Stórmeistarajafntefli 0-0

Rauðu djöflarnir mættu í heimsókn á Anfield og liðin sættust á 0-0 stórmeistarajafntefli í frekar bragðdaufum leik.

Gangur leiksins

Við sáum tilbrigði við gamalkunnugt stef í leiknum í dag. Leikmenn Liverpool meira með boltann, andstæðingurinn pakkaði í vörn og treysti á skyndisóknir. Okkar menn voru ekki að finna sig í sóknarleiknum, voru kannski örlítið duglegri að skjóta en áður, en þau skot enduðu gjarnan framhjá eða yfir. Ekkert skot reyndi virkilega á De Gea í markinu.

Eftirminnilegasta atriðið í fyrri hálfleik kom líklega eftir 45 mínútur og 54 sekúndur þegar frekar slakur dómari leiksins flautaði til hálfleiks, heilum 6 sekúndum áður en uppgefinn uppbótartími var liðinn, og í þann mund sem Thiago sendi stungusendingu á Mané sem var að sleppa í gegn. Jú ég lýg því, það voru nú önnur eftirminnileg atvik sem komu upp. Eins og þegar United sluppu í gegn en voru rangstæðir, en hvorki dómari né aðstoðardómari gerðu neitt fyrr en okkar menn voru búnir að bjarga með nauðvörn. Þetta gerðist reyndar trekk í trekk, og meira að segja Ole Gunnar Solskjaer hafði orð á því að þessari reglu þyrfti að breyta. Við tökum undir það.

Síðari hálfleikur var svo að mestu leyti meira af því sama. Ekkert alvöru færi leit dagsins ljós, en Alisson þurfti tvisvar að taka á honum stóra sínum, varði í annað skiptið á línu með vinstri fæti. Klopp var greinilega á því að hann væri með sitt besta lið inná, og gerði enga breytingu fyrr en korter var til leiksloka þegar Curtis Jones kom inná fyrir Shaqiri. Á síðustu mínútunum komu svo Origi inn fyrir Firmino, og svo Milner fyrir Gini. Origi vann eitt horn sem var einu horni meira en maður bjóst við að hann myndi áorka. Hvorugt lið fann glufu á lokamínútunum og 0-0 jafntefli því staðreynd.

Bestu/verstu menn

Höfum þennan lið með styttra móti. Alisson hélt liðinu á floti með flottum vörslum þegar á þurfti að halda, og fær því nafnbótina maður leiksins, en Fabinho sýndi líka enn og aftur hvað hann er mikilvægur (og hvað það væri mikið betra að hafa hann framar á vellinum).

Þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið góð er erfitt að segja að einhver leikmanna hafi verið að spila áberandi illa. Trent sýndi batamerki, var að senda þversendingar yfir á Robbo hinu megin á vellinum. En fyrirgjafir inn í teig eru ennþá ekki af sömu gæðum og áður, því miður. En stærsta áhyggjuefnið er klárlega markaþurrðin hjá þríeykinu okkar góða.

Umræðan eftir leik

Nokkrir punktar:

  • Liðið er núna ekki búið að skora í 3 leiki í röð í deild, sem er gríðarlegt áhyggjuefni (í dag, gegn Southampton, gegn Newcastle). Þar á undan hafði liðið spilað um 80 mínútur gegn WBA án þess að ná að skora, og því erum við að detta í 360 markalausar mínútur (ef við teljum uppbótartíma með). Við tölum um skort á miðverði, og það er klárlega vandamál sem þarf að tækla, en skortur á því að skora mark er samt aðal höfuðverkurinn í augnablikinu. Jú þessi vandamál gætu vel verið tengd. Kannski þarf Fab að vera framar, vinna boltann fyrr, og þá kemst boltinn fyrr til sóknarmannanna.
  • Liðinu mistókst að skora á Anfield í deild í fyrsta skipti síðan í október 2018.
  • Hvenær mistókst Liverpool síðast að skora í 3 leikjum í röð í deild? Jú það var í mars 2005. OK, ef liðið vinnur meistaradeildina í ár eins og árið 2005 þá látum við þetta slæda. Annars ekki.
  • Dómarinn átti ekki góðan dag, en skipti ekki sköpum.
  • Hvað þarf Takumi Minamino eiginlega að gera til að fá mínútur? Hann skoraði gegn Palace og hefur svo ekki sést? En Origi fær mínútur? Nú er ég hættur að skilja.

Maður var að vona að áskorunin að mæta liðinu sem er á toppi deildarinnar myndi kannski hjálpa til við að sóknarlínan myndi hrökkva í gang. En það gekk því miður ekki eftir. Það er eitthvað öðruvísi varðandi hreyfingar án bolta, sendingar eru ekki jafn nákvæmar og þær þurfa, og við skulum ekki einusinni ræða færanýtinguna. Það hefur oft gerst að Liverpool hafi skapað sér fullt af færum en bara ekki náð að nýta þau, en núna er færunum líka að fækka sem er áhyggjuefni.

Liverpool er í fjórða sæti deildarinnar í augnablikinu, en það gæti breyst ef ókláraðir leikir falla í vil þeim liðum sem eru í toppbaráttunni.

Á maður að taka eitthvað jákvætt út úr þessu? Tja, leikurinn tapaðist ekki. Taplausa hrinan lengist aðeins, en með sama áframhaldi þá er stutt í að henni ljúki.

Næst: Burnley á heimavelli á fimmtudaginn, svo aftur United nema þá í bikar, og svo Tottenham úti í deild. Janúar klárast svo með enn einum útileiknum gegn West Ham á sunnudag eftir 2 vikur.

Sveiflurnar í því hvaða lið hafa verið á toppi deildarinnar hafa sýnt okkur að það er nóg eftir. En það er ljóst að ef t.d. City ætlar að fara á eitthvað “run” eins og þeir eru alveg með gæði til að gera, þá getum við kvatt allar vonir um titil í vor.

Er á meðan er. Vonandi styttist í að Jota verði leikfær, því það er alveg ljóst að það þarf að hrista upp í sóknarlínunni.

58 Comments

    • Nei, hættu nú alveg. Skaut þegar hann átti að gefa og gaf þegar hann átti að skjóta. Engar góðar ákvarðanir allan leikinn.

      7
  1. Himnarnir eru ekki hrinja og ég neita að trúa því að lið sem spilar eins og utd gerir standi uppi sem sigurvegari í vor. Enn ég myndi alveg þiggja meira frá fremstu þrem og ég ætla líka að nefna það sem ekki má nefna, já dómgæslan skaði okkur meira en þá. Verð líka að viðurkenna að utd áttu hættulegri færi og okkar fremstu eru bara ekki að vinna sína vinnu nægjanlega vel. Núna er bara áfram gakk og við eigum eftir að rísa upp og vinna glæsta sigra.
    YNWA

    9
  2. Góð markvarsla var það besta sem Liverpool sýndi í dag. Framlínan gjörsamlega heillum horfin, bitlaus og aldrei líkleg til að skora. Hvað í ósköpunum varð um alla leikgleðina og glimrandi sóknarboltann sem Liverpool spilaði í haust ? Hvað er eiginlega að hrjá okkar kæra Jurgen Klopp ?

    11
    • tja, fátt að hrjá stjórann fyrir utan að hann þráast við að spila ísklump sem fremsta manni. Mögulega vegna þess að ískaldur Firmino er samt skárri kostur en Minamino og Origi.

      Með Jota meiddan er breiddin fram á við engin.

      7
      • Mér finnst nú samt alveg mega nefna að mörgu leiti má skrifa slæmt gengi á Klopp.
        Andlega hliðin virðist farin og hann á bágt með að breyta taktískt í leikjum. Hann er ekki með neina ása upp í erminni.
        Að mínu mati var Óli Gunnar klókari í sínu uppleggi en Klopp og Manu nær því að stela sigri.

        3
  3. Liverpool voru betri heilt yfir..United áttu færri en mun hættulegri færi ..besti leikmaður vallarins var Alisson.

    Við verðum að halda áfram !

    YNWA

    8
  4. Liðið hefur ekki tapað á heimavelli í… hvað? 50 leiki? Rosalega er ég sáttur við það að þetta skyldi ekki verða leikurinn sem eyðilagði það rönn. Með engan hreinræktaðan bakvörð og heitasta framherja deildarinnar á bekknum – þá megum við svo sem prísa okkur sæl að vera ekki á verri stað. En það er morgunljóst að sitthvað þarf að breytast tilað staða mála batni.

    7
  5. Atvikið í lok fyrri hálfleiks og arfa slakur sóknarleikur það sem stendur upp úr þessum annars hundleiðilega leik.

    Hafði á tilfinningunni að við gætum stimplað fyrir framan vörnina klukkutímum saman án þess að skora.

    Annars bara game on. Við eigum stóran séns að vinna deildina aftur ef lukkan hefur ekki alveg yfirgefið okkur.

    Áfram Liverpool!

    8
  6. Enn fastir í sömu súpunni. Döpur skot. Lélegir krossar. Síðasta sendingin vond.

    Virkilega slæmt að vera bara með meðalmennsku á bekknum og þar af leiðandi fastir með Mané, Salah og Firmino þegar þessir meistarar hefðu svo fáránlega gott af smá bekkjarsetu.

    Svo er það þannig að spilmódelið hjá Klopp er ekki að virka lengur. Ekki einu sinni nálægt því. Það er of einfalt fyrir lið að verjast þessum sóknarleik okkar. Fjandinn við erum búnir að skora eitt mark í síðustu fjórum leikjum.

    Staðreyndin er sú að jafntefli í þessari deild gefa lítið sem ekkert og liðið er að falla niður töfluna.
    Við verðum í fjórða sæti þegar City verða búnir að vinna Palace á eftir og fimmta sæti ef Everton vinnur sinn leik sem þeir eiga til góða. Semsagt ekki einu sinni í CL-sæti.

    Þetta er fram að þessu versta titilvörn liðs í sögunni og þrátt fyrir mikið af meiðslum þá mega þjálfari og leikmenn skammast sín.

    Tímabilið er ekki búið en þetta verður brekka og pressan er á Klopp að finna nýjar lausnir.

    16
    • Að skammast sín er nú ansi djúpt í árinni tekið. Auðvitað þurfum við að finna netið aftur en það er að mínu mati óþarfi að tala illa um þetta frábæra lið okkar. Við förum vonandi í gang í næsta leik og VONANDI koma Gomez og Virgil fyrr en búist var við. Kaup á miðverði í janúar er mikilvægt og þarf bara að koma. Það er gríðarlega mikilvægt að fá Fabinho og Hendo á miðjuna.

      12
  7. 0-0 og blendnar tilfininga.

    Við stjórnuðum leiknum og spiluðu betri fótbolta gegn liði sem pakkaði í vörn. Við komust oft í góðar stöður en það vantaði að klára með skoti eða betri lokasendingu.
    Markvarsla og varnarlínan var góð. Það var ánægjulegt að sjá Trent eiga góðan leik aftur.
    Miðjan var líka ágæt þar sem við unnum miðjubaráttuna og náðum upp mjög góðu spila og ekki vantaði upp á vinnsluna.
    Það var samt sóknarlínan sem algjörlega brást. Aftur og aftur náðum við að búa til stöðuna 1 á 1 fyrir Salah og Mane sem náðu ekki að nýta sér, Firmino tók nokkrum sinnum ranga ákvörðun á ögurstundu og þá sérstaklega í fyrriháfleik þar sem Andy var tvisvar sinnum alein á fjær en hann Firmino snéri sér aftur inn í pakkan.

    0-0 þessi leikur búinn og núna er bara áfram gakk. Þessi úrslit voru vonbrigði en engin heimsendir. Það styttist í Matip/Jota og fullt af leikjum framundan.
    21.jan Burnley heima
    24.jan Man utd úti bikar
    28.jan Tottenham úti deild
    31.jan West Ham úti deild.

    Ég spái því að við vinnum allan þessa leiki og við förum brosandi inn í febrúar mánuð.

    YNWA

    p.s Ef við verðum ekki meistarar þá verður Man City það.

    9
  8. Sælir félagar

    Þessi leikur var vonbrigði. Klopp er búinn að hafa 9 til 13 daga til að vinna með liðið og margbúinn að lýsa því yfir að nú yrði farið “back to the basic” en ekkert hefur breyst. Framlínan steingeld, uppspilið hægt og fyrirsjáanlegt og árangurinn eftir því. Þetta er nákvæmlega það sama og í síðustu leikjum. Liðin pakka og “breika” svo á okkar menn. Við getum þakkað Alisson að leikurinn einfaldlega tapaðist ekki.

    MU verður aldrei meistari til þess vantar hæfileika í liðið. En þeir verða að öllum líkindum í einu af efstu fjórum sætunum. Það er aftur á móti ekki víst að Liverpool verði það. Til þess verða leikmenn að vinna leiki. Til þess þarf Klopp að hafa aðrar hugmyndir en bara þessar sömu og ekkert plan B. Það þarf að fara að bekkja bæði Mané og Salah. Það þarf að kaupa leikmenn sem geta breytt leikjum. Það þarf sem sagt ýmislegt að breytast.

    Það er nú þannig

    YNWA

    16
    • Sigkarl

      “Það þarf að fara að bekkja bæði Mané og Salah”

      Hverja viltu þá fá með Bobby þínum? Minamino, Ox, Origi, Shaq. Þitt er valið.

      9
      • Birgir hvern sem er þessara nema Origi. Það getur ekki verið verra. Að mínu áliti þurfa Salah og Mané að líta í eigin barm. Þeir eru liðsfélagar fyrst og fremst ekki keppinautar. Þegar leikmenn eru í svo mikilli samkeppni innan liðsins að þeir gefa helst ekki boltan hvor á annan þá er illt í efni. Þetta er hluti af vandamálinu.

        Það er nú þannig

        YNWA

        5
      • Salah gefur boltann bara á þá liðsfélaga sem EKKI eru í marktækifæri. Snýr sér til baka og gefur aftar á völlinn. Fyrr má nú vera glory-hunting, að enginn annar megi skora. Lét þetta fara í taugarnar á mér í dag.

        2
    • Við keyptum heldur betur leikmenn sem geta breytt leikjum i Jota og Tiago. Menn sem eru keyptir núna seint í jan þurfa að vera heimsklassa svo þeir komi strax inn og ýti liðinu áfram. Geta líka meiðst strax eins og hinir tveir. Kaupa,kaupa,kaupa, eins og það bjargi öllu?

  9. Þurfum að hafa Hendo og Fabinho á miðjunni og þá fer þetta að rúlla í rétta átt. Trúi ekki öðru en nýr varnarmaður verður keyptur áður en glugganum verður lokað á ný

    5
    • Þetta er rétt Matti. Það gjörbreytir upplegginu og sóknargetu liðsins ef við værum með alvöru miðverði (án þess að taka neitt af Fab) og og einn bezti varnarmtengiliður í branzanum fengi að vera í sinni stöðu. Hann ásamt Hendo og Diego á miðjunni með alvöru vörn fyrir aftan sig ásamt Alisson væri allt annað lið. En það á ekki að kaupa neitt svo þetta verður uppleggið amk. fram á vor.

      Það er nú þannig

      YNWA

      3
  10. Það sýnir nú alveg að Liverpool er á góðu skriði þegar fólk fagna 0-0 Manchester sigri , fyrir nokkrum árum hefði þetta verið öðruvísi þ.e.a.s Hefði þetta verið 0-0 Liverpool sigur, ekki örvænta þegar okkur fólk fær að mæta aftur förum við að sjá okkar menn aftur. Man utd er ennþá bara að keppa um 4 sætið. Þú vinnur ekki titilinn með þessa tölfræði sem man utd sýndi í þessum leik þetta er fall baráttu spilamennska. Því miður vinnur city í ár með Liverpool á hælunum .
    UNWA

    1
  11. Gott að fá stig úr þessum leik. Erum enn ósigraðir á Anfield, í deildinni þ.e.a.s.
    Eigum enn séns á titlinum þó við séum dottnir niður í þriðja sæti.
    YNWA

    3
  12. OK City er að fara að taka deildina. Nú er bara að tryggja meistaradeildarsætið og vinna meistaradeildina og FAcup í vor

    1
  13. Glötuð töpuð tvö stig. Bobby góður sagði einhver hér , en ég er algjörlega ósammála, hann tók margar rangar ákvarðanir í leiknum og hefði getað lagt boltann tvisvar á Robbo í dauðafæri en gerði það ekki. Slappur bara !
    Það var engin hraði í liðinu, göngubolti, leikskilningur ekki mikill hjá Thiago og framherjum. Salah og Mane ekki nógu nasty framherjar, alltof “kurteisir”

    7
    • hvað er þetta. Bobby getur skorað með skalla og jafnvel fótunum ef markið er opið.

      1
  14. 18 leikir búnir og 20 leikir eftir og þrjú stig til að vinna upp. Mörkin fara að koma og við erum ekki að leka inn mörgum mörkum.
    YNWA

    2
  15. Sæl og blessuð.

    Hvað gerðist þegar VvD mætti til leiks? Jú titlar komu í hús. Hverjir vinna titla? Vörnin.

    Við sjáum þessa grunnreglu fótboltans í hnotskurn núna. Stóru strákarnir, téður Virgill, Matip og (m.a.s.) Lovrén eru ekki með og það er eins og hryggjarsúlan skekkist. Miðjumenn falla aftur í vörn og allir eru á tánum um að missa ekki boltann. Hendo og Fab. eru ekki að dæla boltum fram og stoppa sóknir í fæðingu. Flæðið riðlast og það nær alveg fram í topp.

    Svo má auðvitað svara ráðgátu pistlahöfundar um viðveru Origi þarna í lok leiksins. Af hverju er blessuð hengilmænan alltaf sett inn í svona leikjum? Jú, það er vegna þess að hún eykur meðalhæðina inni í teig andstæðinganna. Þetta var ekkert mál þegar stóru strákarnir voru með – en núna er litli Minamino ekki að fara að leggja mikið til þegar dæla á háum boltum inn að marki féndanna.

    Þetta er ekki flókið. Everton tókst að rústa fyrir okkur deildinni og auðvitað var það feigðarflan að tefla góðum leikmönnum fram í Midtjylland leiknum. Heitasti framherji deildarinnar er ekki með í þessum leikjum og við reitum hár okkar og skegg yfir markaleysi.

    Jæja, en hvernig sem næstu leikir fara þá er alltaf von á flottu rönni og langþráð sigurhrina heldur okkur í baráttunni allt til enda tímabilsins.

    10
  16. Jákvætt að leikurinn tapaðist ekki þrátt fyrir vængbrotið lið en þeir með sitt sterkasta.
    Klárlega vonbrigði að við virðumst ekki geta keypt okkur mörk, ef þið sáuð City leikinn áðan þá sýndi hann hvað það er gott að geta skorað utan teigs. Nú hefst eltingarleikurinn við City, því miður.

    5
  17. Nú þegar mesta fýlan er farin úr mér gleðst ég yfir þvi hvað Klopp var sjálfum sér líkur í viðtalinu eftir leik. Það er ávísun á bjartari tíma.

    3
  18. Þetta atriði þegar flautað er til hálfleiks í miðri stungusendingu undirstrikar það sem er í gangi. Þetta hefði aldrei verið gert ef hinir hefðu verið í þessari stöðu. Ótrúlegt.

    Annars er áhyggjuefni hvað við skorum litið en það mun lagast.

    3
  19. Með okkar bestu miðjumenn í miðverði er þetta aldrei að fara að ganga. Alltof mikil varkárni í gangi.

    3
  20. Fremstu þrír eru búnir á þvi og leikur liðsins hægur og fyrirsjáanlegur. Milner inn í lokin undarleg skipting og það er átakanlegt að sjá Firmino svona dapran og Wijnaldum mjög duglegur og vinnur mikið en það gera líka þvottavélar.

    Aliason stóð upp úr annars frekar lélegu LFC liði.

    4
  21. City eru að spila besta og árangursríkasta boltann núna og eru lang líklegastir til að taka titilinn. Miðað við það sem Liverpool er að sýna um þessar mundir held ég að þetta verði bara keppni um top four finish hjá þeim í ár. Skortur á miðvörðum sem hefur leitt til skorts á miðjumönnum á miðjuna, er líklegasta skýringin held ég. Af einhverjum ástæðum eru fremstu þrír líka afar ólíkir sjálfum sér, Mane byrjar leiki vel en týnist svo stundum og Salah kemst litið áfram. Reyndar magnað að sjá hvað hann fær litið af aukaspyrnum miðað við hvernig varnarmenn taka á honum.
    Önnur lið finnst mér samt ekki vera að sýna mikinn stöðugleika (fyrir utan City). Leicester eru mjög misjafnir og Spurs eru of einhæfir. United eru að ná í úrslit án þess að spila sérstaklega vel sem hefur stundum verið kallað meistaraheppni og Chelsea eru að sýna hvað gerist ef þú kaupir bara alla sem er verið að hypa á netmiðlum, sama hvað þeir kosta.
    Ef Liverpool nær smá rönni þá er ss ekkert langt í toppinn en ég sé það bara ekki gerast miðað við stöðuna á hópnum.
    En ég spái City þessum titli og vona að Klopp nái góðu gengi í FA og CL í staðin. Svona er þetta bara.

    2
    • Mikið sammála þér um allt sem þú segir nema……. þú segir “er líklegasta skýringin”….. ég segi, það ER skýringin! Okkar fyrstu tveir á miðjuna komnir í miðvörðinn í stað van Djik og Gomes tekur allt flæði og jafnvægi úr liðinu! Hryggjarstykkið farið sem fær það sem ofar er til að bogna og gefa eftir.

      Svo bætir ekki að sá sem hefði mögulega geta hrist upp í þessu í gær og síðustu leikjum, Jota, var spilað í tæpar 90 mínútur í tilgangslausum leik á móti MidtJylland – það skrifast á Klopp!

      Ég skrifaði í gær að ég óttaðist úrslitin um leið og ég sá uppstillinguna þannig að ég er sáttur við 1 stig miðað við allt og allt. Þeir sem vermdu bekkinn voru/eru því miður bara ekki “matchwinner” – skiptingarnar bara til að halda stiginu. Ætla ekki að segja neitt um Origi í þetta sinn! Gini alltaf traustur en væntanlega orðinn langþreyttur og kannski kominn með hugann til Barcelona. Bobby líka þreyttur. Salah finnst mér á löngum köflum eins og einhver balletdansmær klappandi boltanum út í hið óendanlega, Shaqiri mætti leysa hann af í næsta leik og fá Ox á miðjuna. Mane sprækur og reynir en einhver þreyta þar finnst mér líka.

      Ef enginn miðvörður keyptur núna í janúar þá getum við gleymt titilbaráttu – hún tapaðist líklegast í leiknum á móti Everton!

      4
  22. Við erum þremur stigum frá toppnum og erum að spila mjög illa. Ég sé þetta þannig að við eigum helling inni.

    9
  23. Held að það sé ágætt að ranta aðeins hér…svona fyrir podcastið í kvöld.

    Verst í þessu öllu finnst mér hvað liðið okkar er að spila óstjórnlega leiðinlegan og steingeldan fótbolta. Síðustu fjóra leiki hafa liðin sest til baka, lokað á teiginn sinn, leyft okkur að vera að mestu með boltann og hleypt okkur inn á síðasta þriðjung og leyft okkur að krossa.

    Við höfum ENGIN svör haft við þessu og þar er ekki bara við sóknina að sakast. Þetta endalausa boltaklapp, sendingar til baka og aftur skila nákvæmlega ekki neinu og í leik gærdagsins var það Alisson sem kom í veg fyrir tap. Leikplan United vissum við, þeir sitja aftarlega og reyna að sækja hratt og þegar líður á leik fara Bruno og Pogba að svindla á varnarleiknum til að fara í svæðin sem opnast þegar lið þreytast. Það tókst þeim algerlega í gær. Þar kom líka til að miðjan okkar var ákaflega sundurlaus varnarlega.

    Það hjálpar svo sannarlega ekki að tveir af þremur mest skapandi leikmönnum liðsins, þeir Bobby og Trent eru svo langt frá því að vera nálægt eðlilegri getu að þetta snýst ekki lengur um mótiveringu eða eitthvað annað en að þeir eru á einhverjum stað sem þeir virðast ekki komast uppúr.

    Í viðtalinu fyrir leik margsagði Klopp að við yrðum að vera “brave” í okkar uppleggi. Það hélt í 15 – 20 mínútur fannst mér og svo byrjaði sama boltaklappið og við sáum gegn WBA, Soton og Newcastle. Síðast gerðist það 2005 að LFC vann ekki í fjórum leikjum í röð og það var held ég 1992 sem við unnum ekki í fimm leikjum. Hvernig við erum komnir þangað eftir nærri 200 stig á tveimur keppnistímabilum vekur mér ugg.

    Það voru gerð mistök (mögulega skiljanlega) að uppfylla ekki skarð Lovren í sumar. Það voru gerð ótrúleg mistök að leggja leikinn við Midtjylland upp á þann hátt sem var gert og ef að niðurstaðan í janúar verður sú að þessir tveir hafsentar munu leysa stóru leikina þá einfaldlega verðum við ekki meistarar og þá vert að hlusta á Klopp tala um það að aðalatriðið sé að enda í topp fjórum…ég veit ekki enn hvað mér á að finnast um það.

    Ég allavega er langt frá því að sætta mig við það að liðið mitt leysi ekki sín vandamál á þann hátt að við vinnum titla. Það hefur aldrei í sögunni verið í betra standi fjárhagslega og ef þarf að hætta því aðeins til að vinna titla þá geri ég þá kröfu. Það er stundum erfitt að bera saman íþróttir en ég er líka Lakersmaður og tók alla meðvirknina þegar það var endalaust verið að byggja upp og búa til framtíð. Svo loksins fundu menn hjartað og gerðu það sem þurfti fyrst til að vinna titil og eru nú að fjárfesta til að vinna titla áfram.

    Ef þetta verður eini titill Liverpool á vegferð Klopp þá erum við bara Blackburn eða Leicester á sterum.

    14
    • Mikið sammála þér Maggi og vitna í það sem ég var að setja í loftið í 26.1.

      Er Klopp að henda inn hvíta handklæðinu þegar áherslan er núna á topp fjóra?! Er hann um leið að kvitta undir það að það verði enginn miðvörður keyptur í janúar?!

      3
    • Ég er á margan hátt sammála þér með svarleysi okkar manna og mögulega eru andstæðingar okkar bara búnir að finna eitthvert svar við því hvernig á að stoppa okkur með því að pakka svona hressilega í vörn og beita svo skyndisóknum. Greinilegt að það eru fleiri sérleyfishafar komnir í deildinni en vinur okkar og frændi, Mourinho.

      Hinsvegar er liðið okkar ekkert í góðum málum fjárhagslega, rétt eins og öll önnur lið, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í þessu Covid-ástandi sem er búið að standa alltof lengi yfir. Gleymum því ekki að Liverpool ætlaði að hoppa á ‘furlough’-vagninn í fyrra en voru reknir heiftarlega tilbaka með þá ákvörðun þegar um hana fréttist. Track record FSG er bara þannig að það er enginn að fara að skella sér á einhvern yfirdrátt eða veðsetja félagið með einhverjum bankalánum í þessari óvissu. Menn lögðu í glæsileg kaup í haust í framlínu á miðju en veðjuðu á að vörnin myndi halda sér og uppskáru þá síðan þetta – hinn fullkomna skítastorm í boði VAR!

      Útilokum ekkert í kaupum fyrr en glugginn skellur í lás en væntanlega eru menn að meta stöðuna hvar við stöndum og hvaða tækifæri eru á því að slá í gegn í deildinni áður en teknir verða einhverjir sénsar í wildcard-kaupum.

      Verandi sjálfur Lakers-maður þá vitum við það alveg að málið er ekkert leyst með því að henda peningum á það og vona að það leysist, ekki ertu búinn að gleyma Luol Deng og Timofey Mozgov-dílunum? 🙂

      5
    • AFhverju er Trent svona aftarlega á vellinum getur verið Klopp sé búinn að skipa honum að fara ekki eins fram á völlinn eftir meiðsli VVD/ Gomez,Matip ? finnst hann virka steingeldur og vera senda eh lúðra bara eitthvert fram á völlinn og þegar hann er þetta aftarlega þá verða sendingarnar náttla bara erfiðari.

      Kanski er þetta ýmindun í mér en mér finnst Klopp slá vopnin úr höndum hans ef þetta er rétt hjá mér þaes biðja Trent um að fórna part af sóknarleiknum til að hjálpa brothættri vörn.

      3
      • Samt hefur vörnin alls ekkert verið slæm undan farið sóknarleikurinn hefur verið geldur.
        Reyna kenna front 3 um allt saman meikar ekki sense fyrir mér það er brotinn pottur og panna í öllu spilinu finnst mér.

        3
      • EÐA kanski er Trent einfaldlega ekki búinn að jafna sig 100% eftir þetta covid drasl allavega það er virkilega erfitt fyrir mig að fylgjast með Trent þar sem hann hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðustu ár en þetta tímabil er búið að vera hreint út sagt lélegt hjá honum.

        3
  24. Sælir félagar

    Ég er sammála Svavari hér fyrir ofan að vera aðeins 3 stigum frá toppnum eins og liðið er að spila er magnað. Liðið okkar með svakalega hryggskekkju hangir í efstu 4 sætunum þó það geti breyst og við hrapað niður í 6. sætið í vikunni. Það er samt öllum ljóst að meðan liðið hefur þessa hryggskekkju (þ.e. að hafa enga miðverði og láta öflugustu miðjumennina spila hafsent) þá lagast gengið ekki.

    Afleiðingar hryggskekkjunnar eru að allt uppspil verður of hægt, bakverðirnir koma ekki nógu ofarlega og framherjarnir eru alltaf að slást við fullskipulagða vörn andstæðinganna. Þetta þýðir aðeins eitt; Liðið skorar ekki mörk. Meðan ekkert er gert í því að leiðrétta hryggskekkjuna þá er mænan í liðinu löskuð og árangurinn samkvæmt því.

    Meðan liðið hafði sterkan og beinan hrygg: Alisson, Virgil, Fab, Hendo, Firmino og svo Salah og Mané þá var það illviðráðanlegt. Bakverðirnir voru meira og minna á vallarhelmingi andstæðingsins og höfðu litlar áhyggjur af varnarhlutverkinu, mjög hraðir miðverðir (Gomes,Virgil) voru upp undir miðlínu meira og minna og ef andstæðingurinn náði boltanum voru sóknir hans brotnar á bak aftur og “breikað” á þá og oftar en ekki skorað.

    Mitt álit er það að ef ekkert verður gert í varnarmálum liðsins þá sígum við niður töfluna og getum endað 8. til 6. sæti. Hvað kostar það í peningum? það kostar meira en að kaupa alvöru varnarmann dýrum dómum.Sú umræða að enginn varnarmaður vilji koma því hann detti út úr liðinu um leið og Virgil og Gomes ná sér heldur ekki vatni.

    Sagt var að Gómes mundi ef til vill ekki spila fótbolta framar?!? Það þýðir að sá varnarmaður sem keyptur verður, mun alltaf vera varnarmaður númer 2 og verzta falli númer 3 ef Gomes nær sér aftur. Matip er engin ógn fyrir neinn miðvörð því hann leikur ekki nema 10% af leikjum liðsins. Nýr miðvörður sem er góður verður því í mikilli spilamennsku með liðinu svo fremi hann hafi til þess hæfileika og getu.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  25. 7. Gr knattspyrnulaga(dómaralaga eða eitthvað svoleiðis) brotin.
    Diogo jota þarf að koma úr meiðslum núna og á bekkinn með salah, þá byrjum við að skora 2-3 mörk í leik aftur. Áfram með smérið.

    3
  26. Ég er 100% sammála Magga, er Klopp bara að henda inn handklæðinu, aðalatriðið að vera í topp 4 ? Aðalatriðið er að vera nr 1 , svo í topp 4 ! Þetta varnarmanna vesen hjá okkur er svoldið neyðarlegt og ég hreinlega trúi ekki að það verði ekki annað hvort keyptur eða fengin að láni einn hafsent. Við vorum bara steingeldir gegn þessari varnarblokk og nú gera næstu andstæðingar okkar það sama, pakka bara í vörn og sækja síðan hratt og nýta eina eða tvær af þessum þremur skyndisóknum sem þessi lið fá. Á Klopp virkilega ekkert svar við svona rútubolta ???? Origi hefði alveg mátt fá eins og 30 mínútur í gær, ekki var Bobby að gera mikið af viti allavega, kolrangar ákvarðanir hjá honum sí og æ.

    3
  27. Það gladdi mig bara óheyrilega mikið að sjá vin okkar Trent Alexander-Arnold aðeins sýna hvað hann getur gert þannig að vonandi er hann að finna taktinn sinn aftur.

    Hinsvegar velti ég því fyrir mér hvort að það sé eitthvað annað bara Covid-stress í mannskapnum? Maður sá allt fara á hliðina hjá liðinu í aðdraganda þess að skellt var í lás í fyrra (duttum út úr bikar og meistaradeild á einni viku) eða er mögulega einhver pirringur eða lélegur mórall útaf því að Salah er að reyna að komast til Real Madrid?

    3
  28. Þetta sýnir okkur enn og aftur að miðjumenn eru og eiga að vera miðjumenn. Allt spil liðsins hefur riðlast og uppbygging sókna er langt frá því sem við eigum að venjast. Thiago virkaði flottur og mikið væri gaman ef við sæjum miðjum með Hendó, Thiago og Fabinho, snillingar allir í að koma boltanum í glufur og þá ættum við að fara að sjá þríeykið skora meira. Númer eitt að skella í kaup á alvöru varnarmanni sem hefur reynslu af Enska boltanum held ég. Jota er svo ás sem við eigum uppí erminni hvenær sem hann verður klár og hann getur brotið upp mynstrið í uppspilinu sem flest lið virðast lesa eins og opna bók. Ekki er laust við að ég sakni Kútinjó til að láta vaða fyrir utan teig, það er því miður lítil skotógn fyrir utan teig þessa dagana því miður og uppleggið virðist enn vera að það verði helst að rekja boltann inn í teig til að klára sóknirnar ? Keep on rocking , örugglega erfiður leikur gegn sæmilega sprækum Fulham mönnum en ég treysti því að Matip í það minnsta verði klár í þann leik en er mátulega bjartsýnn á að svo verði.

    3
    • Reyndar eru “Jóhann Berg og félagar” næstir á dagskrá, smá heilaþoka á ferð hjá mér en Burnley menn munu örugglega parkera rútunni og treysta á skyndisóknir, spurning hverjir finna glufur á þeirri rútu ?

      1
  29. Fábio Henrique Tavares, þessi leikmaður er einfaldlega besti knattspyrnu maður á Englandi.

    3
  30. Salah og Mane hafa báðir fengið covid. Mèr finnst eins og fólk gleymi þeirri staðreynd að þessi sjúkdómur er ekki bara hættulegur heldur veldur langvarandi veikindum.

    Liverpool hefur ekki Van dijk lúxusinn, sem er að bakverðirnir funkera eins og wingbacks á meðan tröllið át alla bolta og sá við öllum.

    5

Liðið gegn United

Gullkastið – Þurr janúar