Sheffield United – Liverpool 0-2

0-1 Curtis Jones, 48. min
0-2 Sjálfsmark, 64. min.

Leikurinn fór rólega af stað og liðin ekki að skapa sér mikið til að byrja með. Liverpool fékk jú dauðafæri á 10 mínútu leiksins þegar Firmino komst einn í gegn en skaut í fæturnar á Ramsdale, ég held þú fáir ekki mikið betri færi en þetta Bobby minn!

Það gerðist svo ekki mikið fyrr en á 21. mínútu þegar TAA sendi boltann fyrir á Curtis Jones, sem kom seint á fjarstöngina, en móttakan sveik hann örlítið og Ramsdale náði að loka vel á hann. Fínasta færi.

Salah fékk svo gott færi 8 mínútum síðar, Phillips átti góðan skall úr vörninni, Firmino stakk honum í fyrsta inn á Salah sem náði að koma einn gegn Ramsdale, í heldur þröngu færi, en sá síðarnefndi varði. Tveimur mínútum siðar fékk Trent fínt færi þegar að hápressa okkar manna vann boltann ofarlega á vellinum, Trent fékk boltann hægra megin, fíflaði Stevens og átti svo fínt skot með vinstri sem títtnefndur Ramsdale varði vel í horn.

Við sluppum þó með skrekkinn á 35 mínútu þegar afskap saklaus sending yfir flata vörn okkar manna endaði með sjálfsmarki hjá Kabak en McBurnie var rangstæður og hafði áhrif svo markið var réttilega dæmt af. Þetta var samt alveg týpískt mark sem að Liverpool myndi fá á sig og í sjálfu sér ótrúlegt að það hafi ekki fengið að standa á þeim grundvelli einum og sér.

Liverpool fékk svo enn eitt færið á 38 mínútu þegar að Gini komst í gott skotfæri en Ramsdale varði vel, Firmino náði frákastinu en lagði boltann út í teig í stað þess að skjóta úr algjöru dauðafæri. Sjálfstraustið oft verið meira hjá níunni okkar.

Alveg stórmerkilegt að vera ekki yfir í hálfleik. Ég veit ekki alveg hve góð færi við þurfum til að mörkin fara að flæða. Fáum þau ekki mikið betri en við fengum þau þennan hálfleikinn….

Síðari hálfleikur

Liverpool hóf síðari hálfleik eins og þeir luku þeim fyrri og það bar loksins árangur á 48 mínútu þegar skot TAA var blokkerað við vítateigslínuna hægra meginn. Trent náði frákastinu, lék sjálfur upp að endalínu og sendi fyrir, boltinn barst út í miðjan vítateig þar sem að Curtis Jones mætti og skoraði örugglega í fjærhornið, verðskuldað, 0-1!

Liverpool bætti við marki 5 mínútum síðar þegar Mané skoraði framhjá Ramsdale en markið var réttilega dæmt af vegna rangstæðu.  Sheffield fékk líklega sitt besta færi örfáum mínútum síðar þegar McBurnie átti skalla hárfínt framhjá óvaldaður í miðjum vítateignum.

Liverpool náði loksins öðru marki á 64 mínútu eftir laglegt spil við vítateigshornið hægra meginn. Firmino og Mané tóku stutt spil sín á milli en varnarmenn Sheffield gáfu Firmino allt of mikinn tíma á boltanum, hann lék framhjá þeim þremur og átti skot í einn þeirra og yfir Ramsdale – heppnisstimpill á markinu en á þessum siðustu og verstu þá þiggjum við allt! (Uppfært: PL búið að tilkynna að þetta var sjálfsmark).

Salah hefði átt að bæta við þriðja markinu, á lokamínútum leiksins, eftir sendingu Robertson fyrir markið en hann þurfti að teygja sig í boltann og skot hans rétt framhjá opnu marki. Þar við sat, 0-2 verðskuldaður og mikilvægur sigur.

Bestu menn Liverpool

Heilt yfir var þetta fín frammistaða. Smá skjálfti til baka á köflum en ekkert alvarlegt og virkilega gott að ná að halda hreinu.

Menn voru nú ekkert allt of kátir að sjá Adrian í byrjunarliðinu (þmt. undirritaður). Hann stóð sig samt heilt yfir vel, varði það sem kom á rammann og gerði sig ekki sekan um nein mistök. Fyrir framan hann var Phillips mjög öflugur á meðan að mér finnst Kabak heldur viltur, finnst hann horfa of mikið á boltann og missa menn á bak við sig – hann á vonandi fullt inni.

Trent átti sinn besta leik í langan tíma en okkar besti maður í dag var að mínu mati Curtis Jones. Virkilega öruggur í öllum sínum aðgerðum í kvöld, skoraði gott mark og hefði vel getað sett annað.

Umræðan

  • 2. Tvö stig í meistaradeildarsæti þar sem að West Ham situr eftir tap gærdagsins og eitt stig í Chelsea sem er í fimmta sætinu en þeir mæta á Anfield n.k. fimmtudag (4/3).
  • 17. Janúar. Liverpool hélt hreinu í fyrsta sinn í deildinni síðan um miðjan Janúar eða fyrir 7 leikjum síðan! Það þurfti sem sagt Adrian, Phillips og Kabak til!
  • Febrúar. Skelfilegum febrúarmánuði þá að ljúka, eftir fjögur töp í röð kom loks sigur á síðasta degi mánaðarins.

Næsta verkefni

Það eru þrír heimaleikir á einni viku og eftir fjögur töp á Anfield í röð þá er einfaldlega kominn tími á sigra þar og það þrjú stk takk! Chelsea er fyrst andstæðingurinn n.k. fimmtudag, áður en að Fulham kemur eftir slétta viku og að lokum er það síðari leikurinn gegn RB Leipzig, miðvikudaginn 10 mars.

Vonandi nær liðið eitthvað að byggja á þessum sigri og við fáum Jota og Fabinho inn fyrir fimmtudaginn.

Þar til næst.

YNWA

24 Comments

  1. Rosalega var gott að fá sigurleik aftur, núna þarf að byggja á þessu, halda Kabak og Philips saman í vörninni þangað til annar þeirra meiðist, sem gerist þó vonandi ekki.
    Svo erum við að fá Keita, Fabinho og Jota til baka og það ætti að gefa liðinu boost.

    4
  2. Skyldusigur í höfn! Leit þetta ekki bara betur út með miðverði á sínum stað og miðjumenn á sínum stað?

    Það reynir fyrir alvöru á það næsta fimmtudag!

    YNWA

    6
    • Jú, það er nefnilega málið. Vonandi heldur klopp því áfram. Kabak er bara að styrkjast!

      3
  3. Tóku fleiri en ég eftir því hvað Mané fékk mikið hjá þessum dómara ? ég segi það enn og aftur að Moss er kúfullur af rasisma svo þegar þessi stóru tröll í vörn og miðju andstæðingsisn féngu smá snertungu þá var flogið í jörðina. en sigurinn var algerlega sanngjarn Adrian maður leiksins in á Fob ok ég hefði átt að drulla aðeins meira yfir hann fyrir leik greinilega að virka vel. Nathan P var að mínu viti maður leiksins og hefur verið algerlega frábær í öllum leikjum og töluvert betri leikmaður en Hvalbakurinn. koma svo verðum að byggja ofan á þetta og fara hala inn 3 stigum sama hvernig við gerum það.

    YNWA

    7
    • Nkl, hvernig var ekki dæmt víti? Pjúra víti, Mané stóð bara í lappirnar!

      3
      • Mané vissi einfaldlega það sem við vitum báðir að ef hann hefði fallið þá hefði hann ekkert fengið frá þessum dómara. Ég hvet alla hér inni að skoða leiki sem þessi dómari hefur dæmt hjá okkur og sjá hvernig hann hefur dæmt þegar litaðir eiga í hlut og segið mèr svo að ég hafi rangt fyrir mér þið munið sjá að ég hef algerlega rétt fyrir mér.

        YNWA

        3
  4. Virkilega sætur sigur og mjög svo kærkominn. Jones er virkilega spennandi kostur og frábært að sjá þennan uppalda strák ryðjast fram svona!

    6
    • Algerlega sammála og ef hann hefði verið notaður meira í stað Hendó og Hendó á miðjunni þar sem hann á að vera fyrsti kostur allra miðjumanna okkar myndi ég Þóra veðja að staða okkar ástkjæra liðs væri töluvert betri kanski ekki fyrsta sætið en allavega í öðru sæti.

      YNWA

      2
      • Mér fannst enginn marktækur munur á frammistöðum þeirra. Kabak er betri á boltanum, og líklega aðeins fljótari, þó svo hann sé ekki eins fljótur og ég vonaðist eftir.

        En ég er sammála því að Philips hefði frekar átt að fá fleiri leiki í stað þess að spila með tvo miðjumenn í miðverði.

        3
  5. Sælir félagar

    Sætur og verðskuldaður sigur. Moss er ekki bezti dómarinn í deildinni þó enskir dómarar séu svo lélegir að þeir fá ekki að dæma á stórmótum. Að vera ekki beztur í þeim hópi heldur einn af þeim lélegri segir meira en mörg orð. Hefðum átt að skora fleiri mörk en ég tek þessum stigum með fögnuði. Eitt að lokum: meiddist Keita í leiknum?

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
    • Þó nokkrir meðal lesenda Guardian kölluðu eftir því í leik-kommentum að Moss drifi sig á eftirlaun. Hann væri alltaf svo langt frá brotunum að hann giskaði bara. Einn vildi reyndar meina að Moss hefði verið með gleraugun stillt á „aldrei brot hjá Sheffield” í kvöld.

      1
      • Hræðilega slappur dómari, því getur enginn neitað. EPL þurfa að fara gera róttækar breytingar í dómaramálunum ef ekki á verr að fara.

        Ég er alveg á því líka að nota Philips miklu meir og hafa miðjumennina á réttum stöðum en það er svo létt að gagnrýnd allt og alla.

        Núna þurfum við að halda þessu áfram og komast í 8-liða í CL!

        2
    • Reyndar ekki, en mikið er ég samt glaður að sjá hann skjóta.
      Bara tímaspursmál hvenær hann setur í netið.

      3
  6. Næsti leikur verður gríðarlega erfiður, það er spurning hvað Klopp gerir með Fabinho, er hann hugsaður sem miðvörður númer 1 í fjarveru Van Dijk og Gomez eða mun hann treysta Kabak og Philips til að vera í miðverðinum og Fabinho komi aftastur á miðjuna til að verja þá.
    Við erum ágætlega staddir á miðjunni en ég vona að miðjan í næsta leik verði Fabinho, Winjaldum og Jones en ef Fabinho fer í miðvörðinn þá kemur Thiago eða Keita inn og Fabinho droppar í miðvörðinn.

    1
  7. Mánudagshugleiðingar í boði Nescafe Gull

    C.Jones var maður leiksins í gær. Er yfirleitt mjög sprækur þegar hann spilar.
    Keita kominn tilbaka. Hans hefur verið sárt saknað.
    Jota er rétt ókominn
    Kabak og Phillips héldu hreinu, vel gert.
    Náum við topp 4 ? Held við berjumst við Tottenham um síðasta sætið. Scum, Shjitty og Chelski nokkuð öruggir sýnist manni.

    2
  8. Mér fannst þessi frammistaða mjög svipuð og liðið hefur verið að sýna í undanförnum leikjum. Meira með boltann og komust í nokkur álitleg færi sem ekki nýttust. Á sama tíma átti maður alltaf von á að lenda undir og þegar Kabak setti boltann í eigið mark þá var það einhvern veginn akkúrat það sem maður átti von á, var eiginlega hálf hissa þegar það var dæmt af. Mörkin okkar voru líka smá heppni, sjálfsmark og svo millimetra spurning um að vera dæmt af. Þannig að heppnin féll með okkur í þessum leik, líkt og í RB Leipzig um daginn. Jones, Trent og Robbo voru góðir og Firmino sömuleiðis. Thiago er enn aðeins týndur og þarf greinilega lengri tíma til að aðlagast.
    Ég veit að arfleifð Firmino um ókomna tíð verður hversu örlátur hann var á boltann til félaganna en fyrr má nú vera, að maðurinn skyldi ekki lúðra boltanum í nánast opið markið í stað þess að reyna að gefa fyrir… Og Mane hefði mjög líklega fengið víti ef hann hefði tekið leikritið og farið niður, líkt og allir aðrir sóknarmenn í öllum liðum gera.
    Ég sé akkúrat enga ástæðu til að lesa eitthvað gáfulegt úr þessum leik. Liðið er enn í tómu rugli með miðvarðarstöðurnar og sterkari andstæðingur mun líklega refsa þessu pari meira en Sheff Utd hafði getu til. Chelsea menn eru væntanlega farnir að sleikja út um og eru mun líklegra liðið á fimmtudaginn. Kabak er einfaldlega ekki tilbúinn í að vera lead miðvörður og Nat kallinn er bara ekki nógu sterkur þó hann sé að leggja sig allan fram og gera eitt og annað ágætlega.
    Að þessu sögðu, þá er núna tækifæri á að snúa þessu hörmungar gengi við með því að leggja Chelsea á heimavelli og gera atlögu að þessum meistaradeildar sætum. Ef við náum að stilla upp liði með Fabinho og Jota þá er það framför. Mér fannst Keita eiga góða innkomu í gær og myndi jafnvel vilja setja hann í byrjunarliðið og Thiago á bekkinn gegn Chelsea. Sá leikur gæti farið langt með að ráða því hvort Liverpool verði í meistaradeildinni á næsta tímabili.

    4
  9. Tek bara undir það sem aðrir hafa sagt.
    Curtis Jones heldur áfram að heilla mann og að mínu mati er bjartasti punkturinn í þessari hrinu af skitu síðustu mánuði get ekki gefið neinum öðrum þann titil þar sem allir hafa spilað langt undir getu fyrir utan kanski Salah.

    Þetta var Sheffield og þeir eru ekki bara fallnir heldur bara lang lélegasta liðið í EPL þannig ég ætla bíða með mína þórðargleði í smá tíma ég tek þessum leik með miklum fyrirvara og vonandi er mér það fyrirgefið.

    Að öðrum ljósum punktum eftir þennan leik.
    Keita kom inná það gerast kraftaverkin enn greinilega.
    N.Phillips mér fannst hann koma vel útur þessum leik en hraðin á Sheffield er ekki mikill og það hentar honum betur.
    Það styttist enn frekar í Jota !

    YNWA

    2
    • Þó svo að þetta hafi bara verið sheffield og að þeir séu skítfallnir þá þarf samt að vinna þá. Ekki gerðu scums það fyrir örfáum vikum síðan, þeir töpuðu.

      Við þurfum að ná meira jafnvægi og tíminn vinnur með okkur svo framarlega sem fleiri meiðast ekki eða veikjast eða missa sína fjölskyldumeðlimi. Það yrði hrikalega sterkur leikur að fá Fabinho og Keita á miðjuna, Jota frammi og spila Philips og Kabak saman í stöndugt miðvarðapar.

      2
  10. Takk fyrir þetta. Gott að sigra þennan leik, má segja nokkuð örugglega án þess að vera nokkuð ósanngjarn. Mörg verulega jákvæð teikn á lofti.
    Þessi vetur er eitt furðuverk, ekki bara hjá okkar mönnum. Vonandi kemur aldrei svona slakur mánuðir eins og febrúar. Hlýtur að vera nálægt einhverjum metum hvað það varðar.
    sept 5 leikir 12 stig 2,4 stig/leik
    okt 7 leikir 13 stig 1,86 stig/leik
    nóv 5 leikir 8 stig 1,6 stig/leik
    des 8 leikir 16 stig 2,0 stig/leik
    jan 7 leikir 10 stig 1 43 stig/leik
    feb 6 leikir 6 stig 1,0 stig/leik
    Alls 38 leikir 65 stig 1,71 stig/leik

    1
  11. Ég er að horfa nokkra leiki fram í timann, en er það ekki rétt að síðari leikurinn á móti Leipzig verður líka á hlutlausum velli ?

Liðið gegn Sheffield United

Gullkastið – Loksins sigur