Ajax á þriðjudag (Upphitun)

Það er stutt stórra högga á milli. Nú er komið að fimmta og næst síðasta leik okkar manna í riðlakeppni meistaradeildarinnar. Fáum þá annað tækifæri til að tryggja okkur sæti í 16 liða úrslitum og, ekki síður mikilvægara, að vinna okkur inn möguleikann á að hvíla lykilleikmenn eftir rúma viku þegar lokaumferðin fer fram. Andstæðingurinn í þetta skiptið er Ajax, sviðið er Anfield og hefjast leikar á þriðjudagskvöld kl. 20. Mæli með því að menn rifji upp þessa upphitun frá Einari fyrir leik.

 

 

Formið og sagan

Það er stutt samantekt þegar við rennum yfir viðureignir þessara liða í gegnum tíðina. Fyrir utan einvígi liðanna 1966 þegar Ajax sló okkur út í tveggja leikja einvígi í 16 liða úrslitum evrópukeppninnar með Johan Cruyff í broddi fylkingar þá hafa þessi lið ekki leitt saman hesta sína fyrr en í síðasta mánuði þegar Liverpool sótti öll stigin á Amsterdam Arena í 0-1 sigri í upphafsleik riðilsins.

Gestirnir koma sjóðheitir inn í þennan leik, síðustu 2 deildarleikir endað samanlagt 10-0 með 3-1 sigri gegn Midtjylland inn á milli. Rétt eins og Liverpool, utan það að deila ekki toppsætinu, þá kemur Ajax inn í þennan leik sem efsta liðið heimafyrir með 27 stig af 30 stigum mögulegum eftir 10 leiki. Ef þið hélduð að það væri gott þá er vert að benda á að markatalan hjá þeim er 42-5 í þessum 10 leikjum!

Okkar form þekkjum við svo sem og þurfum ekki að fara neitt djúpt í þá sálma. Miðað við umræðuna (um væl og mótlæti….og VAR, auðvitað VAR) þá mætti halda að Liverpool væri að falla úr leik í CL og fyrir miðju í deild – svo er ekki, Liverpool deilir toppsætinu heimafyrir eftir virkilega erfiða fyrstu 10 leiki (Man City, Everton og Chelsea úti ásamt Arsenal og Leicester heima – svo eitthvað sé nefnt) ásamt því að vera einum sigri frá því að tryggja sér sigur í D-riðli meistaradeildarinnar. Ekki slæmt það, verandi án átta (8!) leikmanna sem flesta ef ekki alla er hægt að flokka sem lykilleikmenn.

Ajax

Fyrri leikurinn var okkur nokkuð erfiður, enda með hálf vængbrotið lið (það hefur bara fækkað í hópnum síðan þá), og náðum við að hanga á öllum stigunum eftir sjálfsmark heimamanna.

Maður hefði haldið að lið sem væri búið að selja leikmenn fyrir meira en 100 milljónir EUR væri í meiri vandræðum en raun ber vitni (Ziyech, Botman, Van De Beek, Dest ofl.). Reyndar hafa þeir fjárfest vel með því að fá inn Antony frá Sao Paulo, Klaassen frá Werder Bremen og Mohammed Kudus frá Nordsjælland ásamt því að hinn ungi Lassina Traoré hefur fengið meiri ábyrgð þetta árið og endurgoldið það með 8 mörkum það sem af er tímabili. Það er hellingur af skemmtilegum leikmönnum í þessu Ajax liði, við þekkjum til Tadic frá tíma hans hjá Soton (ásamt því auðvitað að hann var frábær í þessu Ajax liði þegar þeir komust í undanúrslitum fyrir 2 árum) og svo var Quincy Promes nú sterklega orðaður við okkur hér um árið.

Það er hellingur af mörkum í þessu Ajax liði og þeir geta svo sannarlega spilað fótbolta. Það verður því alls ekkert gefins fyrir okkur að ná einhverju gegn þeim, sérstaklega ekki m.v. þau vandræði sem við erum í þessa stundina en gestirnir gátu leyft sér að taka lykilleikmenn snemma útaf um helgina og nýttu sér t.a.m. 4 skiptingar af 5 fyrir 60 mínútu.

Liverpool

Eins og ég sagði í upphitun minni fyrir Brighton leikinn, það er alltaf hellingur af frétta af okkar mönnum þessa stundina og það hefur ekkert breyst. Við erum manni færri frá því í síðustu viku, með Milner núna frá í einhverjar vikur eftir enn ein vöðvameiðslin – Henderson er reyndar kominn til baka en við stöndum frammi fyrir nokkrum erfiðum ákvörðunum þennan þriðjudaginn.

 • Matip var ekki í hóp á laugardaginn þar sem hann hafði spilað mikið eftir að vera nýkominn til baka eftir meiðsli. Það var reyndar sérstakt að hann væri ekki á bekknum og eitthvað hvísl um að hann sé meiddur en official orðið frá klúbbnum er að hann sé heill.
 • Fabinho, sem einnig er nýkominn til baka eftir vöðvameiðsli, er nú búinn að spila tvo leiki með stuttu millibili og spurning hvort hann sé tilbúinn í þann þriðja á innan við viku – ég held ég sé ekki tilbúinn að taka þann séns og á von á því að hann taki sér sæti á bekknum.
 • Svo er það maðurinn sem öllum finnst sjálfsagt að spili allar mínútur, Gini. Hann er búinn að spila allar mínútur (utan Everton) og er í raun okkar eini leikfæri byrjunarliðsmaður á miðjunni, með þeim fyrirvara að við séum ennþá að fara varlega með Henderson sem er nýkominn til baka.
 • Robertson er búinn að spila allar mínútur síðan hann kom tæpur til baka eftir síðasta landsleikjaævintýri. Ef það er eitthvað sem við megum ekki við þá er það að missa hann út í meiðsli og því spurning hvort við fáum að sjá Tsimikas eitthvað á morgun.
 • Phillips var ekki skráður í meistaradeildarhóp Liverpool og getur því ekki spilað þennan leik. Það verður því væntanlega R. Williams eða Fabinho sem taka sér stöðu við hlið Matip, ætla þó að tippa á að sá brasilíski fái hvíldina þennan þriðjudaginn.

Keita er ennþá frá, en ekkert hefur verið gefið út hve lengi hann verður frá eftir þessa tognun gegn Leicester, og það sama má segja um Shaqiri.

Salah var tekinn snemma útaf gegn Brighton og ætti að vera klár í þennan leik ásamt Mané sem byrjaði auðvitað á bekknum um helgina. Það er þá bara spurning með þriðja manninn frammi, ekki var Minamino að heilla um helgina og því spurning hvort að Origi taki síðasta plássið eða þá að Jota eða Firmino taki sér sinn stað milli hinna tveggja, finnst það þó ólíklegt þar sem að þessir tveir fengu báðir hvíld gegn Atalanta, í leik sem var algjör hörmung.

Ég hallast að því að Jones verði á miðjunni í stað annað hvort Jota eða Firmino en ég ætla samt að skjóta á þetta lið:

Alisson

N. Williams – Matip – R. Williams – Tsimikas

Henderson – Firmino – Gini

Diogo J. – Salah – Mané

 

Spá

Ég held að þetta verði ströggl. Við erum með þreytta fætur þarna en einnig að spila með varnarlínu sem hefur í raun bara spilað saman í einum leik – sem var leikurinn gegn Atalanta. Ég ætla samt að spá því að við höldum hreinu og tryggjum okkur efsta sætið í riðlinum með 2-0 sigri þar sem að Salah og Mané skora mörkin en Jota fær að upplifa þá tilfinningu að skora ekki á Anfield (í rauðu treyjunni).

Jafntefli dugar okkur til að komast áfram – en það kann sjaldnast góðri lukku að stýra að spila upp á jafnteflið.

Koma svo.

YNWA

9 Comments

 1. Það væri gott að vinna þennan leik og klára þetta CL dæmi. Gætum þá sent U18 til Danmerkur í síðustu umferð. En hingað til hefur LFC aldrei farið auðveldu leiðina, alltaf verið með úrslitaleik í síðasta leik.

  Skv Klopp eru “Few weeks” þangað til Alcantara verður klár, og menn eru að túlka það sem svo að hann spili ekki meira á þessu geggjaða ári 2020. Ég get ekki beðið eftir að sjá hann aftur í Liverpool búningnum að dreifa geggjuðum sendingum hingað og þangað.

  2
 2. Já, einmitt! Mikið verður gaman þegar Thiago og fleiri koma til baka. Verðum að halda sjó á meðan og standa saman.

  Vinnum þennan leik og stillum upp C-liðinu okkar á móti Dönunum. Að við skulum vera á toppnum í CL og í deildinni, ásamt spurs, er stórkostlegur árangur. Sérstaklega miðað við áföllin!

  YNWA!

  3
   • Hann var ekki á æfingu og það er slúðrað um þetta. Ekkert staðfest ennþá.

 3. Úff! Ég sem ætlaði að spá okkur sigri. Ég þarf að endurskoða það ef Alisson verður ekki með.
  Mikið hlakka ég til 1. jan þegar 2020 verður liðið og kemur aldrei til baka.

   • Mjög góður punktur. Mjög góður! Maður er bara orðinn svo góðu vanur með því að vinna titil á hverju ári, þ.a. það að vera ekki einir á toppnum í deildinni fær mann til að sjá glasið hálftómt.

    Ég sé að mér og segi því núna: “Megi 2021 verða alveg eins og 2020” 😉

    1
 4. 2020 var reyndar árið sem við urðum enskir meistarar í fyrsta skipti í 30 ár og því er það ekki alvont. Spurning hvort að ekki sé komið að þeim tímapunkti að hætta að svekkja sig á þeim sem ekki geta spilað og einblína á þá sem eru í standi ? Þessir gæjar sem við eigum heila eru heilt yfir frábærir fótboltamenn enda í besta félagsliði í heimi og þú hlýtur að geta eitthvað í fótbolta ef þú ert valinn í hópinn hjá þannig liði. Upp með hökuna, inn með magann og gefum allt í þetta bæði á vellinum og fyrir framan sjónvarpið. Við getum ekki sett alla orkuna í að svekkja okkur á því mótlæti sem við höfum séð síðustu vikur. Að því sögðu er ég hjartanlega sammála þeim sem gagnrýna VAR dómgæsluna sem hefur á stundum virst vera sett til höfuðs stóru liðunum. Gleymum því í kvöld, væntanlega ekki enskir dómarar í VAR herberginu og því allt önnur umgjörð í gangi, sóknarmenn okkar munu því væntanlega halda áfram að dansa á línunni. Y.N.W.A

  3

VAR er ekki þess virði

Dregið í FA bikarnum