Liverpool 4 – 0 Wolves

Mörkin

1-0 Salah (24. mín)
2-0 Wijnaldum (58. mín)
3-0 Matip (67. mín)
4-0 Semedo (sjálfsmark)(78. mín)

Gangur leiksins

Liðið sem mætti á Anfield í kvöld var einbeitt og ætlaði sér bara eitt: 3 stig. Kelleher þreytti frumraun sína í úrvalsdeildinni eftir fína frammistöðu í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. Hans þjónustu var óskað eftir u.þ.b. stundarfjórðung þegar hann varði mjög vel lausan en hnitmiðaðan bolta sem hefði annars siglt í bláhornið. Það var síðan um miðjan fyrri hálfleik sem fyrsta markið kom; Hendo með langa sendingu yfir miðjuna og inn á teig þar sem Salah var í gæslu tveggja varnarmanna Úlfanna. Conor Coady var fyrri til að ná í boltann og tók hann á kassann, en stýrði honum klaufalega til hliðar þar sem Salah náði til hans og setti hann örugglega í hornið fjær. 1-0 og það var alveg sanngjarnt, þar sem Liverpool hafði verið meira með boltann og höfðu ógnað meira.

Rétt fyrir lok hálfleiksins fengu svo Úlfarnir dæmda vítaspyrnu þegar svo virtist að Mané hefði sparkað í Coady þegar sá fyrrnefndi ætlaði að hreinsa með bakfallsspyrnu. En við endursýningar sást að Mané hætti við að sparka á síðustu stundu, og Coady lét sig einfaldlega falla. Dómarinn fékk skilaboð um þetta frá VAR, fór engu að síður að skjánum og dæmdi aukaspyrnu eftir að hafa skoða þetta. Líklega var þetta skjáhlaup hjá dómaranum óþarfi, VAR hefði bara getað sagt við hann “þetta var dýfa”. En ef dómaranum líður betur með þetta svona þá er það í góðu lagi. Það voru akkúrat svona atriði sem VAR átti einmitt að tækla, og í dag virkaði var 100% eins og það á að gera. Það eina sem orkaði tvímælis var að Coady fékk ekki gult spjald fyrir dýfu, en það hefði hann sannarlega átt að fá. Spurning hvort sú hefði orðið raunin ef hann héti Coadinho?

1-0 í hálfleik, og það var sama lið sem byrjaði seinni hálfleikinn. Neco fékk traustið áfram þrátt fyrir að hafa fengið gult spjald fyrir litlar sakir á fyrstu mínútunum, og með Trent á bekknum. Líklega vildi Klopp ekki hætta á að henda Trent of harkalega út í djúpu laugina, enda nóg um meiðsli samt. Neco hafði enda staðið sig ljómandi vel fyrir utan þetta eina spjald, en vissulega voru miðjumennirnir og miðverðirnir að hjálpast að við að skýla honum eftir því sem þurfti.

Á 58. mínútu var svo skammt stórra högga á milli. Kelleher varði vel en Wolves komust í sókn aftur, og Fab þurfti að hreinsa á markteig, boltinn barst til Henderson sem var rétt fyrir utan teig og hann gaf langa sendingu fram þar sem Gini og Salah sóttu hart á þá varnarmenn Úlfanna sem þar voru. Þeir áttu líklega von á að Gini myndi renna boltanum á Salah, en sem betur fer óð Wijnaldum bara upp að teig sjálfur og tók þar skotið sem fór beint í samskeytin fjær, óverjandi fyrir Patricio í marki andstæðinganna. Hann fagnaði vel að hætti samlanda síns, Virgil van Dijk, sem var mættur á völlinn og fylgdist með öllu ásamt hinum 2000 aðdáendum sem nutu þess að mega mæta á völlinn eftir langa fjarveru.

Á 67. mínútu fengu svo Liverpool hornspyrnu sem var tekin stutt, rétt eins og Wolves höfðu gert allan tímann. Boltinn barst til Salah utan við hægra vítateigshornið, hann átti gullfallega fyrirgjöf inn að markteig þar sem gíraffinn Matip þurfti að beygja sig niður til að ná að stanga boltann í netið, og fagnaði gríðarlega eftirá. Full ástæða til. Með þessu marki var ljóst að úrslitin voru ráðin, Úlfarnir áttuðu sig á því að með Liverpool í þessum gír væri þetta búið. Það hægðist aðeins á leiknum eftir þetta, en síðasta markið kom um 10 mínútum síðar þegar Trent og Jota voru komnir inná, og liðið hafði fengið að leika boltanum sín á milli í einhverjar 32 sendingar. Endaði á því að Trent fékk boltann á hægri kantinum, gaf klassíska Trent fyrirgjöf inn á markteig þar sem Salah og Mané voru báðir mættir, og hvernig fer svoleiðis? Jú það endar með sjálfsmarki andstæðinganna eftir að Mané kiksar og sparkar boltanum í lærið á varnarmanni og þaðan í netið.

Keita fékk svo nokkrar mínútur í lokin en þarna var bara spurning um að sigla þessu örugglega heim án þess að nokkur myndi meiðast. Úlfarnir áttu einhverjar atlögur að hreina lakinu hans Kelleher, en áttu ekki erindi sem erfiði.

Bestu/verstu frammistöðurnar

Það er alls ekki auðvelt að ætla að velja mann leiksins í dag. Liðið einfaldlega átti virkilega góðan dag þar sem það stýrði nákvæmlega hversu langt Úlfarnir fengu að komast. Allir sem einn voru að standa sig vel eða mjög vel. Kelleher mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum, og gríðarlegur munur fyrir liðið að hafa varamarkvörð sem er jafn góður í löppunum eins og hann er, jafnvígur á vinstri og hægri. Hann var líka öruggur í öllum aðgerðum, kom nokkrum sinnum vel út í teig og hirti bolta sem hefðu getað verið hættulegir. Það reyndi svosem ekki mikið á hann varðandi skot á markið, en það sem kom á markið afgreiddi hann örugglega.

Varnarlínan var öryggið uppmálað, og það er í reynd fáránlegt að vera án tveggja af bestu miðvarða úrvalsdeildarinnar, en geta samt stillt upp Fab og Matip sem eru einfaldlega öryggið uppmálað í sínum stöðum. Neco komst vel frá leiknum eins og áður sagði, og Robbo sýndi enn og aftur að hann er einn besti ef ekki besti vinstri bakvörðurinn í boltanum í dag. Í heiminum sko. Miðjan var einfaldlega mögnuð í dag, allir þrír voru sívinnandi. Sóknarlínan sýndi batamerki frá síðasta leik, Salah skoraði og lagði upp mark, og Mané átti svona 90% í síðasta markinu. Hefði sjálfsagt getað verið ögn klínískari í nokkrum tilfellum, en var samt ekki að spila illa. Firmino virkaði talsvert öruggari en hann hefur verið á undanförnum vikum og mánuðum, enda þarf Liverpool klárlega á því að halda að hann sé að spila af eðlilegri getu.

Það er tæpt en setjum nafnbótina á Gini Wijnaldum, sem skorar ekki oft fyrir Liverpool en gæti mögulega hafa verið í hollensku landsliðstreyjunni undir þeirri rauðu í kvöld. Þetta var líka 11. leikurinn í röð sem hann spilar fyrir klúbb og landslið, þvílík maskína sem maðurinn er. Sáust þreytumerki á honum? Ekki gat undirritaður séð það, en þið? Getum við plís bara borgað honum það sem hann vill og skrifað undir samning? Plís? (Er ekki Klopp örugglega að lesa?) Ég bið ekki um neitt annað í jólagjöf. (Klopp virðist reyndar mjög gjarnan vilja að hann skrifi undir, kannski strandar á Gini sjálfum?)

Rétt að taka fram að það hefðu nánast allir aðrir leikmenn Liverpool geta fengið nafnbótina. Hendo enn og aftur að sýna hvað hann er liðinu mikilvægur, Curtis að stíga enn og aftur upp, gleymum ekki að pilturinn er 19 ára. 19!!! Robbo og Salah enn og aftur að sýna í hvaða heimsklassa þeir eru. Ég gæti verið að hrósa liðinu langt frameftir kvöldi.

Lastið fær scouserinn og Liverpool-akademíu leikmaðurinn fyrrverandi Conor Coady fyrir dýfuna rétt fyrir hálfleik. Skamm Conor, svona gerir maður ekki.

Hvað er framundan

Það er vitaþýðingarlaus leikur framundan á miðvikudaginn í Danaveldi, þar sem síðasti leikurinn í riðlakeppninni verður gegn Midtjylland. Liverpool endar í fyrsta sæti riðilsins, sama hvernig sá leikur fer. Maður vonar bara að Klopp tefli fram eins mikið af kjúklingum eins og honum frekast er unnt, eitthvað svona?

Jaros eða Adrian

Larouci – Rhys – Koumetio – Tsimikas

Keita – Clarkson – Cain

Minamino – Origi – Millar

Já, núna vill maður helst ekki hætta á að leikmenn eins og Neco Williams eða Caoimhin Kelleher meiðist í leik eins og þeim, og því um að gera að gefa minni spámönnum séns, en þó þarf að passa sig á að það er ekki hægt að velja hvern sem er í liðið.

Næsti leikur aðalliðsins verður svo á sunnudaginn um næstu helgi þegar liðið heimsækir Fulham. Þar á eftir bíður svo toppslagur við Spurs á Anfield. Það verður eitthvað. En í millitíðinni skulum við muna að vera þakklát fyrir þetta frábæra lið sem við eigum, því það er svo sannarlega ekki sjálfsagt að vera svona rík.

23 Comments

 1. Margt jákvætt við þennan leik. Kelleher svalur í markinu, Matip og Fabinho óaðfinnanlegir. En best þótti mér sleggjan hans Ginis!

  10
 2. Þetta var frábær:

  Stórkostleg framistaða hjá liðinu
  Mikilvæg 3 stig
  Ungu strákarnir heldur betur að stíga upp
  Allir fá 10 fyrir þennan leik.

  YNWA – Það bara munar öllu að fá stuðningsmenn á völlinn.

  P.s Vona að margir lykilmenn fá hvíld í meistaradeilinni í vikunni

  11
 3. Sæl og blessuð.

  Nokkrar tölulegar staðreyndir:

  1. 2000 áhorfendur
  2. 4 mörk
  3. 0 mark á Kellaher og vörnina
  4. 65 heimaleikir án taps.
  5. 1-2 sæti í deild
  6.4 stig tekin af okkur með vafasamri VAR dómgæslu
  7. 1. sætið væri okkar ef ekki væri fyrir það rugl.
  8. 11an (Salah), frábær
  9. 9an (Firmino) hefur einhver dularfull jákvæð áhrif á leiki!
  10. Hinir leikmennirnir voru afbragð líka!

  19
 4. Flottur leikur og það er gaman að sjá Kelleher búinn að standa sig vel í því sem hann hefur þurft að verja.
  Annars voru allir virkilega góðir og gáfu Wolves lítin séns.
  Flott markið hjá Gini.
  þvílíkur munur að fá svo áhorfendur aftur á völlinn þetta gerir þetta allt saman miklu skemmtilegra.

  YNWA.

  14
 5. Það gera fáir sér grein fyrir því hversu Wijnaldum er mikilvægur þessu liði.

  13
  • Ég hef ekki hitt neinn sem efast um hvað hann gefur liðinu með sinni vinnusemi og hæfileikum.

   20
  • Hverjir eru það sem gera sér ekki grein fyrir því ? Allir stuðnings menn Liverpool held ég að geri sér geri fyrir því og ekki erum við fáir það er næsta víst.

   YNWA.

   5
 6. Frábær leikur hjá okkar mönnum.
  Hvað voru þetta margar sendingar í fjórða markinu?
  Robertson….hvaða maður er þetta? hver er hann? hvaðan kom hann? hvert fer hann?
  Ótrúlegur leikmaður. Gini, á bara engin orð, Henderson, Fabinho. Frábærir.
  Takk fyrir mig.

  17
 7. Mikið langar mig í að fá nýjan samning milli LFC og Gini í Jólagjöf 🙂 Ég trúi ekki að hann vilji frekar fara í fallbaráttulið barca 😉

  10
  • Ég get alveg skilið Gini. Hann er búinn að vinna fallegustu dollurnar með Liverpool. Og verið á lægri launum allann tímann en hinar stjörnurnar. Veðrið á Spáni er talsvert mikið notalegra en í Liverpool og hann fær hærra kaup. Síðasti alvöru samningurinn hans, svo er hann kominn á eftirlaun… Því ekki?

   • Núna eru leikmenn Barcelona að taka á sig launalækkanir og liðið er í fjárhagsvandræðum. Ég sé frekar lið eins og Bayern og Paris bjóða honum stærri samning.

    4
   • Gini er Hollendingur og fer þangað sem hann fær mestan pening. Við vitum hvað við höfum og ég segi borgið honum bara það sem þarf til að hann verði með okkur í 2-3 ár í viðbót.

    2
 8. Kelleher: Aftur frábær. Sá hefur stúderað og kóperað Alisson. Adrian er búinn hjá LFC, með fullri virðingu fyrir honum þá hentar Kelleher liðinu mun betur.

  Robbo: maður tekur svona góðum frammistöðum orðið sem sjálfsögðum hlut. En stundum gleymist hvað hann er góður varnarmaður. Traore átti aldrei sjens.

  Matip og Fabinho. Gríðarlega stöðugir báðir, og það þarf að taka tillit til þess að þeir hafa ekki spilað mikið saman í miðverði og voru með óreyndan markvörð og bakvörð með sér. Matip motm kandidat.

  Williams: Það má alveg spyrja sig hvort hann hafi gæði til að spila reglulega í toppliði, en hann komst vel frá leiknum í kvöld, en þær 25 mínútur sem Trend spilaði sýndu hversu mikill munur er á þeim sóknarlega.

  Gino og Hendo. Motm frammistaða hjá þeim báðum. Þeir áttu miðjuna í þessum leik.

  Jones: Áberandi þriðji bestur á miðju LFC í dag, en ég var sérstaklega ánægður með hvað hann virkar mikið betur í leikkerfinu en í upphafi móts, þar sem hann var oft stöðuvilltur.

  Mane: síógnandi og sívinnandi en vantaði talsvert upp á slúttin hjá honum. Gaman samt að fá hann til baka eftir tvær frekar slappar frammistöður undanfarið.

  Firmino: Vinnslan í honum mun betri en oftast áður í vetur, en ég hefði vilja sjá meiri ógn.

  Salah: gott mark og góður leikur og það góða er að hann á meira inni.

  4
 9. Flott skýrsla.

  Þægilegur sigur þrátt fyrir smávegis brokk framan af. Virkilega sterkt að komast vel í gegnum svona leiki (Úlfarnir eru engir sprelligosar) á hálfgerðu varaliði. Einfaldlega frábært að fleiri efnilegir fái tækifæri til að sýna sig og spila sig inn í Klopp boltann.

  Nú þarf bara að halda haus í gegnum jólatörnina og forðast frekari meiðsli, þá líta hlutirnir mjög vel út enda flestir erfiðustu útileikirnir að baki (Everton, Man City og Chelsea).

  5
 10. Alison hlýtur að hafa gefið Kelleher eitthvað af þessum töflum sem hann er að nota þvílík yfirvegun sem hann hefur allveg sultu slakur allan leikin og gjörsamlega ekki feilspor tekið. Svo hafa menn verið að hrósa mikið Widnjaldum fyrir sinn leik og er það algerlega réttmætanlegt en mér fanst Hendó vera okkar besti miðju maður í dag.

  YNWA.

  2
  • Mögulega gekk Kelleher bara í kirkju heilags Alisson?

   6
 11. Við verðum að halda Gini það er algjört must! en annars frábær leikur 3 stig og 4 mörk í plús á markamun.

  1
 12. Þetta með Gini sem margir nefna hér ásamt Daníel – ég er svo sammála, það væri gríðarlegur missir af einum af okkar mikilvægasta manni. Hann er hjá okkur ekki ósvipuð týpa og Fernandinho hefur verið hjá City. Og Gini á 3-4 mjög góð ár eftir. Kannski strandar þetta á því að það sé erfitt að gera hann að launahæsta leikmanni liðsins bara af því að hann er að verða samningslaus. En er ekki bara hægt að “kaupa hann aftur” láta hann fá einhverja eingreiðslu, 5-10 mills, og gera svo samning við hann til 3-4 ára á sambærilegum launum við aðra helstu menn liðsins? Ég vona allavega að við höldum Gini. Manni fannst á sínum tíma smá missir að Can en þetta er miklu mikilvægari leikmaður og einn af hornsteinum liðsins.

  3
 13. Mikið rosalega er góð tilfinning að rústa svona sterku liði og við erum nánast keyrandi á varaliðinu okkar, allavega aftarlega á vellinum. Ef Gini vill fara þá verður hann að fara. Ég vil ekki missa hann en ég vil bara leikmenn sem vilja spila 100% í liðinu okkar. Ef hann þarf kauphækkun til að vilja það þá á hann að fá hana. Gini er okkur mjög mikilvægur leikmaður og frábær karakter.

  Hlakka gríðarlega mikið til næsta hlaðvarps!

  6
 14. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna Daníel og það er svo sem litlu við hana að bæta. Gini er liðinu afar mikilvægur, Matip er flottur, Kelleher magnaður og Hendo einn okkar öflugasti og bezti leikmaður. Mané virðist vera að koma til baka og þó Jota sé mjög góður þá er allt annar bragur á liðinu með einn bezta leikmann í heimi inná, Firmino. Mér finnst hinsvegar anzi mikið skorta á að við stuðningsmenn gefum Mo Salah þá viðurkenningu sem hann á skilið. Einn albezti leikmaður heims í sinni stöðu.

  Það er ekki sanngjarnt að menn eins og Salah fái ekki það hrós sem hann á skilið af því að við göngum að því sem gefnum hlut hvað hann er góður. Það sama má segja um Robertson og Firmino. Við göngum að gæðum Robbo sem gefnum og finnst ástæðulaust oft á tíðum að hafa orð á þeim. Firmino er ótrúlega góður leikmaður og anzi margir virðast ekki átta sig á hversu magnaður hann er.

  Amk. annað hvert mark sem liðið skorar er fyrir hans tilstilli. Gæðaspilamennska Mané og Salah er að stórum hluta Firmino að þakka. Sköpunarhæfni hans er nánast einstök. Gleymum því ekki og hættum að kvarta undan markaleysi hans því eins og Klopp benti á þegar Jota var að brillera að Firmino væri liðinu afar mikilvægur og staða hans í liðinu væri alls ekki í hættu. Að öllum öðrum leikmönnum ólöstuðum finnst mér Salah og Firmino ekki njóta sannmælis hjá okkur stuðningsmönnum.

  Það er nú þannig

  YNWA

  15

Liðið gegn Úlfunum

Midtjylland