Upphitun: Rauði herinn á Craven Cottage

 

Rauði herinn er mættur við fúllyktandi árbakka Thames þar sem Fúlham ráða ríkjum og styttur poppglæpamanna rísa og falla eftir eigendaskiptum. Fulham fárast í fulltíma fallbaráttu og fá fátt af fótboltastigum fyrir framlag fulltrúa félagsins. En léttleikandi Liverpool leita allra leiða til að leggja lægri liðin á leiðinni í að lyfta League Title. Uppsteyptar styttur og upphitun!

Spilarinn M. Jackson var rekinn af velli og þurfti að vera fjarlægður af starfsmönnum árið 2013. Lítið hefur spurst til hans síðan.

Mótherjinn

Fulham komust snögglega upp um deild eftir að hafa lent í 4.sæti Championship og unnið umspilsleik á Wembley gegn erkifjendum sínum í Brentford. Enski fyrrum landsliðsmaðurinn Scott Parker tók við liðinu á vordögum 2019 þegar að liðið var svo gott sem fallið úr Úrvalsdeildinni en hefur gert ágæta hluti með liðið síðan þá. Síðast þegar að liðin mættust á sama vettvangi þá unnu okkar menn óþægilegan 1-2 sigur og voru undarlegheitin undirstrikuð með því að Ryan Babel skoraði mark hvítklæddra!

Heimamenn hafa byrjað mótið herfilega, enda ekki líklegir til afreka hvort sem er, en hafa þó tekið pólskiptum í afstöðu til heimspekilegrar spilamennsku og skipt yfir í leikkerfi og þankagang sem var líklegra til að halda sæti í deildinni. Í byrjun móts var opinn leikur og mikið spil í gangi en eftir 4 stig úr 9 leikjum var aðgerða þörf og stjórinn Parker steig hraustlega á bremsuklossana með massíft meiri varnarleik.

Mitrovic hnykklar væntanlega vöðvana á varamannabekknum

Hinn fullvaxni en fokdýri framherji Mitrovic sem hafði hingað til verið aðalpunktur sóknarspilsins var nú kominn á varamannabekkinn með agnarlítilli innkomu. Það skilaði fljótt árangri með sigri gegn Leicester en tapi í næsta leik gegn ljósbláum Man City.

Staðan er því væntanlega sú að við séum að fara að mæta varnarsinnuðu Fulham-liði sem gerir sér vongóðar væntingar um stakt stig með skyndisóknum eða happadrættis sigri með VAR-vitleysu. Ef henda ætti upp hugmynd að byrjunarliði hvítliða þá væri það á þessa vegu:

Líklegt byrjunarlið Fulham í leikkerfinu 3-4-1-2

LiverFul

Merkilega margir leikmenn hafa spilað fyrir bæði Liverpool og Fulham og þannig fæst neðangreint samsett, sagnfræðilegt lið beggja liða. Sérlega sókndjarft lið sem þarf að leysa miðvarðarstöðuna með varnartrölli frá Noregi. Goðsagnir framliggjandi og þetta lið mun klárlega skora mörk gegn hvaða liði sem er en óséð með varnarvinnuna. Danny Murphy spilaði sannanlega mikið fyrir bæði lið en þar sem hann hefur verið sérlega fáviskulegur upp á síðkastið þá kemst hann ekki í hóp.

Líklegt byrjunarlið LIverFul FC í leikkerfinu 3-3-1-3

Liverpool

Okkar menn fengu fríspil í Meistraadeildinni gegn Midtjylland í miðri viku og Klopp ákvað að leyfa liðinu að skella sér í Legoland að leika sér. Það sást greinilega á frammistöðu liðsins þegar að sumir voru að kubba með Lego City en aðrir fikta við tækni-Legó sem þeir réðu ekki við.

 

Að öðru leyti en CL-verðlaunafé og tækni-Legó vandræðum þá skipti sá leikur helst því máli að heiðra efnilega spilara eins og Leighton Clarkson & Billy Koumotio með Meistaradeildarmínútum á leikferlinum. Hvíldin fyrir lykilmenn var mismikil þar sem keppnisskapið í Klopp varð þess völdum að fullt af fyrsta flokks mönnum var spilað í óþægilega mörgum mínútum í Midtjylland.

Helstu fréttir úr rauðum herbúðum er að Jota og Tsimikas séu líklega óleikfærir en Alisson gæti verið valkostur að nýju. Það er hugsanlegt að meistari Alisson sé of nýlega mættur til æfinga að Klopp taki sénsinn á honum útaf toppslag gegn Tottenham og spili því Kelleher í fjórða leikinn í röð. En ég gef mér að uppljóstrunin um heilbrigði Alisson sé vísbending um að hann spili gegn Fulham og ég tel að Klopp vilji stilla upp sterku liði til að klára leikinn snemma með hvíld í huga. Curtis Jones spilar enda orðinn fullgildir liðsmaður í róteringunni og planið verður að klára leikinn sem fyrst með mjög sterku byrjunarliði.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Blaðamannafundur

Þegar Jurgen Klopp horfir beint á þig í myndavélinni þá talar hann inn í sálina á þér og dáleiðir dulvitundina. Fær þig til að trúa á stærra sjálf, common sence og Liverpool FC. Og þannig var blaðamannafundur dagsins:

Scott Parker dáleiddi engan en hafði þetta að segja á móti:

Tölfræðin

  • Liverpool hafa unnið 6 af síðustu 6 leikjum gegn Fulham í öllum keppnum og Fulham hafa tapað 5 af síðustu 6 leikjum á heimavelli. Við tökum þeirri tölfræði fagnandi.
  • Liverpool hafa gert jafntefli í síðustu 3 útileikjum í Úrvalsdeildinni og tími til kominn að ná hámarksstigum á útivelli.

Upphitunarlag

Eins og Bobby Firmarley söng og samdi: “We are jamming, we’re Fulhaming”….

Spaks manns spádómur

Þegar allt andlegt og efnislegt fótboltabókhald er yfirfarið þá er sú eina niðurstaða möguleg í þessum hverfula heimi okkar að Liverpool sigri Fulham á þessum síðbúna sunnudegi. Þau þrjú stig sem í boði eru verða of auðfengin til þess að Klopp muni leyfa þeim að sleppa úr sínum greipum en auðvitað er enski boltinn með sinni VARsjá hið mesta ólíkindatól (7,9,13).

Að öllu endaslepptu og endurteknu þá mun Rauði herinn sigra leikinn með yfirburðar þriggja marka mun og mín sérlega spaksmannsspá er sú að Salah setji tvö mörk og Mané setji hið eina eftirliggjandi í 0-3 sigri við Thames-ánna.

YNWA

20 Comments

    • Þetta er það sem maður hræðist. Menn meiðast og þeir sjálfir virðast ekki vita af því fyrr en á æfingu daginn eftir… eins og þú segir Maggi, þá er þetta engu öðru en keppnisskapinu hans Klopp að kenna að við eigum Jota ekki inni. En við munum seint sjá Klopp fara aðrar en sínar eigin leiðir þannig það þýðir ekki að nöldra yfir því.
      Þetta er leikur sem verður að vinnast og verður að vinnast sem fyrst. Salah og Trent voru að spila 100 mín í miðri viku og annar þeirra er nýstiginn uppúr vöðvameiðslum.
      Völlurinn í danmörku var þungur og ég gæti alveg trúað því að það verða ennþá nokkrar þungar lappir á æfingu á morgunn þannig ég bið þig herra Klopp að fara varlega með strákana.
      Eins held ég að Fulham-liðar gætu aðeins minnkað þrýstingin á vökvabúnaðinum, bara svona til að gera andstæðingnum sínum aðeins erfiðara fyrir,, er það ekki eitthvað bragð sem “litlu” liðin hafa verið að nýta sér þegar enginn sér til?
      Annars kæmi mér lítið á óvart ef Neco (Trent), Phillips (Fabinho/Matip) og Kelleher (Allison) væru í byrjunarliðinu og jafnvel Minamino fengi að tylla sér á kantinn fyrir Salah. Tottenham í miðri viku, við megum ekki við neinum stórslysum..

      Vinnum þetta stórt og Mané og Bobby verða í stuði.

      2
  1. Jota fékk högg í síðasta leik og er tæour. Verður mögulega hvíldur en ætti að ná Tottenham leiknum.

    • Reyndar ekki vitað hve slæm meiðslin eru. Hljómar verr núna en það gerði strax eftir leik.

  2. Það er galið að Jota hafi spilað þennan leik í DK ásamt nokkrum öðrum lykilmönnum. Virkilega pirrandi því það var nákvæmlega enginn ástæða að spila þeim. Kannski Trent síðustu 30min uppá leikæfingu.

    Vonandi er þetta ekki alvarlegt með Jota því Bobby kallinn er alveg vonlaus þessa dagana fyrir framan markið auk þess að nú tekur við sturlaðra leikjaprógramm en hefur verið og megum alls ekki við þessum skakkaföllum.

    2
    • Ekki er ég nú sammála að Bobby sé alveg vonlaus. Hann er of límið milli miðju og sóknar hjá okkur þó svo hann sé ekki að skora eins mikið og Salah og Mane þá leggur hann líka upp fullt af færum líka. Jota virðist vera eitthvað meira meiddur en maður hélt í fyrstu en vonandi er það ekkert alvarlegt. Þessi leikur gæti verið tricky fyrir okkur en við hljótum að taka þá.

      Ég spái þessu 1-4, Salah, Mane og Henderson með mörkin.:-)

      2
      • My man Bobby er frábær leikmaður en sagði að fyrir framan markið væri hann vonlaus. Mörkin eru ekkert að mokast inn og að missa Jota núna í meiðsli á þessum tímapunkti gæti orðið dýrkeypt þar sem hann er með markahæstu mönnum í liðinu.

        1
  3. Jota meiddur á hné. þetta er frábært..tilgangslausi leikurinn í danmörku olli þessu og svo var Klopp að reyna verja að Salah gat alveg spilað allar 90 mín.

    Loksins þegar Klopp fær tækifæri bara til að hvíla menn í örfáa daga þá gerir hann það ekki fyrir tilgangslausan leik að öllu leiti þar sem þeir höfðu unnið riðilin hvernig sem hefði farið.

    það eru 1-2 menn að meiðast í hverjum leik hjá okkur.

    2
  4. Sæl og blessuð.

    Nú er veisla framundan. Verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála í dag og á morgun. Mansésterdarbíið – maður fylgist með gangi mála í símanum. Vinni MU þá er það fínt statistískt. Jafntefli – þá tapast stig. Vinni MC – æ hvað verður þá um barnið? Verður gamli skröggur Hodson með einhver svör við Kan/Son og co? Nær hann að sigra og þreyta þá hvítklæddu?

    En þessi leikur verður sannarlega tvísýnn. Fulham eru að seiglast áfram – búnir að henda frá sér trúðskápunni og nú ætla þeir að spila eins og minnipokaliðum sæmir – henda genginu í eigin teig og reyna að lúðronum fram þegar það verður mögulegt. Glatað að joðið okkar skyldi meiðast í fullkomlega tilgangslausum leik. Sú ákvörðun að spila honum minnir á upphafstíma JK sem keyrði menn áfram eins og galeiðuþræla og uppskar strengjasveit af slitnum sinum.

    En leikurinn verður í járnum. Dreymdi í nótt núll núll jafntefli. Var glaður er ég vaknaði en mögulega var þetta forspá.

    5
  5. Nú er talað um að meiðsli Jota séu alvarleg. 2 mánuðir, jafnvel meira.

  6. Virkilega erfiður leikur svo ekki sé meira sagt, ekki síst ef líkur eru á að einhver meiðist í hverjum leik. Maður er að verða hræddari við það en andstæðingana sama hverjir þeir eru. Hvar er svo járnkarlinn og meistari Milner þegar þarf sem mest á honum að halda. Jú, jú, meiddur eins og hálft liðið. En eins og ég hef áður sagt þá þýðir ekkert að gráta Björn bónda heldur safna liði og berjast til síðasta manns.
    Gaman að sjá mannskapinn sem spilað hefur í báðum liðum. Þetta lið gæti alveg spjarað sig í PL á góðum degi.
    Veit ekki hverning leikurinn fer en held að það liggi á borðinu að Firmino skori. Fyrir mína parta er 1-0 sigur alveg nóg ef við sleppum við meiðsli. Punktur.

    3
  7. Ég held að Klopp viti að hann þarf að rótera með 3 leiki á skömmum tíma.

    Kæmi mér ekki á óvart ef einn af Firmino/Salah/Mane byrji á bekknum(spái Salah) og af því að Jota er meiddur þá gæti Origi fengið að byrja.
    Spái svo miðju með Jones, Keita og Henderson.

    Fulham liðið er lið sem hefur náð að skapa slatta af færum í vetur en hafa verið lélegir að slúta og má þar kannski helst sjá eftir nokkrum vítum.

    Ekkert vanmat í gangi í þessum leik og skiptir öllu að ná í 3 stig og vona að engin meiðist(7,9,13)

    YNWA – spái 1-2 sigri með mörkum frá Matip og Keita

    2
  8. Við verðum að ná þremur stigum úr þessum leik, það er bara skandall ef við vinnum ekki. Fín úrslit í dag hjá MU og MC og Everton og Chelsea.

    3
  9. Miðað við leikinn í dag er Man. City ekki í neinu formi til að (reyna að) vinna deildina. Stórfurðulega slappt derby og óskiljanlegt af hverju Guardiola lét ekki vaða á særðan Solskjær.

    4
    • Sammála. Tvö ótrúlega þreytt og leiðinleg lið. Fin úrslit fyrir okkur samt.

  10. Þessi meiðslaþáttur okkar er ótrúlegur. Við erum búnir að vera með 3-4 fleiri leikmenn meidda en önnur lið.

  11. Sælir félagar

    Sammála þeim sem fannst leikurinn og karakterleysi liðanna í Manchester borg með því leiðinlegra í veröldinni og er þá langt til jafnað nú um stundir. Hitt er svo annað að þetta ásamt tapi Chelsea voru góð úrslit fyrir okkur. Nú getur Soton farið uppfyrir bláliðana fra London og bilið breikkað milli okkar og þessara liða. Það er aftur á móti ekkert fast í hendi í henn versu og maður hefur smá áhyggjur svona almennt.

    Eins og Svavar bendir á hér eru leikmenn LIverpool meiddari en leikmenn annara liða. Spurningin er af hverju. T. d. af hverju spiluðu Salah og TAA allan leikin á móti dönunum svo það sé sagt. Af hverju reynir Klopp ekki að spara hópinn eins og hægt er í svona leikjum sem skipta engu máli. Þetta er mér óskiljanlegt og ég hefi hvergi séð nein rök sem halda fyrir því. Það hlýtur að bjóða uppá meiðsli manna eins og Salah sem hefur haldið sér heilum fyrir utan covid dæmið. En með svona meðferð er spurning hvenær hann meiðist (álagsmeiðsl).

    Hvað sem því líður þá verða okkar menn að halda áfram. Við verðum að treysta Klopp eins og alltaf þó við skiljum ekki alltaf hvað guðinn sá er að gera. Fulham hefur verið að spila nokkuð vel undanfarið og má búast við hverju sem er af þeim bænum. Það á samt að vera það mikill getu munur á þessum liðum að Liverpool á alltaf að vinna í þessum leik. Mín spá er því 0 – 2 en leikurinn verður erfiðari en tölurnar segja til um

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  12. Mér fannst flott að vera með gott lið á móti Mitjylland. Þetta er Champions League, allir að horfa og skylda hjá Liverpool að spila af alvöru. Slatti af kjúllum í liðinu og liðið gerði jafntefli. Hefði ekki verið boðlegt að vera með deildarbikarlið og tapa 5-0.

    Keita er kominn tilbaka og ég vill sjá hann fyrir aftan bobby. En annars helsáttur með hvaða lið sem er sem Klopp stillir upp. Spá: 3-1 Mane þrenna.

    2
  13. Ég reima skóinn. Dreg sokkinn upp til hálfs. Lít upp. Öskra: Sigur, sigur til sigurs.

    Spái að Liverpool skori þrjú í dag.

    3
  14. Hef eiginlega engar áhyggjur af þessum leik, til þess er getumunurinn of mikill. Ef pælt er í ástæðum meiðsla okkar manna, þá sér fólk fljótt, fyrir utan meiðslapésa, að meiðsli t.d. Dikkarans og Tiago koma til vegna grófra tæklinga, sennilega Jota einnig, þó þar megi gagnrýna hvers vegna hann hafi leikið þann ”gagnlausa” leik, ásamt fleirum. En svo má horfa á þann punkt, Klopp velur engan í lið með rjúkandi áhyggjur af því að hann meiðist, þá spilar hann bara kjúllum, sem gengur ekki upp:) Ekki ósvipað og fólk sest upp í sinn bíl og keyrir, án þess að vera með rjúkandi áhyggjur af því að lenda í bílslysi.
    Spái 0-2.

    YNWA

Midtjylland 1-1 Liverpool

Kvennaliðið heimsækir London City Lionesses