Lærisveinar Tuchel mæta á Anfield

Liverpool var búið að spila 68 leiki á Anfield án þess að tapa.

Síðan komu 4 tapleikir.

Í röð.

Já það var eitthvað sem gerðist. Lið hætta bara ekkert 68 leikja lotu og tapa svo 4 leikjum í röð, bara sisvona. Einn tapleikur eftir 68 ekki-töp? Fullkomlega eðlilegt. Tveir? Vel mögulegt. Þrír? Pushing it… Fjórir? Nei hættu nú alveg. Fjórir tapleikir í röð á heimavelli er n.b. jöfnun á félagsmeti – hvað þá í kjölfar næstlengstu taplausu hrinu sögunnar í deildinni. Ekkert Liverpoollið hefur – frá upphafi – tapað 5 heimaleikjum í deild í röð. En þetta er lið sem hefur slegið alls konar met á síðustu misserum – flest skemmtileg en önnur síður – og það er bara því miður alls ekkert hægt að útiloka að enn eitt metið verði slegið annað kvöld.

En hvað veit maður. Kannski er þessi hópur ennþá “Mentality Monsters”. Gefum þeim a.m.k. séns á að sýna hvað í þeim býr.

Andstæðingurinn annað kvöld verður nefnilega ekkert sá léttasti. Chelsea liðið hefur í gegnum tíðina reynst okkur óþægur ljár í þúfu. Staðan í dag er svo auðvitað sú að núna eru þessi 2 lið að berjast við United og Leicester um sætin 3 á eftir City sem gefa sæti í Meistaradeildinni að ári. Munum líka að önnur lið eru ennþá í baráttunni: litla bláa liðið úr Liverpool borg getur ennþá komist upp fyrir Liverpool með því að vinna leik sem það á inni. Önnur lið eru skammt undan, bæði Spurs og Villa gætu verið einu stigi á eftir Liverpool ef þau vinna leiki sem þau eiga inni. Nú til að bæta smá kryddi á gulrótina sem er verið að veifa fyrir framan leikmennina okkar, þá töpuðu bæði Leicester og United stigum í kvöld, og því kjörið tækifæri að saxa á bilið yfir í þessi lið.

Núna. Má. Ekki. Misstíga. Sig.

Hefði verið betra ef Liverpool hefði mætt Chelsea fyrir rúmum mánuði síðan? Ef við horfum bara á frammistöðu Chelsea, þá jú kannski. Liðið var í frjálsu falli, tapaði 0-2 fyrir Leicester á útivell, og þetta var dropinn sem fyllti mælinn. Lampard var rekinn.

En vandamálið var bara að okkar menn voru alls ekkert á mikið betri stað. Jú, það kom þessi kafli þar sem liðið vann Spurs og West Ham, en beggja vegna við hann var algjör eyðimörk í markaskoruninni.

Þetta væru hvort eð er bara akademískar pælingar. Ef og hefði. Okkar menn mæta Chelsea annað kvöld, og þar er nýr maður í brúnni.

Thomas Tuchel

Jürgen Klopp ætti að kannast ágætlega við kauða. Af öllum þeim knattspyrnustjórum sem Klopp hefur mætt á ferlinum, þá er Tuchel í 4. sæti yfir fjölda viðureigna. Örlögin hafa líka hagað því þannig að Tuchel hefur tekið við af Klopp hjá öllum (báðum) þeim liðum sem Klopp hefur yfirgefið sem þjálfari: þ.e. Mainz og Borussia Dortmund. Þeir hafa mæst 14 sinnum á knattspyrnuvellinum, 9 sinnum hefur Klopp haft betur, Tuchel tvisvar. Annar þeirra leikja var í síðasta leiknum sem þeir mættust, en þá stýrði Tuchel PSG og liðin mættust í seinni leik sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 2018-2019. Munið þið, tímabilið þegar Liverpool endaði á að vinna þann sjötta? Í sögulegu samhengi þarf Klopp því litlu að kvíða varðandi það að mæta Tuchel.

Gallinn er bara sá að knattspyrnuleikir vinnast ekki við uppflettingu í sögubókum. Chelsea mæta í þennan leik í ágætis formi. Jújú, vissulega hafa tveir síðustu leikir (gegn United og Saints) endað með jafntefli, en þar á undan komu fimm sigurleikir í röð (reyndar einn gegn Barnsley í bikarnum, en samt). Í stuttu máli þá hefur liðið ekki ennþá tapað leik eftir að TT tók við stjórnartaumunum.

Fyrri leikur liðanna í haust litaðist fyrst og fremst af rauðu spjaldi sem Daninn Andreas Christensen fékk í lok fyrri hálfleiks, og seinni hálfleikur reyndist síðan vera fyrsta skiptið sem Thiago Alcantara spilaði í Liverpool treyjunni.

Okkar menn

Það hefur verið ansi lítið um jákvæðar fréttir að undanförnu af okkar mönnum. Ef menn eru ekki að meiðast, þá eru þeir að veikjast af Covid, og ef ekki það, þá eru þeir að missa nákominn ættingja. Við vonum heitt og innilega að nú fari e.t.v. að rofa aðeins til. A.m.k. bárust þær fregnir að Fabinho, Jota, Alisson, Milner og Davies hefðu allir mætt á æfingar núna í vikunni, og gætu líklega allir komið við sögu á morgun. Ef ekki í byrjunarliði, þá á bekk.

Það að Fabinho verði leikfær skapar fyrstu og líklega augljósustu spurninguna: ef hann getur byrjað, á þá að tefla honum fram sem miðverði, eða sem varnarsinnuðum miðjumanni? Undirritaður myndi kjósa hið síðarnefnda, en undirritaður hefur líka ekki það á ferilskránni að hafa unnið enska titilinn og meistaradeildina. Það hins vegar hefur Jürgen Klopp. Ef ég ætti að veðja á hvað ég haldi að Klopp geri, þá hugsa ég að hann setji Fab í miðvörðinn í þessum leik, þó svo ég vildi sjálfur hafa hann örlítið framar. Persónulega hefur mér þótt Fab eiga til að brjóta á mönnum – vissulega mjög snyrtilega, en brot samt – og ef hann er í stöðunni miðvörður þegar hann brýtur svona af sér þýðir það iðulega aukaspyrnur á stórhættulegum stað, nú eða víti. Sem DM þá eru þessi brot iðulega örlítið framar, og skapa ekki alveg sömu hættuna.

En Klopp er örugglega líka að horfa á hvort hann eigi að hafa bæði Nat Phillips og Ozan Kabak inná, og þá á kostnað eins af Thiago, Wijnaldum og Curtis Jones. Ef maður ætti að giska, þá myndi ég segja að þessir þrír miðjumenn séu allir betri knattspyrnumenn heldur en miðverðirnir tveir, og að heildargæðin í liðinu aukist með því að taka annan þeirra út af, setja Fab í miðvörðinn, og leyfa miðjumönnunum þremur að spila. En á móti kemur að það getur vel borgað sig að leyfa miðvörðunum að spila sem miðverðir, og leyfa miðjumönnunum að spila á miðjunni. Einn möguleiki væri auðvitað sá að fara yfir í 4-4-2 tígulmiðju, með Fab aftastan í tíglinum, Thiago og Gini þar fyrir framan, og Curtis Jones í holunni, og svo með Mané og Salah fremst (eða svissa á Thiago og Curtis). En aftur, þetta eru bara pælingar hjá sófasérfræðingi, og líklega eru Klopp og Lijnders með ágætis hugmynd um hvað sé vænlegast til árangurs. Nú og svo spilar að sjálfsögðu inn í leikjaálag, menn fengu nú ágætis hvíld fyrir leikinn gegn Sheffield, en svo koma 3 leikir á 8 dögum og því getur vel verið að það verði róterað svolítið.

Að sjálfsögðu spilar svo inn í hvort menn meti það svo að Jota geti byrjað. En jafnvel þó svo hann verði bara fær um að koma inn af bekknum, þá væri það strax þvílík bæting frá því að hafa ekkert til að henda inná nema Origi.

Hvað um það. Svona spái ég að Klopp stilli upp:

Alisson

Trent – Fab – Nat – Robbo

Thiago – Gini – Jones

Salah – Firmino – Mané

en látum okkur ekki bregða hið minnsta þó uppstillingin verði önnur. Er Jota til í 90? Hendum honum inn í stað Firmino eða jafnvel Mané. Vill hann fá reynsluna frá Milner? Hendum honum inn nánast hvar sem er í liðið. Treystir hann Kabak betur en Nat? Það er ekkert útilokað.

Þetta er ekkert annað en 6 stiga leikur, og gullið tækifæri til að saxa aðeins á liðin fyrir ofan okkur. Gleymum ekki heldur að United mæta grönnum sínum í City í næsta leik á eftir á sunnudaginn, og eins ömurlegt það er nú að sjá City vinna hvern leikinn á fætur öðrum, þá væri ennþá ömurlegra að sjá United fara að festa sig í sessi þarna í topp 4. Fáum smá spennu í þetta í guðanna bænum.

Menn hafa verið bjartsýnir í spám fyrir þennan leik. Úrslitin í síðustu heimaleikjum gefa manni nákvæmlega ekkert tilefni til bjartsýni, en þið þekkið þetta: með hverjum tapleiknum styttist í sigurleikinn. Við spáum að hann komi á morgun. 2-1 sigur með mörkum frá Salah og Nat sem stangar inn eina hornspyrnu frá Trent.

KOMA SVO!!!!!

5 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Daníel og vonandi hefur þú rétt fyrir þér með markaskorun og niðurstöðu leiksins. Ég hefi miklar áhyggjur af þessum leik og sérstaklega þó af Mané. Hann hefur verið nánast sem farþegi í vetur og það er mikill missir fyrir liðið þegar slíkur gæðaleikmaður er í lægð og ekki síst í lægð sem er eins breið og djúp og hans er. Hvað sem því líður og hver sem uppstillingin verður þá vona ég af öllu hjarta að þessi leikur vinnist. Jafntefli gerir lítið fyrir bæði lið og sigur er það eina sem dugar. Ég þori ekki að spá en geri spá Daníels að minni.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 2. Langar að sjá Jota koma skokkandi inná og skora mark og láta vita að hann sé ekkert að fara láta smá meiðsli stoppa sig..smá töf ekkert annað djufull væri ég til í það. Held það væri líka ágætis vítamínsprauta í rassgatið sem menn þurfa fyrir komandi vikur ! koma svo það þarf að taka þessi 3 stig !

  YNWA !

  3
 3. Takk Daníel. Takk Sigkarl. Takk RH.

  Mér er nokk sama hverjir byrja þennan leik eða ekki, hverjir skora eða ekki. Eina sem ég bið um er að Klopp sýni Tuchel hvar Davíð keypti ölið og við innbyrðum 3 stig í 6 stiga leik!

  YNWA

  3
 4. Ég held að það verði sama byrjunarliði eins og í síðasta leik nema hugsanlega kemur Miller inn fyrir Jones og við druslumst til að vinna bláliða 2-1.
  YNWA

 5. Ég er bara bjartsýnn. Liðið okkar er það gott að það vinnur öll lið ef það spilar á 90 prósent getu.

  Ég spái 3-1. Salah Mane og Firmino skorar allir. Við komumst í 2-0 þeir minnka muninn í upphafi seinni en skömmu síðar eða sirka 5 mínútum komast okkar menn í 3-1 og klára þetta þægilega.

  Við erum enn með eitt besta lið í heimi og það hefur ekkert breyst. Menn þurfa bara að vera á deginum sínum með sjálfstraustid í lagi og þá vinnum við alltaf Chelsea á heimavelli.

Gullkastið – Loksins sigur

Liverpool leikur við Leipzig í Búdapest