Kvennaliðið fær Coventry í heimsókn

Það er komið að deildarleik númer 16 hjá kvennaliði Liverpool á þessari leiktíð, og andstæðingurinn er að þessu sinni Coventry United. Þær sitja í næstneðsta sæti deildarinnar með 10 stig eftir 15 leiki, en okkar konur eru jafnar Sheffield í 3.-4. sæti með 28 stig en með ögn lakara markahlutfall. Durham og Leicester eru efst og jöfn með 38 stig, og úr þessu er spurningin einna helst hvort þeirra kemst upp um deild í vor (innbyrðis leikur þeirra sem nú er í gangi gæti haft mikið um það að segja, en staðan er 0-0 í hálfleik). Líkurnar á því að bæði Durham og Leicester gefi nægilega eftir á lokasprettinum eru því miður bara ekki nógu miklar.

Liðið spilaði við Crystal Palace á útivelli fyrir viku síðan og vann góðan 0-1 sigur, það var fyrirliðinn Niamh Fahey sem skoraði eftir hornspyrnu frá Bo Kearns. Sjá má helstu atriði úr þeim leik t.d. hér.

Liðið sem labbar út á Prenton Park völlinn núna á eftir verður svona skipað:

Laws

Roberts – Fahey – Moore – Hinds

Jane – Bailey – Holland

Kearns – Linnett – Hodson

Bekkur: Foster, Robe, Thestrup, Lawley, Lawley, Furness, Rodgers, Brough, Parry

Svipað lið og Whiteley hefur verið að stilla upp í síðustu leikjum, Lawley og Furness eru á bekknum en hafa svo verið að koma sterkar inn í síðari hálfleik.

Leikurinn er sýndur beint á YouTube, Facebook, Twitter og á heimasíðu LFC.

3 Comments

  1. 2-0 í hálfleik eftir að Niamh Fahey skoraði eftir horn frá Missy Bo Kearns (eða Bo Salah eins og sumir kalla hana víst…) rétt eins og í síðustu viku, og Becky Jane bætti svo öðru marki við mínútu síðar.

    Greinilegt að það eru batamerki á leik liðsins í síðustu leikjum. Amber Whiteley er líka búin að rótera aðeins í uppstillingunni: Rhiannon Roberts er í hægri bak á meðan Becky Jane er þá á hægri kanti og fær meira leyfi til að vaða fram, eins og hefur borið ávöxt í undanförnum leikjum. Bo Kearns líka að blómstra núna þegar hún fær traust til að byrja leik eftir leik.

    1
  2. Lokaniðurstaðan varð 5-0 sigur eftir 3 mörk í seinni hálfleik frá Ceri Holland, Niamh Fahey (aftur stoðsending frá Bo), og að lokum mark frá Melissu Lawley en hún var einn 5 leikmanna sem kom inná í síðari hálfleik: Lawley, Amy Rodgers, Rachel Furness, Amalie Thestrup og Leighanne Robe komu allar inná. Liðið vinnur hægt og rólega í því að bæta markahlutfallið.

    4
  3. Þakka þér Daníel fyrir að hjálpa okkur að fylgjast með kvennaliðinu, þú átt hrós skilið og endilega haltu þessu áfram.

Liverpool – Leipzig

Heimsókn til Úlfana annað kvöld