Ajax 0-1 Liverpool

Liverpool byrjar Meistaradeildina á góðum útisigri á Ajax en eina mark leiksins kom eftir sjálfsmark frá varnarmanni Ajax.

Þetta byrjaði svona pínu óþægilega og þá sérstaklega baka til, Joe Gomez ætlaði að skýla boltanum svo hann færi út af vellinum en í sömu andrá kemur Adrian á fleygiferð og neglir boltanum í Gomez og út af svo Ajax fengu boltann. Skömmu síðar lendir Adrian í smá vandræðum þegar hann dvelur of lengi á boltanum og Ajax setur hann undir pressu en ekkert varð úr. Það var líklega það neikvæðasta sem Adrian gerði í kvöld og tökum við því bara að sjálfsögðu fagnandi. Hann átti nokkrar fínar vörslur í leiknum og var þokkalegur þegar á reyndi, kredit á hann fyrir það.

Frammi var Liverpool í þokkalegum gír en Firmino, Mane og Salah voru mjög líflegir. Það komu í raun ekki svo ég muni einhver dauða, dauðafæri en þeir komust í ákjósanlegar stöðurog vantaði stundum bara eitthvað smá upp á.

Miðjan í fyrrihálfleik var nokkuð bragðdauf fyrir utan Wijnaldum sem var frábær að mínu mati en þeir Curtis Jones og James Milner voru ekki alveg í taktinum.

Á 35. mínútu komst Liverpool yfir þegar annað hvort lélegt skot eða áhugaverð föst sending Sadio Mane fór í Tagliafico, varnarmann Ajax, og þaðan í netið. Verðskuldað mark fyrir Liverpool þó það hafi nú ekkert endilega verið það fallegasta.

Leikurinn var nokkuð opinn og fór fram markana á milli, Fabinho og Gomez fóru ansi mikinn í miðvarðarhlutverkunum í kvöld. Adrian fór út á móti sóknarmanni Ajax sem náði að lyfta honum yfir Adrian og boltinn var á leið í markið þegar Fabinho kom á fleygiferð og bjargaði glæsilega á línu.

Í hálfleik gerði Klopp breytingu og setti Henderson inn á fyrir Curtis Jones og var það mjög góð skipting því fyrirliðinn bætti jafnvægið á miðjunni ansi mikið eftir að hann kom inn.

Ajax byrjaði síðari hálfleikinn á stangarskoti en heilt yfir var leikurinn áfram að spilast mjög hratt og liðin skiptust á að sækja. Frekar snemma í hálfleiknum gerði Klopp þrefalda skiptingu þar sem hann tók alla framlínuna út og setti þá Jota, Minamino og Shaqiri inn í þeirra stað.

Þeir séttu ágætis mark á leikinn, þá sérstaklega Diogo Jota sem var mjög líflegur og átti hann frábæra sendingu á Wijnaldum sem komst í góða stöðu en náði ekki að skora.

Í raun þá sigldi Liverpool þessu bara heim í seinni hálfleik. Ajax reyndu að jafna en fengu engin alvöru tækifæri til þess og Liverpool ógnaði á móti en voru kannski ekki rosa líklegir til að bæta við mörkum.

Fabinho var líklega maður leiksins að mínu mati og þeir Joe Gomez, Andy Robertson og Gini Wijnaldum koma þar á eftir.

Það var mjög mikilvægt að ná í góðan sigur gegn fínu liði á útivelli í kvöld. Mikilvæg stig í baráttunni í riðlinum og gott að fá loksins sigur eftir tvö vonbrigða úrslit í röð.

Um helgina er leikur gegn Sheffield United og má líklega búast við að Keita, Thiago og Matip verði komnir aftur í hópinn fyrir þann leik svo það er ansi öflugt.

26 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Fyrst það neikvæða (alltaf samur við mig)… skoruðum helmingi færri mörk en síðast þegar við lékum í þessum búningum. Svo var Mané með klaka á hnénu. úúúúffff.

    En svo það jákvæða: Frábær baráttusigur. Þeir þurftu svo mikið að halda markinu hreinu á útivelli gegn spútnikkurunum í ajax. Það var afrek.

    Frábært í alla staði og einn kærkomnasti sigur í seinni tíð.

    8
    • Hef séð Mané kæla hné strax eftir leik áður þannig að það þarf ekki endilega að vera eitthvað stórt, allavega þá er ég algerlega sammála þér hann er ekkert smá mikilvægur liðinu okkar í dag Firmino er enn að komast í gírinn og er ég farinn að halda að hann eigi eftir að detta niður í súper sub fljótlega með þessu frammhaldi, Mo tók allt of margar rangar ákvarðanir Gomes og markmaðurinn ekkert að ná sáman frekar enn fyrri daginn vorum oft heppnir að fá ekki á okkur mark og guðminn hvað við þurftum á þessu að halda eftir þetta þunglyndi síðan um helgina.
      Skrítinn miðja hjá okkur í dag á von á því að við sjáum. hana töluvert öðruvísi um helgina líklega Hendó, Thiago og Keita eða Wijnaldum og að lokum í guðs bænum farðu að lagast í öxlinni þið vitið hver.

      YNWA

      4
      • Einmitt. Mané er einn besti sóknarmaður heimsins í dag og Klopparinn okkar sagði að þetta væru engin meiðsli. Stólum á foringjann okkar, það hefur veitt okkur mikla ánægju á undanförnum árum 🙂

        2
  2. Mikilvægt að halda hreinu í þessum leik, Gomez og Fabinho flottir í miðverðinum og Adrian varði það litla sem kom á markið þó að hann hafi verið tæpur á köflum eins og t.d í byrjun þegar hann og Gomez voru ekki alveg að tala saman.
    Hvíldum 9.10 og 11 í 30 mín í þessum leik, og vonandi kemur Thiago inn í næsta leik með Hendo.
    Flott kvöld

    12
    • Sammála. Segjum sem svo að Gomez og Fabinho nái vel saman og haldist meiðslalausir þá yrði það bara frábært. Það er samt skrítið að vera orðið ,,venjulegt” lið aftur með svona vörn því turninn okkar er ekkert eðlilegur leikmaður. Hann er í öðrum flokki.

      2
  3. Besta svar sem við gátum gefið í kvöld eftir hörmungar helgarinnar voru að halda hreinu. Hvað þá að gera það á erfiðum útivell gegn spræku og ungu liði Ajax ennþá betra. Margir spámenn sem spáðu markaleik og að jafnvel við værum að fara leka inn 2-3 mörkum. Heldur betur ekki. Frábær svörun. Adrían komst vel frá. Nokkur góð úthlaup og greip inní þegar við átti. Gomez öruggur og Fab enn að sýna að hann er fjölhæfur og góður í varnar-hlutverkum. Hann á eftir að reynast okkur vel, amk fram í janúar. Gott að eiga þannig leikmann.

    Gátum tekið kanónunar útaf eftir 58 mín og klárað dæmið. Hendo fékk fyrri hálf í hvíld. Engir sénsar teknir með Matip og Thiago. við fengum að sjá Shaqiri!!! Rhys fékk sínar fyrstu mínútur í meistaradeildinni. Fullt jákvætt.

    Ef það ætla einhverjir fýlupúkar að kvarta yfir hinu og þessu þá geta þeir bara verið úti. Þetta gat ekki spilast betur fyrir okkur!

    YNWA

    21
    • Sammála því að það spilaðist vel úr þessu. Lítið annað hægt að taka úr þessum leik nema kannski smá heppni. Engin ástæða til mikillar bjartsýni, því miður.

      • tjaa.. við gætum verið búnir að tryggja okkur efsta sætið í riðlinum eftir 4 umferðir sem gæfi okkur sénsinn á að hvíla eins og t.d. allt byrjunarliðið eða menn sem þola álagið illa eins og Matip, jafnvel fremstu þrjá plús Hendo eða bakverðina okkar. Síðustu tvær umferðinar eru spilaðar í desember og við þekkjum öll þann mánuð. Þar er ekkert verið að grínast með álagið.

        Það er alveg ástæða fyrir að vera bjartsýnn að það gerist svona miðað við að við erum komnir allavegana fjórðung á leið,, ekki satt?

        10
  4. Sælir félagar

    Ég er mjög sáttur við niðurstöðu þessa leiks og fannst allir leggja sig 100% fram. Niðurstaðan var 0 – 1 sigur og mér fannst það vera sigur liðsheildarinnar. Fabinho var líklega besti maður Liverpool í kvöld en Gomes var líka mjög góður sem betur fer. Vonandi fær hann sjálfstraust við þetta og fer að spila eins hann gerði best með VvD. Ég held að skiptingar Klopp hafi verið skynsamlegar og mér fannst Ajax í raun ekki ógna okkur mikið.

    Það er nú þannig

    YNWA

    12
  5. Frábær sigur í kvöld og verðskuldaður. Mikið rosalega var mikilvægt að ná sigri í kvöld og ekki minnst að halda hreinu!

    Vonandi var Mané bara svona rosalega heitt á hægra hnénu. Við bara megum ekki við fleirum á þennan ömurlega meiðslalista okkar.

    Ef Thigao fer að koma og Allison þá gæti maginn í manni farið að snúa í rétta átt.

    8
  6. útisigur gegn Ajax í meistaradeild er einfaldlega frábær úrslit.

    Svona sá ég leikinn.
    Mér fannst við spila skelfilega fyrstu 25 mín í leiknum. Ajax var að ná að spila í gegnum miðjuna okkar aftur og aftur. Við vorum að tapa boltan á klaufalegum stöðum og þegar við fengum góðar stöður sóknarlega þá tókum við alltaf ranga ákvörðun.
    Þetta var alltof opið í fyrirhálfleik og Ajax fengu nokkur mjög góð færi en við fengum líka færi . Það var samt Ajax sem skoraði en það var í eigið mark og við tökum það.

    Síðari hálfleikur var miklu betri. Henderson kom sterkur inn og við unnum miðjusvæðið og Ajax fékk varla færi á meðan að við sköpuðum hættu nokkrum sinnum.
    Það var klókt hjá Klopp að gefa fremstu þremur hvíld enda hraðinn mikil í leiknum og með ferskar fætur þá náðum við að halda pressuni út leikinn og þeir virkuðu dauðþreyttir og sóknarleikurinn þeira fór út í að markvörðurinn hjá þeim tók langar sendingar fram.

    Adrian 6 – Er mjög ótraustur en hann má eiga það að hann átti fínar markvörðslur en var stálheppinn í lokinn.
    Andy 9 – Mér fannst hann frábær í kvöld. Var á fullu upp kanntinn allan leikinn.
    Gomez 8 – Mjög góður leikur og þá sérstaklega síðari hálfleikur þar sem hann steig varla feilspor. Las leikinn vel, vann einvígi og er eins og að hann sé að taka meiri ábyrgð.
    Fabinho 9 – maður leikins hjá okkur. Traustur í vörn og bjargaði okkur nokkrum sinnum í fyrirhálfleik með góðum tæklingum og stórkostlegri björgun á línu.
    Trent 6 – Hann var ágætur en fannst hann ekki eins öflugur varnarlega og hefur oft gert meira sóknarlega.
    Gini 7 – Var í vandræðum í fyrri hálfleik en það var gott að hafa þessi lungu á fullu í síðar hálfleik.
    Milner 6 – virkaði eins og að hann væri bara búinn með sín miðjumans tækifæri í fyrirhálfleik en eins og allt liðið náði sér í strik í síðari.
    Jones 5 – Hann átti bara ekki góðan leik. Hann var ekki áberandi í sóknarleiknum, tapaði boltan alltof auðveldlega og varnarlega var eins og að hann vissi ekki hvar hann átti að vera. Þetta fer í reynslubankan en ekki skrítið að hann var tekinn af velli í hálfleik.
    Salah 7 – ógnandi en fór oft illa með góðar stöður.
    Firmino 6 – Hefur oft spilað betur en í þessum leik.
    Mane 8 – Fannst mér vera bestur af fremstu þremur í þessum leik en var áræðin og mikið í boltanum.

    Henderson 8 – Kom bara inná í hálfleik en miðjan okkar fór í gang og á hann stóran þátt í því.
    Jota 7 – Vá hvað það er gaman að horfa á hann spila. Þetta virka sem góð kaup.
    Minamino 6 – Flottur í pressuni og mikilvægar mín fyrir kappan.
    Shaqiri 6 – Hann átti bara ágætar mín.
    R.Williams – spilaði lítið en ég held að á þessum 2 mín hefur hann farið uppí fjóra skalla bolta og lét aðeins finna fyrir sér.

    Mjög sáttur við þennan sigur og frábært fyrir lið sem hefur verið að fá mörg mörk á sig að halda hreinu og það án Van Dijk og Alisson.

    11
  7. Diogo Jota gefur manni von. Hrikalega gaman að sjá hann spila. Annars bara frábært að ná í sigur og halda hreinu. 3 stig í næsta leik algjört lykilatriði.

    7
  8. Adrian: varði tvisvar nokkuð vel en með smá óheppni hefði hann geta gefið tvö mörk. Tel niður dagana þar til Alisson verður heill.

    Fabinho. Algjört monster í kvöld. Ómetanlegt að hafa þennan leikmann.

    Gomez. Mun líklega taka yfir tímabundið sem leader í vörninni. Virðist geta leyst það hlutverk, haldist hann heill og sýni ögn meiri stöðugleika.

    Andy Robertson. Okkar besti bakvörður í dag. Síógnandi og verst vel.

    Winjaldum. Almenn ánægja með hann í kvöld. Gerði þó fátt fyrir mig í fyrri hálfleik en að minna mig á hversu gott það verður að fá Thiago aftur. Góður í seinni en átti að skora.

    Jones. Bara ekki búast við að þetta sé einhver nýr Gerrard. Efnilegur vissulega en vonbrigði í kvöld.

    Firmino: Fínn í uppspilinu, en því miður er það nánast það eina sem hann býður uppá þessa daga. Aldrei líklegur til að skora.

    Mane: frábær

    Jota: Loksins kemur ógn af bekknum. Undarlegt hvað það tók stjórnendur langan tíma að átta sig á að okkur vantaði svona leikmann.

    5
  9. Mögnuð úrslit í kvöld og allt í allt skemmtilegur leikur þrátt fyrir fá mörk.

    Mér fannst þó áberandi við hopp-skiptingarnar þrjár að Shaq og Jota geta leyst kantana nokkuð vel en Minamino er ekki likeforlike leikmaður fyrir Firmino. Hann er fínn í linkup spili og farinn að sinna pressunni vel en hann kemur með enn minni hættu við markið en Firmino. Það má ekki vanmeta að önnur lið eiga auðveldara með að verjast köntunum okkar ef engin hætta er að koma frá miðsvæðinu frammi. Vona innilega að Firmino fari að detta almennilega í gang og að við fáum að sjá Minamino fá mínútur neðar á vellinum eins og það sem við sáum af honum hjá Salzburg.

    2
  10. Aðalmálið í þessum leik var að ná sigri og missa ekki menn í meiðsli. Annað skiptir miklu minna máli í augnablikinu. Verulega gott að geta hvílt leikmenn eitthvað í stífri leikjatörn.
    Umhugsunarefnin eru þó fjölmörg og sem betur fer sum jákvæð….
    …styrkleiki hópsins?
    …miðverðir, eða skortur á þeim
    …að missa Fabhino af miðjunni
    …meiðslapésarnir Matip og Comez
    …stutt í endurkomu Allisson
    …hverning er þetta með Keita?
    …þrátt fyrir allt þá er liðið í virkilega góðri stöðu í deildinni og ennþá með jafnmörg stig eða fleiri enn þau lið sem eru hvað líklegust til að berjast um titilinn. Everton og AV eru spræk í augnablikinu en halda þau út heilt tímabil?

    4
  11. Góður sigur. Augljóst að það voru margar taktískar breytingar. Vörnin um 4-5m dýpri og minni áhersla á skyndisóknir sem gætu opnað miðjuna ef boltinn tapast. Uppleggið var klárlega að bíða eftir mistökum Ajax og refsa, frekar en spila “kaos” sóknarleik og sópa upp í vörninni.

    Adrian — ennþá mjög ótraustur. Hann kann að verja fyrir ofan meðaltal en ekki að stýra boxinu þannig að það sé sjaldnar sem hann þarf að verja. Mjög slakur að verja bolta sem koma fyrir inní 6m boxið.
    Jota — góðar áfram en vantar mikið í varnarstaðsetningum og oft hálfu skrefi of seinn að byrja pressuna. Á eftir að verða mjög góður eftir að hann venst kerfinu.
    Milner — gott að hafa hann þarna með sína reynslu. En hann vantar snerpu og hraða og sá hluti vallarins sem hann er á er veikari sóknarlega. Sorrý.
    Firmino — þarf eitthvað. Fyrsta snerting í rugli og stefnir of sjaldan á markið. Varnarmenn farnir að minnka áherslu á að verjast markmegin á hann og þess vegna komast oftar í sendingarnar frá honum.
    Hendó — verður flottur með Thiago og þá verður allt í lagi að Fabinho sé í vörninni.
    Sarah/Mane — fáránlega duglegir leikmenn. Í fyrri hálfleik átti Salah 50m hlaup með sóknarmanni til að halda pressu. Mane er eins og leiðinleg fluga sem er ekki hægt að stugga við. Og þeir kunna líka að sækja!!
    Jones — hann er alveg ágætur en hefur ekki mikinn hraða. Getur ekki spilað á miðju með Milner ef á að keyra hraðann upp.Þ
    Minamino — hann er að læra af Bobby og hefur batnað mikið. Stundum of mikið eins og hann sé hikandi að skapa og meira að reyna að gera það sem honum er sagt. Á mikið inni því að annað slagið kemur frá honum óvænt hreyfing, sending.

    3
  12. Klárt mál að innkoma Jota og Minamino höfðu áhrif finnst þeir alltaf vera koma betur og betur inní liðið ekki langt síðan að Jota kom en maður sér gæðin sem þessi leikmaður býr yfir þetta er bara rétt að byrja hjá honum. Veit ekki alveg með Shaqiri en sosem ekki hægt að atast yfir neinu.

    Það var gott að geta hvílt front 3 síðustu 30 mín og fengið 3 stig sýnir gæðin í þessu liði.
    Fabinho sýndi hversu góður hann er einfaldlega frábær leikmaður og maður leiksins.

    3
    • Ekki slæmur bekkur hjá okkur þrátt fyrir sjö meidda. Það verður frabært að fá Allison og Thiago til baka fljótt.

      1
  13. Veit einhver hver staðan er á kostas tsimikas? Skrýtið að hann hafi ekki verið á bekknum í gær ef hann er heill

    2
  14. Það munar 6 árum á Joe Gomez og Van Dijk, fyrir 7 árum var Van Dijk að spila fyrir Gronigen og skipti svo yfir til Celtic. Á meðan er Gomez frá 2017 búinn að spila 79 leiki fyrir Liverpool.
    Ég er ekki að segja að Gomez verði í Van Dijk klassa en strákurinn er ennþá undur að árum og á svo sannarlega eftir að bæta sig.
    Það mun mikið hvíla á honum þetta tímabil en ég hef trú á þessum strák.

    14
    • Hann hefur gæðin. Spurning með leiðtogahæfileikana. Meiðslasagan er líka hræðslufaktor.

      5
  15. Annað mál sem gladdi mann mikið. Liverpool ætlar að leggja til allmikinn pening til að tryggja máltíðir handa fátækum börnum. Barátta sem Rasford hjá MU hefur staðið í og verið til mikils sóma. Enda orðinn minn uppáhalds leikmaður utan Liverpool. Væri ekki nær að þessi ágæti maður spilaði með Liverpool. En sennilega of dýr ef hann væri til sölu.

    4
  16. Á morgun mætir Liverpool, spútnikliði síðasta árs, Sheffield Unided. Viðreignir liðana í fyrra voru ólíkar, í fyrri leiknum mættust stálin stinn og harkan sjö, að endingu var heppnismark Wijnaldum það eina sem skildi á milli liðanna. Þetta var einn af þessum ljótu en nauðsynlegu sigrum þar sem árangurinn var tekin fram yfir fagurgildi fótboltans.
    Síðari leikurinn var í miðri jólatörninni. Hann var af allt öðrum toga. Liverpool blés í herlúðra og hófu stórskotahríð frá upphafsflauti leiksins. Þeir gjörsamlega völtuðu yfir Sheffiieldstrákana eins og þeir væru piparkökur i leið til baksturs. Liðið okkar ástsæla minnti okkur aðdáendur hve léttleikandi þeir geta verið ef sá gállinn er á þeim og gott ef ekki þá voru margir aðhangendur annarra liða farnir að fullyrða á þessum tímapunkti að nú væri komið að því. Liverpool myndi verða Englandsmeistari þetta tímabilið eftir 30 ára bið , sem og var raunin að loknu tímabili.

    Tímabilið hjá Sheffield hefur ekki byrjað vel. Liðið hefur eingöngu náð einu stigi og því sætir það engri furðu að þeir fjárfestu efnilegum Liverpool pilti að nafni Ryan Brewster áður en glugginn lokaði. Það var orðið ljóst að breidd Liverpool var orðin það þykk af hágæðaleikmönnum að Brewster þessi hefði ekki fengið mikið af tækifærum í vetur. Það má líka færa rök fyrir því að Minamino og Firmino passi betur inn í hugmyndir Klopps um hvernig 9ur eiga að vera. Bæði Firmino og Minamino eru báðir eljusamir og snældur ofvirkir eins og kolbilaðir síbreimandi villihögnar á meðan Brewster er nær því að vera þessi hefðbundni markarefur sem lúrir eftir marktækifærum og nýtir þau oft ansi vel. Brewster er virkilega hæfileikaríkur strákur og það kæmi mér ekkert á óvart að hann næði að gera eitthvað svipað fyrir Sheffield og Danny Ings hefur gert fyrir Southamton á þessu tímabili. Hann er klárlega leikmaður sem gæti spilað fyrir stórlið í framtíðinni.

    Sheffield er lið sem þarf að taka alvarlega. Ég er einn af þeim sem finnst hroki að tala um skildusigra í ensku úrvaldsdeildinni. Jinxið er afkvæmi sterillætis og hroka í beinan legg. Sigurhugarfar verður til af virðingu fyrir andstæðingum en ekki af ofmati. Fenginn reynsla af fótbolta er sú að það eru oft mjög litlir hlutir sem skilja á milli hágæða atvinnumans og þeim sem er á kafi í miðjumoði og mér finnst Klopp einmitt gera sér grein fyrir þessu enda talar hann aldrei andstæðinga sína niður og byggir sigurvegara hugarfar með því að halda mönnum á tánum og mæta inn á völlinn með drápshugarfar víkingsins.

    Ég sé liðið fyrir mér einhvern veginn svona.

    Alison
    Trent – Gomez- Fabinho-Robertson
    Winaldum- Henderson- Thiago
    Salah- Firmino-Mane

    Bekkur – Adrian- Jota- Shaqiri- Minamino- Milner -Matip-

    Auðvitað erum við miklu betra lið en Sheffield á blaði en það má segja það sama um Aston Villa sem við töpuðum 7-2 fyrir. Við vorum að missa einn besta miðvörð veraldarinnar í langtíma meiðsli og munar um minna. Það er ekki enn búið að gefa grænt ljós á að Alison fái að spila. Báðir þessir leikmenn eru algjörir lykilleikmenn og eingöngu við það að fá Alison til baka, myndi gæði liðsins stóraukast. bæði með góðum markvörslum og einnig með sendingarmöguleikum miðvarða sem gætu þá sent boltann meira til markvarðarins.

    Ég spái því að liðið okkar sigri Sheffield 3-0

Leikþráður: Ajax-Liverpool

Sheffield mæta á Anfield