Kvennaliðið fær London Bees í heimsókn

Það er nóg um að vera hjá liðinu okkar þessa helgina. Karlaliðið heimsækir Sheffield í kvöld, U18 og U23 léku í gær og bæði unnu sína leiki: U18 vann Everton 2-1 með sigurmarki frá Musialowski undir lok leiksins, og U23 vann Arsenal 4-0 þar sem Layton Stewart skoraði fyrsta markið, Jake Cain setti tvö áður en fyrirliðinn Ben Woodburn setti síðasta markið.

Núna kl. 14 mæta svo stelpurnar okkar liði London Bees á Prentford Park. Ennþá eru Liverpool Women án opinbers knattspyrnustjóra, úr þessu getur vel verið að sú ráðning bíði vorsins eða sumarsins. En það verður aftur Amber Whiteley sem stýrir sínum konum af hliðarlínunni.

Hún stillir liðinu upp svona, og þarna eru nokkrar áhugaverðar breytingar:

Laws

Jane – Roberts – Fahey – Hinds

Hodson – Bailey – Moore

Holland – Linnett – Kearns

Bekkur: Heeps, Robe, Thestrup, Lawley, Rodgers, Furness, Brough, Parry

Nokkur athyglisverð atriði sem er vert að minnast á. T.d. að hvorki Melissa Lawley né Rachel Furness eru í byrjunarliðinu, og að aftur er Rinsola Babajide hvergi sjáanleg, sem ýtir undir þær sögusagnir að hún hafi skilað inn beiðni um félagaskipti. Það eru þó ekkert nema sögusagnir enn sem komið er.

Nýliðarnir Meikayla Moore og Ceri Holland eru báðar í byrjunarliðinu, og Kirsty Linnett virðist vera komin aftur í sína “eðlilegu” stöðu í framlínunni. Ashley Hodson virðist eiga að spila á miðjunni, sem er þá líklega þriðja eða fjórða staðan sem hún er prófuð í á leiktíðinni. Á bekknum eru annars þrír leikmenn úr unglingaliðinu: Eleanor Heeps er varamarkvörður í fjarveru Rylee Foster (hún er með landsliði Kanada um þessar mundir), og Brough og Parry sitja þarna sömuleiðis. Síðan er spurning hvar Missy Bo Kearns verður staðsett á vellinum, hún hefur verið í box-to-box hlutverki hingað til en gæti verið eitthvað framar í dag.

Leikurinn verður sýndur á helstu rásum Liverpool: Facebook, Twitter, Youtube og svo á heimasíðu félagsins.


Leik lokið með öruggum 3-0 sigri hjá okkar konum. Becky Jane opnaði markareikning sinn hjá félaginu snemma í fyrri hálfleik eftir að Ashley Hodson átti gott upphlaup upp vinstri kantinn og gaf svo á Becky sem var óvölduð rétt framan við markteiginn. Það þurfti svo að bíða þar til korter var eftir af síðari hálfleik til að fá næsta mark, en það skoraði nýliðinn Ceri Holland eftir gott samspil allt frá markmanni sem endaði með því að hún var ein á auðum sjó og sendi boltann milli fóta markmannsins. Síðasta markið skoraði svo Amy Rodgers eftir gott samspil við Hodson, Lawley og Furness, og endaði með hnitmiðuðu skoti frá vítateigshorninu í bláhornið niðri fjær.

Stelpurnar okkar eru því ennþá í 4. sæti deildarinnar, en geta jafnað Sheffield með því að sigra í leiknum sem þær eiga inni, en ef það tekst þá eru samt ennþá 7 stig í Leicester og Durham. Líkurnar á því að liðið nái upp í efstu deild núna í vor fara því hægt og bítandi dvínandi, en útilokum samt ekkert.

2 Comments

  1. Sælir félagar

    Stelpurnar unnu 3 – 0 og voru líklegri til að skora 4. markið en Býin að skora sitt fyrsta. Flott hjá okkar konum 🙂

    1
  2. Já virkilega flottur sigur hjá stelpunum, gaman að sjá Emily Brough fá mínútur í lokin. Þetta unglingalið sem hún, Lucy Parry o.fl. koma úr var helvíti gott, og vann sína deild á sínum tíma.

Heimsókn til Chris Wilder, uppáhalds þjálfara Klopp (Upphitun)

Liðið gegn Sheffield United