Upphitun: Villa mætir á Anfield

Eftir sigur gegn Arsenal í síðustu umferð og úrslitum liða í kringum fjórða sætið er aftur orðinn möguleiki að tryggja Meistaradeildarsæti í gegnum deildina. Liðið er nú þremur stigum frá West Ham sem situr í fjórða sæti eins og er. Á morgun mæta Aston Villa á Anfield, liðin mættust í október í fyrri leik liðanna í stórundarlegum leik í fjórðu umferð deildarinnar þegar Villa menn gjörsamlega gengu frá okkar mönnum og unnu 7-2 sigur á ríkjandi meisturum og var það kannski okkar fyrsta vísbending um það undarlega tímabil sem við vorum að ganga inn í.

Aston Villa hefur átt ágætis tímabil og var lengi með í baráttu um Meistaradeildarsæti, allt þar til Jack Grealish þeirra langbesti leikmaður meiddist en hann hefur misst af síðustu sjö deildarleikjum. Villa menn hafa aðeins náð að sækja átta stig í þessum sjö leikjum án Grealish og er ekki búist við að hann nái leiknum á morgun og gæti jafnvel verið frá í mánuð í viðbót eftir bakslag um síðustu helgi. Ef það reynist rétt er ljóst að Aston Villa er fallið úr allri evrópubaráttu sem hefði getað verið raunveruleg í ár.

Dean Smith þjálfari Aston Villa hefur náð að skapa skemmtilegt lið með áhugaverðum og góðum kaupum síðasta sumar en þeir sóttu meðal annars Emiliano Martinez frá Arsenal sem hefur verið frábær í markinu hjá þeim og tvo stráka úr Championsship deildinni, þá Matty Cash og Ollie Watkins sem hafa báðir reynst happafengur.

Liverpool

Eftir góðan sigur gegn Arsenal um síðustu helgi áttum við afleitan leik gegn Real Madrid í vikunni og komum okkur í ansi erfiða stöðu fyrir seinni leikinn næstkomandi miðvikudag. Liðið er þó nýkomið úr landsleikjahléi þar sem margir leikmenn fengu frí og það eru fjórir dagar milli leikja svo ég tel að við sjáum lítið hvílt milli þessara leikja.

Keita og Trent áttu skelfilegan dag gegn Real í vikunni. Þeir voru langt frá því að vera þeir einu sem áttu vondan dag en flestir voru slakir í vikunni. Keita var skipt útaf í fyrri hálfleik og Trent á stóra sök í fyrstu tveimur mörkum Real. Báðir urðu fyrir kynþáttafordómum á samfélagsmiðlum í kjölfarið og hefur það eignað sér fyrirsagnirnar í vikunni. Umræðan um fordóma í fótbolta er of stór til að taka í upphitun og eins slæmt og það er að lesa um svona árásir á eigin leikmenn, eða á hvern sem er, þá er spurningin einnig hvað Klopp gerir með þá tvo eftir frammistöðuna. Klopp hefur oftar en ekki reynt að gefa mönnum séns á að svara fyrir sig strax í næsta leik og er nokkuð ljóst að Trent fær að byrja en Keita er stærri spurning.

Ætla skjóta á að Keita fái tækifæri til að bæta fyrir leik sinn gegn Real og verði á miðsvæðinu með Fabinho og Thiago. Mane og Firmino hafa báðir verið langt frá sínu besta á tímabilinu og undanfarið hefur það verið Firmino sem hefur vikið þegar Jota kemur inn í liðið en hef það á tilfinningunni að Mane fái sér sæti á bekknum á morgun.

Liverpool hefur ekki unnið heimaleik á Anfield síðan gegn Tottenham 16 desember en síðan þá höfum við spilað níu heimaleiki þar sem sex hafa tapast tvö jafntefli og eini sigurleikurinn var gegn Leipzig og var spilaður í Budapest. Ef Liverpool ætlar sér að komast í Meistaradeildarsæti og hvað þá snúa við eigvíginu gegn Real þá verður gegni liðsins á Anfield að lagast og fyrsta skrefið í þá átt er gegn Villa á morgun.

Spá

Eftir langa þrautagöngu á Anfield held ég að sigurinn komi loks á morgun þegar við vinnum 2-0 þar sem Jota og Salah setja sitt hvort markið.

6 Comments

  1. Ég er sammála um að ég vona að Keita verði aftur í byrjunarliðinu, hann þarf að fá smá spilatíma og eftir að hafa verið tekin snemma útaf í seinasta leik þá væri skelfilegt fyrir hann að fá ekki tækifæri strax til að bæta sig.
    Einnig væri ég til í að sjá Tsimikas eða Milner í vinstri bakvörðinn og gefa Robbo smá hvíld, hann hefur einfaldlega spilað allt of mikið. Svo mætti skella Mane á bekkinn þannug að hann verði öflugur á móti Real.
    Fremstu menn ættu að vera Jota – Firmino – Salah
    Miðjan Keita – Fabinho Shaqiri

    3
  2. Sælir félagar

    Ég er sammála Red að sumu leyti en vil Robbo inná en ekki Tsim og Tiago á miðjuna en ekki Saq. Mér finnst Saq ekki nógu öflugur varnarlega og Tiago er alveg jafn góður sóknarlega. Einnig er Robbo svo fljótur að hann má ekki missa úr bakverðinum. Annars sammála Red og pistilhöfundi.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
    • Finnst þér Thiago jafngóður sóknarlega og Shaqiri ?
      Gaurinn er frábær fótboltamaður en hann hefur hvorki lagt upp né skorað frá því að hann kom frá Bayern.
      Og pælingin min með að setja inn Tsimikas er einfaldlega að gefa Robbo hvíld fyrir Real leikinn.

      3
      • Red

        Já mér finnst það og ástandið á liðinu hefur ekki verið þannig að nokkur maður hafi verið að blómstra svo sem. En Tiago hefur verið að koma æ betur inn í leiki Liverpool eftir því sem spilamennska liðsins hefur batnað og ekki síst eftir að Fab kom fram á miðjuna. Robbo verður eins og aðrir í liðinu að gefa allt sem hann á í þessa síðustu leiki því liðið verður líklega að vinna alla leiki sem eftir eru til að ná meistaradeildarsæti. Sleppa þó ef til vill með eitt jafntefli.

        Það er nú þannig

        YNWA

        1
  3. Það mætti alveg hvíla Mané og Wijnaldum sem hafa verið heillum horfnir undanfarið. Annars bara go LFC.

    Í blíðu og stríðu…..

    3

Real Madrid 3 – Liverpool 1 (Skýrsla uppfærð)

Liðið gegn Aston Villa – Mane á bekknum