Kjaraviðræður framundan?

Gleðileg Jól

Keyrum inn í jólin með vangaveltum um þá ákvörðum Mo Salah að veita spænska fjölmiðlinum AS viðtal á dögunum og raunar kannski frekar afhverju stuðningsmenn Liverpool ættu ekki að hafa neinar teljandi áhyggjur af því.

Salah að undirbúa brottför eða samningsviðræður?

Stór hluti af þeim kjarna sem hefur komið Liverpool í allra fremstu röð er núna á aldrinum 27-30 ára og hafa flestir þeirra verið hjá félaginu í 2-3 tímabil eða lengur. Innanvallar er þetta frábært mál, Liverpool liðið er nokkurnvegin á besta aldri og við sjáum það sannarlega í leik liðsins. Utan vallar er þetta flóknara og ljóst að framundan eru breytingar. Það eru margir leikmenn að komast á aldur fyrir síðasta og mögulega stærsta samning ferilsins og verða flestir með lítið sem ekkert endursöluvirði að honum loknum.

Alisson (28), Van Dijk (29), Matip (29), Henderson (30), Wijnaldum (30), Thiago (29), Ox (27), Fabinho (27), Mané (28), Salah (28), Firmino (29) eru allir í þessum hópi. Næsta lið verður ekki byggt upp í kringum þá alla, sérstaklega þegar þeir eru allir að fara fram á stóra samninginn næst.

Mo Salah hefur frá því hann kom til Liverpool nánast ekki gefið viðtal fyrir utan þessi dæmigerðu viðtöl sem klúbburinn heldur utan um eða eftir leiki o.þ.h. Hann gaf eitt tæplega fjögurra mínútna viðtal eftir að hann skoraði rúmlega 40 mörk fyrsta tímabilið annars er allt að því vonlaust að fá viðtal við hann. Hann þarf klárlega að fara extra varlega í að segja sína skoðun (um málefni ótengd fótbolta) vegna stjórnarfarsins í Egyptalandi. Það sem Salah segir hefur heilmikla vigt í hans heimalandi.

Það var því mjög óvanalegt að hann gæfi AS færi á viðtali, ekki bara það heldur var þetta alvöru sjónvarpsviðtal þar sem blaðamaðurinn kom til hans á Merseyside, ekki í gegnum Zoom eins og flestir blaðamenn þurfa að gera núna á tímum Covid. Það að hann hafi yfirhöfuð gefið viðtal er í raun stærra mál en það sem hann sagði í þessu viðtali.

En afhverju er hann að gefa AS sem er óopinbert málgagn Real Madríd færi á sér (af öllum fjölmiðlum)? Á sama tíma leka fáránlegar sögur frá vini hans að hann sé ósáttur við eitthvað hjá Liverpool, eins um að hann sé ósáttur við að hafa ekki fengið fyrirliðabandið í fullkomlega pointless leik gegn Midtjylland.

Salah á 2,5 ár eftir af núverandi samningi og því klárlega kominn tími á að hugsa næstu skref, hvort sem það verði í sumar eða sumarið 2022. Hann er 28 ára og með £200.000 á viku sem gerir hann einn launahæsta leikmann Liverpool en klárlega eitthvað sem hann gæti hækkað verulega í næsta samningi. Þetta er ástæðan fyrir þvi að hann er að gefa AS færi á sér núna.

Ágætt samt svona til að hafa þetta í samhengi að £200.000 á viku gera um 35 mkr eða um 140 mkr á mánuði…og það er of lítið!

Viltu fara í póker við Michael Edwards?

Liverpool hafa sannarlega sýnt það undanfarin ár að þeir eru með öll spilin á hendi, ef að Salah vill fara næsta sumar þegar hann 29 ára og á tvö ár eftir af samningi koma aðeins 3-5 lið til greina sem mögulegir kaupendur. Barca, Real, Juve, PSG og mögulega A. Madríd. Bayern er aldrei að fara eyða svona fjárhæð og ég efast um að Liverpool selji hann til annars liðs á Englandi.

Ein mikilvægustu leikmannaviðskipti Liverpool í tíð Jurgen Klopp voru sem dæmi salan á Coutinho. Klopp keypti ekki einu sinni sóknarþenkjandi leikmann til að fylla hans skarð en gerði samt liðið mun sterkara. Við vitum ekki hvað hefur átt sér stað bak við tjöldin en það er eins og Salah og hans teymi séu að bjóða Edwards og Liverpool í ákveðin póker með því að hefja samningsviðræður á því að daðra við spænsku risana. Ekki viss um að það sé besta aðferðin.

Það er alls ekki þar með sagt að ég vilji selja Salah, hann ætti að eiga 4-5 ár eftir í allra hæsta klassa og er að skila fáránlega góðum tölum hjá Liverpool. Þetta er líklega besti framherji Liverpool í Úrvalsdeildinni. Hann er betri en Owen og Torres sem dæmi og alveg í klassa með Fowler og Suarez þó hann spili allt annað hlutverk en þeir gerðu. Öfugt við Suarez er lítið sem ekkert vesen á honum utanvallar og öfugt við Fowler er hann jafnan leikfær.

Það sem Salah þarf líka að spyrja sjálfan sig að og það sama á við um alla þessa leikmenn sem núna fara að banka á dyrnar hjá Edwards er hvort þeir þurfi Liverpool jafn mikið og Liverpool þarf þá? Verða þeir jafn stór partur af jafn góðu liði annarsstaðar?

Sama hvað Coutinho grenjaði lengi um að fá Barca draum sinn uppfylltan breytti það því ekki að hann varð aldrei aðalmaðurinn á Camp Nou og endaði sem lánsmaður hjá Bayern þrátt fyrir 142m kaupverð. Það er auðvitað frábært lið líka en leikmaður í þessum gæðaflokki/verðflokki er ekkert lánaður nema hann hafi gert í buxurnar. Það var fullkomið þegar hann var tekin af velli í búningi Barca á Anfield í 4-0 tapi í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Coutinho er langt í frá eini leikmaðurinn sem er heimsklassa leikmaður í frábærlega þjálfuðu liði Klopp en getur svo ekki blautan annarsstaðar, ekkert í grend við þær hæðir sem viðkomandi náði hjá Klopp. Salah fór sannarlega upp um 1-2 level um leið og hann fór að spila undir stjórn Klopp.

Hver í fjandanum vill fara frá Liverpool?

Klopp hefur alltaf sagt að þeir leikmenn sem ekki vilja spila fyrir Liverpool megi fara, auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt, klúbburinn selur þá sannarlega á sínum forsendum en það tekur jafnan ekki langan tíma.

Aðalatriði númer 1,2,3 og upp í hið óendanlega er að halda Jurgen Klopp og hans þjálfarateymi og eins Michael Edwards og hans teymi. Með þessa hópa við stjórnvölin hefur maður mjög litlar áhuggjur af leikmannamálunum. Ef að Salah er seldur eru allar líkur á að hans skarð verði fyllt og jafnvel rúmlega það með styrkingu á liðinu heilt yfir. Ekkert endilega með öðrum alveg eins leikmanni. Sama á við um nánast alla leikmenn liðsins. Á þessu tímabili erum við m.a.s að horfa á liðið leysa skarð bæði Van Dijk og Gomez með heimatilbúnum lausnum.

Það sem er bara svo erfitt að skilja er afhverju í fjandanum einhver af núverandi kjarna vilji fara frá Liverpool. Það sem Liverpool er að gera núna er eitthvað sem leikmönnum dreymir um að upplifa á ferlinum.

Ógnin af Real Madríd og Barcelona er vissulega áfram til staðar einhverra hluta vegna en bæði lið eru lakari en Liverpool og stefna ekkert endilega í rétta átt, öfugt við Liverpool og bara enska boltann almennt. Það eru vissulega forsetakosningar í Barcelona og miklu lofað í þeirri baráttu en félagið er jafn drullumikið á hausnum fyrir því. Real Madríd gæti eins þurft að leita annað ef þeir ráða ekki við Mbappe, t.d. Salah, þeir þurfa þá bara að borga það sem Liverpool fer fram á.

Hverjir fylgja á eftir? 

Gini Wijnaldum stóð í svipuðum sporum 28 ára og Salah er núna. Félagið hefur ekki ennþá boðið honum nógu góðan samning að hans mati og nánast öruggt að hann fari á Bosman 30 ára gamall. Hans staða er samt kannski aðeins öðruvísi þar sem félagið hefur keypt fjölmarga í hans stöðu sem gætu fyllt hans skarð. Það hefur auðvitað gengið ævintýralega illa að halda þeim heilum og spilar Gini jafnan alla leiki sama hvernig samkeppnin er. Hann er að toppa um þessar mundir sem gerir brottför hans erfiðari.

Eflaust er hann búinn að fá mjög góðan samning annarsstaðar og nýja áskorun í nýju landi. Síðasti landsliðsþjálfari Hollands er t.a.m. að þjálfa Barcelona. Engu að síður efast ég um að það sé góð ákvörðun fyrir hann fótboltalega séð að fara frá Liverpool næstu 2-3 árin. Það hefur engin slegið hann úr liðinu ennþá og samkeppnin verður alveg til staðar hjá hinum risaklúbbunum líka.

Thiago er á sama aldri og vissulega alvarlegasta samkeppnin, Keita er 25 ára, Curtis Jones 19 ára og Ox 27 ára, þeir eru allir leikmenn sem eru nú þegar að berjast við Wijnaldum um stöðu. Það er því erfitt að sjá Liverpool fara all in í nýjan 3-4 ára samning við þrítugan Wijnaldum.

Henderson og Thiago – Það sem flækir stöðu Gini er líklega að félagið þarf líka að ákveða framtíð Henderson og Thiago er auðvitað fengin með næstu árin í huga. Henderson hugsa ég að verði samið við áfram og ekkert spáð í endursöluvirði á honum. Best ef hann klárar bara ferilinn svo gott sem á Anfield.

Sóknartríóið – Af sóknartríóinu hugsa ég að Firmino sé sá þeirra sem er hvað mest ósnertanlegur. Endursöluvirði hans er líklega lægra en Salah og Mané og mikilvægi hans fyrir Liverpool jafnvel meira í þeim skilningi að Klopp ætti að eiga auðveldara með að finna og þróa arftaka þeirra en hægt er með Bobby. Eins er ekkert víst að Bobby yrði eins stór partur af öðru liði, Liverpool hentar honum fullkomlega.

Það er samt ekki þar með sagt að Klopp gæti ekki fyllt skarð Firmino, hann mótaði jú líka Robert Lewandowski sem leikmann!

Sadio Mané er svo eins og Salah og jafngamall. Vonandi verður hann áfram hjá Liverpool næstu 3-5 árin, ef ekki er hann nú þegar með samning og Liverpool með öll spilin í hendi.

Ósnertanlegir

Það eru að mínu mati þrír alveg ósnertanlegir næstu árin af þessum hópi sem er 27-30 ára.

Alisson – Meiðslasaga hans undanfarið er vissulega áhyggjuefni en hann er bara 28 ára og sá langbesti sem við höfum séð hjá Liverpool síðan Ray Clemence var í markinu.

Van Dijk – Hann er víst í samningsviðræðum núna þrátt fyrir meiðslin. Vonandi fáum við hann jafngóðan til baka því hann er hálfgerður svindlkall í þessu liði. Höfum samt í huga að Liverpool liðið er svo vel þjálfað að þeir hafa enn sem komið er fyllt skarð Van Dijk og Joe Gomez án þess að bæta neinum nýjum við leikmannahópinn.

Fabinho – Svei mér þá ef Fabinho er ekki bara mikilvægastur af þeim öllum. Það er fullkomlega sturlað hvað hann er að gera í miðverðinum í fjarveru Van Dijk. Hann var lokapúslið sem vantaði áður en Liverpool fór að landa stóru titlunum og það er ekki tilviljun. Besti DMC hjá Liverpool í úrvalsdeildinni, framar en Hamann og Mascherano.


Næstu stórstjörnur

Liverpool hefur lítið gert á leikmannamarkaðnum undanfarin ár, þessi kjarni sem við erum að tala um myndaði fyrsta Liverpool lið Jurgen Klopp sem náði alla leið. Fabinho kom sumarið 2018 og er í raun síðasti nýliðinn í þessum kjarna. Það eru tvö og hálft ár síðan og verða þrjú ár í sumar. Keita sem kom á sama tíma hefur ekki náð að brjóta sér leið inn í þennan kjarna, er kannski að því fyrst núna.

Það er því alveg komið tími á nýjar stjörnur og næstu menn inn í kjarnann. Diogo Jota hefur stimplað sig mjög vel inn, hann er svipuð leikmannakaup og Liverpool gerði í Firmino, Salah og Mané þegar þeir komu. Leikmaður sem er á barmi þess að taka næsta skref uppávið og á frábærum aldri.

Thiago er einn besti leikmaður sem Liverpool hefur nokkurntíma fengið, hann var bókstaflega í liði ársins hjá UEFA á þessu ári þrátt fyrir að hafa ekkert verið með síðan í sumar. Það er ekki algengt að Liverpool fái svona heimsklassa leikmenn á hátindi ferilsins og það frá öðru elítuliði.

Curtis Jones er við það að brjóta sér leið úr akademíunni og Naby Keita gæti farið að láta til sín taka.

Ef að einhver af þessum kemur inn í þennan kjarna minnkar vægi annarra.


Gleðileg Jól 

Förum með þetta veganesti inn í hátíðarnar, Liverpool er á toppnum um jólin þriðja árið í röð. Félagið hefur sjaldan eða aldrei verið í betri höndum en akkurat núna og lítið að óttast þegar kemur að slúðri tengdu leikmönnum Liverpool. 

Kop.is samsteypan óskar lesendum, hlustendum og ferðalöngum gleðilegra jóla. Við erum ekkert að ljúka árinu nærri strax enda nóg að gerast fram að áramótum. 

Jólakveðjur

Einar Matthías, Maggi, SSteinn, Daníel, Eyþór Guðjóns, Óli Haukur, Hannes, Maggi Beardsley, Ingimar og Sigurður Einar

12 Comments

  1. Ég hugsa að líka verði horft í hvaða leikmenn eru gjarnir á að meiðast.

    Naby Keita er dæmi um leikmann sem gæti verið að spila upp á framtíð sína hjá LFC.
    Síendurtekin meiðsli hafa verið að pirra marga stuðningsmenn og það eðlilega.

    Annar galli við Keita er að það tekur hann ávallt nokkra leiki að finna taktinn í liðinu eftir meiðsli.

    Nú hefur komið upp sú staða að Keita sífellt meiddur og á milli meiðsla hefur hann átt slæma leiki.

    Pirraðir stuðningsmenn hafa látið orð út úr sér eins og hann geti ekkert, sé farþegi og þar fram eftir götunum.

    Þetta er sérlega sorglegt í ljósi þess að Keita hefur átt frábærar frammtistöður í liðinu og virðist henta fullkomlega í pressubolta Klopp. Mikil vinnsla yfirferð, duglegur til baka býr yfir gæðum stil að splundra vörn andstæðingana.

    Keita er á háum launum, á 3 ár eftir af samning og með þessa meiðslasögu gæti orðið erfitt að losa hann, sérstaklega á covid tímum.

    Nú er bara að krossa fingur og vonast eftir að við fáum loksins að sjá hvað býr í þessum magnaða leikmanni.

    4
    • Klárlega málið og innkoma Curtis Jones gæti haft áhrif líka. En þessi gagnrýni á Keita á alls ekkert alltaf við rök að styðjast og margir þeirra sem gagnrýna hann mest voru líka að gagnrýna Wijnaldum og Henderson áður en betri skilningur fékkst á þeirra hlutverki.

      Það gæti reynst rándýrt að fá Naby Keita loksins heilan ef við fáum einhverntíma að upplifa það. Hann var ekkert meiðslahrúga áður en hann kom til Liverpool. Þegar Keita spilar vel á miðjunni er pressan hjá Liverpool jafnan sturlað góð.

      2
    • Ég hef greinilega misst af þeim fáu leikjum sem Keita hefur sýnt frábærar frammistöður. Getur vel verið að það búi eitthvað miklu meira í þessum gæja en í mínum bókum er hann að nálgast flopp stimpilinn.

      2
  2. Varðandi Salah og Gini þá getum við alveg tekið Barcelona úr umræðunni.

    Ein af ástæðum þess að þeir vilja ekki að Coutinho nái 100 leikjum er sú að það verður erfitt fyrir þá að finna þessar 20 millur til að borga LFC.

    Það eru sirka 1% líkur á að Koeman verði stjóri Barcelona næsta sumar þannig að það ætti ekki að spila neina rullu í ákvörðun Gini.

    Hvaða lið ætti þá að kaupa Salah?

    Madrid? Það er möguleiki og margt þar sem freistar Salah þó Liverpool liðið sé sterkara en RM í augnablikinu. Ég hugsa þó að Mbappe sé þó alltaf fyrsti kostur hjá Real.

    Juventus eru að reyna að lækka launakostnað, Bayern eru væntanlega ekki að kaupa rándýran 29 ára leikmann.

    Hinn möguleikinn er PSG. Hins vegar sé ég ekki hvernig PSG gæti freistað Salah með öðru en peningum.

    Möguleikar Gini eru hins vegar fleiri þar sem hann er samningslaus og myndi væntanlega sætta sig við 150k á viku, á meðan Salah væri alltaf að biðja um 350k.

    4
  3. Engar áhyggjur félagar, það verða allir hjá okkur sem Klopp vill halda. Kutaleiðin er komin úr tísku. Eins og Klopp sagði við Kutann, vertu áfram hjá okkur, og þú munt verða legend. Eða, ef þú vilt fara til Barca, verður þú einn af hinum, bara ekki legend, eða þannig. Við þekkjum sjóferð þá, sem og þessir strákar.

    YNWA

    5
  4. Frábær grein og gleðileg rauð jól á alla! Við erum bestir.

    6
  5. Sælir félagar

    Takk fyrir þessar vangaveltur Einar og vonandi fer enginn neitt nokkurn tíðar tímann – eða þannig. Það er eðlilegt að Salah og fleiri stjörnuleikmenn (það er nóg af þeim í LFC) hugsi sig um. Miðað við launagreiðslur Manchester liðanna og fleiri eru laun leikmanna LIverpool ekki há. Ég vona að samt verði samið við þá sem Klopp og félagar vilja halda og svo verða menn bara að fara ef þeir vilja ekki vera. Að vilja ekki vera áfram hluti af meistaraliði Liverpool er óskiljanlegt en hver skilur svo sem það sem fer fram í kollinum á fótboltamönnum.

    Annars vil ég nota tækifærið og óska kop-urum og öllum öðrum stuðningsmönnum í öllu universinu gleðilegra jóla og ánægjulegra loka á þessu ári bæði fótboltalega séð og svo að öðru leyti sem auðvitað er ekki eins mikilvægt eins og allir vita.

    Það er nú þannig

    YNWA

    10
  6. Hrikalega góð grein, og já við skulum alveg undirbúa okkur undir að þeir selji Salah eða Mane næsta sumar. Þá eru þeir á hátindi, resell value í botni og þannig hugsar lið sem er í Moneyball.
    En þá þarf að finna annan Jota, það held ég. Treysti Klopp að gera það … en ég treysti þó ekki upp á Minamino … Ef ég set mig í hugarheim Salah þá skil ég hann vel. Hann þarf að negla eins stóran samning og hann getur eftir þetta 2.5 ár, því það verður síðasti samningurinn sem hann gerir af þeirri stærðargráðu sem öllum knattspyrnumönnum langar í. Kannski býður LFC honum það, kannski verður það annað lið það á eftir að koma í jlós. Eftir sem áður mun ég ávalt vera ógeðslega þakklátur fyrir hans framlag og aldrei hugsa um hann sem einhvern svikara. Hann er búinn að gefa okkur það mikið.

    Varðandi Gini snýst þetta um að hann er grjótharður á 4 ára samningi á meðan LFC hefur boðið honum 3ja ára samning. Þetta snýst ekki um launin, þetta snýst um lengdina.

    Annars, gleðileg rauð jól félagar, við erum á toppnum og ætlum að vera þar áfram.

    3
  7. Ég held að Salah kjósi að fara frá Liverpool. Hann er búinn að gera meira en nokkurn hefði órað fyrir í Liverpool og hann gæti verið áfram, en það yrði algjört comfort zone fyrir hann. Mér finnst mjög eðlilegt að hann vilji prófa eitthvað nýtt meðan hann er ennþá í hæsta gæðaflokki, því það varir ekki að eilífu. Það er auk þess ekki eins og hann sé fæddur í Liverpool eða hafi haldið með Liverpool frá barnæsku, fyrir utan það að hugarheimur ungra knattspyrnumanna er allt annar í dag en fyrir 20+ árum þegar heimurinn var minni og liðshollusta meiri.

    5
  8. Frábær greining, takk kærlega!

    Gleðilega hátíð!

    3
  9. Nú hef ég stundum verið að dunda mér við að skrifa wikipedia greinar á íslensku um lið um allan heim, hef mikið verið að skrifa um lið í þýsku búndesligunni undanfarið t.d, nú finnst mér vanta að það sé skrifað um sögu Liverpool í nákvæmu máli á wikipeida, enn mér finnst meira viðeigandi að það sé gert að Liverpool stuðningsmanni.

    2
  10. Þurfum við á Salah að halda ?

    já að sjálfsögðu en breiddin er orðin svo mikil að við virðumst getað verið án lykilmanna í einhvern tíma. T.d héldu margir að Liverpool næði aldrei að vera þessi drápsvél án Van Dijk en það reyndist ekki vera rétt.

    T.d reynið að stilla upp besta byrjunarliði LIverpool þar sem enginn er meiddur ?Væri þetta lið nærri lagi ?

    Mane- Firmino- Salah-
    Thiago – Fabinho- Henderson
    Robertson- Van Dijk – Gomes – Trent Alexsander.
    Alison

    Diogo Jota, ætti hundraðprósent tilkall til þessa liðs miðað við þá framistöðu sem hann hefur sýnt en til þess að hann kæmist inn í liðið þyrfti einhver af heilögu þrenningunni að fara út úr liðinu eða einhver af miðjunni og þá vandast leikurinn. Hver ætti það að vera ? Ég er ekki einu sinni viss hvort ég sé með bestu miðjuna því Wijnaldum, Jones og Keita eru ansi sterkir líka.

    Það sem ég er að reyna að segja er að breidd liðsins er lygileg og því réði Liverpool alveg við að missa salah ef það væri ekki að missa fjóra fimm leikmenn á sama tíma og gerði einhver svona dæmigerð Michael Edward-kaup í staðinn. T.d Sarr hjá Watford, eða einhvern ámóta.

    Svo má ekki gleyma akademiunni. Það er mikil nýbreyttni að sjá svona marga unglingaliðsleikmenn koma upp, Willams eitt og williams tvö, Jones og svo að sjálfsögðu Trent Alexsander. Þetta er þess valdandi að breiddin í hópnum eykst ennþá meira og því má liðið meira við því að missa stórstjörnur, annað hvort í meiðsli eða selja þá.

    Ég vil að sjálfsögðu EKKI selja Salah. Hann er þegar orðin goðsögn hjá klúbbnum og ég vil frekar að hann ljúki ferlinum hér og kveðji ekki okkur aðhangendur með svipuðum hætti og Coutinho og Sterling en ég trúi því að þeir sjái eftir því núna í dag að hafa farið. Já Sterling líka, því ég held að það sé miklu sætara að verða Englandsmeistari með liðum eins og Liverpool, Man Und, Tottenham, Arsenal, Leicester en oliíuveldinu Man City.

    4

Gullkastið – Rauð Jól

Stóri Sam kemur í heimsókn