Arsenal 0 – 3 Liverpool

Mörkin

0-1 Jota (64. mín.)
0-2 Salah (68 mín.)
0-3 Jota (82 mín.)

Gangur leiksins

Það var örlítið ryðgað Liverpool lið sem hóf leikinn, en var samt síst lakara. Eftir að liðið hafði hrist af sér mesta vetrarfrísdoðann, þá fór spilið að ganga mun betur og færunum fjölgaði. Hættulegasta færi fyrri hálfleiksins féll James Milner í skaut, en þá komst Trent í opið svæði efst í hægra horninu og spændi í átt að marki, en renndi á Milner sem kom á siglingu af miðjunni. Milner tók líklega ekki alveg nógu margar skotæfingar í vetrarfríinu því hann setti boltann framhjá í upplögðu færi. Það voru fleiri færi sem féllu liðinu í skaut, en mest hálffæri þar sem vantaði aðeins upp á síðustu snertingu hjá fremstu þremur.

Fyrri hálfleikur endaði 0-0, og alveg klárt mál að Liverpool var betri aðilinn í hálfleiknum.

Í síðari hálfleik kom svolítið sprækara Arsenal lið inná, en þó án þess að skapa neinn afgerandi usla. En upp úr 60. mínútu kom svo fyrsta skipting okkar manna. Diogo Jota kom inn á fyrir Andy Robertson, Milner datt því niður í vinstri bak og Firmino fór aftar á völlinn, en Jota fór í framlínuna. Við þessa skiptingu var eins og eitthvað smylli saman hjá liðinu. Aðeins þrem mínútum síðar komst Trent í góða stöðu uppi í hægra horni, lagði boltann í fyrsta með góðri fyrirgjöf á markteigshornið fjær þar sem téður Jota beið og afgreiddi boltann í netið með góðum skalla. 0-1, og þarna þekkti maður bæði Trent, Jota, sem og Salah sem hafði lagt boltann á Trent. Aðeins fjórum mínútum síðar vann Liverpool boltann á miðjunni, Fab sendi boltann inn á hægra vítateigshorn þar sem Salah og Gabriel börðust um boltann, Salah hafði betur og kláraði dæmið sjálfur með því að renna boltanum milli fóta Leno. 0-2, og leikurinn langleiðina með að vera búinn, þó maður vissi að mark frá Arsenal gæti alveg sett stöðuna í uppnám. En það voru í staðinn okkar menn sem bættu í og Jota skoraði þriðja markið á 82. mínútu: Trent vann boltann þegar Arsenal voru að byrja uppspil, boltinn barst inn á teig þar sem Mané var við það að missa boltann en Jota kom á siglingu og negldi boltanum í netið og gerði þar með endanlega út um þær litlu vonir sem Arsenal höfðu um að fá eitthvað út úr leiknum. Klopp gat meira að segja gefið Kabak smá pásu og setti Rhys inná, en það breytti engu um það að það kom í raun engin ógn frá Arsenal. Leiknum lauk því með öruggum og sanngjörnum sigri Liverpool, 0-3.

Bestu/verstu menn

Þetta var einn af þessum leikjum þar sem liðið var heilt yfir að spila mjög vel, og erfitt að taka einhvern einn útfyrir sviga. Ég ætla þó að gera það og tilnefna Fabinho sem mann leiksins, en þessi ágætlega lýsandi mynd náðist af honum í hita leiksins:

Ekki það að Jota kæmi alveg til greina í þessari umræðu líka, hann kemur með ferskan blæ inn í sóknina, og það virðist losa um hina sóknarmennina, þó sérstaklega Salah. Trent sýndi líka hvers konar hálfvitagangur það var að velja hann ekki í landsliðið (en takk fyrir að gefa honum pásu Gareth!), lagði upp mark og hans vinnusemi bjó til þriðja markið, auk þess sem hann var mjög öflugur varnarlega. Firmino og Mané áttu frekar erfitt uppdráttar fyrsta klukkutímann, en þegar Firmino færðist niður á miðjuna var hann meira í boltanum og blómstraði þar. Við gætum vel átt eftir að sjá hann meira í því hlutfelli á næstu misserum, þ.e. að vera aftar á vellinum.

Umræðan eftir leik

Þegar Liverpool og Chelsea luku leik fyrir réttum mánuði – þann 4. mars sl. – var útlit fyrir að Liverpool væri endanlega búið að stimpla sig út úr baráttunni um meistaradeildarsæti, og ekki skánaði það eftir tapið gegn Fulham þrem dögum síðar. En síðan þá er Liverpool búið að vinna þrjá leiki, tvo í deild og einn í meistaradeild, og hafa ekki fengið á sig mark. Chelsea aftur á móti töpuðu illa fyrr í dag, og nú er aðeins tveggja stiga munur á þessum liðum. Chelsea eiga þar að auki eftir sæmilegt leikjaprógram, og enda t.d. á að spila við City, Arsenal, Leicester og Villa, auk þess sem liðið mætir West Ham þar á undan. Þetta er því svo langt í frá búið, og það má alveg búast við baráttu milli Chelsea, Liverpool, Tottenham, West Ham og Everton um þetta blessaða 4. sæti allt fram í síðustu umferð.

Klopp, Lijnders og co. munu núna beina athyglinni að leiknum á þriðjudaginn þegar liðið sækir Real Madrid heim. Það er alveg ljóst að menn vilja enda tímabilið eins vel og kostur er, og í augnablikinu þá sér maður smugu á því að tímabilið fari ekki alveg í vaskinn. Það er afar jákvætt að liðið sé farið að vinna leiki, halda hreinu, og það án þess að hafa Henderson. Lykilatriðið að baki þessari velgengi er sjálfsagt það að Fabinho er loksins kominn aftur í sína lang bestu stöðu. Þá eru Nat Phillips og Ozan Kabak að ná upp ágætis samspili, eru hæfilega ólíkir leikmenn til að bakka hvorn annan upp.

Njótum þess að vera búin að fá Liverpool liðið okkar aftur. Njótum þess að sjá Jota funheitan, sjá Salah enn efstan á lista yfir markaskorara deildarinnar, og sjá Trent sýna að hann hefur engu gleymt. Styðjum svo við bakið á okkar mönnum í 8 liða úrslitum meistaradeildarinnar, sem er næsta verkefni!

31 Comments

  1. Nu mélaði ég stórt páskaegg í gleðivímu og skola því niður með bjór, Jota til heiðurs !!

    10
  2. Sæl og blessuð.

    Maður hélt að þetta yrði einn reitaboltaleikurinn þar sem liðið var í dútlinu allan tímann án þess að skapa neitt. Og þannig var það líka fram í seinni hálfleik. Og. Þá. Kom. Joðið. Mmmmama þvílíkur munur á liðinu þegar hann kom: vitur, kaldur, klókur og graður. Ekkert sull í vítateig andstæðinganna, ekki þetta hik, ruglákvarðanir allt þetta sem við höfum séð alltof oft í vetur hjá þrenningunni okkar. Þarna var bara exekútað af fagmennsku.

    Seinna mark Diogos var alveg lýsandi fyrir það hvernig þetta hefur verið. Mané kominn í tóma vitleysu með rangar hreyfingar og ákvarðanir en þá mætir bara okkar maður og sýnir hvernig á að klára hlutina. Seinna fékk Mané tvö suddafæri sem hann nýtti ekki frekar en fyrri daginn.

    Þvílíkur fengur ef verðum með Jota heilan á móti RM. Þá er von. Annars verður þetta ekki gott.

    En þangað til: Geggjað.

    15
  3. Það er alveg smá munur á því að fá Jota inná í staðinn fyrir Origi…

    9
  4. Já þú segir! Ég tók ekki einu sinni eftir því….. það segir ýmislegt!

    1
    • Ekki ég heldur, fyrr en ég sá þetta komment hjá þér. Held að Liverpool sé komið yfir Origi kaflann í sínu lífi.

      4
  5. Gríðarlega mikilvæg 3 stig, liðin í 2 og 4 sæti töpuðu bæði í dag og allt í einu erum við 2 stigum á eftir Chelsea en reyndar eiga West ham og Spurs leiki inni.
    Jota er allt í öllu í sóknarleik Liverpool um þessar mundir, hann skoraði grimmt með landsliðinu og kom þvílíkt öflugur inná í þessum leik.
    Núna þarf að klára Madrid og halda áfram að þjarma að 3-4 sætinu í deildinni.

    Geggjuð úrslit

    8
  6. Svo er annað sem verður að hrósa, Nat Philips og Ozan Kabak hafa spila 4 leiki saman og ekki ennþá fengið á sig mark, ef ég er ekki að fara með rangt mál.
    Trent er að vakna eftir erfitt tímabil og liðið að vaxa í sjálfstrausti.
    Bring on Real Madrid

    16
  7. Geggjaður sigur,
    Geggjað hja Jota, Salah og vörnin sterk

    Arsenal voru lelegir og þa serstaklega i vörninni

    3 stig
    Hrikalega sattur

    6
  8. Fabinho á réttum stað..hvað interceptaði hann marga bolta í kvold ?og svo þessi geggjaða innkoma Jota. Má bara geyma svona mann á bekk?

    13
  9. Sæir félagar

    Íkvöld sáum við þann gamla anda sem við höfum saknað í vetur. Ekkert lið stenst Liverpool snúning þegar það spilar með þessum anda. Eitt af 4 efstu er einfaldlega tryggt ef liðið spilar af þessu krafti og þessu hjarta. Andleg skrímsli sagði Klopp á síðustu leiktíð. Þarna sáum við þau skrímsli taka Arsenal í nefið og allt í sóma. Takk fyrir mig

    Það er nú þannig

    YNWA

    11
  10. Frábært! Hvar værum við án Jota og Salah? Jota búinn að spila mínútur sem jafngilda 8 leikjum og kominn með 8 mörk – og þeir Salah samtals með meira en helming allra okkar marka. Mané ennþá ískaldur en ef hann og aðrir fara að taka sér þessa tvo til fyrirmyndar þá gæti verið gott vor framundan. Annars var liðið í heild bara mjög gott í dag. Fram til sigurs!

    9
  11. Það verður að hrósa öllu liðinu fyrir þennan leik. Þvílíkur munur að vera með miðverði og miðjumenn á sínum stað. Arsenal átti aldrei möguleika í þessum leik. Svo, skJota, þvílík innkoma. Verðum að byggja á þessu, það hlýtur að koma með þessum gjörsigri, sjálfstraustið sem við höfum saknað.

    13
  12. Þessi leikur gat endað sjö eða átta núll. Þvílíkir yfirburðir ! Arsenal menn gáfust bara upp, djöfull væri ég pirraður ef ég væri stuðningsmaður þeirra. Mögnuð frammistaða fyrir leikinn gegn real madrid. Halda þessu áfram plííísssss . Gott að fá hvíld fyrir Trent.

    5
  13. Sammála skýrslunni í meginatriðum.

    Þvílík innkoma hjá portúgalska Fowler, Fabinho var stórkostlegur og ánægjulegt að sjá Trent vera Trent. Þá var Thiago virkilega flottur á köflum.

    Meira svona!

    3
  14. Þvílíkur leikmaður Fabinho.
    Fabinho Kominn á sinn stað þá gengur liðinu betur, svo einfalt er það YNWA

    5
  15. Mikið ryðgað í fyrri hálfleik en liðið vann sig inn í leikinn eftir því sem á hann leið. Samt frekar bitlaust og án Jota hefði þetta getað endað 0-0. Geggjuð innkoma hjá Jota eftir fyrsta markið gáfust Arsenal menn upp fannst mér.

    Fabinho frábær og Firmino goður heilt yfir. Mér finnst Thiago ekki vera komin inn í flæðið og finnst hann enn vera að elta það stundum. Hann var ekkert slakur eða þannig en held það sé meira inni. Kabak óx í þessum leik og er að bæta sig. Líklega hans besta hingað til. Nat er að skila rosalega góðu verki leik eftir leik en er samt ekki nógu góður ef það meikar séns. Ég held því fram að lið með Nat Philips eða Rhys Williams innanborðs hafi afar litla raunhæfa möguleika gegn Real Madrid í tveimur leikjum. Samt fín innkoma hjá Rhys í dag.

    3
  16. Yndislegt alveg.
    Og Grobbelar lúkkið hjá Allison er stórkostlegt ?

    9
  17. Getur eitthver útskýrt fyrir mér ..hvaða kerfi fór Klopp í þegar hann tók Robertson útaf og setti Jota inná ..Firmino fór inná miðsvæðið ? vorum við að spila með 3 manna vörn eða droppaði Milner í vinstri bak ? allavega keep the best for the lastest var klárlega málið innkoma Jota vá maður hversu mikil breyting varð á liðinu við að fá þennan snilling inná !

    4
    • 4-2-3-1 með Fabinho og Thiago í double pivot á miðjunni – þriggja manna línu þar fyrir framan með Mané, Firmino og Salah – og Jota fremstur sem striker.

      6
  18. Takk fyrir þetta og fínar umræður. Eins og venjulega, ef okkar lið getur stillt upp einhverju liði, þá hentar að spila við Arsenal….
    …góð uppstilling
    …sagði hjú við sjálfan mig þegar ég sá Jota á varamannabekknum. Nóg verðu álagið á honum til vors. Vonandi byrjar hann oftar á bekknum enda jú nýstiginn upp úr meiðslum
    …miðjan öryggið uppmálað. Milner hugsaður til að koma með meiri yfirvegun
    …Robertsson er áfram þreyttur enda allsstaðar lykilmaður, Liverpool og skoska landsliðið
    …miðverðir í miðverðinum koma bara fínt út og verða notaðar svo áfram enda engin ástæða til annars
    …TAA aftur eins og alvöru TAA
    …Firmino að frískast
    …Klopp í meira jafnvægi
    …lausnirnar koma án Hendo og VvD
    …nú þarf að fylgja þessum leik eftir og halda auknu sjálfstrausti sem lengst
    Tímabilið er okkar liði vissulega vonbrigði en miðað við gengið hjá MC hefði þurft nánast fullkomið tímabil til hanga í þeim. Sama hvað þá hefði meiðslalaust okkar lið átt í erfiðleikum með slíkt.

    3
  19. Á 84 mín þá kemur Rhys Williams inná fyrir Kabak til að gefa honum smá brake, en hvar er þessi draugur Ben Davis ?
    Sá hann ekki á bekk og ekki á lista yfir meidda leikmenn, er hann bara það lélegur að hann kemst ekki á undan Williams á bekk ?

    1

Liðið gegn Arsenal

Leikir hjá kvennaliðinu og U23