Tvöfaldur leikdagur – stelpurnar mæta Leicester

Það eru væntanlega allir með augun á leik Liverpool og United, og þarf ekkert að minna neinn á þann leik, leikþráður fyrir þann leik dettur inn um leið og liðið verður tilkynnt kl. 15:30. En í millitíðinni ætla stelpurnar okkar að vinna að sínu markmiði, sem er að komast aftur upp í efstu deild. Núna mæta þær Leicester en það vill svo skemmtilega til að Leicester eru einmitt á toppi næstefstu deildar. Bæði aðalliðin okkar eru því að fara að spila við liðið í efsta sæti núna í dag.

Þetta verður fyrsti leikurinn eftir að Vicky Jepson hætti sem stjóri, og í dag mun Amber Whiteley stýra stelpunum okkar, en hún var aðstoðarmaður Vicky. Ekkert hefur verið gefið út hvaða stjóri verður ráðinn, eitthvað var slúðrað um að Matt Beard gæti tekið við eftir að hann var látinn fara frá West Ham fyrr á leiktíðinni, en hann stýrði Liverpool einmitt 2013 og 2014 þegar liðið vann titilinn tvö ár í röð. En hann var að taka við Bristol tímabundið meðan aðalstjóri þeirra er í fæðingarorlofi, svo það er ljóst að einhver annar tekur við.

Hvað um það, svona stillir Amber upp sínu liði:

Laws

Robe – Moore – Fahey – Hinds

Parry – Roberts – Rodgers – Kearns

Babajide – Thestrup

Bekkur: Foster, Heeps, Clarke, Lawley, Furness, Ross, Brough

Uppstillingin er svolítið skot út í loftið, þetta gæti líka verið 4-3-3, en nú veit maður ekkert hvað ný manneskja við stýrið er að hugsa. Það eru nokkrir áhugaverðir punktar við þessa uppstillingu:

 • Lucy Parry er í fyrsta skipti í byrjunarliði, en fyrr í vetur varð hún yngsti leikmaður til að koma inná í leik hjá Liverpool Women frá upphafi.
 • Annar leikmaður úr akademíunni, Emily Brough, er á bekk og er að sjást þar í fyrsta skipti.
 • Melissa Lawley er á bekk, og líklega er það taktísk ákvörðun. Ekki er vitað til þess að hún hafi verið að ná sér af meiðslum eða neitt slíkt.
 • Bo Kearns fær hins vegar tækifæri í byrjunarliði, reyndar ekki í fyrsta skipti, en það kemur ekki svo á óvart að hún sé að stimpla sig inn.
 • Jess Clarke og Rachel Furness eru báðar að koma úr meiðslum og því ekkert skrýtið svosem að þær byrji á bekknum. Báðar geta komið mjög öflugar inn.

Síðasta leik sem Liverpool Women áttu að spila var frestað vegna Covid smits sem kom upp í leikmannahópnum. Miðað við hvernig hópurinn er samsettur í dag er líklegast að Jade Bailey, Ashley Hodgson og Becky Jane séu þær sem smituðust.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player, og því tilvalið að leggja daginn svona nokkurnveginn í heild sinni undir áhorf á okkar ástkæra klúbb.

KOMA SVO!!!

3 Comments

 1. 1-1 í hálfleik, Bo Kearns með mark Liverpool snemma leiks, en Leicester jöfnuðu úr víti sem var dæmt á fyrirliðann undir lok hálfleiksins. Allt í járnum.

  2
 2. Hefur eitthvað verið talað um að Carla Ward, þjálfari Birmingham, tæki við en þar er þjálfari sem þekkir næst efstu deildina. Hún var áður með Sheffield United í þeirri deild og tók síðasta sumar við Birmingham.

 3. Melissa Lawley kom inná í hálfleik og var send af velli með rautt spjald eftir rúmlega 20 sekúndna leik. Mjög Gerrard-esque stemming í gangi.

  1

Upphitun: Toppslagur á Anfield

Liðið gegn United