Wolves 0-1 Liverpool

Mörkin

0-1  Diogo Jota 45+2 mín.

Leikurinn

Okkar menn virkuðu hálf taugaóstyrkir í byrjun leiks og áttu erfitt með flæðið í samspilinu með slatta af feilsendingum sem fundu ekki samherja. Taugatitringurinn smitaðist yfir til Alisson í markinu sem missti boltann í blábyrjun leiks og endaði með að skella sjálfur á Semedo sem var í hálffæri í markteignum. Púlarar bjuggustu við hinu versta í formi vondrar VAR-vítaspyrnu en öllum að óvörum þá veifaði dómarinn öllum vítiskröfum frá sér og ekkert VAR endursýnt.

Úlfarnir voru áfram beittir og Adama Traore átti skot stuttu síðar sem Alisson var öllu öruggari með en á upphafsmínútunum. Liverpool náði þó undir sig fótunum og á 13.mín þá fékk Mané stungusendingu inn fyrir vörnina og var einn á móti markverði. Senegalinn náði ekki að spila sig framhjá Patricio í markinu til að leggja boltann í netið og færið fór forgörðum. Úlfarnir voru þó áfram hættulegri aðilinn, meira með boltann og beittu skeinuhættulegum skyndisóknum þegar gestirnir gerðu mistök.

Leikurinn jafnaðist þó þegar leið á fyrri hálfleikinn og Púlarar settu góðan kraft í lokakaflann. Fallegt samspil á hægri vængnum á 39.mín endaði með fyrirgjöf frá Trent á stunguskalla frá hinum líflega Mané en fastur skallinn fór rétt framhjá nærstönginni. Neves ógnaði þó í tvígang stuttu síðar og fyrst með fastri aukaspyrnu en síðar með föstu skoti í teignum sem fór vel framhjá þrátt fyrir góða stöðu.

Liverpool stálu þó hálfleiknum á lokamínútum hans þegar að Jota refsaði sínum fyrrum liðsfélögum grimmilega rétt fyrir tetímann. Nett samspil þróaðist í flotta flikksendingu Mané til Diogo sem tók boltann utanfótar með vinstri fæti og spyrnti boltanum með grasinu út við nærstöngina. Þetta var fyrsta skot Liverpool á markið í fyrri hálfleik og Rui Patricio réð ekki við markvissa spyrnu samlanda síns og fyrrum samherja.

0-1 fyrir Liverpool í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu betur eftir hálfleiksræðurnar og á 49.mín fékk fyrirliði Úlfanna og fyrrum Liverpool-leikmaðurinn uppaldi, Conor Coady, hættulegt skallafæri í teignum sem hann hefði átt að gera betur með en setti framhjá markrammanum. Leikar jöfnuðust eftir það en aftur færðist eldur í glæðurnar um miðbik hálfleiksins er hinn öflugi Traore hélt áfram að herja á vörn Rauða hersins og Alisson gerði vel að blaka burt stórhættulegri fyrirgjöf.

Mínútu síðar vildu heimamenn að nýju fá vítaspyrnu er Trent lagði hraustlega útrétta hönd á Moutinho innan teigsins sem endaði með fagmannlegu falli hins skortvaxna en skotvissa sparksnillings. Craig Pawson dómari framkvæmdi eðlisfræðilega útreikning á hversu mörg Newton af afli ungur Scouser þarf að beita til að fella hálffertugan hobbita frá Portúgal og niðurstaðan var skortur á ólöglegu kíló-Joule magni af handafli. Engin vítaspyrna og VAR-dómararnir sallarólegir með popp og kók að horfa á góða VHS-spólu.

Á 80.mínútu fékk Salah séns til að klára leikinn en verri hægri fóturinn brást og Jota reyndi einnig við náðarhöggið en Patricio hinn portúgalski var vel á verði í báðum færum. Stuttu síðar héldu Púlarar að hið langþráða seinna mark væri komið er Salah kláraði vel færi sem Oxlade-Chamberlain lagði upp fyrir hann en rangstaða var réttilega flögguð.

Eftir lá þó markvörðurinn Rui Patricio óvígur án þess að sjónvarpsáhorfendur hefðu hugmynd um hvað hefði gerst en ljóst var að leikmaðurinn var illa haldinn og langt aðhlynningarhlé tók við. Af orðrómi var það að fregna að hnéð á Conor Coady hefði farið í höfuð markmannsins en fyrstu fréttir eftir leik voru þær að leikmaðurinn væri með meðvitund og yrði í lagi. Vonir okkar Púlara og hugur stendur að sjálfsögðu með Rui Patricio og heilsu hans.

Leikur var loks flautaður á að nýju í kringum hundruðustu mínútu með sjö viðbættum uppbótarmínútum til að fylla í skarð eftirlifandi leiktíma fyrir sjúkrahléið. Það var varla að leikmenn langaði að spila þessar síðustu mínútur til að byrja með í ljósi óhugnalegra meiðsla Patricio en á lokamínútunum hefði bæði Salah geta skorað seinna mark rauðliða eða mýmargar fyrirgjafir heimamanna uppskorið síðbúið jöfnunarmark. En markaskorun kvöldins var lokið með kærkomnum sigri Liverpool.

0-1 sigur Liverpool.

Tölfræðin

Viðtalið

Bestu menn

Þetta var enginn yfirburðarsigur gegn góðu liði Wolves og liðið þurfti að grafa niður í varaforða af seiglu og úthaldi til að landa þremur stigum í kvöld. Mané var mjög líflegur og setti mikinn kraft í sína frammistöðu sem minnti á síðasta tímabil en fyrir utan stoðsendinguna voru honum mislagðar fætur með markaskorun. Diogo Jota var einnig beinskeyttur með gott mark gegn sínum fyrri félögum og hans hefur verið saknað í vonda kaflanum síðustu mánuði.

Thiago var mikið í mynd fyrir blöndu af góðum töktum og misgóðum, en hann setti klárlega sitt mark á leikinn með nokkrum gullsendingum og góðum varnarstoppum sem skyldu eftir marglita marbletti í andstæðingnum.  Fabinho var flottur og fastur fyrir í sinni réttu stöðu og áhugavert verður að sjá miðjuspilið þróast í framhaldinu.

Hafsentaparið Kabak og Phillips héldu áfram að halda hreinu blaði (ekki bölvuðu laki) og engin mörk skrifuð á þeirra samstarf í annan leikinn í röð (samtals þrír sigurleikir án marks fengið á sig). Sérlega jákvætt að halda hreinu þó að vissulega væri ekki sama yfirburðar yfirvegun yfir varnarleiknum og hjá Virgil van Dijk.

Að mínu mati þá var Nat Phillips maður leiksins með sinni frammistöðu og algerlega á útopnu í að bjarga á síðustu stundu hinum fjöldamörgu fyrirgjöfum og færum sem Wolves herjuðu á okkur. Sem hafsent nr.7 eða nr.8 inn í vörnina og líklega átti að hálfpartinn gefa hann frá félaginu síðasta sumar að þá er hann að gera ótrúlega góða hluti fyrir félagið þegar við þurfum heldur betur á því að halda. Taktu MOTM-heiður dagsins Nat Phillips.

Vondur dagur

Margir leikmenn Liverpool hafa átt betri leikdag heldur en í dag en það voru engar skandal-frammistöður og þetta hékk í lagi og dugði til sigurs. Salah var t.d. ekki upp á sitt heimsklassa besta en ég man eftir nokkrum varnarsprettum hans þar sem Egyptinn gaf sitt ýtrasta fyrir málstaðinn og það sama var gegnumgangandi hjá öllum leikmönnum yfir leikinn. Liðið vildi sigra þennan leik og allir leikmenn gáfu sig af heilu hjarta fyrir málstaðinn.

Umræðan

Gleðjist Púlarar, gleðjist. Efstu sætin, æðstu verðlaunin og stanslausir sigrar eru engin Fowlersgefin réttindi fyrir Liverpool eða önnur lið. Við bjuggumst ekki við því að vera dregnir niður á jörðina úr draumaheimi svona skjótt en svona er fótboltinn. Sérlega fyrir klúbb sem lifir innan ramma þess að vinna sér inn fyrir sinni eigin velgengni og kaupir sig ekki fremst í röðina fyrir illa fengið fé.

Sigrarnir og titlarnir eru bara þeim mun sætari hvenær sem þeir auðnast okkur. Tökum stöðu okkar með auðmýkt frekar en argaþrasi, stöndum saman í sigrum sem töpum og vonum það besta það sem eftir lifir tímabili. Og njótum þess að horfa á tímamótalið undir stjórn keisara Klopp berjast gegn mótlætinu og vonandi bjarga tímabilinu með glæsibrag. Nóg eftir. Njótið.

YNWA

32 Comments

 1. Virkilega sterkur sigur sem gefur góðar vonir um framhaldið! Hvíld núna og koma sterkir til baka!

  YNWA

  7
 2. Frábær sigur á móti erfiðu Wolves liði sem eru virkilega hættulegir, 3 stig í hús og vonandi byggjum við á þessu og förum að klifra upp töfluna.
  Gott að fara í hlé með sigri og lykilmenn fá smá hvíld núna.

  4
 3. Hæhæ

  Þetta var kærkominn sigur. Ég var samt langt frá því að vera heillaður af miðjunni hjá okkar mönnum. Feilsendingar, þeir óður oft í gegn en þeir eru ekki með beitta sókn og það bjargaði okkur. Á betri degi hefðum við bætt við marki eða mörkum en svona er þetta tímabil bara.

  Ótrúlega gott að vera komin með Jota. Hefði Firmino skorað í þessu óstuði sem hrjári hann þessa mánuðina?

  3
 4. Mikilvægur sigur og hreint lak.

  Maður leiksins: Nat Phillips. Frábær.

  8
 5. Já… hvaðan fundu þeir þennan dómara. Þetta hafa verið einhver mistök hjá PL genginu. Hann dæmdi raunverulega okkur í vil! Ekkert víti þegar úlfurinn lyppaðist niður undan Trent og vafaatriðin lágu merkilega oft okkar megin!

  6
  • Alvöru baráttu leikur vorum ekki fullkomnir en allt annað að sjá liðið en þessi dómari alls ekki góður alveg til skammar en þetta gátum við hell yeah let’s go!

   1
 6. Sterkur sigur á góðu liði Wolves, vonandi er Rui ekki alvarlega meiddur. Guð minn góður hvað það munar mikið um að hafa Fab þarna fyrir framan ótrygga og ó samstillta vörn okkar. Hann er svo magnaður, gaman að sjá Ox sprækann líka, og Keita. Tíminn vinnur með okkur fram að næsta leik og vonandi fara ekki margir leikmenn í landsleiki.

  4
 7. ,,Great news, Wolves boss Nuno Espirito Santo says Rui Patricio is fine. They have spoken and he remembers the incident.” frá BBC leikþræðinum.

  Afskaplega gott að lesa.

  18
 8. 2 sigurleikir í röð og bæði skiptin haldið hreinu og bæði skiptin með sama lið, þetta kallast sko stöðugleiki 🙂
  Nat Philips og Fabinho frábærir í kvöld, aðrir voru ekki sannfærandi en unnum samt.
  Það er alveg fáranlegt hvað liðið verður öruggara með Fab þarna á miðjunni en mikið væri ég til í að hafa Hendo þarna í staðinn fyrir Thiago.

  5
 9. Sælir félagar

  Ég tek þessum 3 stigum þó ekki hafi verið mikill glans yfir þessum sigri. Hvert einasta stig telur og Liverpool þarf helst að vinna alla leiki sem þeir eiga eftir til að eiga séns í meistaradeildasæti.

  Það er nú þannig

  YNWA

  12
 10. Klopp loksins farinn að treysta Nat Philips og þo fyrr hefði verið. Fabinho blomstrar i rettri stoðu. Jota er svo auðvitað mun mikilvægari en Firmino sem var alveg orðinn utangatta.

  5
 11. Þeir félagar Kabak og Philips hafa spilað saman 3 leiki núna sem hafa allir unnist og ekki ennþá fengið á sig mark.

  14
 12. Við erum ennþá í keppninni um fjórða sætið. Það er gott. Þokkalega spilaður leikur þó flestir séu að spila undir pari.

  Fabinho er minn maður leiksins. Hvað það voru nú góð kaup kaupin á þeim manni. 40m pundum vel varið sumarið 2018.

  Thiago á hinsvegar alveg eftir að sanna sig hjá Liverpool. Ég ætla að gefa honum það, að það er erfitt í liði sem er alveg í ruglinu. Hann er kannski ekkert verri en aðrir þarna, en ég væri alveg til í að sjá meira frá honum. Ágætt að minna sig á hann kosataði 20m pund.
  Klopp hefur ekki fengið neitt rosalega mikið af pening frá FSG í leikmannakaup miðað við ótrúlegan árangur.

  Þessi leikur gaf manni smá von, ásamt öðrum úrslitum um helgina, vona leikmenn finni fyrir því líka.

  Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!

  3
 13. Að minu mati hörmung,allt uppspil hægt og fyrisjáanlegt og Shala og Mane virkilega daprir minna mig á batta á snookerborði.

  4
  • Viðar er ekki allt í lagi að líta á björtu hliðarnar þegar 3 stig koma. Góð lið vinna nefnilega líka leikina sem eru ekkert sérlega vel spilaðir.

   3
   • Sumir eru aldrei ánægðir, það eru ekkert öll lið sem fara á þennan völl og taka 3 stig og hvað þá lið sem hafa verið að ströggla eins og Liverpool hafa verið að gera undanfarna mánuði í deildinni.
    Við erum að endurheimta leikmenn úr meiðslum og liðið er að ná vopnum sínum og þá þarf stundum að grinda úr mikilvæga sigra og það er það sem við gerðum og það má vel byggja á þessari frammistöðu.
    Það er ekki langt í 4 sætið og nóg af stigum í pottinum.

    3
 14. “Craig Pawson dómari framkvæmdi eðlisfræðilega útreikning á hversu mörg Newton af afli ungur Scouser þarf að beita til að fella hálffertugan hobbita frá Portúgal og niðurstaðan var skortur á ólöglegu kíló-Joule magni af handafli. Engin vítaspyrna og VAR-dómararnir sallarólegir með popp og kók að horfa á góða VHS-spólu.”

  Hahahahaha algerlega stórkostleg lesning 🙂

  Góður sigur og kærkomin 3 stig í húsi, ekki fallegustu stigin en sannarlega sæt.

  YNWA.

  9
 15. Er ekki réttara að fagna þessum úrslitum og þremur stigum. Ég hef séð allt of marga svona leiki í vetur enda á hinn veginn til að geta verið óánægður með leikinn. Auðvitað gat liðið spilað betur og auðvitað áttum við að skora fleiri mörk en það var frábært að sjá að Herr Klopp hefur með ákvörðunum sínum að kippa Salah út snemma í síðustu leikjum barið það inní hausinn á honum að hann verður að sinna varnarvinnunni líka eins og aðrir í liðinu, hversu oft í leiknum sá maður Salah á fullu til baka sem hefur verið allt of sjaldséð sjón í vetur. Finnst eins og Curtis Jones hefði getað bætt miðsvæðis í seinni hálfleik þegar Thiago var auðsjáanlega orðinn þreyttur og hægur. Ekkert hægt að kvarta yfir vörninni af neinu viti og Nat Phillips virkar í mjög góðu standi og Kabak alls ekki slæmur og virðist hafa þokkalegan hraða. Við kölluðum eftir úrslitum úr leiknum og fyrir mér er sigur miðað við stöðuna í deildinni það sem öllu máli skiptir frekar en einhver frábær spilamennska út á velli sem oftar en ekki hefur litlu skilað í þ m. frá síðustu jólum. Keep on rocking.

  3
 16. Takk fyrir góða leikskýrslu.
  Var ánægður að sjá hvað Uxinn kom sterkur inn í þennan leik.
  Myndi vilja sjá meira af honum.

  5
 17. Ozan Kabak Man of the Match, ekki spurning, frábær leikur hjá þessum unga strák, hann er greinilega með Liverpool hjarta

  2
 18. Frábært að sjá okkar menn sigla þessu í höfn, var city ekki eina liðið sem hafði siglt sigri í höfn á þessu ári eða eitthvað svoleiðis? (Nenni ekki að fact checka).
  Að sjá miðvarðarparið spila enn einn leikinn saman er frábært og fab er okkar besti maður.
  Ég skil þó ekki þá sem sjá hvað thiago er að gera mikið. Wijnaldum týnist endrum og sinnum en thiago ekki. Mín draumamiðja er thiago fab og hendo, vonandi fæ ég að sjá það.
  Stór sigur og ætti að vera boost. Þótt Mané og Salah séu ekki á skotskónum, er Jota alltaf líklegur, oft uppúr þurru. Því miður mun ég ekki skilja ef jota missir sætið þegar bobbý snýr aftur, vona að hann haldi sæti sínu.
  Nú er bara að vona!

  2
 19. Mjög góður sigur gegn sterkum Úlfum.
  Það er ótrúlegt hvað allt varð öruggara með komu Fabinho. Það sáust ýmis klaufamistök sem við sluppum með (Alison, Trent, Phillips, Thiago – en þeir sýndu líka fína takta).
  Ekki falllegasti leikurinn, en þannig leikir þurfa að vinnast líka.

  2
 20. Sælir félagar

  Ég átti von á hlaðverpi í gær kvöld en ekkert gerðist og vonbrigðin voru mælanleg. Kemur líklega í kvöld vona ég. 😉

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
  • Átti von á því sama, en hugsaði þá að sennilega yrði teygt á því þar til eftir dráttinn í CL. Þíðir ekkert að ræða eingöngu sigra:), þó maður fái aldrei leið á þannig umfjöllun, sérstaklega í covid.

   YNWA

   2
 21. Ánægður með að Southgate hafi ekki varið Trent í hópinn. Þá ekki bara vegna þess að það komi Liverpool liðinu vel, heldur er þettta það “wake up call” sem Trent sjálfur þarf á að halda og staðfesting á því hversu slappur hann hefur verið undanfarið.

  Á meðan City borgar 60m fyrir Cancelo sem í upphafi var backup, þá erum við með Neco Williams, sem gerir það að verkum að Trent er með áskrift að byrjunarliðssæti sem gæti líklega skýrt hversu áhugalaus , einbeitningarlaus og lélegur hann hefur verið í vetur.

  3
  • Sammála með Trent, hefur varla verið skugginn af sjálfum sem en er ekki langt síðan Liverpool átti engan fulltrúa í enska landsliðinu? Það er varla góð þróun?

 22. Síðuhaldarar hefðu átt að henda í einn Meistaradeildarþráð en líklegast eins og hjá Liverpool……… einhver meiðsli í gangi! :O)

  Annars er mér nokk sama hverja við fáum ………. allt nema City. Við eigum 50/50 möguleika í öll hin liðin!

 23. Virkilega sáttur með þennan drátt, fáum Real Madrid og ef við vinnum þá mætum við Porto eða Chelsea.
  Fínt að losna við City, Bayern og PSG

  5

Byrjunarliðið vs. Wolverhampton Wanderers á Molineux

Real í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar