Liverpool – Sheffield United 2-1

0-1 Berge (víti), 13 min
1-1 Firmino, 40 min
2-1 Jota, 64 mi

Heimamenn í Liverpool tóku á móti Brewster og félögum (virkar það ekki svona annars?) í ansi mikilvægum leik eftir dræma uppskeru í síðustu tveimur leikjum. Fyrirfram átti þetta ekkert að vera neitt sérstaklega strembið verkefni, enda Sheffield byrjað þetta tímabilið jafn illa og þeir byrjuðu það síðasta vel, en eins og maður átti svo sem von á þá varð úr hörkuleikur!

Klopp gerði þrjár breytingar frá því í sigrinum gegn Ajax en inn komu Alisson, Henderson og Jota.

Leikurinn byrjaði vel, Robertson sendi frábæran bolta innfyrir vörn gestanna á Mané, Ramsdale kom í skrítið úthlaup en skot (sending) Mané var slakt og varnarmaður gestanna náði að hreinsa áður en Salah kom og potaði boltanum fyrir línuna. Mínútu síðar átti Trent tilraun frá miðju eftir að brotið hafði verið á Salah, skotið var frábært en Ramsdale náði að blaka boltanum yfir.

Það var svo á 10 mínútu sem að Sheffield fengu vitaspyrnu, eftir að dæmd var aukaspyrna en VAR breytti dómnum á einhvern óskiljanlegan hátt í vítaspyrnu. Fabinho gerir alveg misstök með því að fara í miðjumannstæklingu á vítateigslínunni, en með þeim fyrirvara að ég sé með Liverpool gleraugun á þá fannst mér þetta einfaldlega ekki vera víti. Þetta var hvorki brot né gat ég séð af þeim 16 endursýningum að um víti væri að ræða en ekki aukaspyrnu eins og upphaflega var dæmt. Hvað um það, því var ekki breytt og Berge skoraði örugglega úr vítinu, 0-1. Við hljótum að eiga talsvert inni hjá VAR guðunum eftir þessa byrjun á leiktíðinni…

Leikurinn breyttist talsvert við þetta, Sheffield fékk trú á verkefninu og voru mikið sprækari næstu mínútur og hefði hæglega geta tvöfaldað forystu sína á 23 mínútu þegar Alisson varði vel frábæra klippu Osborn. Sóknaraðgerðir okkar fóru úr því að vera að pressa og spila í svæði í að negla löngum boltum yfir öftustu línu gestanna, ekki vænlegt til árangurs gegn þessari öftustu línu.

Á 34 mínútu vorum við líklegir í fyrsta sinn eftir vítaspyrnuna, TAA sendi þá háan bolta yfir vörn Sheffield á Salah en Egan náði að bjarga í horn á síðustu stundu.

Jöfnunarmarkið kom á 40 mínútu, í raun upp úr engu. Henderson fékk boltann úti hægra megin, sendi frábæra sendingu fyrir þar sem að Ramsdale varði skalla Mané en Firmino skoraði úr frákastinu, 1-1!

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur byrjaði rólega, ekki ósvipað kannski og síðustu 10-15 mínútur fyrri hálfleiks. Alisson fannst þetta heldur rólegt og ákvað að gefa manni aukaslag þegar Burke var að pressa hann og hann tók sér óþarflega langan tína í að koma boltanum burt!

Burke kom inn í lið gestanna í stað Brewster og byrjaði strax að valda okkur vandræðum með hraða sínum. Salah skoraði svo mark á 61 mínútu sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu, þó það hafi ekki munað miklu. Synd, því móttakan var frábæran og afgreiðslan jafnvel betri!

Það var svo mínútu síðar sem að Mané fékk boltann frá Robertson vinstra megin, lék á Baldock og sendi frábæran bolta fyrir þar sem Jota mætti og skallaði í fjærhornið, 2-1, óvenjuslakur varnarleikur hjá gestunum þar sem að Jota náði að lauma sér á milli miðvarðaparsins og kláraði frábærlega!

Sheffield náði smá sprett eftir markið án þess að skapa sér opin færi. Salah hefði átt að klára leikinn fyrir Liverpool þegar Gini sendi góða stungu á þann fyrrnefnda, varnarmaður gestanna fékk að hanga á Salah alveg fram að skoti sem fór í stöngina, einn gegn Ramsdale! Sheffield reyndi og reyndi en komust lítt áfram og leikurinn fjaraði að lokum út, virkilega mikilvægur sigur og sterkt að koma til baka eftir CL leik í vikunni. Þrjú stig í hús, það eina sem skiptir máli.

Bestu menn Liverpool

Liverpool hefur oft spilað betur, miðjan fannst mér sérstaklega slök í fyrri hálfleik ásamt sóknarlínu okkar manna utan Salah. Miðjan kom þó öll til í þeim síðari, Henderson þar fremstur í flokki og Jota og Firmino skiluðu auðvitað báðir marki.

Vörnin hélt og var sannfærandi lengst af, sérstaklega fannst mér Gomez vera sterkur í dag og fær hann titilinn í þetta skiptið. Hraði hans var mikilvægur eftir að Burke kom inn og hann náði að sópa upp í þó nokkur skipti eftir að Fabinho fór úr stöðu.

Umræðan

  • 100. Robertson spilaði sinn hundraðasta leik fyrir Liverpool í dag. Það sem ég hafði litla trú á kauða þegar hann var keyptur – einn af mínum uppáhaldsleikmönnum í dag!
  • 28/29. Þetta Liverpool lið hefur sigrað 28 leiki af síðustu 29 heimaleikjum í deild. Ef það var ekki nógu gott þá er Liverpool nú ekki búið að tapa í 62 heimaleikjum í röð. Það er sturlaður árangur!

Næsta verkefni

Það eru tvö verkefni á Anfield í næstu viku, fyrst tökum við á móti FC Midtjylland í CL áður en hið sjóðheita West Ham lið mætir n.k. laugardag.

Þar til næst.

YNWA

 

 

 

27 Comments

  1. Verðskuldaður sigur þrátt fyrir allt. Ég ber þá von að vörnin styrkist með því að spila mönnum betur saman. Fabinho og Gomez hafa staðið sig vel en ég tel þá verða betri með fleirri leikjum sem þeir spila saman.
    Mér finnst eins og minni liðin séu hugrakkari gegn okkur en í fyrra. Þeir reyni meira á veikleika varnarinnar. Mér finnst það stundum kalla á að liðið liggi stundum aðeins aftar og láti krók mæta bragði.

    Mér fanst mesta ógnin skapast í þessum leik þegar Mane fékk boltann í lappirnar fyrir framan bakvörð andstæðingana. Bæði vegna þess hvað það er erfitt að verjast honum og svo einnig vegna sendingargetu en sigurmark Jota kom einmitt þegar hann fékk boltann í lappinar við vænginn.

    Það góða við Liverpool er að það eru ótal vopn í liðinu og mörg þeirra eru nánast ónotuð eins og t.d Thiago.

    Annars flottur sigur í erfiðum leik. Sheffield á heiður skilið fyrir hvernig þeir spiluðu. Þeir eiga eftir að fá þónokkuð af stigum í vetur. Þeir spiluðu oft mjög vel gegn okkur, þó gæðamunurinn var augljós.

    12
  2. Gríðarlega mikilvæg 3 stig.

    Við vorum mjög lélegir í fyrirhálfleik.
    VAR drullaði samt á okkur en eina ferðina. Já Fabinho fór í ótrúlega heimskulega tæklingu en hann virðist hafa tekið boltan og líklega ekki brot. Svo færa þeir þetta EKKI brot inn í teig og meiri segja það virðist vera rangur dómur.
    Við lendum undir og eru bara slakir en náum að jafna rétt fyrir hálfleik sem var gríðarlega mikilvægt.

    Við komum af krafti í síðari og sækjum og sækjum. Við komust yfir og náum með herjum að klára þetta.

    Góða: 3 stig. Gomez góður, Alisson kominn í markið, Jota með flott mark og við létum ekki VAR skemma þennan leik.
    Slæma: Við söknum Fabinho á miðsvæðinu en Gini/Henderson voru mjög lélegir í fyrrihálfleik. Fabinho var í smá vandræðum varnarlega. Fabinho/Alisson að láta mann fá vækt hjartaáfall með því að vera of seinir að losa sig við boltan.
    Hræðilega: VAR – þetta var aldrei fyndið og ef þetta var einhverntíman fyndið þá er það hætt að vera það. Í síðustu viku þá skemmdi VAR fyrir okkur Everton leik og í dag gerði það sitt allra besta að skemma leikinn í kvöld.

    Það sem stendur samt uppúr er samt þessi sigur en hann skipti máli fyrir lið sem var að spila sinn fyrsta leik án Van Dijk í 95 leikjum og hefði það ekki verið gott fyrir sjálfstraustið að ná ekki að sigra í dag.

    Næsti leikur í deild er gegn West Ham á Anfield en eins og Man City fengu að prufa í dag þá er það ekki auðveldur leikur.

    YNWA

    P.S þessi deild í vetur er samt stórfurðuleg og er ekkert sem getur komið manni á óvart lengur.

    10
  3. Jæja, við höldum áfram að tína stig í pokann.. alveg meiriháttar sigur.. Er ekki viss um að margir átti sig á því hversu ógeðslega erfitt er að eiga við þetta leikplan sheffield en okkar menn sýndu styrk í kvöld, jafnvel þó líkamlegu burðirnir eru Sheffield meginn.

    Ég hafði reyndar aldrei gert mér grein fyrir hvað þetta lið er ógeðslega leiðinlegt, reyna að fiska dómarinn í gildru hvað eftir annað.. hvað fórnuðu þeir höndum oft í teignum? 5 sinnum amk og ekki eitt sem átti tilkall til brots þó að Marriner hafi haft aðra skoðun.

    Það er alvöru mótlæti í gangi. VAR ætlar að sjá til þess að deildin verði jafnari í ár. En á meðan við hölum stigum í mótlætinu eru okkar helstu andstæðingar að gera í brækurnar á sama tíma, jafnvel VAR reyni allt til að gefa þeim sigur. Spurning hvort þetta styrki ekki okkar menn bara.

    Tilfinningin er að við erum í tómu tjóni í botnbaráttu þannig það er hressandi að skoða töfluna núna 🙂

    7
  4. Frábært að vinna bæði þetta Shaffield lið og vitleysingin á VAR.

    Þetta hefur verið með ólíkindum vond vika fyrir VAR, ekkert að kerfinu sjálfu reyndar. Þessir menn sem eru núna að dæma með hjálp VAR eru sömu bjánarnir og við vorum að pirra okkur á pre-VAR. Það er ekki furða að þeir hafi ekki viljað fá þetta kerfi í boltann.

    Þetta atvik í dag var í það allra minnsta alls ekki clear and obvious, það er alveg ljóst enda ennþá verið að þræta um hvort hann hafi verið á línunni eða ekki, eitthvað millimetraspursmál og alls ekki augljós mistök hjá dómaranum. Yfirklór frá Úrvalsdeildinni um að VAR hafi svo bara skoðað hvort atvikið hefði gerst fyrir innan eða utan teig en ekki lagt mat á brotið sjálft ef ennþá verra en mistökin sjálf. Hver er tilgangurinn með þessu ef ekki? Þessi rök halda vægast sagt engu vatni og eru bara hreinlega með ólíkindum, næstum verra en fávitin sem fannst brot Pickford ekki verðskulda refsingu þar sem það var rangstaða í aðdragandanum. M.ö.o. hann kunni ekki reglurnar.

    Maður er nánast hættur að þora að fagna mörkum, jafnvel mörkum sem maður sér að eru í góðu lagi því það gæti hafa verið brot einhverntíma í síðasta leik sem kæmi veg fyrir mark Liverpool núna. Það er alveg ljóst að VAR dómgæsla er síður en svo holl undir Liverpool.

    Annars er mjög pirrandi hvað lið eins og Sheffield United fá mikinn hópafslátt á fautaskap í leikjum því þau brjóta svo mikið. Minna um vernd fyrir góðu liðinu.

    Flottur sigur eftir að hafa lent ósanngjarnt 0-1 undir. Fannst Liverpool sakna Fabinho mikið af miðjunni í dag sem og augljóslega Van Dijk úr vörninni. Eins er óskandi að Thiago sé ekki mikið lengur frá, þetta eru ekta leikir fyrir töframann eins og hann.

    Liverpool vann, City, United og Chelsea töpuðu stigum. Það eru jafnan góðar helgar.

    25
    • Sammála hverju orði! Þetta VAR er algjört bull núna og við fáum margt á móti okkur. Þvílíkur styrkleiki að klára þennan leik og fá þrjú góð stig í sarpinn.

      Og að fá Alisson til baka er storkostleg tilfinning!

      7
  5. Sælir félagar

    Það er merkilegt hvað þarf lítið til að dæma víti á okkar menn. Hinsvegar þarf helst að drepa Liverpoolmann í teig andstæðinganna til að við fáum víti og dugar þó ekki alltaf til. Þessi sigur var sigur liðsheildar og karakters ásamt því að liðið okkar er mjög gott fótboltalið og er líklega það bezta í deildinni. Enginn leikur er auðveldur og öll lið leggja sig 110% fram á móti okkur. Svo er nottla sér kapítuli með dómgæsluna gegn okkur sem stundum er beinlínis ógeðsleg.

    Það er nú þannig

    YNWA

    15
  6. Liverpool er besta lið Englands, jafnvel án Van Dijk..

    7
  7. Góður sigur þrátt fyrir að dómarastéttin hafi reynt að gera sitt að koma í veg fyrir sigur Liverpool. Ég verð að játa að ég er alveg hættur að skilja VAR og ég þarf greinilega að fara lesa mig til í reglunum þar sem ég er eitthvað að misskilja leikinn. Í fyrsta lagi aldrei brot, í ef öðru lagi, ef brot þá var það vel fyrir utan teig. Nú er þetta orðið þannig að maður þorir ekki að fagna mörkum fyrr en andstæðingurinn tekur miðju.

    Frábært að sjá hvernig Jota er að smella inní liðið. Þegar maður horfði á Wolves var athyglin mest á AT en maður gleymdi alveg að fylgjast DJ. Magnað að sjá hve góður hann er að koma sér inní svæði og búa til svæði fyrir samherja. Annars fannst þér vörnin frábær í kvöld, greinilegt að sjálfstraustið er mikilu meira í baklínunni með Allison í markinu.

    Liðið finnst mér á góðum stað miðað við allt sem hefur gengið á (covid, meiðsli og VAR) það sem mér finnst þó jákvæðast er að við eigum helling inni.

    12
  8. Burtséð frá þessum heimskulega og illgjarna VAR dómi, þá var Fabinho ekki líkur sjálfum sér í þessum leik, en frábært að fá Alisson til baka og Hendo átti magnaðan leik.

    7
  9. Frábært að ná í öll stigin. Og ánægulegt að Jota og Firmino hafi skorað. Jota alveg búinn á því aður en hann fór út af. Henderson góður og Fabino slappur. Eins finnst mér Minamino ekki rétti maðurinn til að koma inn á í stöðunni 2-1. Hann heldur ekki bolta.

    Staðan í dag á Big 6.

    2. Liverpool
    7. Chelsea
    8. Arsenal
    10. Tottenham
    12. Man City
    15. Man Utd

    12
  10. Sammála ykkur hér að ofan með þessa VAR dómgæslu – hún er orðin algjörlega galin! Sáu þið hálstakið hjá Maguire á Aspilicueta í dag á Old Trafford? Púra víti en bæði dómari og VAR töldu enga ástæða til að skoða frekar = allt í góðu! Ekki brot á Anfield en VAR sér tærnar á leikmanni Sheffield á vítateigslínunni, skoðar vel og vandlega og að sjálfsögðu víti! Ekki sama Jón eða séra Jón og akkúrat ekkert samræmi í einu né neinu hjá VAR!

    Annars minnti Sheffield liðið óneitanlega á Stoke City hér um árið – stórkarlalegur fótbolti þar sem meira hugsað um að ráðast á manninn en boltann.

    En ánægður með 3 stig í hús og engin meiðsli eftir leik dagsins.

    YNWA!

    10
  11. Hvað er samt málið með VAR, eru dómararnir svona mikið á móti þessu að þeir reyna hvað þeir geta til að skemma leiki með VAR að þeir haldi að það verði hætt að nota það.
    Það eru allavega ekki hæfir menn í þessu VAR herbergi, það er nokkuð ljóst.

    1
  12. Alisson: þvílíkur léttir. Með Adrian í markinu hefði þessi leikur ekki unnist.

    Trent: Farinn að líkjast sjálfum sér. Góður í kvöld.

    Fabinho: Það verður að hafa í huga að hann er að aðlagast nýrri stöðu. Þokkalegur í kvöld en náði ekki að fylgja frammistöðunni í Amstedam eftir.

    Gomez. Maður leiksins. Kóngurinn í vítateignum.

    Robbo: Samur við sig, síógnand og góður varnarlega.

    Winjaldum: Frekar daufur framan af en vann sig inn í leikinn. Sýndi að hann er ekki alveg geldur fram á við eins og ég var farinn að óttast. Hlakka samt til að fá Thiago inn fyrir hann.

    Hendó: Algjör vél inni á miðjunni. Virkilega góður.

    Jota: Hættulegur og skoraði gott mark. Er enn að aðlagast leikstílnum en frammistaðan lofar góðu.

    Firmino: Skoraði loksins, úr færi sem allir eiga að skora úr. Fann sig ágætlega í þessari stöðu og var mun skárri en í síðustu leikjum. Samt pirrandi hvað hann leitar í að senda boltann aftur fyrir sig.

    Mane: Alltaf hættulegur, okkar besti sóknarmaður.

    Salah: Smá vonbrigði í kvöld, en hann hefur háan standard. Finnst hann nýtast betur úti á kanti.

    4
  13. Algjörlega sammála öllu sem hér hefur verið skrifað og nú þarf Klopp að deila leiknum við Mjuland eða hvað hvað það heitir aftur á milli manna svo lykilmenn geti Komið á fullu gasi og hamrað Hamrana.

    YNWA

    3
  14. Virkilega mikilvægt stig. Sheffield gafst aldrei upp og ekki auðvelt við að eiga.

    Það er hægt að taka margt jákvætt úr þessum leik en það sem stendur upp úr finnst mér er Jota. Hann smellpassar inn í þetta lið. Er alltaf að og búinn að skora 3 mörk!

    Og tímabilið er varla farið af stað.

    Áfram gakk þetta verður mun erfiðara en í fyrra og það reynir meira á leikmenn sem hafa verið undir styrkri stjórn Keisarans í vörninni. Hef fulla trú á að þeir muni gera það áfram.

    YNWA
    GÞÞ

    10
  15. Fyrir viku fór VAR-dómari svo illa með okkur að við óskuðum eftir rannsókn á því.
    VAR-dómarinn í gær ákvað að standa með VAR-félaga sínum og sýna okkur að við skyldum ekki dirfast að kvarta yfir VAR-dómgæslunni, slíkt hafi afleiðingar.

    Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstvirtum VAR-dómurum en það kom greinilega hér fram.

    9
  16. Allt reynt..þeir eru hræddir að Liverpool stingi af aftur með titilinn og það sést núna þetta eru ekki mistök þetta er með ráðum gert. Þetta var ALDREI víti og varla brot í það fyrsta hjá Fabinho þegar hann fer fyrst í fokking boltan. Þegar þeir sýndu þetta svo aftur þá sást bara að þetta var EKKI fyrir innan en samt dæmt víti þetta er orðið miklu meira en fáranlegt.

    10
  17. Sælir félar

    Ég fór að hugsa um eftir að hafa lesið athugasemdir hér fyrir ofan að við hér ættum að hæla Robbo meira en við gerum. Við erum orðin svo vön því að hann standi sig vel og sé með betri mönnum liðsins að við tökum því sem sjálfsögðum hlut. hann leikur alla leiki, alltaf á fullu og gefur hvergi eftir. ‘aætlunarferðir hans linnulausar upp og niður kantinn, leik eftir leik eru magnaðar og við orðin svo vön þeim að við tökum varla eftir þeim. bara svona til að koma þessu að og ég er ekkert betri en aðrir í þessu efni.

    Eins vil ég koma aðeins inn á Mo Salah. Gæði hans eru ótvíræð og hann sýnir það leik eftir leik að hann er einn besti framherji í heimi. Hann er líka óhemju vinnusamur, hættir aldrei að hlaupa og djöflast í varnarmönnum andstæðinganna. Það hlýtur að vera alger martröð að eiga við hann hvort sem hann nær að skora eða ekki. Hann dregur til sín varnarmenn eins og segull og gefur þannig félögum sínum meira pláss en ella væri. Þó hann skori ekki hverjum leik kemur hann sér alltaf í einhver færi og er svo ógnandi að maður sér vanlíðan þeirra varnarmanna, sem eiga að passa hann, á löngu færi. Gefum honum meira hrós líka.

    Virgillinn, Hendo og Mané fá mikið hrós fyrir framgöngu sína og eiga það allt saman skilið án nokkurs vafa. En við gleymum stundum mönnum eins og Robbo, Salah og Firmino. Firmino er að mínu mati einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins. Sköpunarhæfni hans yfirsýn og leikskilningur er með fádæmum og gefur liðinu meira en þau mörk sem við viljum að hann skori. Auðvitað viljum við mörk frá honum en hitt sem hann gerir og skapar er enn mikilvægara að mínu mati. Hættum að hnýta í hann og gefum honum frekar hrósið sem hann á nánast alltaf skilið að fá.

    Það er nú þannig

    YNWA

    19
    • Robbo fékk talsverða gagnrýni á sig á síðasta tímabili en hefur heldur betur svarað henni i fyrstu leikjum þessa tímabils búinn að vera frábær og Salha er líka búinn að vera mjög góður hann er betri fynnst mér núna að koma boltanum í spil fyrr og tapar minna boltanum þar af leiðandi svo er hann ótrúlegur slúttari þessi gæi….

      9
    • Firmino skoraði í gær það er eitthvað til að gleðjast yfir! annars bara vel mælt vinur.

      YNWA

      8
  18. Liverpool-hjartað slær ennþá í Danny Ings! Hann er búinn að leggja upp bæði mörk Southampton gegn Everton. Staðan er 2-0 eins og er.

    13
    • Algjörlega og mikið vildi ég óska þess að hann kæmi til baka í eitt ár til að vinna titla. Hann á það skilið og er einn af mínun uppáhalds.

      Neverton eru vissulega sterkari núna en áður en þeir verða aldrei í toppbaráttunni síðar í vetur.

      Er ekki gaman að sjá manseftirjúnæted-liðin í 13. og 15. sætunum?

      12
      • ójá ekki spurnig þetta gleður mann ómælt þetta ætlar að verða rándýr umferð

        5
  19. Og auðvitað tapar Arsenal og svo Tot á morgun er það ekki bara

    YNAW

    3
  20. Ég verð að viðurkenna það að ég fékk ónotalega tilfinningu að sjá Pigford á fullu í leiknum í gær. Vissulega gaman að sjá hann tapa en hann á ekkert að vera inn á vellinum eftir þessa árás á VVD. Þó svo að það hjálpi ekki okkur beint þá snýst þetta mikið um að vera ekki með fautabrot og komast upp með þau.

    1

Liðið gegn Sheffield

Munu Danir liggja í því?