Fulham á Anfield

“If you can’t support us when we lose or draw, don’t support us when we win”
– Bill Shankly

Það er auðvelt að vera stuðningsmaður knattspyrnufélags þegar vel gengur. Og þá getur verið auðvelt að gleyma því að velgengnin kemur ekki af sjálfu sér. Á þetta höfum við verið rækilega minnt á síðustu vikum. Við höfum líka verið minnt á það að þó við stillum upp 11 góðum knattspyrnumönnum – jafnvel mörgum af þeim allrabestu – þá er það eitt og sér ekki endilega nóg til að vinna knattspyrnuleiki. Undirritaður er á því að vandamálið sé margþætt, og að undirliggjandi vandamál númer 1, 2 og 3 sé andlegs eðlis, en það hefur núna á síðustu vikum skilað sér í því að liðinu virðist fullkomlega fyrirmunað að koma tuðrunni í mark andstæðinganna, fyrst og fremst á Anfield. Liverpool hefur núna skorað 1 mark á heimavelli síðan 27. desember, og það var úr víti gegn City. Liðinu hefur gengið furðanlega mikið betur á útivelli: mörk og sigrar gegn Tottenham, West Ham, Sheffield í PL og svo Leipzig í CL, allt á útivelli. 68 heimaleikir án þess að tapa í röð, og svo 5 leikir þar sem liðið tapar og skorar nánast ekki mark. “Þetta eru skrýtnir tímar” hefur verið sagt ansi oft undan, og það er furðulegt að lið sem hefur skorað milli 80 og 90 mörk á síðustu þremur heilu tímabilum, lið sem var á toppnum um jólin, og sem er ENNÞÁ þriðja markahæsta lið deildarinnar – hefur varla náð skoti á mark á Anfield síðan í lok desember.

Og það að sóknin sé að bregðast sést ekki bara á þessari tölfræði. Hér er önnur:

Það má segja að liðið sé brunnið út, kulnað, örþreytt… en vandamálið er fyrst og fremst í hausnum á leikmönnum, þessir leikmenn kunna alveg ennþá að spila fótbolta. Jú höfum það alveg á hreinu að meiðslin hafa leikið Liverpool illa, og reyndar verst allra liða í deildinni:

Liverpool er líka örugglega að koma illa út úr áhorfendaleysinu. Stór hluti af ástæðunni fyrir því að liðið tapaði ekki leik í 68 heimaleikjum í röð voru áhorfendur. Gleymum því þó ekki að önnur lið eiga líka áhangendur, og þó svo heimavellir annarra liða hafi verið misvel sóttir í gegnum tíðina þá er Liverpool ekki eina liðið með áhorfendur sem hafa áhrif á gang leikja. En fótbolti er leikur sem vinnst og tapast á “fine margins”, stundum er það stöngin út hjá öðru liðinu en stöngin inn hjá hinu, og ef áhorfendur hafa haft þó ekki nema 1% meiri áhrif á okkar menn heldur en áhorfendur annarra liða hafa á sína menn, þá er alveg klárt mál að áhorfendaleysið hjálpar ekki.

Nú svo er líka kannski bara búið að kreista það út úr þessu liði sem hægt er. Kannski er bara löngu orðið tímabært að fara út í myndarlega endurnýjun, fá inn nýja leikmenn í byrjunarliðið. Til að allrar sanngirni sé gætt, þá komu tveir slíkir í haust: Thiago og Jota. En svo virðist sem það þurfi meiri endurnýjun, og það hjálpar ekki að Thiago hefur hvorki verið að koma með stoðsendingar né mörk. Semsagt: ef FSG eru að lesa þetta: upp með veskið!

Að lokum aðeins um Jürgen Norbert Klopp. Knattspyrnustjórinn sem kom númer 6 í höfn, og sem batt enda á 30 ára eyðimerkurgöngu félagsins. Það er alveg ljóst að hann á skilið gagnrýni fyrir ýmislegt. Skiptingarnar í leiknum gegn Chelsea voru galnar, um það eru ótrúlega stór hluti okkar sófasérfræðinganna sammála. En yfirgnæfandi meirihluti aðdáenda er nú sem betur fer á því að Klopp sé þrátt fyrir þetta rétti maðurinn til að taka liðið áfram. Minnumst orða yfirmanns knattspyrnumála hjá Dortmund sem komust í umræðuna núna nýverið: “Perhaps it would have been better if we had exchanged the entire team – not the coach”

Það kann að virka freistandi fyrir suma að setja Klopp til hliðar og fá Steven Gerrard til liðsins, enda er nánast öruggt að hann og Rangers liðið hans verða skoskir meistarar í vor. Undirritaður er einn af þeim sem er mjög spenntur fyrir því að þessi goðsögn sem Gerrard er muni stýra Liverpool einn góðan veðurdag. En rétti tíminn til þess er ekki núna. Gerrard hefði gott af því að fá meiri reynslu og Klopp er sannarlega ekki búinn. Við sjáum bara hvernig Lampard gekk þegar honum var hent of snemma út í djúpu laugina hjá Chelsea. Hefði Klopp gott af því að fá inn nýtt andlit í þjálfarahópinn með ferskt sjónarhorn? Örugglega. En Klopp hefði fyrst og fremst gott af því að fá að stýra liði sem er að mestu leyti heilt heilsu, með áhorfendur á pöllunum til að styðja við bakið á klúbbnum.

Leikurinn á morgun

Nóg af pælingum um stöðu liðsins. Það er leikur á morgun, og aftur fær liðið tækifæri til að finna fjölina sína á Anfield. Þó andstæðingurinn – Fulham nánar tiltekið – sé í fallsæti, þá er liðið ekki langt frá því að ná í skottið á Steve Bruce vini okkar hjá Newcastle, og hafa því að ýmsu að keppa. Fulham hafa verið að spila betur en úrslitin segja til um, töpuðu t.d. 0-1 fyrir Tottenham í síðasta leik en margir eru á því að jöfnunarmark sem var dæmt af þeim hefði átt að fá að standa. Reyndar er það svo að knattspyrnuyfirvöld eru nú þegar búin að gefa út að reglum verði breytt þannig að mark eins og það mun gilda frá og með næsta tímabili.
Það hefur annars reynst liðum erfitt að vinna Fulham á síðustu vikum, frá 27. janúar hefur liðið aðeins tapað tveim leikjum (gegn Leicester og Spurs), gert jafntefli við Brighton, WBA, West Ham, Burnley og Palace, og unnið Sheffield og Everton. Og miðað við form Liverpool síðustu vikna þá er sigur á þessu liði bara allt annað en sjálfsagður.

Eins og áður mun öllu skipta hvernig okkar menn mæta til leiks. Við vitum að þetta Liverpool lið (með eða án VVD og Hendo) getur unnið nánast hvaða lið sem er þegar það er í stuði, en getur líka tapað fyrir hverju einasta liði ef hausinn er ekki rétt skrúfaður á.

Að sjálfsögðu er Ozan Kabak tæpur fyrir leikinn eftir að hafa orðið fyrir einhverju hnjaski í Chelsea leiknum, á síðasta blaðamannafundi talaði Klopp eins og Kabak yrði líklega ekki klár fyrir leikinn á morgun. Hins vegar verða Nat Phillips og Ben Davies líklega klárir. Líklega.

Við eigum kannski eftir að hlæja að þessum meiðslum miðvarða síðar meir, það er eiginlega ekki annað hægt eins og staðan er núna.

Eins og frægt er orðið tók Klopp Salah af velli í síðasta leik, en leyfði Mané og Firmino að spila allar 90 mínúturnar. Þetta þýðir vonandi að Salah spilar þá allan leikinn á morgun, og vonandi er Jota kominn á þann stað að hann geti byrjað. Mané og Firmino mega bara vel fá smá pásu, því þeir eru báðir í mikilli lægð. Svo er spurning hvort Klopp hræri aðeins upp í miðjunni okkar, og á maður að spá því að hann hræri í leikkerfinu sömuleiðis? Mikið væri t.d. gaman að fá Fabinho yfir á miðjuna aftur.

Hér kemur róttæk spá um uppstillingu. Ég stórefast að hún gangi 100% eftir:

Ekki það, það væri vel hægt að ganga lengra. Henda Tsimikas í vinstri bak, henda Neco í hægri bak og Trent á miðjuna. Smella Firmino í miðvörðinn. En spáin eins og hún lítur út er reyndar nú þegar talsverð uppstokkun á liðinu frá síðustu leikjum. Ef þetta verður niðurstaðan, þá myndi ég n.b. spá því að Robbo fái fyrirliðabandið, þó svo Salah og Trent kæmu líka til greina. Ég a.m.k. vona að Klopp leyfi sér að fara aðeins út fyrir handritið sem hann hefur verið að spila eftir síðustu vikur, og held reyndar að leikjaálag þessarar viku neyði hann hálfpartinn til þess.

Og já, það eru góðar líkur á að þetta verði 20. miðvarðarparið í vetur.

Nú og svo getum við glaðst yfir því að kvennaliðið mun spila við Crystal Palace á nákvæmlega sama tíma og leikur karlaliðsins við Fulham fer fram. Ég reikna með að Eyþór geri þeim leik góð skil.

Það verður engin spá í þessari upphitun. Spá út frá gengi síðustu vikna yrði hvort eð er þunglyndisleg, og spá um sigur væri fyrirfram ákveðin óskhyggja. Ég vona bara að leikmenn geri sitt besta og geti gengið stoltir af velli, vitandi að þeir gerðu sitt allra besta og skildu ekkert eftir á vellinum.

YNWA

14 Comments

 1. Fínasta upphitun og tilvísunin í orð Bill Shankly segir allt sem segja þarf.

  Það má til sanns vegar fær að ástæðan sé á einhvern hátt andleg en við megum ekki gleyma því að ástæðan fyrir slæmu gengi er fordæmalaus meiðsli lykilmanna liðsins. Staðreyndirnar tala sínu máli.

  Ég vil líka meina að forysta Liverpool um jólin hefði átt að vera töluverð meiri því dómgæslan í leikjum liðsins bitnaði stórkostlega á liðinu á fyrri hluta tímabilsins. Þar tala einnig staðreyndirnar sínu máli.

  Ég velti fyrir mér ef ManCity hefði rekið stjórann á síðasta tímabili og ráðist í stórkostlegar endurbætur á liðinu þegar liðið var lægð og útséð að það myndi ná Liverpool þegar þó nokkuð var eftir af mótinu. Það hefði verið frábært fyrir Liverpool. Því miður liggur núna fyrir að kaup á einum miðverði og einum til tveimur í viðbót sem spila reglulega gerði gæfumuninn og því er staðan eins og hún er.

  Mikið afskaplega vona ég að eigendur Liverpool beri gæfa til að standa í lappirnar og haldi sig við núverandi knattspyrnustjóra og leikmenn. Einnig vona ég innilega að þeir haldi í þá stefnu sína að fá ekki til sín leikmenn fyrir háar fjárhæðir nema þeir séu handvissir um að leikmaðurinn styrki liðið eins og þeir hafa gert hingað til nánast án undantekninga.

  Pep Guardiola sagði að hluti að vanda ManCity í fyrra hefði verið að leikmenn liðsins hefðu hlaupið of mikið inn á vellinum, eða m.ö.o., reynt of mikið þegar á bjátaði. Ég gæti vel trúað að þetta væri hluti af vanda Liverpool í dag. Í mínum huga fer ekki milli mála að leikmennirnir, allir sem einn, eru að leggja sig alla fram. Hlutirnir eru hins vegar ekki að ganga upp og einhvernveginn virðist allt falla á móti liðinu. Ég er meira á því að þetta sé vandamálið heldur en að stúkan sé öll rauð eins og fleygt hefur verið fram.

  Ég ætla því að reyna að vera rólegur í Fulham leiknum vitandi það að fyrir nokkrum vikum síðan vorum við með eitt besta lið í heiminum og að það hefur ekki breyst. Botninum verður einhverntíman náð þó það gerist seinna en maður vonaði. Töluvert mikið seinna reyndar.

  Ég ætla líka að muna að Anfield er ekki Anfield án áhorfenda.

  Við erum enn í góðum séns að vinna Meistaradeildina þetta árið. Fínum séns að mínu mati. Svo náum 4 sætinu og vinnum ensku deildina aftur að ári.

  Þá er þetta komið.

  Áfram Liverpool!

  17
 2. Ég er á því að við þurfum að koma Fabinho á miðjuna aftur en það þýðir að sjálfsögðu að við verðum með enn nýja varnarlínu, treystum varnarmönnum til að vera í vörninni og einum okkar albestu miðjumönnum honum Fab til að vera þar fyrir framan. Ég er líka á því að við eigum að senda alla á skotæfingar af 30 metrum og það verður að lúðra tuðrunni á markið og hætta þessu tikitaka fyrir framan vörn andstæðinganna sem engu hefur skilað í síðustu leikjum, ef það þýðir kick and run þá verður að fara í það, ekki vantar okkur leikmenn sem geta hlaupið held ég en hvað veit ég svo sem ?
  Koma svo þrjú stig og bein leið héðan í frá

  4
 3. Sælir félagar

  Ég er gróðarlega sáttur við uppstillingu Daníels og hefi haldið því fram í nokkurn tíma að Miðjumenn eigi að spila á miðjunni og varnarmenn í vörninni. Það styrkir líka vörnina mikið að hafa bezta varnartengilið í heimi fyrir framan hana fyrir utan hvað það styrkir miðjuna mikið. Eins og aðrir hér ætla ég að sleppa því að spá pog frekar ligg ég sdauður en spá Liverpool tapi. Það er skruggulélegt að gera það og uppgjöf er ekki til í mínum bókum. Ég er sammála Daníel í einu og öllu og ekkert væl.

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
  • Það þykir mér lélegt sð setja út á spá annarra.
   Ég vil þá endilega að því sé hætt að spá fyrir leiki, því það má ekki spá tapi.
   Ég er harður stuðningsmaður okkar manna og vil svo sannarlega vinna alla leiki en stundum eru hlutirnir þannig að ekki býst maður við miklu (þó svo vonin sé til staðar).
   Þöggun þykir mér einnig léleg aðferð manns sem kominn er yfir fertugt.
   Ynwa

 4. Í den, og reyndar ennþá finnst mér hljómsveitarnafnið Humble Pie eitt af betri erlendum hljómsveitarnöfnum. Mér finnst pistill Daníels vera fallega auðmjúkur(humble Dan). Held ég geti sagt að pistillinn í heild sinni sé uþb sem ég hugsa þmt liðsuppstillingunini.
  Ætla að vera hóflega bjartsýnn og spá 2-0.

  YNWA

  4
 5. Takk fyrir þetta.

  ,,Everybody makes mistakes, but only losers make excuses”
  – segja þeir.

  En stundum er staðan bara svo fullkomlega absúrd að það er ekki við neinu að búast. Og sú staðreynd að við höfum ekki verið með Hendó í sínu rétta hlutverki frá því upp úr áramótum vegur líklega hvað þyngst í ógæfu okkar og hörmungum.

  Makalaust hvað þessi tilþrifalitli leikmaður gerir fyrir heildina.

  Við erum búin að gera aragrúa mistaka en það þýðir víst ekkert annað en að halda áfram og bera höfuðið hátt. Við megum vel við una að flagga englandsmeistaratitlinum og þar áður þeim úr meistaradeildinni.

  Ég held að inntak þessarar visku hér að ofan sé einmitt það að um leið og afsakanir streyma af vörum okkar hættum við að læra af mistökunum. Við skulum einmitt rétt vona að einhver lærdómur fáist af þessum ósköpum öllum.

  4
  • Alveg sammála uppstillingunni í upphituninni, kominn tími á að skella Mane, Firmino og Thiago á bekkinn.
   Þeir hafa allir verið arfaslakir í langan tíma.
   Keita , Jones og Fabinho hljómar ansi vel fyrir mér.
   Jota og Shaqiri ættu að koma ferskir inn í framlínuna með Salah.

   2
 6. við verðum að vinna og vinna stórt helst þurfa allir okkar framherjar að skora 1 stk mark spá 0 – 4 Annars góður þegar þetta er skrifað þá er okkar ástkæri fyrrum leikmaður Lalli búinn að setjan hann gegn Leicester sem verður að tapa og ekki verra að Cyti taki leikinn á morgun þannig að við verðum með sigri á Fulham aðeins 4 stigum frá 2 sæti ég trúi og trúi að við verðum ofar en 5 sætið koma svo rífa sig í gang YNWA !

  2
 7. Já tökum þennan leik ekki spurning.

  Eitt sem er vanmetið í skitunni sem þetta tímabil er. Liverpool hefur ekki skorað eða verið líklegt til að skora úr föstu leikatriði í marga mánuði. Van Dijk var með 5 mörk á tímabil. Matip allavega 2-3 og síðan kannski 1-2 frá einhverjum öðrum. Þetta eru minnsta kosti 6-7 mörk í sókn. Það eru allavega 10 stig þar.

  En varnarmegin í föstum leikatriðum ? Hvað fáum við mörg auka mörk á okkur með enga leikreynda varnarmenn lungann af tímabilinu. Við erum búin að sjá nokkur ætli þetta séu ekki 6-7 mörk yfir heilt tímabil og allavega 10 stig.

  Liðið er ekkert að spila illa. Jújú það er þreytt og það gengur illa að skapa færi en það eru önnur lið líka. Núna þegar að Jota og Keita koma inn í þetta og haldast heilir í korter þá efast ég ekki um að við klifrum töfluna.

  Það eru svona smá atriði sem eru ótrúlega teljandi.

  4

Liverpool – Chelsea 0-1

Byrjunarliðin vs. Fulham á Anfield