Upphitun: Bítlaborgarbardagi í Góðrasonagarði & markmannsmeistaramálefni

Borgarslagurinn í Bítlaborginni verður sérlega áhugaverður þetta árið þrátt fyrir að engir Scouser-áhorfendur verði til taks til að öskra grjóthörðum fúkyrðum af sótthreinsuðum pöllunum. Englandsmeistarar Liverpool FC (Staðfest) munu ferðast í stutt ferðalega með fram Stanley Park til nágranna sinna í Everton sem hafa unnið alla leiki sína í deildinni það sem af er tímabili. Liverpúddlískur-heiður verður ekki það eina sem verður að veði heldur alvöru deildarstaða, stig og gríðarleg montréttindi um ókominn tíma.

Viðtalið

Þegar mikið liggur við þá er þörf á að fá stærstu fallbyssurnar til að sprengja umræðuna í tætlur og hver er betri til þess en einn margfaldasti meistari íslenskrar knattspyrnu. Ofurhetjan Kristján Finnbogason er mættur í markið og í podcastið til að karate-tækla okkar heitelskaða Liverpool, markmannamálin, Goodison og allt þar á milli.

Kóngurinn í markinu í KR – Mynd: Erling Ó. Aðalsteinsson

Skylduhlustun ef skylduhlustun er skylda:

MP3: Þáttur 306

Hinn hádramatíski leikur KR-Everton á Laugardalsvellinum forðum daga endaði 2-3 og augljóslega allt óverjandi skot fyrir meistara Stjána.

Knattspyrnufélag Reykjavíkur leggur undir sig Liverpool-borg og ein magnaðasta þjálfararæða samtímans með tilheyrandi borðleggjandi skilaboðum:

Við þökkum Stjána kærlega fyrir spjallið og vonum að spádómar um góð úrslit rætist.

Öryggið uppmálað í úthlaupi með kunnuglegar stellingar – Mynd: Erling Ó. Aðalsteinsson

Mótherjinn

Það er ansi langt síðan að Everton voru í toppmálum og stóra spurningin í aðdraganda þessa leiks er hvort að þeir fái fossandi blóðnasir við lofthæðina í efsta sæti deildarinnar komandi inn í snemmbúinn borgarslag við sjálfa Englandsmeistarana rauðklæddu. Toppslag um efstu sæti öflugustu deildar í heimi fylgir meiri pressa, ábyrgð og væntingar heldur en því að vera í mesta lagi að sækjast eftir sæti í Evrópudeildinni. En Everton eru að endingu mættir í þann bardaga sem þá hefur dreymt um að vera þátttakendur í og nú gætum við fengið sýnishorn af því hvernig sú útkoma verður.

Þeirra stærsta útspil verður ekki nýjustu innkaup sumarsins, sem vissulega voru af betri endanum, heldur verður það hvernig þeirra allra sterkasti liðsmaður mun standa að sínum liðsuppstillingum. Ancelotti tók niður fyrir sig er hann tók við Everton enda einn af heimsins öflugustu og sigursælustu starfandi þjálfurum og slíkir starfskraftar mæta almennt ekki til starfa á Goodison nema eitthvað skrýtið sé í gangi. En hann hefur stimplað sig inn til starfa fyrir fulla alvöru og liðsmenn Everton eru ríkari fyrir vikið.

Ég mun bera Sstein fyrir mig (lögfræðilegt heiti) og leyfa mér að hafa takmarkaðan áhuga á grjótharðri greiningu á liði Everton fyrir utan að vilja klára það skylduverk að sigra þá. Byrjunarlið Bláliða verður með Gylfa innanborðs að sjálfsögðu:

Liverpool

Englandsmeistarar Liverpool (og ég mun aldrei þreytast á þeirri setningu) byrjuðu tímabilið fullkomlega frábærlega fyrstu þrjá leikina en ónefnt skipbrot í síðasta leik skellti skelfingu í skjálfandi Scouser-hjörtu um allar Koppagrundir. Augljósasti ábyrgðarmaður fyrir því var Adrian frá Andalúsíu enda með augljóst axarskaft andspænis Aston Villa. Hvað skal gjöra í slíkri stöðu?

Þekkjandi Klopp síðustu 5 árin þá mun hann ekki skilja sinn mann eftir á köldum klaka og gefur honum sitt traust í markinu og til viðbótar gæti hann gefið sjóðheitum Jota sénsinn eftir geggjaða viku með Portúgal. Henderson gæti verið kominn í leikform eftir Englands-æfingar og við þurfum okkar fyrirliða inni á vellinum í leik sem þessum. Við höldum Mané og Thiago tilbúnum á bekknum ef á þarf að halda í seinni hálfleik en almennt þá verður leikskýrslan svona:

 

Blaðamannafundur

Birtist um leið og Klopp sleppir orðinu:

Í fréttum er þetta helst

Harry Wilson er á leið í lán niður um deild til Cardiff City.

Herbie Kane hefur verið seldur til Barnsley fyrir 1,25 millur.

Xherdan Shaqiri er smitaður af Covid.

Xherdan Shaqiri er ekki smitaður af Covid.

Tölfræðin

Síðustu þrír leikir hafa endað 0-0 og Everton hafa bara skorað 1 mark síðan 2015 á Goodison gegn LFC. Bæði lið geta gert betur og við heimtum mörk í næsta nágrannaslag:

Spaks manns spádómur

Sömu vikuna er Batman gerir sig sýnilegan í Liverpool-borg þá tjáir Kristján Finnboga sig um Liverpool og pistlahöfundur spyr sjálfan mig þeirrar gagnrýnu spurningar: Hafa Batman og Stjáni nokkurn tímann sést báðir á sama stað á sama tíma? Grunsamlegt!

Stórar spurningar krefjast stórra svara en nokkuð ljóst er að við höfum sérleg góða spá skjalfesta í podcastinu þess efnis að Liverpool vinni góðan 1-3 útisigur með tveimur mörkum frá Firmino og einu til viðbótar frá van Dijk. Richarlison mun malda í móinn með einu bláu marki en spakleg spá fyrir komandi stórslag er markasigur gegn Everton.

YNWA

8 Comments

 1. “Þekkjandi Klopp síðustu 5 árin þá mun hann ekki skilja sinn mann eftir á köldum klaka”
  Er ekki viss um að Karius taki undir þetta

  • Klopp varði Karius ítrekað þrátt fyrir hans mistök í markinu:
   https://www.bbc.com/sport/football/44791411

   Klopp var eiginlega öflugri að verja Karius heldur en Karius að verja skot 🙂

   Svo styrkti hann einfaldlega liðið með heimsklassa markverði. Blessunarlega.

   9
 2. Sælir félagar

  Karíus náði hausnum aldrei í lag eftir klúðrið gegn RM. Að vísu er líklegt að Ramos (það skítseiði) hafi meitt hann (heilahristingur eftir olnbogaskot) en þá er frá leið þá var hausinn áhonum í rugli og hefur líklega aldrei verið í lagi síðan. Hitt er ég viss um að ef hægt er að skrúfa hausinn rétt á hann aftur?!? þá verður hann fyrsta flokks því hæfileikar hans eru margfaldir á við Adrians.

  Hvað leikinn varðar þá var ég búinn að spá 1 – 3 einhvers staðar annars staðar en hefi hug á að breyta þeirri spá. Það er eitthvað sem þó er rakalaust sem segir mér annað. Traust mitt á Klopp og liðinu hans (og okkar) segir mér að Everton muni bíða sannfærandi ósigur. Mín spá er því í þekktum tölum 2 – 5

  Það er nú þannig

  YNWA

  3
 3. Þessi leikur verður svo sem ekkert létt labb um götur Liverpool borgar, syngjandi Penny Lane þegar það á við. En sigurinn verður öruggur, enda Klopp búinn að skrúfa hausinn rétt og vel á mannskapinn eftir vitleisuna í síðasta leik. Spái 1-3.

  YNWA

  2
 4. Við erum að fara að vinna þennan leik örugglega. Það er búið að hæpa þetta Everton lið svo mikið að það er ekki fyndið. Þetta Everton lið verður í 7-9 sæti í vor. Við vinnum 4-1. YNWA

  2
 5. Eftir síðasta leik er það ekki markið sem Adrian gaf sem ég hef áhyggjur af, heldur mun fremur hin sex sem fylgdu á eftir.
  Ef vörnin er búin að gyrða sig all hressilega í brók að þá vinnst þessi leikur.

  2
  • Eftir stendur sú staðreynd að vörnin getur ekki spilað eins og hún er vön, því Adrian getur ekki notað lappirnar. Hann er ekki sweeper-keeper eins og Alisson. Þetta skapar spennu og á endanum óöryggi því Liverpool kerfið gengur út á hraðar sendingar manna á milli. Í mínum augum er þetta stærsti ókosturinn við Adrian. Hann getur alveg varið skot og hefur margoft sýnt það, en hann er ekki útivallarspilari ef svo má komast að orði.

   3
 6. Þessi leikur er í fyrsta sinn í ansi mörg ár þar sem Everton sigur kæmi mér ekkert á óvart. En Klopp er búin að byggja lið sem einhvern vegin þannig að því stressaðari sem maður er fyrir leik, því meiri trú hefur maður á þeim.

  Að því sögðu: Geggjuð upphitun og ég elska gjörsamlega allt við þessa gömlu KR frétt en þó sérstaklega ræðuna hans Gauja Þórðar.

  2

Gullkastið – NBA / Project Big Picture / Meistaradeildin / Everton

Liðsuppstilling í grannaslagnum á Guttagarði