Upphitun: Brighton & Hove Albion á Anfield

 

Eftir hágæða heimsókn til höfuðborgarinnar sem skilaði tveimur toppklassa útisigrum, 6 stigum og 6 mörkum þá snýr Rauði herinn aftur í sitt höfuðvígi á Anfield Road í Liverpool með það markmið að halda áfram á sigurbrautinni.

Upp, upp mín Liverpool-sál á uppleið upp töfluna og lof sé Robbie Fowler í upphæðum!! Upphitun is on!!

Mótherjinn

Brighton hafa verið á ágætu róli upp á síðkastið og eingöngu tapað einum leik á almanaksárinu 2021 en það var 1-0 ósigur fyrir Man City um miðjan janúar. Mávarnir bláhvítu unnu góðan sigur á Mourinho og Spurs í síðasta deildarleik þannig að gestaliðið mætir með stélið stíft og stútfullir af sjálfstrausti.

Galdralærlingurinn Potter fær góða ráðgjöf frá yfirskólameistaranum Klopp

Þrátt fyrir allar hrakspár þá hefur BHAFC tekist að festa sig í sessi sem sæmilegt úrvalsdeildarlið eftir að hafa komið upp í efstu deild árið 2017. Graham Potter er með liðið á sínu 3ja ári við stjórnvölinn og þrátt fyrir að liðið sé í 17.sæti deildarinnar að þá er það 7 stigum frá falli. Sigurhlutfallið er ekki það hæsta hjá Brighton en þeir hafa flest jafntefli í deildinni eða 9 talsins sem þýðir að þeir eru seigir í að forðast tap og stela stöku stigi.

Af áhugaverðustu leikmönnum gestanna verður langfyrst til að telja Adam sem var áður í Anfield-Paradís en er núna æruverðugur Hr. Lallana sem á ansi virðulegt verðlaunagripasafn. Því miður verður stúkan tóm þegar að Lallana snýr aftur til LFC en annars hefði hann fengið veglegt virðingarklapp sem hann á skilið eftir sinn 6 ára feril í herbúðum Rauða hersins.

Aðrir eftirtektarverðir eru hinn franski Maupay sem hefur skorað 7 deildarmörk og þeirra hættulegasti maður fram á við en einnig er hinn títtnefndi Ben White í vörninni sem hefur verið mikið orðaður við LFC síðustu misseri. Væntanlega verður White minna tengdur við innkomu í vörnina eftir innkaup gærdagsins en fyrir Púlara verður áhugavert að sjá hann spila gegn sóknarlínunni okkar á Anfield.

Byrjunarlið Brighton gæti litið út eitthvað í áttina að þessu:

Líkleg liðsuppstilling Brighton & Hove Albion í leikkerfinu 3-4-2-1

Liverpool

Heimamenn eru vígreifir eftir vígalegu upprisu í síðustu tveimur leikjum og stefna á sinn fyrsta heimasigur á árinu 2021 eftir daprar lokatölur í síðustu heimaleikjum. Meiðslalistinn hefur ekkert verið að styttast frekar en fyrri daginn og allt að 8 meistaraflokksleikmenn eru meiddir fyrir miðvikudagsmætinguna gegn mávamótherjunum. Seint í gær staðfesti Klopp að Joel Matip myndi missa af restinni af leiktíðinni sem gerir innkomu Kabak og Davies þeim mun mikilvægari það sem eftir lifir tímabils.

Stigin 3 sem í boði verða gegn Brighton eru jafn góð og í flestum deildarleikjum og við munum að sjálfsögðu stilla upp liði til að sigra leikinn. En hætt er við því að ákvarðanir með uppstillingu liðsins verði með stórleikinn gegn City á sunnudaginn í huga þar sem hann gæti haft mikið um titilvonir LFC að segja þetta árið. Hugsanlegt er að menn eins og Tsimikas, Neco Williams eða Oxlade-Chamberlain fái sjaldséða byrjunarleiki í nafni róteringar en erfitt er að gægjast inn í hugargátt þjálfarans hvað slíkt varðar.

Að mínu mati ætti Shaqiri og Nat Phillips að fá að halda sæti sínu og í ljósi flottrar innkomu mætti Curtis Jones fylla skarð Milner sem fór tæpur af velli gegn West Ham. Origi gerði ekki nógu mikið til að réttlæta slíkt en það er aldrei að vita hvort hann verði notaður til þess að spara aðra fyrir City-slaginn en það eina sem er víst er að Minamino verður ekki valkostur eftir óvæntan lánssamning til Southampton. Mané verður ekki tilbúinn eftir sín meiðsli og það gæti þýtt að Firmino kemur inn í framlínu til að aðstoða við að brjóta niður varnarpakka gestanna.

Að öllum fyrirvörum framsettum þá tel ég að 4-3-1-2 leikskipulag síðasta sigurleiks haldi velli og liðsuppstillingin verði eftirfarandi:

Líkleg liðsuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-1-2

Tölfræði

 • 1 deildarósigur í röð á Anfield eftir að hafa verið ósigraðir í rúm 3 ár og 68 deildarleiki. Tími til að hefja nýja sigurgöngu!
 • Liverpool hefur unnið síðustu 4 heimaleiki gegn Brighton í öllum keppnum.
 • Brighton hefur haldið hreinu í síðustu þremur úrvalsdeildarleikjum.

Blaðamannafundur

Klopp mætti glottandi og glaðbeittur fyrir framan fjölmiðlafólkið og gat loks svarað varðandi staðreyndir í stað slúðurs um innkaup á leikmönnum er hann ræddi nýju mennina Ben Davies og Ozan Kabak. Þá fór hann yfir meiðslastöðuna á hópnum með nýjustu tíðindum um Matip ásamt því að svara spurningum um gæði mótherjans:

 

Upphitunarlagið

Til endurheimta meistaralega sigurstemmningu þá þarf grjótharðan töffaraskap í upprisuna og enginn betur til þess fallinn en meistarinn, erkitöffarinn og fyrrum Brighton-búinn Nick Cave með sínum Vondu fræjum. Með Vestur-Berlínarbrjálæðinginn og stofnanda Einstürzende Neubauten, Blixa Bargeld á grillandi gítar þá er tími til að Bring it On vs. Brighton!!

(Viðkvæmir fyrir kaldhæðnis-tónlistar-twerki eru beðnir um að varast áhorf)

Spaks manns spádómur

Síðasti leikur gegn Brighton fór afar illa með VAR-vitleysu sem reyndist afar kostnaðarsöm í stigum talið. Ég hef fulla trú á að Liverpool hafi hug á að bæta úr þeim rangindum og tryggja sigur gegn liði rétt yfir fallsætunum. Við höfum vaknað að nýju í síðustu leikjum og vonandi er það form komið til að vera. En ég er einnig varasamur um dapurt og dýrkeypt gengi okkar gegn liðum í neðri hlutanum sem hafa pakkaði í vörn gegn okkur og City-leikurinn handan hornsins gæti truflað einbeitinguna.

Ég mun því hallast að því að við sleppum með skrekkinn og vinnum óþægilega torsóttan 2-1 sigur eftir vandræðagang fram eftir leik. Salah mun halda áfram að skora og Shaqiri mun setja eitt smekklegt í Samúelinn af sérlega löngu skotfæri.

YNWA

18 Comments

 1. Þessi leikur verður enn mikilvægari þar sem man utd er að slátra southampton sem eru einum leikmanni færri frá 2 mínútu. Ömurleg byrjun hjá þeim, ég sem var að vonast eftir að þessi leikur mundi enda með útisigri. Hvað um það, nú verðum við að reyna að klára þennan leik í fyrri hálfleik til þess að geta hvílt lykil leikmenn fyrir stórleikinn á sunnudaginn. Treysta svo á Jóa Berg og félaga á morgun. Ég spái þessu 4-1 og Salah heldur áfram sýningunni !

  3
 2. Heimaleikur á móti Brighton ætti alveg með fullri virðingu fyrir þeim að geta leyft okkur að sleppa því að nota Henderson í miðverði, skellum Nat Phillips og annað hvort Kabak eða Davies í djúpu laugina.
  Það er ekki eins og Brighton eigi eftir að liggja í sókn hvort eð er.
  Setjum Henderson á miðjuna og hann sér til þess að öskra á strákana í vörninni.
  Henderson, Thiago og Jones á miðjuna og Winjaldum fær að hvíla sig á bekknum fyrir stóra leikinn um helgina.

  1
   • Held reyndar að Davies sé löglegur, og líklegur til að koma við sögu, skv Liverpool Echo.

    1
  • Og ef þetta tímabil hefur kennt okkur eitthvað þá er það að vanmeta ekki liðin í neðstu sætunum. Það á að fara inn í þennan leik sem úrslitaleik. Stigin þrjú skipta öllu máli hér.

   7
   • Ef þú ert að vitna í mig þá er ég ekki að tala um neitt vanmat.
    Heldur að treysta þeim varnamönnum sem hafa spilað vörn í mörg ár í öðrum liðum og hafa reynsluna í að spila vörn, og hafa miðjumennina okkar á miðjunni þar sem þeir eru bestir.
    Ég myndi hafa fulla trú á því að Nat Phillips og Ozan Kabak gætu vel spilað saman í kvöld á móti Brighton.

 3. Jota á æfingu í dag.

  Ágætis líkur á að hann verði á bekknum gegn City.

  2
 4. Já var að svara þér, finnst persónulega eins og Henderson sé okkar besti miðvörður í dag. Þó svo Brighton eigi ekki eftir að liggja í sókn eins og þú orðar það þá munu þeir samt fá sín færi. Nat Phillips og Davies hafa aldrei spilað saman og hafa ekki mikla reynslu af úrvalsdeildinni. Ég skil það að vilja Henderson á miðjuna, en miðjan er samt vel mönnuð án hans, annað en vörnin. Verður gaman að sjá hvað Klopp gerir.

  3
 5. Ég held að þetta verði snúinn leikur, ekki nema að vélin sé hætt að hiksta. Brighton eru sýnd veiði en ekki gefin eins og nokkur úrslit hafa sýnt okkur.
  3 stig og sleppa við meiðsli væri draumurinn.

  2
 6. Brighton eru með fjandi gott lið og þeir spila fótbolta, e-h annað en WBA, Burnley og Sheff Utd. Þeir eru búnir að vera óheppnir í mörgum leikjum og hafa oft vaðið í færum en ekki náð að klára þau. Þeir eru mun betri en WBA, Sheffield, Fulham, Burnley, Newcastle og Crystal Palace. Myndi segja að þeir væru á pari við Wolves, Southampton (þegar þeir eru 11 🙂 ) Everton og Aston Villa.
  Það eru t.d tveir leikmenn þarna sem ég vildi virkilega fá til Liverpool, Yves Bissouma og Ben White.
  Svo eru þarna menn eins og Trossard, Lallana, Maupay og Gross allt mjög öflugir leikmenn.

  En þar sem að þeir eru ekki lið sem leggur rútunni þá er von á því að þeir opni sig til baka sem er jákvætt fyrir okkur. Liverpool verður örugglega meira með boltann eins og venjulega en ekki 80 /20 heldur meira svona 55 /45.

  Ef við spilum eins og í seinni hálfleik á móti WH þá hef ég ekki áhyggjur af þessu. Held samt að þetta sé ekki tímapunkturinn til að henda nýju mönnunum inn. Finnst liðið sem stillt var upp í upphituninni meika sens.

  3
 7. Einhver bölvaður orðrómur um að Alisson sé meiddur.

  vonum að svo sé ekki

 8. Er e-h markmaður jafn mikið meiddur og Allison? Þetta er magnað.

  Enginn Mane, Allison eða Matip. Það er ekki hægt að vinna neitt með öll þessi meiðsli. Þetta er með ólíkindum.

  1
 9. Staðfest. Allison er veikur. Vonandi ekki Covid.

  Alla vega ekki meiddur.

Gullkastið – Leikmannaglugginn og leikir í London

Liðið gegn Brighton – enginn Alisson