Man City 1-1 Liverpool

Í síðasta leik Liverpool fyrir enn eitt landsleikjahléð gerði liðið 1-1 jafntefli við Man City á útivelli. Liverpool náði ekki að endurheimta toppsætið fyrir pásuna en sitja stigi á eftir Leicester með 17 stig eftir fyrstu átta leiki deildarinnar og eru komnir langleiðina með að tryggja sig upp úr riðlinum í Meistaradeildinni. Byrjun leiktíðar hefur verið ansi erfið bæði hvað varðar leikjaálag, liðin sem þeir hafa mætt og meiðsli mikilvægra leikmanna svo það verður að segjast að þessi staða sé bara nokkuð fín miðað við aðstæður.

Klopp stillti upp mjög sóknarsinnuðu liði sem hann útskýrði fyrir leik að væru leikmenn að sinna sínum hlutverkum þá yrði það mjög sterkt varnarlega líka og það var heilt yfir bara nokkuð rétt hjá honum. Jota byrjaði ásamt Firmino, Mane og Salah í framlínunni í 4-2-2-2 leikkerfi.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og settu mikla pressu á varnarlínu Man City og komust yfir snemma leiks þegar Sadio Mane keyrði inn í teig og Kyle Walker braut klaufalega á honum. Salah fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi, en ekki hvað? Áttunda deildarmark hans á leiktíðinni og það fjórða af punktinum.

Það var mikill ákafi í Liverpool fram á við og fékk liðið fullt af fínum tækifærum á að skora og mögulega gera út um leikinn en það vantaði aðeins upp á loka touchið eða hreinlega að verða aðeins heppnari með skoppið á boltanum.

Heilt yfir varðist Liverpool mjög vel en það hefði kannski mátt gera aðeins betur þegar Gabriel Jesus jafnaði metin fyrir Man City rétt eftir miðjan fyrri hálfleik. Þá mætti hann fyrirgjöf sem var aðeins fyrir aftan hann, náði að snúa með góðri snertingu og skot hans fór rétt svo fótinn á Alisson og í netið. Vel gert hjá honum en klaufalegt og óþarft mark að fá á sig, var jafnvel nokkuð gegn gangi leiks fanns mér.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks á Kevin De Bruyne fyrirgjöf sem Joe Gomez er óheppinn að fá í hendina og fékk Man City grófa en sanngjarna vítaspyrnu. De Bruyne fór sjálfur á punktinn en glötuð spyrna hans fór vel framhjá markinu og Liverpool slapp því með skrekkinn.

Það var mikill kraftur í leiknum í fyrri hálfleik og bæði lið sóttu hratt og af mikilli ákefð. Síðari hálfleikur byrjaði á svipuðum nótum og bæði lið fengu hálf færi hér og þar en svo fjaraði leikurinn bara nokkurn vegin út. Bæði lið nokkuð sátt með stigið fannst manni og eflaust er þetta ágætis stig þegar öllu er á botninn hvolft þó maður hafi vissulega viljað tvö í viðbót.

Holningin á Liverpool-liðinu fannst mér mjög góð og liðið varðist vel. Klopp nefndi það eftir leik að liðið hafi líklega sjaldan lokað eins vel á Man City og það gerði í dag sem er eflaust satt hjá honum og gott í ljós þess að það vantaði ansi mikilvæga hlekki í varnarleiknum í dag.

Joe Gomez var óheppinn að fá þetta víti á sig en var heilt yfir gífurlega öflugur. Hann hefur verið í ákveðinni lægð í einhvern tíma en í síðustu leikjum hefur hann rifið sig úr henni og veirð mjög flottur. Joel Matip mætti loksins aftur á völlinn og var pínu ryðgaður og einhverjar fínhreyfingar ekki alveg að gera sig hjá honum en heilt yfir var hann frábær í vörninni. Það er ekki nógu mikil umræða í kringum þessa tvo en þeir eru án nokkurs vafa tveir af betri miðvörðum deildarinnar en það er auðvelt að falla í skuggann á hollenska hálf guðinum.

Trent, sem fór meiddur af velli, og sérstaklega Robertson voru mjög góðir. Salah átti fín moment en Jota náði ekki alveg að setja mark sitt á leikinn þarna úti til hægri. Firmino var mjög fínn í fyrri hálfleik en fór út af snemma í seinni fyrir Shaqiri. Besti maðurinn í framlínunni var Sadio Mane, hann var mjög ógnandi og gerði varnarlínu Man City ansi oft lífið leitt. Þegar leið á leikinn virtist dómarinn ekki ætla að gefa honum neitt og fannst mér varnarmenn Man City komast upp með ansi mikið til að halda aftur af honum.

Menn leiksins hjá Liverpool voru Gini Wijnaldum og Jordan Henderson sem mér þóttu frábærir á miðjunni. Þeir þurftu að dekka stór svæði og gerðu það frábærlega, voru góðir á bolta og eru tveir mjög mikilvægir hlekkir í þessu liði. Elsku Liverpool, Klopp, Edwards, Wijnaldum og allir þeir er málið gæti varðað getið þið please reddað þessu með nýjan samning takk!

Nú er framundan enn eitt landsleikjahléið. Vúhú! Eða ekki. Trent verður ekki með Englandi vegna meiðslana en Klopp staðfesti það eftir leikinn. Vonandi verða fleiri leikmenn sem munu verða dregnir úr þessum verkefnum á næstu klukkustundum eða dögum. Þessir leikmenn þurfa hvíld og var gott að sjá að bæði Klopp og Guardiola hjóluðu harkalega í þá sem sjá um leikjaniðurröðun, að það séu ekki fleiri skiptingar í Úrvalsdeildinni og þess háttar.

Næsti leikur er í deildinni gegn toppliði Leicester og vonandi verða allir heilir þegar kemur að því og Fabinho, Thiago og Trent verða klárir í slaginn.

18 Comments

 1. Þetta var bara fínt stig á erfiðum útivelli. Við vorum að spila án Van Dijk, Fabinho, Thiago , OX og svo meiddist Trent.
  Það var þvílíkur kraftur í okkur í byrjun og hefði maður viljað sjá okkur náð að nýta fyrstu 30 mín betur þar sem við vorum miklum betri en svo ná þeir að skora upp úr engu.
  Í síðari hálfleik þá var enþá kraftur til að byrja með en svo síðustu 20 mín var eins og vallar aðstæður og háa tempó framan af leikinn hafi bara slökkt á báðum liðum og var þetta frekar rólegt.

  Við tökum heldur betur þetta 1 stig og vonum að Trent sé ekki mikið meiddur og að Fabinho/Thiago verða klárir eftir landsleikjahlé þar sem við mætum toppliði Leicester á Anfield.

  Við höfum heldur betur fengið krefjandi prógram í byrjun. Miða við meiðsli og jafnvel VAR dóma þá erum við bara nokkuð sáttir.
  Heima: Leeds, Arsenal, S.Utd og West Ham.
  Úti: Chelsea, Villa, Everton og Man City

  Framistöður leikmanna þá fannst manni Andy mjög góður í vörn og sókn, Alisson var að grípa vel inní og átt flottar vörslur, Mane mjög ógnandi og Henderson var gjörsamlega út um allt.
  Gini var stundum of lengi að losa boltan en átti líka nokkur góð varnartilþrif, Gomes/Matip voru stundum mjög tæpir en kláruðu þetta vel , Jota hefði mátt slútta aðeins betur og Firmino virkar enþá stundum týndur.

  YNWA – Gott að þessi leikur er úr sögunni en við tökum á móti þeim á Anfield 6.feb og þá vonar maður að við verðum með fleiri lykilmenn inná vellinum og höldum áfram að vera hugaðir að keyra á þá.

  8
 2. Mun betri úrslit fyrir okkur en þá. Þó Chelsea líti ágætlega út þá er City líklegasta liðið til að elta okkur í titilbaráttunni.

  Gríðarlega mikilvægt að fá Matip aftur inn. Sendinganar munu slípast til með leikforminu.

  Verðum væntanlega búnir að endurheimta Thiago og Fabinho og vonandi Trent líka, eftir hlé.

  10
 3. Bara stál í stál þessi leikur var þannig bæði lið góð og bæði lið vildu vinna leikinn en það vantaði auðvitað þetta final touch hjá okkur og stundum vildi maður að leikmenn hefðu tekið skotið strax frekar en að leita að sendingu.

  Þýðir ekkert að gráta þetta samt grjóthart stig af útivelli gegn City.
  Þeir eiga eftir að naga sig í handarbökin með víta klúðrið.

  Veit ekki hvað mér fannst um þetta leikkerfi samt en þýðir ekki að spá mikið í því núna.
  Vinnum þá á Anfield !
  YNWA !

  9
  • Ég hugsa að gamla leikkerfið hefði virkað betur.

   Bobby skánaði lítið við að vera færður aftar og Jota ekki eins atkvæðamikill þarna hægra megin.

   7
   • Já ég er sammála ég vildi sjá Jota byrja þennan leik allan daginn en þá í 4-3-3 eins og síðast.

    6
 4. Sæl og blessuð.

  Já, það er óþarfi að gráta þessi tvö stig. Vítið og skallinn hjá Jesus – hefðu sannarlega getað breytt stöðunni. Við fengum enginn sambærileg færi sem ekki nýttust.

  Það var eins og okkar menn væru pínu ringlaðir í sóknaruppstillingu – enginn tók af skarið og slúttin voru ómarkviss. Oft hefðu þeir getað gert betur. Ekki bara títttuðaður Firmino heldur sjálfur Jota fór illa með sín hálffæri.

  City liðið er ógnarsterkt og þessi vörn þeirra er ekkert grín. Fínt að vera búin með þá á útivelli og það verður gaman að mæta Rogers og co. þegar landsleikjaleikhléið er að baki.

  Var annars mjög sáttur við vörn og miðju í þessu leik.

  7
 5. algjörlega sammála síðasta ræðumanni flott stig gegn mjög góðu liði með marga toppleikmenn í meiðslum. Vonandi munu sem flestir ná að jafna sig í þessari pásu og held að Trent sé ekkert yfir sig svekktur að missa af Íslansleiknum sem virðist jafnvel í hættu ? Mér fanst Matip frekar ryðgaður sérstaklega sendingakega en tökum þetta stig glaðir og komið með næstu andstæðinga sem eru víst Sjóðheitur Vardy og félagar

  8
 6. Hvernig sem á þetta er litið, þá er stigið flott gegn sterku liði MC. Ennþá hefur engin verið krýndur meistari eftir 8 umferðir, við í þriðja sæti og bara á góðu rönni þannig maður er nú glaður með upphafið á tímabilinu bæði í PL og CL. Nú kemur smá pása, eiginlega vel þegin þvert á álit mitt á þessum hléum.

  YNWA

  7
 7. Ég var mjög sáttur með úrslitinn í þessum leik svona eftir á. Fannst við byrja mun betur í þessum leik og svo hægt og rólega tóku City yfir leikinn. Enn úrslitin koma okkur mun betur til góðs en þeim.

  Það sást allveg að Matip er smá ryðgaður enn ég held að hann muni njóta góðs af því að það er landsleikjahlé og kemur mun betur til leiks eftir hlé. Annars fannst mér leiðinlegt að sjá Firminho er týndur í þessu hlutverki að spila þarna fyrir aftan Salah. Eins og ég dýrkaði hann 2017-19 þá hefur hann verið langt frá sínu bestu undanfarið 2 mörk í 23 premier leauge er ekki allveg nógu ásættanlegt :/ Ég veit vel hvað hann gerir mikið fyrir Salah og Mane enn undanfarna leiki hefur ekki verið mikið að frétta með þá þrjá frammi. Liverpool á Firminho allveg inni á þessu tímabili ég væri mjög sáttur ef hann færi að komast í gang með þessa þrjá í kringum sig. Ekki halda það að ég hati Firminho eða þoli hann ekki hann á svo mikið inni að maður er hálf svekktur hvað hann er búin að vera týndur lengi. er eitthvað í gangi sem við vitum ekki af?

  Var samt mest ánægður með Alisson í þessum leik hann er að sýna okkur leik eftir leik hversu ótrúlega dýrmætur hann er fyrir okkur. Menn voru að verjast nokkuð vel og held að Liverpool geti vel verið sátt með úrslit leiksins eftir á

  4
 8. Ég er einn þeirra sem fagna þessu landsleikjahléi núna. Gefur nokkrum leikmönnum meiri tíma til að komast yfir meiðsli og komast í leikform. Gott stig segi ég en það var eins og það væri sprungið á hjá báðum liðum um miðbik seinni hálfleiks. Bæði lið sættast á stigið líklegast þar sem hvorugt vildi tapa leiknum. Vörnin heilt yfir solid og Henderson minn maður alltaf á yfirsnúning. Gini góður líka en klappaði aðeins of mikið boltanum á tímabili. Þessi sóknaruppstilling varð til þess að það bitnaði á miðjunni og Hendo og Gini þurftu að hlaupa mikið til að reyna covera þau svæði. Það tókst ekki alltaf eins og sást í marki tvö þegar enginn miðjumaður var sjáanlegur fyrir framan vörnina þegar Gini fór á móti KDB. Áfram gakk. Leicester í næsta leik og liðið við toppinn.

  2
 9. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna Ólafur Haukur. Ég er ekki sáttur við að vinna ekki þennan leik. Liðið okkar er það gott að ef allir spila af fullri getu á það að vinna öll lið. Deila má um uppstillingu og frammistöðu einstakra leikmanna en það eina sem ég vil segja um það er að ég vildi freka taka Jota útaf en Firmino. Jota var augsýnilega ekki á sínu bezta en Firmino getur alltaf komið með eitthvað óvænt ef það dettur í hann. Ég hefði eins og staðan var á þessum tveimur leikmönnum frekar veðjað á Firmino í þessum leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

  8
  • Ég vildi líka vinna þennan blessaða leik en við megum ekki horfa framhjá því að við erum með lykilmenn meidda. Það að hafa misst Virgil út í heilt tímabil er algjör martröð, ofan á allt hitt sem hefur gerst. Samt erum við í flottum málum í okkar keppnum og eigum von á Thiago og Fabianho fljótlega.

   Svo þegar talið berst að uppstillingu og að leikkerfum að þá finnst mér þetta mjög spennandi grein. Það að getað skipt um nokkur kerfi er frábært og mikill styrkur þegar leikmennirnir eru af slíkum gæðum eins og okkar.

   https://www.thisisanfield.com/2020/11/jurgen-klopp-warns-rivals-you-cant-predict-our-system-from-now-on/

   2
  • Vissulega vill maður vinna alla leiki Sigkarl, höfum liðið til þess. En miðað við hvernig þessi leikur spilaðist þá getur maður verið nokkuð sáttur´

   YNWA

   1
 10. Sigkarl 9

  “Jota var augsýnilega ekki á sínu bezta”

  rétt, en það var Firmino ekki heldur

  “en Firmino getur alltaf komið með eitthvað óvænt ef það dettur í hann”.

  Það er vissulega rétt þó það gerist sjaldan: 1 mark og 1 assist á 718 mínútum þetta tímabil hjá Bobby.

  7 mörk á 212 mín hjá Jota.

  3
  • afsakið, ég var með rangtar tölur. þetta eru 7 mörk á 482 mín hjá Jota. En fyrir leik var hann með mark á 55 mín fresti.

   Bobby er svo með 2 stoðsendingar. En hann kemur að marki á 240 mín fresti.

   Varðandi Bobby þá er það ekki bara markaþurrðin sem er áhyggjuefni, heldur finnst mér hann vera að vinna mun færri bolta en síðustu ár. Er þó ekki með neina tölfræði varðandi það.

   3
   • Varðandi Bobby þá er ekki bara markaþurrðin sem er að hrjá hann heldur líka sendingar hjá honum. Oft sem þær fara beint í mótherja. Við vitum vel hversu frábær hann getur verið og sendingarnar sem hann getur gefið. Enn undanfarið þá hefur hann ekki verið skugginn af sjálfum sér algjörlega týndur.. Enn Leikmenn eiga til að taka svona run bara spurning hvað þetta verður langt run hjá honum.

    Eins og staðan er núna er Jota mjög heitur og bíður upp á meira óvænt í okkar sóknarleik enn Bobby. Ég hef haldið mikið upp á Bobby enn leikmaður sem spilar framherji hjá Liverpool á að geta skorað 15-20 mörk með Salah og Mane í kringum sig! Það hefur stundum verið sagt ein mynd segir meira enn 1000 orð…. Firminho skoraði í síðasta heimaleiknum á síðasta tímabili sem er galið :O Ég hef samt mikla trú á því þegar hann sér að sætið hans er langt frá því að vera öruggt núna að hann setji í annan gír og fari að sýna gamla takta aftur.

    1

Liðið gegn Man City

Gullkastið – Góður punktur