Liverpool 2-1 Aston Villa

Liverpool vann í dag mikilvægan sigur í baráttunni um Meistaradeildarsæti þegar liðið vann Aston Villa 2-1 í skringilega sjaldgæfum sigri á Anfield. Klopp gerði tvær breytingar frá tapleiknum gegn Real Madrid en Mane og Keita settust á bekkinn fyrir þá Firmino og Milner.

Liverpool var nú töluvert betra liðið allt frá upphafi leiks. Stjórnaði leiknum, áttu nokkur ágætis færi og svona öllu jafna hefði maðu sagt að það væri bara tímaspursmál hvenær Liverpool myndi skora. Við búum hins vegar ekki lengur á þannig tímum svo hver sókn sem fór forgörðum gerði mann alltaf meira og meira stressaðan. Liverpool lendir svo undir gegn gangi leiksins þegar Ollie Watkins kom Aston Villa yfir eftir vandræðagang í vörn Liverpool og skot sem Alisson hefði átt að verja.

Í raun brást Liverpool ágætlega við því og jafnaði metin þegar Firmino skoraði af stuttu færi en það var svo dæmt af í enn einu VAR sirkus atriðinu svo gestirnir leiddu inn í hálfleikinn. Klopp hélt óbreyttu liði inn á vellinum í síðari hálfleik og Liverpool hélt áfram að stjórna leiknum en var ekki alveg að ná að skapa sér eins mikið og það gerði svona fyrri part leiksins.

Það var svo Mo Salah, en ekki hvað, sem skallaði boltann inn af stuttu færi eftr skot Robertson sem var varið. Fín skyndisókn Liverpool og 19.deildarmark Salah komið. Hann er hársbreidd frá því að vera kominn með þrjátíu í öllum keppnum í vetur sem er virkilega impressive í frekar bitlausu Liverpool-liði.

Mér fannst Klopp og Liverpool nýta momentin eftir markið frekar illa. Ég hefði viljað sjá þá gera skiptingu og fórna jafnvel bæði Milner og Wijnaldum út af fyrir Thiago og Mane en það var ekki gert og momentumið tók að fjara aðeins út og Aston Villa komst aðeins meira aftur í leikinn og fóru sjálfir að sækja. Til að mynda átti leikmaður þeirra skot í innanverða stöngina, náði sjálfur frákastinu og boltinn framhjá. Liverpool skrapp heldur betur með skrekkinn þar.

Klopp setti Thiago inn á fyrir Wijnaldum sem var ágætis skipting þannig lagað en á þeim tíma breyttist ekki mikið í leiknum, hann tók svo Firmino út af fyrir Mane sem mér fannst eiginlega bara gera hlutina verri og Mane náði aldrei að mér fannst takti við leikinn. Rétt undir lok venjulegs leiktíma tók Klopp Kabak út af fyrir Shaqiri og þá fóru hlutirnir að gerast. Svissneski fermeterinn fékk boltann á hægri vængnum, lyfti honum með hægri fæti inn í boxið og á Thiago sem á skot af stuttu færi sem var vel varið út í teiginn. Boltinn barst fyrir Trent í teignum sem þrumaði boltanum í netið í uppbótartíma. Geggjað mark og geggjaður sigur í ansi þéttri baráttu um Meistaradeildarsæti.

Salah og Jota eru yfirburðarsóknarmenn í þessu Liverpool liði og mér fannst það sjást í dag. Þeir voru kannski ekki upp á sitt allra, allra besta en það var ógn af þeim og þeir áttu nokkur góð moment og hefðu báðir getað og átt að skora í dag fannst mér. Firmino átti góðan leik og sýndi ágætlega hve mikilvægur hann er í þessu liði þó hann sé ekki upp á sitt besta í vetur.

Fabinho var sterkur á miðjunni eins og yfirleitt alltaf og Gini og Milner fínir en manni finnst þeir geta og eiga að geta gert betur, þá sérstaklega Gini. Trent skoraði gott mark en hefur átt betri leiki. Kabak fannst mér hafa getað gert betur í markinu en átti annars fín moment, Nat Phillips átti fínan leik og enn og aftur tapar hann varla skallaboltum.

Ég held ég þurfi samt að gefa Andy Robertson titilinn sem maður leiksins en hann var að mér fannst sá sem stóð hvað mest upp úr. Flottur í vörninni og fór mikinn frammi í sókninni.

Næst er seinni leikurinn gegn Real Madrid þar sem liðið er í ansi óspennandi stöðu eftir fyrri leikinn sem tapaðist 3-1 og eftir það eru eiginlega bara eftir deidlarleikir sem að Liverpool á að vinna ef maður horfir svona á pappírinn. Man Utd á Old Trafford er svona eini leikurinn sem telst stórleikur og er eftir svo maður setur kröfur á þetta lið að þeir safni stigum í þessum leikjum og sjái svo bara til hvar við endum í lok leiktíðar.

Fyrst Real Madrid og Meistaradeildin og vonandi náum við öðru comeback-i gegn spænsku stórveldi á Anfield.

21 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Ég tók ekki þátt í ramakveininu hérna á síðunni – mér fannst liðið einfaldlega vera að spila snarpan og markvissan fótbolta þrátt fyrir mótlæti sprækra andstæðinga og spilltra dómara. Það var aðdáunarvert hvað leikmenn náðu að koma boltanum greiðlega á milli sín og gáfust ekki upp með pressuna þrátt fyrir að ekki gengi alltaf sem skyldi.

    Við hefðum vissulega getað fengið á okkur annað mark þegar þeir skutu í stöngina en á móti kemur að það var algjörlega galið að dæma langþráð mark Firminos af. Það þarf einbeittan brotavilja til að gera svoleiðis.

    Með þessu erum við að nálgast ásættanlegan stað í deildinni og ef liðið spilar GERÓLÍKAN leik en síðast næst er þeir mæta RM þá er aldrei að vita hvað gerist.

    Væri sárabót og björgun ef við við næðum meistaradeildarsæti og kæmumst amk í undanúrslit í CL ég tala nú ekki um meira.

    Hvað leikmenn varðar þá fannst mér Alisson hafa átt að gera betur í markinu. Miðverðirnir voru annars góðir gegn þrælöflugri sókn andstæðinganna. Robbo spilaði sinn besta leik á árinu og Trent átti nokkrar góðar sendingar áður en þetta sturlaða mark kom frá pilti.

    Fabinho var eins og hringtorgin í kópavoginum – stöðugt að hægja á umferð úr andstæðri átt. Furðugóð innkoma hjá Shaq sem átti sinn þátt í að halda sókninni lifandi þarna þegar markið kom. Salah og Firmino skoruðu báðir sem er auðvitað það sem við viljum fá frá sóknarmönnum og Jota átti marga snilldarspretti.

    27
  2. Fátt við fyrst komment að bæta. Frábær sigur. En þessi línutækni, teiknuð og skoðuð á ská eins og af smákrökkum sem hafa engan skilning á sjónarhorni og afstöðu – þetta er svo dapurt að það er hvort tveggja grátlegt og hlægilegt. Vafinn á því hvort um rangstöðu hafi verið að ræða var margfaldur. Kom leikmaður Villa fyrst við boltann? Var þumallinn á Jota fyrir innan? Þyrfti ekki myndavélar ofan við víta-bogann sitt hvorum meginn á vellinum ef séns ætti að vera á að teikna þetta rétt þegar svo mjótt er á munum? Osfrv. Í þriðja lagi er ekkert samræmi í því hvort framrétt hönd er dæmd rangstæð eður ei. Þessi smáatriði og ósamræðið í VAR-dómgæslu á milli leikja setja öll liðin í 2.-7. sæti í skrítið stigahringl því röðin gæti hæglega verið allt önnur og taflan með öðru móti en raunin er. Örlitlu munaði að þetta kostaði okkar menn dýrt í dag.

    En hvað um það. Fjórða sæti (amk tímabundið) og tímabilið langt frá því að vera búið. YNWA

    11
      • Ég var VAR-maður en ekki lengur. Sorry, þetta er ónýtt svona.

        4
  3. Frábær endurkoma og baráttusigur!

    Geri ráð fyrir að “þeir sömu” telji Klopp kominn á endastöð eftir daginn í dag!

    4
  4. West Ham – Leicester – Man Utd – Tottenham. Tvo þrjú eða fjögur af þessum liðum munu tapa stigum í þessari umferð þannig þessi helgi er strax orðinn góð.

    Nenni ekki að bögga mig á Alisson eða VAR eftir sigurleik.

    Góða helgi Púlarar.

    15
  5. Rosalega var fallegt að sjá þetta skot frá Trent í markinu og ekkert sem að VAR gat gert í því marki þó að þeir hefðu reynt, það er skelfilegt hvernig bretinn misnotar þetta kerfi til að skemma fótboltann.
    Ég hélt í upphafi að þetta ætti að nota í þeim tilvikum sem að dómarinn eða hans aðstoðarmenn gerðu mistók en ekki reynt allt sem hægt er til að teikna upp hluti til að reyna að dæma brot eða rangstöður.

    En þetta hafðist á endanum og fáranlega mikilvæg 3 stig í þessari baráttu um 4 sætið og ætti að peppa leikmenn upp fyrir Real Madrid leikinn.
    Ég skil samt ekki af hverju Milner fékk að spila allan leikinn, mér fannst hann slakastur af miðjumönnum liðsins og hefði viljað fá Shaqiri eða Keita inn fyrir hann.

  6. Er sammála Lúðvík, rangstöðudómurinn var ætlað skemdarverk á marki okkar manna. En 3ja stiga sigur á Anfield, sem er gott veganesti fyrir leikinn gegn RM. Mér fannst okkar menn virkilega verðskulda þennan sigur, sama hvað aðrir segja.

    YNWA

    11
  7. Loksins loksins, góður sigur á ólseigu varnar liði.
    EN, frammistaðan langt frá því að vera góð, allt of margar sendingar lélegar, sérstaklega á lykilaugnablikum.
    Nat Phillips maður leiksins, hvað vann hann eiginlega mörg skallaeinvígi?

    5
    • Mér fannst þetta nú bara mjög góð frammistaða og fyllilega verðskuldað. Báráttan til fyrirmyndar. Hættum að tala liðið niður

      7
  8. VAR eins og því var beitt í þessum leik (og svo ótal mörgum öðrum) er ónýtt fyrirbæri. Trúi því ekki að FA fari með þetta fyrirkomulag óbreytt inn í næstu leiktíð. Sölvi er algjörlega með þetta.

    1
  9. Það var ekki gefist upp og maður er ánægður að sjá það..var farinn að sætta sig við stigið en þetta var aldrei búið.
    Það er enn von um að enda þetta tímabil í top 4 sem er ánægjulegt meðað við hversu hrikalega erfitt þetta tímabil hefur verið!

    YNWA

    6
  10. Sælir félagar

    þéssi sigur var nauðsynlegur og líka verðskuldaður gegn erfiðu liði. Ekki allir að eiga góðan leik en allir áttu góða kafla í leiknum. Mér finnst dálítið vanta uppá að Alisson sé að taka ær lykilvörslur sem hann gerði svo oft í fyrra en ég nenni ekki að ergja mig á því eftir sigurleik. Annars mundi ég hafa einkunnagjöfina svona:

    Alisson 6 vitna í það sem ég segi hér að ofan.
    TAA 6 Tapar oft boltanum á hættulegum stöðum og virðist vera dálítið pirraður en markið var glæsilegt
    Phillips 8 maður leiksins líklega
    Kabak 7 Gerði ekki afdrífrík mistök en samt markið sem þeir eiga hann og Alisson
    Robbo 8 gerir líka tilkall í mann leiksins og mikið assgoti er ég feginn að hann spilaði þennan leik
    Fab 7 gríðarlega traustur leikmaður
    Gini 5 algerlega sóknarheftur og seinn – spilið stoppar anzi oft á honum
    Milner 6 dugnaðurinn er magnaður í gamla
    Jota 7 væri ef til vill betri að koma inná á 60 mín og sprengja af sér varnarmenn sem er farnir lýast
    Firmino 7 afar mikilvægur fyrir liðið og það eru margir sem átta sig ekki á því.
    Salah 8 kemur líka til greina sem maður leiksins og fær þann titil frá ,mér því hann er gífurlega mikilvægur maður og liðið líklega í fallsæti ef hans nyti ekki við

    Það er nú þannig

    YNWA

    9
  11. Ég verð að nefna að enskir dómarar eru einfaldlega hræðilegir upp til hópa. Meiðslin hjá Villa og skiptingarnar voru langt yfir 5 mínútum. Ruglið með VAR hjá þeim og oft fáránlegt ósamræmi er eitt en að geta ekki tekið fokking tímann er algjörlega ófyrirgefanlegt. Sem betur fer skoraði Trent frekar fljótlega eftir 90 mínútur en ég held að flestir sem halda með Liverpool hafi hugsað að við þurfum réttan uppbótartíma.

    7
  12. Alisson 5 – Átti að gera betur í markinu en hafði annas lítað að gera.
    Trent 7 – Stórglæsilegt sigurmark en átti í smá vandræðum varnarlega en hættulegur sóknarlega.
    Phillips 8 – Átti mjög góðan leik. Kóngurinn í loftinu.
    Kabak 6 – Virkar ótrúlega hægur og ekki góður með boltan í fótunum en leyst nokkrar stöður vel.
    Andy 9 – Mér fannst hann frábær í þessum leik. Upp og niður kanntinn allan leikinn.
    Fabinho 7 – Traustur á miðsvæðinu
    Gini 5 – Átti lélegan leik í tag en hann tapaði boltanum oft auðveldlega.
    Milner 6 – öskraði sína menn áfram sem var mikilvægt en lítil ógn fram á við.
    Jota – 6 Ógnandi en þetta var svona næstum því að ganga hjá honum.
    Firmino 6 – Átti ágætan leik var að tengja við miðjuna og skoraði mark(sem var dæmt af)
    Salah 6 – Fylgdi vel á eftir og skoraði mikilvægt mark en var klaufi að skora ekki í fyrirhálfleik og gera betur úr fjölmörgum góðum stöðum.

    Þetta var ágætur Liverpool leikur. Við vorum betri og fengum fleiri færi og unnum sangjarnan sigur en þetta var eins og svo oft í vetur virkilega erfitt en núna endaði þetta í 3 stigum sem skiptir öllu máli.

    YNWA

    2
    • Sælir félagar

      Á sínum tíma Var Marco van Basten einn allra hættulegasti sóknarmaður heims. Hann skoraði að meðaltali úr tæplega einu af hverjum þremur færum sem hann fékk. Aðrir sóknarmenn voru þar töluvert fyrir neðan. Að gera þá kröfu að Salah skori úr hverju einasta færi sem hann fær er auðvitað bull. Hvenær ætla menn að fara að hætta að gera kröfur til hans sem eru út úr öllu korti og fara að láta hann njóta sannmælis? Nei ég bara spyr.

      Það er nú þannig

      YNWA

      8
      • Var einhver að gera kröfu um að Salah skorar úr öllum færum sem hann fær? Er hann ekki bara með sömu kröfur og aðrir sóknarleikmenn liðsins?
        Fyrir utan að ég held að Salah er sá leikmaður sem fær mest hrós hjá Liverpool á þessu tímabili og hefur ekki verið að fá mikla gagnrýni fyrir sinn leik.

        Mitt álit á Salah er að mér finnst hann frábær leikmaður og hefur stimplað sig inn sem Liverpool goðsögn fyrir sitt framlag til liðsins. Hann er eldfljótur, áræðin og er mjög duglegur að koma sér í færi.
        Það sem mér finnst hann lenda stundum í er að hann algjörlega týnist í sumum leikjum og sérstaklega þegar lið pakka í vörn á móti okkur(hann er ekki sá einni) þar sem hann fær ekki pláss til að hlaupa í og í vetur hefur hann verið í vandræðum með að nýta sér betur stöðurnar 1 á 1 og finnst manni eins og varnarmenn eru farnir að lesa hann betur en oft áður.
        Mo Salah er einn af uppáhalds leikmönum mínum í Liverpool svo að því sé haldið til haga.

        3
  13. Gott að kveða niður grýluna og megi það halda áfram í næstu viku!

    6
  14. Þvílíka baráttanum þetta 4 sæti, vorum í 4 í gær og dettum trúlegast í 8 sæti á morgun.
    En við erum samt að nálgast bæði Leicester og united og mörg af þessum eiga innbirðis leiki eftir.
    Það má ekkert útaf bregða.

    1
    • Reyndar ljóst að Liverpool fer ekki neðar en 6. sætið eftir þessa umferð, gæti farið niður í 7. þegar Everton klárar sinn leik sem liðið á eftir, hvenær svo sem það gerist.

      1
  15. LFC er tryggt með meistaradeildarsæti — ef við vinnum alla leikina sem eftir eru. Við þurfum 15-18 stig af þeim 21 sem eru í boði og eigum þá sætið næsta víst. Vegna innbyrðis leikja og miðað við stigaöflun hinna liðanna (Leicester, Chelsea, West Ham eru helstu keppinautarnir), er líklegt að 67 stig dugi og 70 væru örugglega nóg. Everton og Tottenham eiga einnig séns, en minni.

    Síðan fivethirtyeight.com (https://projects.fivethirtyeight.com/soccer-predictions/premier-league/) er með ágæta líkinda lega lýsingu á þessu.

    Spái. City, ManU, LFC, Chelsea. Held að bæði Leceister og West Ham fari á taugum. Verst af öllu er að við þurfum e.t.v. að treysta á ManU að hirða eitthvað af stigum frá öðrum, nema við vinnum öll stigin.

    Svo er bara að taka léttan 2-0 á miðvikudaginn.

    6

Liðið gegn Aston Villa – Mane á bekknum

Real heimsækja Anfield