Kvennaliðið mætir Charlton

Það verður leikið á tveim vígstöðvum hjá félaginu okkar í dag, því til viðbótar við leik Liverpool og City sem fram fer núna kl. 16:30, þá ætla stelpurnar okkar að heimsækja Charlton Athletic í næstefstu deild.

Stelpurnar okkar eru sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 12 leiki, 9 stigum á eftir Leicester og Durham sem sitja á toppnum, og 4 stigum á eftir Sheffield í 3ja sæti. Sheffield hafa þó spilað 2 leikjum meira, rétt eins og Durham, en Leicester einum leik meira. Durham eru að spila við London City Lionesses í þessum töluðu orðum, en Sheffield mæta London Bees á sama tíma og leikurinn við Charlton fer fram. Rétt eins og með stöðu karlaliðsins, þá er allt opið ennþá, en þó er ljóst að hlutirnir verða að falla með okkar konum ef það á að takast að komast aftur í hóp þeirra bestu. Og rétt eins og í karladeildinni hefur verið talsvert um frestanir, bæði vegna Covid og eins vegna vallaraðstæðna, og því ekki alveg gott að átta sig á stöðunni í augnablikinu.

Liðið er enn án framkvæmdastjóra eftir að Vicky Jepson hætti (eða var sagt upp) núna í janúar. Ekkert hefur frést af því hver muni taka við, en þó er vitað að klúbburinn var að auglýsa eftir stjóra…. á Linkedin af öllum stöðum. Sama var reyndar gert síðast, og þarf kannski ekki að koma á óvart þess vegna, en maður spyr sig hvort þetta sé besta leiðin til að finna stjóra sem nær að stýra liðinu upp í efstu deild aftur. Amber Whiteley stýrir liðinu á meðan, en hún var aðstoðarstjóri hjá Vicky.

Liðinu barst liðsauki á dögunum þegar hin velska Ceri Holland gekk til liðs við félagið eftir að hafa spilað í Bandaríkjunum í 3 ár, en hafði verið hjá unglingaliði Manchester City þar á undan. Þá hafa leikmenn verið að koma til baka úr meiðslum og Covid veikindum, og því nánast fullskipað lið sem er til taks í leiknum á eftir. Þó mun Rylee Foster ekki taka þátt þar sem hún var kölluð í landsliðsverkefni hjá kanadíska landsliðinu og verður þar næstu vikurnar. Það fellur því í hlut hinnar ungu en efnilegu Eleanor Heeps að vera til taks á bekknum ef Rachel Laws forfallast í marki. Jú og Melissa Lawley er í banni eftir rauða spjaldið sem hún fékk eftir að hafa verið inná í 20 sekúndur í síðasta leik. Leikmenn tala oft um að vilja líkjast Gerrard, en það má alveg finna aðrar leiðir til þess.

Þá að liði dagsins, en það lítur svona út:

Laws

Robe – Roberts – Fahey – Hinds

Clarke – Rodgers – Furness

Parry – Thestrup – Kearns

Bekkur: Heeps, Jane, Bailey, Hodson, Moore, Holland, Linnett, Brough

Það vekur kannski athygli að hin kornunga en bráðefnilega Lucy Parry er í byrjunarliði, sem og Missy Bo Kearns, en undirrituðum er ekki kunnugt um hvað Rinsola Babajide er niðurkomin.

Leikurinn virðist því miður ekki vera sýndur beint svo vitað sé, en við fylgjumst með úrslitum og birtum þau síðar í dag.

Ein athugasemd

  1. Leik lokið með 2-2 jafntefli, Charlton komust yfir í fyrri hálfleik, Furness jafnaði í þeim seinni, og svo kom nýliðinn Holland okkur yfir 2-1 þegar skammt var til leiksloka. En svo fengu Charlton víti og jöfnuðu í næstu sókn. Mikil snjókoma setti svip sinn á leikinn.

Upphitun: Manchester City mæta á Anfield

Byrjunarliðið gegn City: Alisson snýr aftur í markið