Leikur gegn Spurs annað kvöld

Annað kvöld kemur Tottenham í heimsókn á Anfield í leik á milli tveggja efstu liðana í deildini undanfarnar umferðir.

Bæði lið misstigu sig nokkuð óvænt um helgina en Liverpool gerði jafntefli við Fulham á útivelli og Tottenham gerði það sama á útivelli gegn Crystal Palace. Þannig séð má því að segja að bæði lið hafi mistekist að taka smá auka forskot inn í þennan leik og geta notað sigur í honum til að ná sér í “tveggja leikja forskot” á hitt liðið rétt áður en jólatörnin byrjar.

Tottenham kemur inn í þennan leik sem kannski aðeins sigurstranglegra liðið miðað við umræðuna í kringum leikinn og aðstæður liðana. Þeir hafa verið á góðu skriði og nælt sér í góð úrslit gegn sínum helstu keppinautum. Fyrr í vetur flengdu þeir Man Utd 6-1 á útivelli, unnu Man City og Arsenal 2-0, gera markalaust jafntefli við Chelsea á útivelli svo þeir hafa náð í sterka punkta í svona leikjum.

Varnarleikur Tottenham hefur verið nokkuð öflugur í vetur og hefur Mourinho tekist að koma sínum stimpli þokkalega inn í hann. Þeir eru oftar en ekki mjög skipulagðir á miðjunni og í öftustu línu og hafa oft verið erfiðir að brjóta niður – en það eru þó klárlega leiðir í gegnum þá eins og hefur líka sést. Þeir gera mjög vel í að kaupa Hojberg frá Southampton í sumar sem hefur komið mjög vel inn á miðjuna hjá þeim, góður leikmaður sem kemur með meiri baráttu á það svæði fyrir þá og gætu þeir þurft hann í toppstandi í þessum leik.

Þeirra helsta ógn er samt auðvitað Harry Kane og Heung-min Son sem hafa verið sjóðandi heitir í vetur og flest öll mörk þeirra hafa komið frá þeim og hafa þeir verið rosa duglegir í að skapa fyrir hvorn annan. Lykillinn að því að stöðva Tottenham er að ná að núlla þá nægilega mikið því þeir hafa verið að refsa liðum rosa harkalega upp úr beinskeyttum skyndisóknum.

Liverpool verður heilt yfir með mjög sterkt byrjunarlið á morgun og hef ég fulla trú á að það lið sé jafnvel að mestu leiti sterkara en liðið sem Spurs mun stilla upp. Salah, Firmino og Mane munu pottþétt byrja, Wijnaldum og Jones verða á miðjunni, Trent og Robbo í bakvörðunum, Alisson í markinu, Fabinho verður þarna og Henderson líka – en það er bara spurning í hvaða stöðu hann muni vera. Það helsta sem gerir stöðu Liverpool fyrir þennan leik frekar óþægilega er að Matip fór meiddur út af í hálfleik í síðasta leik og Henderson fór niður í miðvörðinn með Fabinho. Að mæta jafn góðum framherjum og Son og Kane með bara einn miðvörð (sem er btw miðjumaður) er alls ekki draumastaðan og þarna gæti leikurinn ráðist. Sem og að allir helstu “varamenn” liðsins sem líklegir eru til að koma inn á og breyta gangi leiksins Liverpool í hag eru meiddir þessa stundina; Thiago, Jota, Shaqiri.

Klopp greindi frá því að Naby Keita gæti kannski komið aftur inn í hópinn fyrir leikinn en hann missti af síðasta leik vegna einhverra vandræða og það yrði fínt. Svo ef Henderson yrði í miðverðinum með Fabinho þá er kannski ekki ólíklegt að hann kæmi þá beint inn á miðjuna en ég held að þeir muni reyna allt sem þeir geta til að tjasla Matip saman og koma honum í gegnum þennan leik og myndu þá frekar gefa honum frí um helgina. Fyrir utan þessa einu miðvarðarstöðu og bekkinn þá er þetta Liverpool-lið með gífurlega öflugt lið sem gæti alveg þess vegna kaffært Tottenham og svona leikir hafa oftar en ekki verið þeir leikir þar sem við sjáum Liverpool upp á sitt allra besta og vonandi verður það raunin annað kvöld og Liverpool tækist að ná smá forskoti á toppnum.

Vonandi verður þessi leikur meira í takt við það sem Liverpool sýndi úti gegn Atalanta og gegn Leicester og Wolves en það sem boðið var upp á gegn Fulham og Brighton. Maður biður ekki um mikið, bara góða frammistöðu og þrjú stig takk!

15 Comments

  1. Man City fékk bara EITT stig á móti West Brom! Spennan í deildinni eykst…

    6
    • Frábær úrslit og chelskí töpuðu. Allt er galopið og við þurfum bara að stóla á okkur sjálfa.

      Eigum við að segja 2-1 og þá yrði ég alveg í 30þús fetum!

      12
  2. Sæl og blessuð.

    Fésbókin rifjar upp að um þetta leyti fyrir ári hélt ég úti reglulegum uppfærslum á niðurstöðu úr formúlunni:

    Stig Liverpool – (stig mu + stig arsenal) = x

    X var nánast alltaf jákvæð stærð þótt mu og arsenal ættu eðli málsins samkvæmt möguleika á 0-6 stigum í hverri umferð en við bara 0-3…

    Nú er öldin önnur en fyrir vikið er mótið meira spennandi. Ég lagði það á mig að horfa á City/WBA – uppbótartímann og maður minn hvað þetta voru rosalegar mínútur! Í tvígang skalla bláir að marki ómarkeraðir á markteig en markvörðurinn hjá wba náði að verja. Gott að hafa city þetta langt að baki okkur.

    Varðandi leikinn við Spurs þá er það vissulega rétt að okkar aðallið er harla gott en menn þurfa að eiga rosalegan dag til að mæta þeim hvítu. Og svo þegar varamenn mæta til leiks þá er eins gott að þeir standi sig. Þá er aldrei að vita nema að þetta hafist. En það þarf líka allt að ganga upp.

    5
  3. Ég er á því að við erum klárlega sigurstranglegri á Anfield heldur en Tottenham. Byggi það á árangri á Anfield undan farin ár og svo einfaldlega liðunum.

    Tottenham munu verjast aftarlega og beita skyndisóknum en þeir hafa verið góðir í því í stórleikjum. Liverpool munu stjórna leiknum og ég hef trú á að Mane/Salah/Firmino fari í gang í þessum leik og að miðjan okkar mætti til leiks frá byrjun(annað en í síðasta leik).

    Spái 2-1 sigri Liverpool Mane og Salah skipta þeim á milli sín og Kane að sjálfsögðu fyrir Tottenham úr umdeildri vítaspyrnu.

    6
  4. Þessi leikur á morgun er 6 stiga leikur og verður bara mikilvægari eftir úrslit kvöldsins. Við verðum 70% plús með boltann gegn rútu móra. Aðalatriðið er að það verði hægt að manna varnarlínu okkar almennilega gegn kane dýfara og kóreska hermanninum. Ef við stoppum þá erum við í góðum málum, hvar væri tottenham í deildinni ef þeir báðir væru meiddir ?

    Við tökum þetta 3-0 ! Salah með þrennu !

    4
  5. Sælir félagar

    Það er mér nokkur raunabót að sjá hversu jákvæðir og vonglaðir þið eruð hérna á kopinu. Ég er hinsvegar mjög áhyggjufullur og þori engu að spá um þennan leik. Það er mjög vont ef hann tapast, jafntefli er ´betra og sigur hvernig sem hann næst kemur mér upp til skýjanna þar sem Svavar verður væntanlega líka. Mikið yrði ég glaður að hitta hann í 30 000 fetum eftir leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  6. Takk fyrir góða upphitun ekkert væl um meiðsli og leikjaálag orðin þreytt umræða þetta er hluti af leiknum og er í höndum Klopp og annara þjálfara að leysa við erum með besta hópinn í deildinni til að mæta þessum aðstæðum…3-1

    7
  7. Móri tekur enga áhættu og mun stilla upp leik til að ná 0-0 eða lauma inn marki.
    Ef Matip er ekki heill er Klopp að vissu leyti í svipaðri stöðu—ekkert uppúr því að hafa að keyra til sigurs ef það auðveldar Móra að stela marki.

    Líklegt að einstaklings mistök munu ráða úrslitum, ef ekki fer 0-0. Enn líklegra að VAR ráði úrslitum því þar eru flest mistökin gerð þessa dagana… Vil samt giska með hjartanu og segi að við skorum mark þar sem einstaklings getan gerir muninn og vinnum 1-0 fyrir Houllier.

    2
  8. Það verður að vinna þennan leik fyrir Houllier í það minnsta !

    8
  9. Það virðast öll helstu liðin eiga sinn lélega leik, tapa eða gera jafntefli á móti ,,fyrirfram,, unnum liðum. Liverpool er þar engin undantekning, en engill í fallega rauðum búningi á hægri öxlini hvíslar að mér að liðið komi vel stemdir til leiks, vel kvattir af 2.000 áhorfendum sem virka eins og 20.000, peppa okkar menn upp í 30.000 fetin til þeirra Svavars Station og Sigkarls, halda sig bara við fjarlægðarmörkin félagar, ca 2 km.
    2-0.

    YNWA

    5
  10. Maður er nú ekkert alltof bjartsýnn fyrir þennan. Ekkert svigrúm að rótera og menn voru frekar slappir í síðasta leik. Ætla samt að spá 3-0 Mane með þrennu….

    1
  11. Þetta verður eitthvað.
    Annað hvort verður þetta hundleiðinlegt og taugatrekkjandi eða við skorum snemma og völltum yfir þá.

    btw: Hvar er Dele Alli? Er búið að selja hann? Meiddur? Eða bara hættur að vera góður í fótbolta?

    2
    • Ég held hann sé bara of sóknarsinnaður til að Móri fíli hann.

      5
  12. Mourinho notar ekki Alli. Hann hefur ekki byrjað síðan í 1 leik gegn Everton í leik sem tapaðist 0-1. Var tekin af velli í hálfleik þar og ekki sést nema einhverjar örfàar mínútur síðan. Talað um að PSG vilji hann að láni í janúar. Okkar menn gætu notað hann bara segi svona.

Gullkastið – Gérard Houllier

Liðið gegn Tottenham