bila í toppstykkinu á þeim. Vanþakklæti – já ég hélt það þá, en það virðist hafa verið innistæða fyrir þeim skoðunum.

    Fróðlegt verður að sjá hvað þeir gera. Ef endurnýjun verður of ör þá má búast við því að liðið verði lengi í gang næsta síson og við erum ekki lengur þolinmóðasta fólk á plánetunni – við púlarar þeas.

    4
  18. Sælir félagar

    Jæja ég nenni ekki að tala meira um þennan leikog sný mér að næsta verkefni sem er Leeds. Mér finnst leikur þeirra og M.City ekki vera hinn algeri mælikvarði á Leeds liðið. Það segir þó það sem allir vita að þeir gefast aldrei upp og hætta ekki hvernig sem staðan er hjá þeim. Hitt vitum við líka að þeir eru opnir amk. meðan þeirr eru ekki komnir yfir í leikjum. Það hafa verið okkar uppáhalds leikir að spila við lið sem sækja og hægt er að “breika” á. Það var að vísu meðan Mané gat eitthvað í fótbolta og meðan Firmino gat sent sendingar sem splundruðu vörnum anstæðinganna og gáfu Salah og Mané tækifæri.

    Sá tími virðist liðin, Mané og Firmino öllum heillum horfnir og Salah mistækur jafnvel í dauðafærum. Þetta sáum við allt í leiknum í gær. En það var líka annað sem við sáum og það var Mané í upphafi leiksins svona fyrstu 10 mín. sem minnti á þann Mané sem við munum frá síðasta tímabili. En sú endurkoma stóð stutt og vart að búast við að sá Mané verði til staðar í leiknum við Leeds, því miður.

    Firmino minn úppáhaldsleikmaður (ef það hefur farið framhjá einhverjum 🙂 ) virðist vera að missa “tötsið”. Feilsendingar hans í gær viru fleiri en eyjarnar á Breiðafirði. Hvað er að hjá þessum höfuðsnillingi og skapara endalausra tækifæra? Það er mér ráðgáta eins og reyndar ástandið á Mané. Hitt er mér ljóst að leikgleðin sem einkenndi samspil “hinna þriggja fremstu” virðist horfin. Vonbrigða og uppgjafasvipurinn á þessum leikmönnum er sorglegur. Innkoma Jota í gær eyddi ekki áhyggjum mínum svo ekki sé meira sagt. Sú innkoma var áhyggjuefni.

    Þegar það er haft í huga að TAA er að ná sínum fyrri styrk, Robbo hleypur og berst eins og hann sé þindarlaus og miðjan með Fab sem akkeri étur andstæðinginn þar og vörnin heldur, hver er þá ástæðan fyrir vangetu sóknarinnar til að klára leiki. Hafi Klopp svör við þessari spurningu þá vinnum við Leeds en ef hann hefur þau ekki þá er voðinn vís. Ég hefi engin svör en tek undir það sem Lúðvík segir í fyrsta innleggi þess þráðar. “Það þarf að taka til í leikmannahópnum”.

    Eins og þetta horfir við mér núna þá vantar nýjan “playmaker”, nýjan Mané, og miðjumann sem getur skorað mörk. Þar að auki þarf að kaupa miðvörð sem nær máli því þó Nat standi sig framar öllum vonum leik eftir leik þá er hann í bezta falli miðvörður nr. 4 miðað við að Gomes og VvD séu heilir. Kabak er greinilega ekki það púsl sem vantaði í vörnina til þess skortir hann hraða. Það vantar líka hægri bakvörð ef TAA verður færður inn á miðjuna til að verða sá miðjumaður sem getur skorað mörk. Þar með læt ég þessum langhundi lokið og þið getið rifið þessar hugleiðingar mínar í tætlu ef þið viljið.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  19. Mikið af neikvæðni í kringum þennan leik, en við spiluðum nægilega vel til að opna þennan leik þannig að þetta hefði getað fallið með okkur, en það átti bara ekki verða í þetta skiptið.

    Nú er mál að reyna að tryggja CL sætið og svo núllstillum við í sumar, við kveðjum Covid, endalais meiðsli sem munu þurrkast upp og áhorfendaleysi.

    Klopp veit hvað hann þarf að gera og hann er með plön til að breta hlutunum.

    Við komum sterkari til baka.

    YNWA

    8
  20. Undanúrslit í Meistaradeild á auðvitað að vera með 4 bestu liðum í Evrópu og Liverpool er einfaldlega ekki þar á þessum tímapunkti.

    2
  21. Mér sýnist allt stefna í það að Thiago ljúki leik með 0 á skorblaðinu, þ.e. ekkert mark eða stoðsending. Varla eru menn sáttir við það ? Var ekkert skrýtið að Bayern leyfði honum að fara ? Það er alltaf talað um að Klopp og félagar “skáti” leikmenn mjög lengi áður en þeir kaupa þá. Við hefðum miklu frekar átt að kaupa miðjumann sem getur ógnað með langskotum. Thiago hefur einfaldlega verið arfaslakur á þessu tímabili.

    Hugsið ykkur muninn sem Fernandes hefur gert fyrir MU. Hann skorar mikið og það losnar um aðra leikmenn, okkur vantar svipaðan leikmann ( Grealish).

    Ég hef miklar áhyggjur ef við náum ekki CL sæti. Margir leikmenn gætu viljað fara. Kannski er Klopp þannig stjóri að hann á bara að vera max fimm ár með sín lið. Það virðist amk.vera komin mikil þreyta í “gamla bandið”. Verðum bara að vona það besta.

    4
  22. Gaman að þessu,Sigurkarl að verða sammála mér hvað Salah varðar.

    2
  23. Jæja, þetta féll ágætlega fyrir okkur í leik kvöldsins. Er á meðan er…

    5
  24. Og enn eru lukkudísirnar með okkur í liði! West Ham tapaði fyrir Newcastle!

    5
    • Vonandi verða þessar dísir ennþá í okkar liði á mánudagskvöldið!

      3
      • Þetta hlýtur amk. að virka hvetjandi á okkar menn. Trúi ekki öðru. En dj. vantar okkur kapteininn til að orga flokkinn áfram á síðustu metrunum!

        2
  25. Sé í leiknum hjá City og Chelsea núna í bikarnum að FA hefur ákveðið að verðlauna Mike Dean fyrir “góða frammistöðu” í vetur því hann er að dæna. Er þetta grín ???

    1
  26. Þá er Sheffield fallið. Rhian Brewster spilaði 75 mínútur í leiknum og var átakanlega lélegur og áhugalaus. Mikið held ég að Sheffield sjái eftir öllum milljónunum sem þeir borguðu Liverpool fyrir Brewster.

    2
  27. Sælir félagar

    Hvað segja menn um Patson Daka sem hefur skorað og skorað í Austurísku Bundesligunni?

    Nei bara spyr.

    Það er nú þannig

    YNWA

    • Harry Kane er sennilega besti kosturinn Sig Karl.Hann er heimsklassa nía sem skorar mikið og svo er hann líka óforskammaður og hikar ekki við að láta sig detta til að ná í vítaspurnu og kemst upp með það nánast alltaf.En ég þykjist nú vita að hann sé of dýr fyrir Liverpool sem er stófurðulegt þar sem liðið er fimmta ríkasta lið í heimi.

      3
  28. Það er ekkert furðulegt Tommi. Mælikvarði yfir ríkustu fèlögin nær ekki yfir olíufótboltafèlög sem fá skyndilegt innflæði þegar það hentar. Þessi félög eyðileggja svo leikmannamarkaðinn fyrir heilbrigð félög.

    2
  29. Þessi leikur súmmaði upp vandræði okkar, sérstaklega á anfield.
    Hvað segir að eitthvað breytist á næsta tímabili?

    1

Liðið gegn Real Madrid

Upphitun: Leedsarar heimsóttir á mánudagskvöldi