Fréttir af hinum liðunum okkar – gluggadagur

Eftir áföll gærdagsins er ágætt að rifja það upp að við eigum fleiri lið, og þeim gekk öllu betur en aðalliðinu um helgina.

U18 spiluðu við Blackburn á laugardaginn og unnu 3-0 þar sem Layton Stewart skoraði þrennu. Þetta er strákur sem er að fá aukna athygli á síðustu vikum, menn tala um næsta Torres og auðvitað er fullkomlega tímabært að henda svoleiðis merkimiðum á pjakkinn. Reyndar þykir ljóst að hann sé ennþá of ungur og léttur til að eiga nokkuð erindi í aðalliðið á næstunni. En gaman að við skulum eiga efnilega pjakka eins og hann, Paul Glatzel og fleiri í startholunum.

Kvennaliðið okkar er búið að leika tvo leiki síðan síðast: Charlton kom í heimsókn á nýuppgerðan Prenton Park, og okkar konur unnu öruggan 4-0 sigur með tveim mörkum frá Furness, auk marka frá Kirsty Linnett og Jade Bailey sem opnaði þar markareikning sinn fyrir félagið. Hægt er að sjá helstu atriði úr leiknum hér.

Í gær heimsóttu stelpurnar okkar síðan Coventry, og unnu þann leik 2-1 með mörkum frá Melissu Lawley og Amalie Thestrup, og þetta var fyrsta markið sem sú danska skoraði fyrir félagið. Gaman þegar leikmenn eru að opna markareikning sinn hjá félaginu. Becky Jane byrjaði í bakverðinum eftir að hafa verið að glíma við meiðsli, planið var reyndar örugglega að Ashley Hodson myndi spila í hægri bakverði eins og hún hefur gert undanfarna leiki en hún meiddist í upphitun og því þurfti Becky að byrja. Líklega var vitað að hún myndi ekki hafa úthald í 90 mínútur því henni var síðan skipt útaf fyrir hina bráðefnilegu Lucy Parry sem varð þar með yngsti leikmaður Liverpool Women í sögu félagsins, aðeins 16 ára og 150 daga gömul. Missy Bo Kearns kom síðan inná í báðum þessum leikjum, og gaman að sjá tvo uppalda scousera spila fyrir klúbbinn.

Næstu verkefni hjá kvennaliðinu koma á meðan karlarnir sinna landsliðsverkefnum: fyrst mæta okkar konur stallsystrum sínum í Manchester United núna á miðvikudaginn, og þeim leik verður streymt ókeypis á YouTube, Facebook og víðar. Um næstu helgi heimsækja þær svo Leicester, og sá leikur verður sýndur beint á The FA Player.

Staðan í næstefstu deild er því þessi þegar liðin eru búin að leika 3-4 leiki:

Það má teljast líklegt að baráttan komi til með að standa á milli Liverpool, Durham og Sheffield um að komast upp í efstu deild. Sheffield áttu að spila um helgina en það þurfti að fresta þeim leik vegna vatnsveðurs. Þangað eru reyndar komin 3 andlit sem við ættum að kannast við: Fran Kitching, Leandra Little og Courtney Sweetman-Kirk, allar komu þær til Liverpool fyrir tveim árum, Little var leyst frá samningi í fyrra en Fran og Courtney fóru í sumar. Það verða sjálfsagt fagnaðarfundir þegar þessi lið mætast.

Gleymum því svo ekki að leikmannaglugginn í karladeildinni lokar í dag, og ekki útséð með að það verði einhver hreyfing á strákunum okkar. Kæmi ekki á óvart að við fengjum að sjá andlit eins og Wilson, Grujic og Shaqiri fara, en útilokum ekki heldur að einhverjir komi inn. Eitthvað verið að slúðra um markmannakaup og svona. Mögulega hendum við því inn í þessa færslu um leið og fréttir berast.

9 Comments

  • Það væri vissulega óvitlaust að eiga einhvern í bakhöndinni. Munum að ef eitthvað kemur fyrir Adrian á næstu vikum, þá er Kelleher skyndilega orðinn aðalmarkvörður. Menn geta haft ýmsar skoðanir á Adrian, en ég er nokkuð viss um að Kelleher er ekki tilbúinn til að verða númer 1 þó hann sé mjög efnilegur.

   2
 1. Sælir félagar

  Gott að heyra af góðu gengi annara liða LFC. En það er líka ástæða er til að taka fram að gengi aðalliðs LFC er mjög gott. Einn leikur breytir því ekki. Það er von að fólk sé vonsvikið eftir 5 marka tap Englandsmeistarana gegn liði sem var í fallbaráttu í fyrra. En það er gott að taka svona 7 marka högg út í einum leik sem ef til vill hefði getað orðið í mörgum leikjum og þar með tapast fleiri stig. Einhverjir hafa bent á að Klopp hafi ekki brugðist við með því að færa liðið neðar á völlinn o.s.frv. En ég held að undirrót þessa taps sé hugarfarsleg.

  Það er grundvallaratriði að bera virðingu fyrir andstæðingi sínum. Horfast í augu við að ef þú gerir það ekki getur hann sært þig. Enginn er ósæranlegur og ekki heldur meistarlið Liverpool. Hroki, yfirlæti, skortur á virðingu og vissa um að þú sigrir þó þú leggir þig ekki fram er kokkteill sem er ávísun á tap. Mér finnst eftir að hafa horft á leikinn aftur að það sé ástæðan fyrir úrslitum leiksins.

  Salah, Jota og Robbo voru einu mennirnir í byrjunarliði Liverpool sem mér fannst nálgast leikinn með réttu hugarfari. Aðrir voru hrokafullir, latir og sýndu Aston Villa liðinu og leikmönnum þess enga virðingu. TAA er gott dæmi um það. Hann hreinlega nennti ekki að leggja sig fram gegn þessum andstæðingum sem hann leit niður á. Frammistaða hans var jafnvel lakari en frammistaða Gomes. En því miður var hann ekki einn um þetta og svo gafst liðið hreinlega upp sem er líka spurning um hugarfar. Svo er nottla ekkert vit í að vera með Adrian sem markmann númer 2. Hann hefur ekkert í það kallgreyið.

  Það er nú þannig

  YNWA

  6
 2. Shaq virðist ekki vera á förum frá Liverpool í dag. Og miðað við fyrri hálfleik í gær myndi ég gjarnan vilja sjá hann inná í staðinn fyrir Keïta. Ég skil ekkert hvað er í gangi með Keïta, hvort hann þarf skjól af Henderson til að geta leikið óhræddur? Á meðan svissneski kraftakubburinn helst ómeiddur getur hann lagt ýmislegt til málanna og ég tilheyri þeim hópi sem vill sjá hann spila meira.

  5
 3. Ég hefði viljað sjá Liverpool reyna að fá Romero frá United, hann er 3 markvörður þeirra á eftir De Gea og Dean Henderson. Romero er klassa markvörður annað en Adrian, munið þið hvaða Adrian kom áður en hann samdi við Liverpool ?
  Jú hann var að æfa með liði í 7 deildinni á Spáni, eftir að hafa rift samning þar sem hann var varamarkvörður hjá Weat Ham,
  Romero er landsliðsmarkvörður.

  4
 4. Adrian þarf að fara horfa á Rocky…hvað er maðurinn er að pæla.

  Síðan þegar maður sá Ross Barkley, lélegur leikmaður sem er helv góður ef hann fær pláss, þá vissi maður að hann myndi skora.

  Vörnin er búin að vera ömurleg í soldinn tíma. Menn eru að ráða mjög illa við að spila vörnina við miðlínuna.

  En Klopp reddar þessu. Ekki nokkur spurning.

  Af hinum liðunum er ég mjög hrifinn af Tottenham, þeir eru að verða massívir og Arsenal sömuleiðis á uppleið.

  Ætla tippa hér og nú að Liverpool tekur titilinn og Spurs lenda í öðru.

  3
 5. Enska deildinn í 4.umferðum

  1.umferð
  Vá Leeds eru heldur betur mættir
  West Ham liðið er í vandræðum eftir tap gegn Newcastle þeir eiga svakalegt prógram framundan
  Arsenal virka helvíti góðir.
  Tottenham verða í vandræðum í vetur.

  2. umferð
  Liverpool eru miklu betri en Chelsea
  Þetta Man utd lið lítur illa út.

  3.Umferð
  Liverpool eru langbesta liðið í deildinni
  Man utd líta illa út en unnu samt.
  Man City eru ekki alveg í takt.
  West Ham eru nú alveg að standa sig.

  4.Umferð
  Liverpool eru í tómu tjóni varnarlega og deildinn er galopinn
  Getur Tottenham sigrað deildina
  Everton eru með mjög gott lið
  Man utd líta enþá illa út.
  Leeds góðir en Man City ekki komnir í gang.

  Þetta breyttist mjög hratt í þessum bolta og jafnvel á milli vikna. Það verður fróðlegt að sjá fyrirsagnirnar eftir 5.umferð.

  10
  • “Man Utd líta enn illa út, City enn að ströggla, LFC enn besta liðið í Liverpool borg”.
   Hvað með þetta? ?

   2

Leik lokið: Villa 7, Liverpool 2 (Uppfærð)

Shaqiri með Covid-19