Munu Danir liggja í því?

Minnum á podcast vikunnar sem er í næstu færslu fyrir neðan.

Það er komið að leik númer 2 í meistaradeildinni. Andstæðingar okkar í fyrsta leik gerðu sér lítið fyrir og unnu sína andstæðinga 0-13 í leiknum um helgina, svo eitthvað geta þeir nú í fótbolta þó þeir hafi ekki haft erindi sem erfiði í leiknum gegn okkar mönnum fyrir viku síðan. En nú eru það Danir sem heimsækja Anfield, nánar tiltekið piltarnir í Midtjylland.

Andstæðingarnir

FC Midtjylland er frekar ungt lið, því það var stofnað í núverandi mynd fyrir rétt rúmum 20 árum síðan. Rætur þess ná þó aftur til fyrri hluta 20. aldarinnar, en liðið varð til við samruna tveggja eldri liða. Hvorugt þeirra hafði náð fótfestu í efstu deildinni í Danmörku, en eftir samrunann komst liðið strax upp í efstu deild. Liðið náði þó ekki að vinna danska meistaratitilinn fyrr en núverandi eigandi tók við, og eftir það hefur liðið ávallt verið meðal 4. efstu liða, og unnið deildina þrisvar, núna síðast í sumar. Þetta er svo í fyrsta skiptið sem liðið leikur í meistaradeildinni, en hefur átt nokkra spretti í Evrópudeildinni, til dæmis unnu þeir góðan sigur á United á heimavelli tímabilið 2015-2016 í 32ja liða úrslitum, en töpuðu svo á Old Trafford (United mætti svo okkar mönnum í 16. liða úrslitum sællar minningar).

Fyrsti leikur þeirra í meistaradeildinni gegn Atalanta núna í haust endaði ekki alveg nógu vel fyrir Danina, úrslitin urðu 4-0 þó svo að Klopp hafi viljað meina á blaðamannafundinum fyrir leikinn að þau úrslit hafi alls ekki verið samkvæmt gangi leiksins. Gengi liðsins í dönsku deildinni núna í haust er hins vegar ágætt, liðið er í 1.-3. sæti með 13 stig eftir 6 umferðir eins og mörg önnur ágæt lið í álfunni.

Hvað leikmenn liðsins varðar, þá eigum við Íslendingar einn fulltrúa í liðinu, en Mikael Anderson spilar með þeim, og kom m.a. inná sem varamaður í leiknum gegn Atalanta.

Annars megum við eiga von á því að Einar Matthías taki Danina talsvert betur fyrir í sinni upphitun, eins og honum er einum lagið.

Okkar menn

Staðan á okkar mönnum virðist vera mjög svipuð og fyrir leikinn gegn Sheffield. Ox, VVD og Tsimikas eru allir frá, það hversu lengi Oxlade-Chamberlain er frá fer að vekja svolitla furðu, og eins var lítið talað um meiðslin hjá Kostas á sínum tíma. Það er þó talið að hann geti e.t.v. verið kominn til æfinga fyrir leikinn gegn West Ham um helgina, og ekki veitir af í þessari leikjatörn sem nú er í gangi.

Matip gæti mögulega verið leikfær á morgun, en spurningin er kannski hvort Klopp vilji henda honum of snemma út í djúpu laugina. Thiago er farinn að æfa einn á Melwood, en verður nokkuð örugglega ekki með fyrr en um helgina í fyrsta lagi. Semsagt, mjög svipaður hópur og var í boði gegn Sheffield. Það sást til Mané að leggja íspoka að hægra hnénu þegar hann var tekinn af velli á laugardaginn, en það ku víst ekki vera neitt nýtt og hann ætti að vera leikfær. En vissulega er ljóst að helstu máttarstólpar liðsins mega alveg við því að fá smá pláss til að anda aðeins. Hvort Klopp fer út í að gefa einhverjum þeirra frí á morgun er svo allt annað mál. Það er allt eins líklegt að hann taki þennan leik mjög alvarlega, og vilji ekki taka neina sénsa. Enda væri mjög gott ef liðinu tækist að vinna fyrstu 4 leikina í riðlinum, og geta þá í raun slakað aðeins á í síðustu tveim leikjunum. Ekki það að Liverpool hefur nú sjaldnast farið auðveldu leiðina í gegnum keppnir (nema reyndar deildina á síðasta tímabili, en það er önnur saga).

Svo er það spurningin hvort leikmenn eins og Origi fái sénsinn núna. Hann var ekki einusinni í hóp um helgina, og kom ekki inná gegn Ajax. Er tími hans liðinn hjá klúbbnum? Það kæmi satt að segja ekkert rosalega á óvart.

Mín ágiskun um liðsuppstillinguna er því talsvert út í loftið, en ég ætla að veðja á að Klopp sé ekki að fara að gefa skyttunum þremur frí frá byrjunarliðinu. Hann gæti þó vel tekið þá af velli eftir klukkutíma leik, rétt eins og hann gerði fyrir viku síðan. Eins á ég síður von á að Neco Williams sé að fara að byrja þennan leik, þó vissulega megi færa rök fyrir því að Trent hefði gott af smá pásu.

Semsagt, ég spái því að Klopp vilji afgreiða þennan leik með eins sterku liði og honum er unnt. Ég er þarna að gefa mér að Keita verði leikfær, tilraunin með að láta Jones byrja gekk ekki alveg nógu vel gegn Ajax í síðustu viku. Hver veit, kannski gengur það betur á heimavelli? Staðan á Keita er a.m.k það óljós að það kæmi ekki á óvart ef annar leikmaður sæist þarna. Líklegt er að Klopp sé ekki að fara að spila Hendo of oft, og líklega alveg klárt mál að hann þurfi að byrja gegn Hömrunum um helgina.

Spáum semí-öruggum 2-0 sigri á morgun með mörkum frá Trent úr aukaspyrnu og Jota sem kemur inná í síðari hálfleik.

Og já, ef Liverpool skorar í þessum leik (sem við vonumst nú frekar eftir), þá verður það mark númer 10.000 í sögu Liverpool frá upphafi í öllum keppnum. Hver skyldi hljóta þann heiður?

KOMASO!!!

8 Comments

 1. Sæl og blessuð.

  Það er bara danskt smurbrauðshlaðborð sem mætir manni á nöprum októbermorgni. Þessi góða upphitun og svo kraumandi gullkast.

  Þessi byrjun á mótinu er með hreinum ólíkindum. Smáhundarnir gelta sig upp á topp deildarinnar og gömlu bolabítarnir liggja þarna einhvers staðar um og undir miðju. Þetta er þvílíkt gaman. Ég lagði það m.a.s. á mig að horfa á erkifautana í Burnley í gærkvöldi djöflast á Tottenham, líklega var það Jói Berg sem fékk mig til að endast leiðindin nánast til loka. Já, þetta var ekki góð skemmtun og þeir hvítklæddu voru ljónheppnir að landa sigri. Skoruðu loks á 80. mínútu eða svo eftir að hafa ekki náð skoti á mark fram að því. Höfðu skömmu áður bjargað á línu.

  En þennan leik verður að leggja upp með skynsemina að leiðarljósi. Eitthvað segir mér að Mané verði ekki í byrjunarliðinu en væntanlega reynir Klopp að athuga hvort Firmino hafi fundið níuna sína aftur eftir langa leit. Það væri nú saga til næsta bæjar ef honum tækist að pota inn marki annan leikinn í röð.

  Væntanlega verður þetta enn ein tilraunin til að finna lífið í Origi og Keita (hinn gíneska Joe Allen – já ég stend við mínar fyrri yfirlýsingar). Hvur veit nema að þeir verðmeti öxl Alissons svo að Adrian óheillakrákan sú arna verði í markinu.

  Að því sögðu þá verður þetta 2-1

  1
 2. Þessir Danir eiga ekki breik og myndi helst vilja gefa mönnum breik. Nota hópinn; Adrian, Neco, Matip, Williams, Milner, Keita, Gini, Jones, Shaq, Minamino og Origi.

  Það er samt líklegt að kannski max. 4 af þessum byrji.

  2
 3. Sælir félagar

  Ef það er rétt að Klopp segi að ekki megi dæma Danska liðið af 4-0 tapinu um daginn þá held ég hann byrji með sitt sterkasta lið og fremstu fjóra eins og síðast. Hendo fær ekki hvíld fyrr en í hálfleik frekar en aðrir í liðinu og fer það eftir stöðunni þá. Ef Liverpool verður einhverjum mörkum yfir í leikhléinu þá gerir Klopp 4 skiptingar strax í upphafi seinni og hvílir Mané, Jota og Salah ásamt Hendo. Jota Minamino og Saq klára svo leikinn en hver kemur inná fyrir Henderson er ekki gott að vita. Við sjáum til. Ég reikna með að staðan verði 3 – 0 okkur í vil í leikhléi og endi 5 – 0 og næst fljótasti leikmaður Ensku deildarinnar Gomes jarði allar sóknir dananna

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Ég myndi vilja sjá Minamino ,Jota og Shaqiri sem fremsu 3, þessir eiga alveg að vera nægilega öflugir til að klára þetta lið.
  Nat P með Gomez í miðverðinum og Jones á miðjunni með Milner og Gini, nýta hópinn vel í þessa leiki.

  2
 5. Tippa á 5-7 breytingar

  Alisson í marki ef hann er alveg 100% – Ef það er einhver vafi held ég að Adrian komi aftur inn.
  Miðverðirnir eru sjálfvaldir. Ef að Tsimikas er heill gæti hann alveg byrjað hérna eða Milner komið í bakvörð.

  Tippa á sömu miðju og gegn Ajax, Jones, Milner og Wijnaldum.

  Svo tvo af Jota, Minamino og Shaqiri frammi líklega á kostnað Bobby og Salah.

  2
 6. Held við ættum að taka þennan leik alvarlega og láta flesta af okkar sterkustu mönnum byrja leikinn og skoða svo stöðuna í hálfleik hvort þörf sé á að hvíla menn, reikna með því að Danirnir ætli að selja sig dýrt og því þyrfti að vera búið að klára þennan leik í fyrri hálfleik ef möguleiki er. Erfiður leikur bíður um helgina gegn Moyes og hans mönnum. Spái 4-1 en hvað veit ég svo sem ?

Liverpool – Sheffield United 2-1

Gullkastið – Kirkja Alisson Becker