Liverpool 0 – 2 Atalanta

Það er fræg sagan af smiðnum sem hafði átt sama hamarinn allan sinn starfsferil. Hann hafði bara tvisvar skipt um haus á honum, og fimm sinnum um skaft.

Það kom í ljós í kvöld að ef maður skiptir út 7-8 af besta byrjunarliðinu, þá endar maður með allt annað lið (og allt annan hamar). Ef við gerum ráð fyrir að besta byrjunarlið Liverpool líti svona út (4-3-3): Alisson – Trent – Gomez – Virgil – Andy – Fabinho – Thiago – Henderson – Salah – Firmino – Mané, og mögulega mætti svissa yfir í 4-2-3-1 og setja þá Jota inn fyrir t.d. Thiago – þá er staðan sú að það voru nákvæmlega 3 leikmenn úr besta byrjunarliði Liverpool í liðinu sem hóf leik í kvöld: Alisson, Mané og Salah (mögulega Gini sömuleiðis). Mané fann sig alls ekki en fékk þó að klára leikinn, annað en Salah sem var tekinn af velli eftir klukkutíma. Kannski var hann ekki kominn á fullt eftir Covid, hvað veit maður.

Í ljósi þessa þarf kannski ekki að koma á óvart að Liverpool átti varla skot að marki í fyrri hálfleik. Jú Salah fékk nokkuð gott færi undir lok leiksins en skaut yfir. Annars lá Liverpool til baka og Atalanta pressuðu framarlega þegar þeir misstu boltann. Í stuttu máli var himinn og haf á milli þessa hálfleiks og fyrri hálfleiks um helgina gegn Leicester. Miðjan var afskaplega bitlaus, kannski voru þeir svona mikið að passa að verja öftustu línuna, sem var jú ákaflega óreynd. Af ungu strákunum þremur var Rhys líklega sýnu öflugastur. Ég sé á umræðunni að Neco fær ekki góða dóma fyrir sinn leik en undirritaður er ekki alveg sammála því. Við verðum að taka með í reikninginn að þetta er 19 ára pjakkur sem var fyrst minnst á í tengslum við aðallið Liverpool fyrir rétt rúmu ári síðan, og á helling eftir ólært. Hann er líka að stíga inn í stöðu sem hefur verið fyllt af einum besta hægri bakverði veraldar. Ekki er Kostas Tsimikas öfundsverðari, þurfandi að feta í fótspor á einum besta vinstri bakverði veraldar.

Við erum aðeins búin að minnast á frammistöðu Mané og Salah, en á milli þeirra spilaði Divock Origi og átti hann einn daprasta dag sem framherji Liverpool hefur átt í lengri tíma. Lítil pressa, hélt bolta illa, ónákvæmar sendingar. Reyndar átti það við um megnið af Liverpool, það voru líklega komnar fleiri misheppnaðar sendingar eftir 20 mínútur heldur en í öllum Leicester leiknum.

Líklega hefði Klopp átt að vera búinn að gera skiptingu strax í hálfleik, þá a.m.k. að skipta Origi út, og hugsanlega einhverjum af miðjunni. En það var svosem nokkuð fyrirséð að fyrsta skipting kom á 60. mínútu, og var ferföld: Bobby, Fab, Robbo og Jota komu inná fyrir Salah, Gini, Kostas og Origi.

Því miður náðu Atalanta að skora rétt áður en skiptingin kom. Svosem ekki gegn gangi leiksins. En til að bæta gráu ofan á svart skoruðu þeir svo aftur 4 mínútum síðar. Í báðum tilfellum hefði vel verið hægt að gera betur í varnarleiknum, líklega mun Rhys bölva í koddann í kvöld að hafa ekki dekkað betur manninn sem var skyndilega aleinn á markteig í seinna markinu. Fyrir utan þetta atriði má hann samt vera bara nokkuð sáttur með sína frammistöðu.

Liverpool sótti svo talsvert eftir þessi tvö mörk, og voru komnir í 4-2-3-1 undir lokin þegar Minamino kom inná fyrir Matip, Fab fór í miðvörðinn og Milner og Curtis sáu um miðsvæðið. En það kom í raun aldrei neitt gott færi sem liðið hefði átt að skora úr. Mané kláraði leikinn, en hefði klárlega haft gott af því að vera skipt útaf. Það virtist líka oft vera þannig að varnarmenn Atalanta hefðu skotleyfi á hann, oft sem maður hrópaði “af hverju var ekki dæmt á þetta?!??!” þegar var ýtt í bakið á honum og boltinn tapaðist. Almennt má reyndar segja að dómari leiksins hafi verið of mistækur, hann virtist ætla að leyfa leiknum að rúlla mjög mikið, en sleppti fyrir vikið fullt af brotum sem hefði með réttu átt að dæma á.

Hvað um það, lokatölur urðu 0-2, svo ekki náðu okkar menn að tryggja farseðilinn í 16. liða úrslitin í kvöld.

Áður en við sökkvum í þunglyndi yfir úrslitunum, þá er ágætt að hafa það hugfast að það var virkilega nauðsynlegt að rótera. Það eru 3 miðjumenn heilir fyrir utan Fab sem þarf að spila miðvörð, og ekki hægt að spila Milner í tveim stöðum á sama tíma (a.m.k. ekki ennþá, vísindamenn eru að vinna í því). Voru Neco og Kostas að sýna þannig frammistöðu að þeir geri með henni tilkall til byrjunarliðsstöðu? Nei, Trent og Robbo eru ennþá ljósárum á undan. Þetta eru leikmenn sem þurfa á reynslunni að halda, og það var aðeins lagt inn á reynslubankann hjá þeim í kvöld. Er Rhys 40 milljón sterlingspunda miðvörður með 8 ára reynslu á bakinu? Nei, hann var að koma inn í aðalliðshópinn úr U23 núna í haust, en þetta er hellings efni og er nú þegar að létta aðeins áhyggjurnar út af fjarveru VVD og Gomez. Er Curtis næsti Gerrard? Líklegast ekki, hann spilaði vel um helgina og var ekki slæmur í dag en ekki heldur eitthvað frábær. Allir þessir ungu strákar þurfa að fá svigrúm til að bæta sinn leik, og nýta reynsluna af leikjum eins og þessum, án þess að vera teknir af lífi í umræðunni.

Svo má alveg hafa í huga að Atalanta eru með fantagott lið, og voru komnir upp við vegg í þessum riðli. Þeir einfaldlega þurftu að vinna.

Besta/versta frammistaðan

Ég veit ekki hvort það sé hægt að tala um bestu frammistöðu einhvers hjá Liverpool í þessum leik, svo við sleppum því. Nafnbótin fyrir verstu frammistöðuna fer á tvo staði: Divock Origi gerði fátt í þessum leik til að snúa því áliti margra að hans tími hjá Liverpool sé liðinn. Eins var dómari leiksins ekki með nægilega góð tök á leiknum, og ekki nægilegt samræmi í dómgæslu. Skipti hans frammistaða sköpum í leiknum? Alls ekki. Lið sem nær varla skoti á mark getur ekki ætlast til þess að vinna leikinn. En maður reiknar með ákveðnum gæðastandard í dómgæslu í Meistaradeildinni.

Hvað er framundan

Næst er það hádegisleikur á laugardaginn. Jú mikið rétt, auðvitað þurfti að setja leik Liverpool og Brighton á laugardagshádegið, sirka korteri eftir að Klopp var búinn að kvarta yfir því þegar það gerist hjá liðum sem eru að spila í Meistaradeildinni/Evrópudeildinni á miðvikudagskvöldi. Meiri snillingarnir.

Það að þessi leikur hafi tapast er engin katastrófa, en þá verður líka að vinna a.m.k. annan af síðustu tveim leikjunum. Það hefði verið rosalega gott að vinna og geta spilað C-liðinu í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum, en hei, Liverpool fer einfaldlega aldrei auðveldu leiðina. Við eigum að vera búin að læra það.

Það sem er mun mikilvægara er að vinna leikinn á laugardaginn. Klopp þurfti klárlega að rótera til að standa ekki uppi með örþreytt lið í þeim leik, og t.d. hefði verið gott að ná að hvíla Milner og Mané meira, en það var bara ekki hægt.

Nú er bara að krossa fingur og vona að einhver af Hendo, Thiago, Shaq, Ox eða hinum verði leikfærir og í formi til að spila gegn Brighton.

Semsagt, Brighton á laugardaginn (á útivelli), Ajax á þriðjudaginn (á heimavelli). Það verður eitthvað.

28 Comments

  1. Sorrý klárt vanmat hjá herra Klopp. Sárasjaldan sem ég er ósáttur við ákvarðanir hans. En i kvöld er ég það. I alvöru hafðu hann trú að þeir gætu unnið með þetta byrjunarlið ?

    5
  2. Sælir félagar
    Liðið okkar fer aldrei auðveldu leiðina að því að klára svona keppni. Með því að halda jöfnu eða vinna hefði liðið getað slakað á í meistaradeildinni en nú er því ekki að heilsa lengur. Það var ekkert sem gladdi augað í þessum leik þar Liverpool á eitt skot í áttina að markinu í fyrri hálfleik. Svo skildi ég ekki af hverju Salah var tekinn útaf en ekki Mané. Hann var ótrúlega tensaður og stressaður á fyrstu snertingu og átti sinn lakasta leik sem ég man eftir. En svona er þetta í boltanum stundum. Nú er bara að hvílast eftir getu og taka svo B&HA á laugardaginn.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  3. Er það ekki bara besta mál að detta úr þessari keppni sem fyrst enda hvernig dettur herra Klopp það í hug að reyna spila fótboltaleik með algjörlega vængbrotið lið og byrja ekki með sína bestu menn inn á og skora snemma kannski eitt eða tvö mörk og þá gæti hann skipt inn þessu rusli sem var inná í fyrri hálfleik.

    2
  4. Deildin er númer 1.2 og 3
    Ef hægt er að reyna að vinna deildina með því að hvila þessa fáu lykilmenn sem eftir eru þá er ég sammála því.
    Það tókst ekki að sigra í kvöld en við erum ennþá efstir og í toppmálum.
    Það sást vel í þessum leik að Winjaldum er orðinn vel þreyttur enda fáranleg álag á honum þar sem að Henderson og Thiago eru meiddir og Fabinho oftast að spila í vörninni. Svo var Milner og Jones ekki að gera neitt til að hjálpa.

    3
  5. Lélegur leikur léleg framistaða en engin pirringur í gangi.

    Engin meiddist, ungir leikmenn fengu 90 mín og fara þær í reynslubankan. Ég hef fulla trú á að við komust upp úr þessum riðli og stundum koma svona leikir og þá er eins gott að þeir koma á þeim tímapunkti að það er ekki allt undir.

    Atalanta liðið er gott lið sem eru særðir eftir tapið síðast og þetta var algjör úrslitaleikur fyrir þá enda sá maður að þeir voru að selja sig mjög dýrt í þetta á meðan að okkar menn voru alveg að reyna eitthvað en það var greinilegt að það var ekki eins mikið undir.
    Atalanta hafa ekki verið að standa sig á Ítalíu og er því meistaradeildin númer 1,2 og 3 hjá þeim og það sást í kvöld.

    Flott að geta svarað fyrir þessa framistöðu gegn Brighton á laugardaginn(styttist líka í menn eins og Thiago, OX, Henderson) og svo klárum við Ajax á þriðjudaginn og engin mann eftir þessum Atalanta leik(ja, nema þeir og fer þetta í þeira sögubækur sem einn af þeira glæstustu sigrum).

    YNWA – upp með brosið það þýðir ekkert annað , þótt að okkar lið náði sér ekki á strik í kvöld( vill frekar sjá svona framistöðu í svona leik sem ekki allt er undir til að gefa okkur spark í rassinn heldur í mikilvægari leik).

    7
  6. Átti allt eins von á tapi, en hefði viljað sjá ögn skárri frammistöðu.

    Þessi leikur skipti mun meira máli fyrir Atalanta og það sást á spilamennsku þeirra. Sigurinn var síst of stór.

    Þetta voru kannski ekki úrslitin sem Brighton vildu. Menn koma bjrálaðir til leiks gegn þeim.

    7
  7. Ekki við öðru að búast miðað við uppstillingu okkar manna og leikkerfi Atalanta – yfirspilaðir á miðjunni í fyrri hálfleik og eigum ekki skot á markið. Vörnin slök, Grikkinn á langt í land miðað við Skotann okkar Robertson. Samt nokkuð slakur þrátt fyrir tap, Atalanta á eftir að taka á móti Ajax og við ættum að eiga inni 3 stig á móti þeim dönsku.

    Rannsóknarefni um hlaupagetu Origi – er maðurinn svona latur, með athyglisbrest eða eitthvað annað?!

    Mér er sama um forna frægð, selja hann í janúar!

    5
  8. Klárt klúður hjá Klopp þessi leikur.
    Dapurt byrjunarlið, þessi varnarlína verulega slök á pappír en stóð sig betur en ég þorði að vona. Neco Williams er ekki klár í fullorðins fótbolta.
    Fremstu þrír voru steingeldir. Afhverju í ósköpunum byrjaði Origi þennan leik, ha? Hann a ekki að fá fleiri mínútur á þessu tímabili.

    3
  9. Ég fyrirgef þessa frammistöðu ef við vinnum næstu tvo leiki ! Besta við þennan leik var samt að það meiddist ENGIN leikmaður. Áfram gakk og næst er það Lallana og félagar, við erum enn efstir í okkar riðrli í CL. Bad day at the office !

    5
  10. Jahérna.

    Liðið skapaði ekki eitt einasta hættulegt færi – á 92 mínútum og það á heimavelli.

    Aðeins fjögur skot og þar af núll á ramman.

    Menn mega skammast sín fyrir þessa skitu, bæði leikmenn og þjálfari en sérstaklega óþreyttu varaskeifurnar sem ekkert sýndu þegar tækifærið gafst.

    Stórkostlega léleg frammistaða á heimavelli.

    1
  11. Sæl og blessuð.

    Þetta var slöpp frammistaða en svona er Atalanta liðið sem við vorum skíthrædd við fyrir leikinn úti. Þeir eru svona góðir, grjótharðir naglar sem gefa ekkert eftir. Svo var dómarinn spar á lungun mestallan leikinn. Þeir gengu á lagið og hinn grjótharði Mané var eins og keila á milli þeirra þar sem þeir ráku hné og lendar í hann. Nefnum ekki Origi sem þurfti ekki nema hvasst augnarráð eða kröftugan blástur til að leggjast kylliflatur.

    Var ekki eins ósáttur við unga gengið eins og margir aðrir sem kommentera hérna. Varaskeifa Robertssons barðist á köflum mjög vel þótt hann hafi vissulega misst sóknarmanninn inn fyrir sig í fyrra markinu. Þeir stóðu sig lengst af ágætlega og það verður ekki sagt að neitt betra hafi tekið við þegar aðalmennirnir marseruðu inn á. Háir boltar inn í teig sem þeir áttu í engum vandræðum með. Ekki eitt alvöru færi.

    Leikur þessi fer í reynslubankann og eins og málum hefur verið háttað þá megum við prísa okkur sæl fyrir að halda óbrotnum mannskap eftir svona kröftuga mótspyrnu.

    Nú er bara að sjá hvort Sindri á Höfn geti nurlað saman aurum frá humarbátum til að gera tilboð í hinn utangátta Origi. Ég er ekki viss um að hann myndi átta sig strax á félagaskiptunum, blessaður.

    1
  12. Hrikalega léleg frammistaða, en eins og margir hafa bent á, enginn heimsendir. En stórt klúður því að þarna var séns á að fara áfram í keppninni og fá þann lúxus að geta hvílt fleiri lykilmenn í næstu tveim CL leikjum enda álagið á hópnum orðið fáránlegt og desember-geðveikin framundan.

    3
  13. var þetta ekki nettur æfingaleikur ? .. sá reyndar ekki leikinn en miðað við aðstæður og stöðu í riðli, var þá þetta ekki bara rétta í stöðunni ?

    1
  14. Skýrslan komin inn, ræðið endilega.

    Kannski rétt að hafa í huga að ef útileikurinn hefði tapast 0-2 og heimaleikurinn unnist 5-0, þá værum við líklega öll hoppandi ánægð með að vera efst í riðlinum.

    9
    • Frábær skýrsla, alveg spot on. Því miður er ekki hægt að segja það sama um leik okkar manna.
      Skil Klopp vel að rótera svona mikið.
      Erum efstir í riðlinum, þurfum 1 stig í næsta leik til að tryggja okkur áfram. Þetta lítur sannarlega vel út þrátt fyrir úrslit kvöldsins.

      2
    • Svo algerlega sammála þessari skýrslu að hálfa væri hellingur mætti halda ég hafði skrifað hana en ekki þú 🙂 Þetta dómara djók í þessum leik var svo yfirgengilega lélegt að leikurinn var vart áhorfanlegur svo leiðinlegt var þetta, Hélt að við myndum ekki verða vitni að lélegri dómgæslu en í EPL en svona er þetta maður er alltaf að sjá eitthvað nýtt í þessu.

      1
  15. Liverpool hefði tapað þessum leik sama hvaða dómari hefði verið með flautuna.

    1
  16. Okei. Tvennt sem ég lét fara óstjórnlega í taugarnar í gegnum leikinn.

    ..1.. Hversu ógeðslega lélegur Mané var.
    ..2.. Hversu ógeðslega lélegur Origi var…

    Ég hef oft talað um Origi og hvað honum vantar og hvað hann þarf að sýna. Hef sagt að hann sé búin og hann sé ekki nógu goður á hæsta leveli……það hefur ekki breyst, það mun aldrei breytast, og hann þarf nauðsynlega að hætta að spila fyrir okkur..

    Mané á inni lélega leiki

    1
  17. Held að allir sjái að það gengur ekki að spila 433 með 10 leikmenn. Origi hefði gert jafnmikið þá og hann gerði í 90 mínútur — ekkert. Origi er frábær fyrrum Liverpool hetja, en vil ekki sjá hann nema til að slútta unnum leikjum þangað til hann fer annað. Passar engan vegin leikstíl liðsins.

    Annað er að í byrjunarliðinu voru 3-5 leikmenn sem eru amk. Númer 3 í dýpt inni á sinni stöðu. Rhys, Neco, Kostas, og Origi eru ekki fyrstu varamenn í þær stöður sem þeir voru að spila. Milner hefur verið fyrsti varamaður í bakverðina og Jota og Shaq og Taki allir á undan Origi. Sama má í raun segja um Jones. Eins þá var glannalegt að setja Kostas inn sem bakvörð með Rhys þar sem hann hefur ekki spilað neitt að ráði síðan á síðasta tímabili og þá í Grikklandi.

    Það sem mér finnst verst er að það er augljóst að leikmenn liðsins misstu einbeitinguna þegar leið að sviptingunni. Mistökin sem gerðust við fyrsta markið voru dæmigerð fyrir það. Og seinna markið var rugl þar sem enginn vissi hver var að spila hvaða stöðu eftir 4 skiptingar og Rhys og Neco saman.

    En betra að tapa þessum leik og tryggja móti Dönunum en að eiga ekki í lið gegn Brighton.

    YNWA

    4
  18. Deildin er númer 1,2 og 3. Klopp er að dreifa álaginu og það er skiljanlegt. Nú dugar bara jafntefli við Ajax og þá erum við komnir áfram og hægt að hvíla lykilmenn gegn dönsku risunum.

    2
  19. Sælir félagar

    Takk fyrir skýrsluna Daníel og ég er henni sammála í einu og öllu. Dómgæslan var afspyrnuléleg en hafði ekki úrslitaáhrif nema ef vera skyldi vegna Mané. Hvernig dómarinn gaf veiðileyfi á svarta gullmolann okkar er óskiljanlegt og Atalanta menn gengu á lagið. Það er auðvitað hluti á skýringunni af hverju Mané átti sinn daprasta leik í rauðu treyjunni. En hann var ekki einn um slakann leik semer auðvitað slæmt. Því allt liðið var að spila undir væntingum nema Alisson sem gat ekkert gert í þessum mörkum með þennan varnarleik fyrir framan sig

    En þessi leikur er búinn og Origi kemur vonandi aldrei inná fótboltavöll í Liverpool treyju framar. Áhugaleysið, letin og skortur á getu og gæðum láku af honum eins og leðja. Blessaður kallinn. Ég þakka hoinum allt liðið bæði gott og slæmt en nú er komið að kveðjustund. Frammundan er leikur á útivelli við B&H Albion. Þeir geta verið skeinuhættir á heimavelli því Potter er að reyna láta liðið sitt spila fótboilta og það er virðingarvert. Verðum samt að vinna þann leik og vona að T´ham og Chelsea geri jafntefli eða að bláa olíuliðið vinni þann leik. Aðrir leikir skipta svo sem ekki máli í næstu umferð.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  20. Margt gott komið fram hér í skrifum sem ekki þarf að bæta?

    Hvað mig varðar þá er þetta álag farið að segja til sín, leikmenn farnir að hrynja niður í meiðslum og ekki bara hjá okkur líka öðrum liðum og mörg hver eru langvarandi og alvarleg meiðsli.

    Þetta nær ekki nokkuri átt lengur, leikmenn hafa spilað 3 landsleiki á stuttum tíma og svo beint í deildina og meistaradeild.
    Síðan er þéttasta leikjadagskrá sem spiluð er í evrópubolta það er desember törninn, þetta endar með því að þeir sem vinna deildina er það lið sem missir fæsta af sínum leikmönnum í meiðsli.

    5
  21. Ágætu stuðningsmenn. Við skulum bara anda rólega eftir þennan leik. Auðvitað er alltaf leiðinlegt að tapa leik og þá sérstaklega á Anfield sem talið er mikið virki. En þá þarf að vera fullmannað lið.
    Jákvætt…
    …ungguttarnir fengu enn einn leikinn í reynslubankann
    …lykilmenn fengu dálitla hvíld fyrir næsta leik
    …þrátt fyrir tap á Liverpool enn góða möguleika á að vinna riðilinn
    …ef menn standa nokkuð þétt í lappirnar í síðustu tveimur leikjunum í riðlinum skiptir þessi leikur ekki nokkru máli
    Neikvætt…
    …vanmat Klopp andstæðinginn???
    …það virtist vera nokkuð slen í mönnum
    …þreyta Mane???
    …Origi, æ,æ, best að segja sem minnst
    …sumir ungguttarnir eru ekki alveg klárir en það eru menn sjaldnast þegar þeir eru ennþá yngri en 20 ára. Spurning hvort það sé nokkuð neikvætt, frekar eðlilegt

    5
  22. Burtséð frá leiknum.
    Ég myndi vilja sjá klopp hætta að væla yfir álagi og sjónvarpsstöðvunum. Ég er hjartanlega sammála honum en ég er hræddur um að þetta dragi tennurnar úr mönnum og blóðbragðið minnki.

    1
    • Ég vona að Klopp haldi enþá að benda á álagið og að fleiri taki undir. Þú mátt kalla þetta væl en þetta leikjaálag er komið út í algjört bull í þessu covid ástandi og hvað geta Sky/BT gert jú þeir gætu tekið tilit til liða í meistaradeild/Evrópudeild en nei hvað gera þeir bæði Man utd og Liverpool hafa verið að fá hádegisleik á laugardegi.
      Þetta er bara exel skjal sem þarf að laga.

      Hvað gerir leikjaálag svona hættulegt og eru þetta ekki atvinnumenn sem ættu bara að þegja, sparka í bolta og ekkert væla yfir því þegar þeir eru beðnir um það?
      A)Bestu leikmenn inná vellinum en álagið er slíkt að stjörnur liðana hafa verið að meiðast mjög oft = meiðsli
      B) Við viljum sá lið með sína bestu leikmenn inná vellinum ferska því að þá fáum við stuðningsmenn að sjá besta fótboltan = ekki eins góð gæði

      Fyrir hverja er verið að setja þetta álag á leikmenn ? Þetta er góð spurning og snýst þetta allt um seðla.

      BT/SKY mega alveg sýna leikina en þeir geta drullast til þess að veita þeim liðum sem er að spila leiki á þriggja daga fresti meira svigrúm til að jafna sig og ættu leikir þessara liða að vera seint á laugardegi eða helst á sunnudegi(sérstaklega ef þú ert að spila á mið/fim).

      Ég efast ekkert um að Klopp haldi blóðbragðinu í mönnum liðsins og efast um að þetta taki blóðbragð af leikmönnum sem hann er að reyna að vernda(þeir dýrka hann þá bara enþá meira ef það er hægt).

      6
      • Þú veist alveg hvað ég á við, þó svo að ég noti orðið væl. Skynsamir menn skilja það allavega.
        Sjónvarpsstöðvarnar ráða þessu og þegar móri nefndi þetta fyrst 2004 var það kallað væl, og já, af langflestum stuðningsmönnum lpool. Örugglega þú líka þó þú viðurkennir það aldrei.

        Vonandi verður leikmönnum hlíft , allavega hafa 5 skiptingar.
        Þreyta kallar á að leikmenn leggi sig ekki eins mikið fram til að hlífa sér.
        Vonum það besta.

  23. Eitt sem ég vill benda á , þá bæði hér á kop.is og líka á fotbolti.net. Báðar þessar vefsíður eru að auglýsa tóbak og áfengi, sem er “léttöl” og nikótín púðar. Er þetta sæmandi þessum vefsíðum. er þetta “make it or brake it” fyrir báðar vefsíður ? eða bara peningagræðgi ? Siðferðislega finnst mér þetta allavega kolrangt ! og þá miklu verra fyrir fotbolti.net sem er alltaf að óska eftir frjálsum framlögum frá almenningi.

    8
    • Það er nú eiginlega óskiljanlegt að það sé leyfilegt að selja vöru, leyfilegt að kaupa þessa vöru – en harðbannað að auglýsa hana.
      Þjónar ekki nokkrum tilgangi öðrum en að fróa stjórnunarfýsn forræðisþenkjandi fólks.

Liðið gegn Atalanta á Anfield

Brighton á morgun (12:30) – Upphitun