Leik lokið: Villa 7, Liverpool 2 (Uppfærð)

Ef ég hefði ekki verið með skýrslu fyrir þennan leik hefði ég staðið upp af sófanum hjá gamla, keyrt heim í rólegheitum, farið í þvotthúsið og svo vaskað upp. Kannski étið einn kanelsnúð, horft á einn þátt og farið svo að sofa. Ég hefði látið símann og internetið vera, sleppt því að fara á Twitter í svona tvo daga og reynt að láta pirringin renna úr mér áður en ég reyndi að mynda mér skoðun á þessum fáranlega knattspyrnuleik. Reyndar hefði ég bara reynt að hugsa sem minnst um enskan fótbolta út vikuna, frekar reynt að pæla í íslensku deildinni eða jafnvel bara bókinni sem ég er að vinna í.

En ég er á skýrslu. Svo ég stóð upp af sófanum hjá gamla, keyrði heim í rólegheitum, náði í þvottinn og át einn kanelsnúð. Nú sit ég með þetta opna wordskjal og spyr mig aftur og aftur: Hvern fjandan á ég að segja um þetta?

Á ég kannski að fara í yfirdrulluna? Tala um að Keita þurfi að finna sig undir eins, því ég hef margoft varið hann í spjalli og skil ekki hvernig hann er ennþá svona týndur leik eftir leik? Tala um að Bobby Firmino hafi verið eins og hauslaus hæna, að Adrian sé einfaldlega ekki nógu góður til að vera varamarkvörðu ef Alisson ætlar að missa af 10-15 leikjum á tímabili. Ætti ég að benda á að þetta lið virðist vera komið yfir sú fínu línu sem skilur milli réttlætanlegs sjálfstrausts og hreins hroka?

Jafnvel drulla sérstaklega harkalega yfir Gomez fyrir að hafa verið lélegur, Adrian fyrir að hafa gefið mark, Fabinho og Wijnaldum fyrir að hafa brugðist, allt liðið fyrir óteljandi feil sendingar, Klopp fyrir að átta sig ekki á að þegar brassinn er ekki markinu einfaldlega getur liðið ekki spilað jafn hátt því að leikskipulagið þarfnast markmanns sem er líka sweeper. Jafnvel bent á að ef lið ætlar að spila hápressu verður hún að vera fullkomin, allt annað er kamikaze fótbolti. Nei, ég skrifa ekki þannig, hef ekki gaman af því.

Hvern fjandan á ég að segja um þetta?

Kannski rekja leikinn frá A-Ö, benda á að staðan í fyrri hálfleik gaf ekki rétta mynd af gangi leiksins, sérstaklega þegar Martinez átti stórfenglegar vörslur og að Salah hefði alltaf átt að fá víti í stöðunni 1-0. Nei þá myndi maður hljóma eins og fáviti að vera að kvarta yfir dómaranum eftir 7-2 tap og það á bara ekki að skipta neinu helvítis máli þó að liðið fái ekki þau víti sem það á að fá, ætti jú að vera vant því. Það má svo gott sem skjóta Salah í teignum og ekkert er dæmt. Nei, held að engin púllari vilji lesa nákvæma lýsingu á þessum leik og þess fyrir utan hjálpa glósurnar mínar úr leiknum ekki mikið við að rifja upp. Orðin „what“ „the“ og „fokk“ koma ansi oft fyrir í þeim.

Hvern fjandan á ég að segja um þetta?

Gæti kannski bent á fáranleika þess að í þremu marka Villa þá fer boltinn af leikmanni Liverpool og í netið. Nei þá væri ég að breiða yfir sú staðreynd að Villa sköpuðu fullt af færum sem þeir nýttu ekki og að Liverpool liðið gerði svolítið sem ég hef ekki séð það gera lengi: Gafst upp. Sem veldur mér miklu meiri áhyggjum en þessar fordæmalausu lokatölur.

Hvern fjandan á ég að segja um þetta?

Kannski fara í ofur Pollýönnu? Tala um að viðbragð liðsins við að fá tvö mörk á sig hafi verið gott, skrifa um hversu fáranlega flott mörk Salah voru og benda á að Klopp hefur unnið sér það inn að við gefum honum tíma. Gæti talað um að Klopp hefur sýnt það áður að þegar liðið fær þunga skelli læra þeir af því, er ég þá sérstaklega að hugsa um þegar liðið tapaði með stuttu millibili fyrir Spurs og City og þegar liðið fór alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og skíttapaði. Tala um að Jota virðist smellpassa við liðið og getur hæglega orðið 20 marka maður á tímabilinu og að varamennirnir gerðu fínt miðað við að vera settir inn á í vonlausri stöðu.

Í slíkri skýrslu myndi ég leggja áherslu á þennan ekki-vítadóm, á heppnismörkin og líka að það er kannski fínt að taka þessa skitu út strax í byrjun tímabils. Myndi kannski líka benda á hversu stórfurðulegt þetta tímabil hefur verið í alla staði, að þrjá byrjunarliðsmenn vantaði (Mane, Hendo, Becker) og að þetta verða ekki síðustu skrýtnu úrslit vetrarins.

Nei, þá væri ég tekin af lífi í kommentunum hérna fyrir að þora ekki að gagnrýna Klopp og liðið. Þess fyrir utan er þessi leikur engin ástæða til bjartsýni. Nú fara leikmenn í grábölvað landsleikjahlé og svo býður (það sem ég vona að ég þurfi aldrei aftur að skrifa næstu tvö orð hlið við hlið) topplið Everton. Það er engin fjárans bjarsýni í mér og ég ætla ekki að ljúga því að svo sé, þó ég sé ekki í neinu þunglyndiskasti.

Hvern fjandan á ég að segja um þetta?

Kannski að nota einfalt stílbragð til að koma öllu sem poppaði upp í hausnum yfir leiknum á blað áður en ég klára að vaska upp og fer að sofa. Ljúka svo á að segja: Þetta var engan vegin boðleg frammistaða hjá einum einasta leikmanni sem byrjaði þennan leik.

Aston Villa spilaði líklega sinn besta leik í mörg ár, en það á ekki að skipta neinu máli, þú færð ekki á þig sjö mörk á móti Aston Villa. Hver einasti leikmaður skuldar sjálfum sér og stuðningsmönnum liðsins að fara í rækilega naflaskoðun og svara þessu ekki seinna en á móti Everton. Oj barasta.

 

37 Comments

 1. Þetta er það allra lélegasta frammistaða sem ég hef séð frá nokkru liði, það var engin barátta allan leikinn og þeir gátu varla sent boltan innan liðsins. Nákvæmlega engin leikmaður í dag sem ætti ekki að skammast sín fyrir sína frammistöðu, það er einna helst Salah sem var sá eini sem var ekki ömurlegur.
  Það er eitt að tapa fótboltaleik en þetta var algjör niðurlæging af verstu gerð.

  7
 2. Og svo er landsleikjahlé! Kannski er það lán í óláni miðað við allt saman.

  4
 3. Óska eftir alvöru skýrslu. Ekki bara einn af þessum dögum kjaftæði og vantaði lykilmenn bull.

  6
 4. Ískalt mat. Áttum ekkert skilið úr þessum leik. Eðlileg úrslit væru 3/4-2 fyrir Villa. Fengu 2-3 sundbolta mörk og eitt gefins frá Adrian og Gomez.

  Við þurfum á nýjum miðvörð að halda og það sást sannarlega að hvað Henderson er mikilvægur að sækja boltann frá vörninni og koma spilinu af stað. Miðjan var algjörlega steingeld og kom ekkert útúr henni.

  Í rock and roll football geta menn stundum átt slæmt show. Þetta er partur af því að spila með gríðarlega háa varnarlínu og leggja allt í sölurnar fyrir sóknina.

  Í þessum tónleikum gleymdi trommarinn kjuðunum. Gítarleikarinn sleit 3 strengi og bassaleikarinn fór í slag við söngvarann.

  Við vorum alveg jafn pirraðir eftir Wolves tapið síðasta season en þetta eru bara jafnmörg töpuð stig þrátt fyrir enn verra tap.

  13
 5. Adrian: Það neikvæðasta við þetta alltsaman er hvernig hann tekur allt traust úr vörninni. Þetta var alltsaman orðið ljóst eftir A. Madrid leikinn. FSG tíma ekki að hafa góðan varamarkmann. Er of seint að bregðast við núna? Jack Butland, Ben Foster?

  Trent. Virtist ekki nenna þessu.

  Gomez: Þetta var þannig leikur að hann var hættur að geta sent boltann á samherja.

  VVD: Virtist ekki nenna þessu til að byrja með. Frammistaða liðsins versnar alltaf um leið og hann fær bandið .

  Fabinho: Mögulega var hann verri en Gomez í miðverðinum.

  Gini: Er hann orðinn svona virkilega hægur? Í raun hefur hann verið skelfilega dapur síðan í febrúar.

  Keita: Vonbrigði

  Jones: Er ekki kominn jafn langt og hann heldur.

  Salah: Sást ekki mikið en samt tvö mörk. Sá eini sem gat gengið útaf með reisn ásamt mögulega Robertson.

  Firmino. Brenndi af tveimur góðum færum í fyrrihálfleik. Er samt að margra mati mikilvægasti leikmaður liðsins. Mynduð þið sakna hans meira en Mane, Alisson, Hendó? Fremsti leikmaður liðsins var tekinn af velli fyrir James Milner þegar okkur vantaði mörk? Það versta við þetta alltsaman var að þetta var ekki svo galinn skipting. Mér fannst Gomez líklegri til að skora.

  3
 6. Hvað er annars hægt að segja?

  Vorum með boltann ca 65-70% af tímanum. Óðum í færum. Þeir komast í dauðafæri í hverri atlögu. Hefðuð getað komist í tveggja stafa tölu.

  Rangstöðutaktík ekki að virka.
  Vörn fer ekki út í skotmenn – fá boltann í sig standandi stjarfir inni í teig. Minnir á Crystanbul vansællar minningar.
  Sóknin ekki að skora þrátt fyrir aragrúa tækifæri – Salah var ljósið í myrkrinu.
  Adrian gerði fólk óstyrkt í vörninni. Liðið byggir upp á spili frá markmanni og þarna klikkaði því bæði uppbygging á sókn og svo auðvitað öryggi í vörn. Agalegt að fá þetta mark á sig. Hefðum betur keypt Rúnar á 2 milljónir!
  Firmino, nían sjálf, tekinn út af þegar okkur vantar .. MÖRK. hvað segir það okkur?
  Keita tekinn út af þegar við þurfum skapandi miðjumann. Hvað segir það okkur?
  En brottför þeirra breytti engu.

  Hvað þurftum við marga leiki á síðustu leiktíð til að safna sjö mörkum?

  2
 7. það voru skoruð 13 mörk á United og Liverpool á sama dag frá Tottenham og A.villa má það bara?

  1
 8. Klopp getur auðvitað ekki afsakað þennan aumingjaskap og skitu með nokkru moti. Aðeins Salah getur gengið upprettur eftir þennan leik. Næst er viðureign við topplið með leikmenn sem eru að nenna þessu.

  4
 9. Versta vörn deildarinnar það sem af er móts. Það er MJÖG mikið sem þarf að lagast.

  Og auðvitað óhemju slakur varamarkmaður sem við höfum – það leiðir auðvitað af sér að lélega vörnin okkar verður enn verri og fær niðurgang sem fer í sögubækurnar.

  Fyrsta skiptið í 57 ár sem liðið fær á sig 7 mörk. Fimmtíu og sjö ár!

  Maður bara skilur ekki meistara Klopp að treysta á Adrian í markinu og maður í raun vorkennir greyinu því hann á engan veginn heima í úrvalsdeildarliði, þrátt fyrir að hann geti átt ágætis markvörslur.

  Joe Gomez er líka leikmaður sem á ekki að eiga fast sæti – og finnst mér hann hafa verið töluvert samsekur í fyrsta markinu enda gjörsamlega á hælunum. Að mínu mati okkar versti maður í kvöld.

  Eftir svona niðurlægingu þá vil maður helst bara fá afsökunarbeiðni og loforð um að nokkuð þessu líkt gerist aldrei aftur, frá Klopp og öllum sem veita viðtal eftir þennan leik.

  Fari þetta bölvað.

  2
 10. Eini maðurinn sem mér fannst vera sirka á pari var Robbo, og jú vissulega skoraði Salah 2 mörk en þar fyrir utan var hann bara í gjörgæslu og náði ekki að sýna neitt, hvort sem hann gat það eða ekki. Jota líflegur en líklega ekki alveg kominn í takt við liðið eftir rúma viku af æfingum. Milner sýndi hvernig á að berjast eftir að hann kom inná.

  Restin bara líklega að spila sinn lélegasta leik fyrir liðið, og þó víðar væri leitað.

  Þetta skrifast á Klopp. Hvernig er hægt að mótívera lið svona illa að það lekur 7 mörkum? Af hverju var ekki sagt á einhverjum tímapunkti (t.d. 5-2) “jæja núna færum við línuna neðar og læsum þessu”.

  Eins gott að menn komi brjálaðir til baka í Everton leiknum eftir landsleikjahlé.

  7
 11. Svo þurfum við að tala um Karius.

  Núna hefði einmitt verið tækifærið til að leyfa þeim klaufabárði að sýna sig og sanna. Gleymum því ekki að hann hélt hreinu lengi vel og kom okkur þrátt fyrir allt í þennan úrslitaleik í Kiev þar sem hann skeit eftirminnilega upp á hnakka. En með tóma velli hefði hann getað náð aftur vopnum sínum og mögulega sýnt eitthvað af því sem leiddi til þess að hann var fenginn inn sem nr. 1 á sínum tíma.

  8
  • vonum að það sé recall klásúla. Vil hann frekar í markið en Andrian gegn Everton.

   4
 12. Gomez er svo mikið wild card, sja vitið sem hann fekk a sig a moti islanndi t.d

  2
 13. Ömurleg frammistaða en Adrian er að fá meira skítkast en hann á skilið. Ótrúlegt en satt þá var hann mögulega einn af þremur bestu leikmönnum liðsins (á eftir Salah og Jota). Það skrifast að mestu á hann fyrsta markið en Gomez á að staðsetja sig betur. Adrian getur lítið gert í öðrum mörkum. Nærvera hans tekur samt traust úr vörninni en það þarf að skrifa það líka á Van Dijk og Gomez.

  Þetta var rugl leikur og að fá okkur þrjú Lampard mörk í einum og sama leiknum er ótrúlegt. Einning skrifast tvö mörk á mistök. Hefði ekki verið ósanngjörn úrslit 2-2 en tek ekki af Villa að þeir voru frábærir.

  4
  • sástu hvernig Adrian bar sig þegar Watkins skaut í þverslánna?

   Mögulega áttu aðrir verri leik, en að segja að hann hafi verið einn af þremur bestu mönnum liðsins er brandari.

   Verst af öllu er samt hvernig fyrsta markið setti leikinn í uppnám. Nærvera Adrians smitaði óöryggi í aðra leikmenn.

   4
   • Já ég sá það atvik. Er ekki að halda því fram að Adrian búi yfir gæðum sem réttlæti veru hans í úrvalsdeildinni, hvað þá hjá Liverpool.
    Það er samt ofureinföldun á þessari frammistöðu að setja skotskífuna á hann. Van Dijk, Gomez, Fabinho, Keita og Firminho áttu allir verri leik en Adrian þrátt fyrir mistökin sín í leiknum.

    1
   • Axrian fínn í leiknum. Gæti nýtt sér meiðsli Becker og sýnt að hann sé markmaður númer 1 hjá okkur.
    Vörnin mikið áhyggjuefni, ekki má gleyma að við fengum á okkur 5 mörk gegn Arsenal í vikunni.

    1
 14. Góð skýrsla. Vondur leikur. Vinnum næst. Það hefur enginn okkar manna gleymt hvernig á að spila fótbolta þó að í dag hafi margir litið út fyrir það.

  Kvörtum mikið núna og vonum að verði langt í næsta tækifæri til þess.

  4
 15. Þetta er besta skýrsla sem getur komið eftir svona leik og tel að það súmmi nokkuð upp hvað við öll flest hugsum eftir þennan hrylling. Vona að ég fái ekki martröð í nótt eftir að hafa horft á þennan leik.

  11
 16. Klók skýrsla. Hittir á það.

  Mér finnst menn missa af því hvað Trent Alexander var hroðalega lélegur. Hann á langmesta sök á öðru markinu, kemur Gomez í meiriháttar vandræði með því að spila enga vörn.
  Ég fullyrði það hefur enginn varnarmaður í sögu Liverpool komist upp með annað eins varnarsvindl eins Trent. Hann spilaði þarna eins og húðlatur vængmaður. Var með senderinn, sleppti honum, steig eitt latt skref fram og hljóp svo ekki aftur á eftir sendernum þegar hann fékk boltann inn fyrir. Glæpsamlegt.

  Benitez hefði tekið þenn dreng og húðstrýkt hann.

  Þessi rangstöðutaktík með enga pressa á boltanum hefur alltaf verið rugl og það vita það í raun allir skýrendur og segja það; lið hefðu átt að refsa Liverpool miklu fyrr fyrir þetta. Kannski fínt að fá þennan skell á móti Villa en ekki City eða United.

  6
 17. Sá ekki leikinn og ætla ekkert að skoða hann frekar bara fara fúll inn í fúlt landsleikjahlé í fúlu Covid 19 helvíti og …… nei nei ekkert væl tökum Everton.

  YNWA.

 18. Ég veit ekki hversu mikið menn hérna nenna að pæla í taktík. Eg sem leikmaður og þjálfari er mögulega með taktík á heilanum og spái mikið í þessu og horfi sennilega allt of mikið á fótbolta og vinn við það að þjálfa nánast alla daga ársins .

  Það er auðvitað ekki hægt að segja að 7-2 úrslit hafi legið í loftinu. Það sem hefur legið í loftinu að mínu mati á þessu tímabili kom í hrúgu í kvöld.

  Það sem ég er að tala um er þessi ótrúlega tilraun meistara Klopp hvað varðar varnarleik . Undir stjórn Klopp er þessi aðferð alveg ný, vissulega höfum við oft verið ofarlega á vellinum en á þessu tímabili hefur varnarlínan verið svo ofarlega að mér hefur verið flökurt. Ekki nóg með það að vera með línuna ofarlega þá er varnarlínan ekki að droppa niður þegar lið leysa pressuna , þess i stað halda þeir línunni áfram og reyna að veiða menn í rangstöðu.

  Þessi tilraun klopp og félaga er vonandi búin eftir þennan leik. Eg bara skil ekki afhverju að breyta því sem er að virka. Það er ekkert að ástæðulausu að Liverpool hefur verið það lið sem er erfiðast að vinna. Varnarleikur frá fremsta manni og alveg niður í markmann hefur verið til fyrirmyndar. Varnarleikur liðsins í dag minnti mann einmitt á veikleika Man.City. Ég neita að trúa því að við viljum fara í sama ruglið og þeir hafa boðið uppá.

  Þú vinnur mót á góðum varnarleik , það þarf að virða það.

  Það er ekkert mál fyrir okkur öll að sparka í leikmenn, segja að þeir hafi ekkert getað. Það er vissulega rétt en ástæðan fyrir þessu tapi verður að skrifast á þá sem leggja upp leikinn.

  Þegar við höldum að við getum leikið okkur að liðum í Ensku úrvalsdeildinni þá erum við í vondum málum. Svona leikaðferð er sjálfsmorð .

  Bayern M spila með sína varnarlínu svona ofarlega og unnu CL. Það er eitthvað sem segir mér að Klopp hafi verið skotinn í þessum stíl. Það sást samt greinilega hjá Bayern að þeir lentu í vandræðum. Meira að segja í leiknum gegn Barcelona sem þeir rústuðu, þar komust Barca í gegn hvað eftir annað en náðu ekki að nýta sér það.

  Þetta er stóra breytingin á Liverpool liðinu. Þessi úrslit hefðu aldrei komið á síðasta tímabili. Við höfum ekki séð svona vitleysu undir stjórn Klopp og vonandi var þetta leikurinn sem við þurftum . Stundum er betra að fá nokkur þung högg í einu í stað þess að fá eitt og eitt reglulega .

  Við fengum á okkur 3 mörk gegn Leeds á Anfield. þar vorum við í rugli eins og í kvöld . Gegn Chelsea náðu þeir að komast 2-3 á bakvið okkur þar sem við vorum úti á þekju. Fabinho bjargaði okkur þar allavega 2 sinnum en það er ekki alltaf hægt að treysta á það að varnamenn vinni stöðuna 1vs1.

  Við vorum mjög góðir gegn Arsenal . Þar vorum við með Alison sem varði frábærlega 2 sinnum . Annað af þeim færum var samt rangstæða en þarna voru viðvörunar bjöllurnar að hringja hátt enn og aftur .

  Eigum við virkilega að treysta á það að markmaðurinn taki alltaf þessa bolta og eigum við að treysta því að varnarmennirnir elti menn uppi og vinni boltann ?

  Þetta gat bara endað illa að mínu mati. Samt bjóst ég ekki við að sjá svona tölur .
  Það er bara ágætis regla að droppa til baka um leið og andstæðingurinn er pressulaus með boltann. Það hefur gengið vel til þessa . Eg bara skil alls ekki þessa pælingu hjá okkar frábæru þjálfurum.

  YNWA.

  29
 19. Það var erfitt að horfa á Aston villa skora eftir 3-4 mins…. Bjóst ekki við að Adrian myndi byrja fyrsta leik eftir A-Madrid skellinn með sambærileg mistök. Það er ekki sama traust sem vörninn hefur með hann fyrir aftan sig og Ali. Enn Engu að síður Sýndi 75 milljón punda varnarmaðurinn hræðilegan leik… Ef við erum að tapa 4-1 í hálfleik Þá ætti það að vera nóg hvatning til loka leiðum loka markinnu og halda hreinu! enn að tapa 3-1 seinni háfleik var hörmung….Gleymum ekki að Aston Villa hefði leikandi getað skorað 5 mörk til viðbótar! Trent – Gomez – VVD áttu erfitt þarna fyrir aftan í dag :/

  Enn Guð minn góður hvað Firminho var skelfilegur í kvöld það var lítið að ganga hjá honum mér er drullusama um stoðsendingu eða 2 skot sem hann átti margt sem hann var að gera var painful að horfa á hann er langt frá sínu besta á þessu tímabili….. og þetta er okkar fremsti maður í liðinnu sem getur varla skorað mark nú til dags.

  Það er sárt að tapa 7-2 það sem gerði þetta ennþá verri kvöldstund Ali meiddur í 6 vikur ég er bara ekkert of bjartsýn að Liverpool sé að fara gera einhverjar rósir á næstunni Everton mun klárlega sækja hratt á hlið ofurhæga Liverpool liðið sem það er orðið.

  2
 20. Sælir félagar

  Ég hætti að horfa eftir 40 mín. En alveg eins og við þökkum Klopp og félögum og svo framvegis þegar vel gengur þá skrifast þessi leikur á KLopp og félaga. Þessi niðurstaða er algerlega og fullkomlega óboðleg og öllum sem að henni komu til skammar. Hverjum einum og einasta manni. Það er svo einfalt að það þarf ekki einu sinni að ræða það. Svo nenni ég ekki að tala meira um þennan leik og frammistöðu einstakra leikmanna. Skítalyktin af þessu angar langar leiðir.

  Það er nú þannig

  5
 21. Eftir svona leikrit fáránleikans er fátt hægt að segja sem ekki hefur komið fram. Ég stend með mínu liði og mínum stjóra. Oft hefur það komið mönnum á jörðina að vera flengdir ærlega í eitt skipti. Þeir sem hafa það reynt vilja ekki lenda í því aftur. Vona að það eigi við að þessi sinni. Þekki vel einn Villa aðdáanda sem hefur mátt eiga erfitt í mörg ár. Ég get samglaðst honum. Þeir áttu þetta skilið – því miður fyrir okkur. YNWA

  2
 22. Mér þætti réttlætanlegt ef allir sem komu að þessum leik myndu gefa launin sín þennan daginn til góðgerðarmála eða leggja þau upp í nýjan miðvörð. Ég sakna Lovren.

  Ég hef núna verið Liverpool aðdáandi í rétt undir 40 ár og hef ALDREI séð eins ömulegan leik á þeim tíma. Í dag sá maður hversu virkilega hrokafullir leikmenn Liverpool eru og það eitt að klæða sig í búninginn sé bara nóg til að slefa í 1-0 sigur gegn miðlungsliði Villa. Við komumst upp með þetta á síðasta tímabili en ekki hægt endalaust að vera heppnir.

  Þessi frammistaða hafði ekkert með það að gera að við vorum ekki með Mané eða Allison leikhæfa. Það að spila hátt upp völlinn var heldur ekki vandamálið. Klopp hefur spilað svona síðan hann byrjaði að þjálfa og það ætti ekki að vera honum spánkt fyrir sjónir að Villa spilaði eins og þeir spiluðu.

  Það eru viðbrögð leikmanna sem fer virkilega með mig og sýnir bara hvernig hroki getur skemmt. Aston Villa yfirspilaði ekkert Liverpool. Það var bara eins og Liverpoolmenn væru allir dáleiddir eða hreinlega undir einhverjum áhrifum. Einföldustu sendingar urðu að flóknum sendingum. Einföld skot á markið urðu hreinlega að óyfirstíganlgum hindrunum. Þetta var svona svipað og pabbinn sem er að leika sér við 5 ára son sinn í garðinum og leyfir honum að skora trekk í trekk.

  Það er ekkert jákvætt við þennan leik og er ég mjög ósáttur við Klopp og hans viðbrögð eftir leikinn. Það má skamma leikmenn fyrir framan myndavélarnar. Það má alveg segja: “Við biðjumst afsökunnar á þessari ófagmannslgu frammistöðu”. Ekki múkk! Klopp var aljörlega gjaldþrota eftir leik og sýnir það bara hversu hrokinn var orðinn mikill. Ég held að liðið hafði gott að þessu.
  Það er eins og hjartað hafi verið rifið úr manni og því kastað framan í andlitið á mér. Svona sárt var/er þetta.

  2
 23. Hallur í #20 hittir naglann algerlega á höfuðið. Annars er bara hægt að horfa á eitt jákvætt við þessi úrslit – þetta léttir pressunni af Óla hjá United og eykur líkurnar á því að hann haldi eitthvað áfram þar.

  4
 24. Algjört þrot, ekkert meira um frammistöðuna að segja. Það allra versta við þetta er samt að við tókum algjörlega fókusinn af skíttapi ManUtd með því að tapa verr…
  Það góða við stöðuna er að Thiago og Mane eru búnir að fá COVID og fá það ekki aftur, held að Mane sé hreinlega næstmikilvægasti maður liðsins á eftir Alisson sem er augljóslega forsenda þess að liðið eigi eitthvað erindi í toppbaráttu, ég var hrifinn af Adrian í byrjun síðasta tímabils en þetta er bara svo slæmt hjá honum núna að maður myndi fagna Karius í markið.. það segir sitt.

  3
 25. ég ætla ekki að skrifa þetta 100% á vörnina, heldur 50/50 á miðju og vörn. Öll mörkin, öll komu af vinstri kantinum, þar sem að Grealish, Barkley og fleiri léku lausum hala fyrir framan Trent og Gomez. Enginn af miðju var með læti að hjóla í menn á því svæði. Eitthvað sem að Hendo eða Fabinho ættu að eiga auðvelt með.

  1
 26. Markmenn eiga að boosta varnarmenn upp, ekki láta þá hríslast til. Þó svo adrian sé þetta lítt góður hefði vörn og miðja að færa sig aftar og verjast meira heldur en að spila hátt, rokk og ról.
  Eftir fyrsta korterið var ljóst hversu erfitt þetta yrði með plan a, plan b? Auðvelt að vera vitur eftir á en var milner 100% fit? Því þá átti hann alltaf að byrja í stað keita, leiðtogi á vellinum. Keita getur spilað ef henderson er inná, annars ekki.
  Annars held ég að allt liðið sé með covid-19.
  Ef ekki, þetta verður óvenjulegt leicester tímabil.

  2
 27. Eftir að hafa andað rólega í smástund er ég meira en lítið sammála sumum hér að ofan, þetta var stórslys sem skrifast á liðið í heild og ekki síst á þá Klopp og félaga, ég er reyndar á því að það hafi legið í loftinu að svona gæti gerst þó ekki ætti ég von á því að það yrði gegn Aston Villa en stórt hrós á þá og þeirra stjóra, þeir vissu frá fyrstu mínutu hvernig ætti að bregðast við okkar liðsuppstillingu. Leti, hroki, vanmat eru orð sem hafa komið upp hér að ofan og það má örugglega til sanns vegar færa að það er búið að stimpla inn í þessa drengi að þeir hreinlega geti ekki tapað fótboltaleikjum en núna er þessi leikur búinn og hann fór eins og hann fór og ég treysti mönnum til að læra af þessu og mæta þríelfdir til leiks eftir landsleikjahlé en eitthvað segir mér að við munum sjá fleiri slæm úrslit í vetur en vonandi hef ég rangt fyrir mér ? Ég vil mikið frekar tapa einum leik með fimm marka mun en fimm leikjum með eins marks mun. Nú er bara að bíta í þessar margfrægu skjaldarrendur og snúa þessu við og það strax í næsta leik sem verður í Guttagarði og það gegn sprækum Evertonmönnum.

  1
 28. Sæl öll

  Hörmuleg úrslit og vonandi þau einu í vetur.

  Þessi háa varnarlína er nú ekkert sem er verið að prófa fyrst nú í vetur eða einhver ljósritun frá Bayern (Ég meira að segja tek svo djúpt í árina að Bayern er að apa eftir Liverpool). En augljósl veikleiki er að þegar andstæðingnum tekst að komast undan fyrstu og annari pressu Liverpool er liðið okkar mjög berskjaldað, fyrir löngum boltum fram og það tókst AV að gera í gær. Nokkrum liðum hefur tekist að gera þetta kanski 2-3 í einhverjum leikjum en engu liði hefur tekist að gera þetta trekk í trekk í einum og sama leiknum eins og gert var í gær.

  Hér er t.d. “linkur” á mynd af Liverpool frá því á síðasta tímabili þar sem þessi háa lína skilaði 19. titlinum..

  https://www.qwant.com/?q=liverpool%20high%20defensive%20line%2019%2F20&t=images&o=1:eb1701737b6f0dbaf3d01a2b53374426&size=all&license=all&freshness=all&color=all&imagetype=all&source=web

  (sorry en ég kann ekki að setja inn myndina og það er lítið mál að finna mikið fleiri myndir sem sýna nákvæmlega það sama). Eins og sést á myndinni er Liverpool 0-1 undir en há varnarlína og pressa skiluðu 3-1 sigri. Í gær var pressan hjá Liverpool bara engan vegin að virka, AV var með plan sem virkaði og öll lið í deildinni eiga eftir að skoða þennan leik ofan í kjölinn.

  Það hins vegar verður að læra af þessu og þetta þjálfarateymi gerir það. Hendo er meiddur og Alcantara er veikur, þetta eru þeir leikmenn sem að eiga að sækja boltann niður í varnarlínu Liverpool og koma boltanum fram á við, Fabinho er einnig mjög góður í að spila boltanum fram á við. Tölfræðin, úr leiknum í gær, sýnir að liðið var að gera eitthvað rétt en það sást í gegnum sjónvarpið að leikmenn voru eitthvað illa stemmdir.

  Það er komin fín breidd í þennan hóp og nú þarf bara að “drilla” hann saman, Jota virðist ekki þurfa margar mínútur í viðbót til að vera alvöru ógn og aðhald fyrir fremstu þrjá.

  Ríkjandi meistarar verða að vera undir það búnir að spila 38 leiki í vetur sem verða eins og gegn Leeds og þessi í gær. Öll lið vilja vinna ríkjandi meistara og eru þ.a.l. alveg á yfirsnúning gegn Liverpool og það þarf ekkert að “mótivera” leikmenn gegn okkur, eins og einhver sagði ” það er erfiðara að halda sér á toppnum en að komast þangað”.

  Ekki einu sinni sjálfur Mohammad Ali vann alla sína bardaga!

  Lærum af þessu, brettum upp ermar og rústum Everton!

 29. Við erum ekki svona lélegir og AV ekki svona góðir, tölum hreint út, Adrian gaf mörk og þegar hann gaf fyrsta markið, þá misstu menn trúna á honum og vörnin riðlaðist, við höfum séð þetta áður.
  Horfum á björtu hliðarnar, þessi leikur varð sennilega til þess að OGS verður áfram hjá mu,,,,segi svona ? og Við komun dýrvitlausir á Goodison
  YNWA áfram LIVERPOOL alltaf að eilífu.

  1

Byrjunarliðið gegn Villa klárt: Engin Alisson, Jota byrjar

Fréttir af hinum liðunum okkar – gluggadagur