Heimsókn til Lincolnshire

Þrátt fyrir að vitað hafi verið að þetta tímabil yrði bæði furðulegt og þétt setið, þá var samt ákveðið að bikarkeppnirnar fengju að halda sér þetta árið. Fyrsti leikur okkar manna í deildarbikarnum verður á fimmtudagskvöldið þegar liðið ferðast í austurátt og mætir á Sincil Bank í Lincoln borg í samnefndri sýslu.

Eða það er a.m.k. staðan eins og hún er núna. Í kvöld átti að fara fram leikur Tottenham og Leyton Orient í sömu keppni, en þar sem liðin í neðri deildunum eru ekki sett í COVID próf eins og úrvalsdeildarliðin ákváðu Spursarar að splæsa í próf á andstæðinga sína. Og viti menn, það voru víst eitthvað yfir 10 úr hópnum sem voru smitaðir. Reyndar virðist það hafa verið vitað fyrir síðasta leik Leyton Orient, því einhverjir leikmenn voru látnir spila með einkenni gegn Mansfield. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það sé mikil ánægja hjá Mansfield. Sagan segir að planið sé að Liverpool útvegi líka próf fyrir leikmenn Lincoln City, en greinarhöfundi er ekki kunnugt um að niðurstöður úr slíkum prófum liggi fyrir. Nú og svo hafa borist fréttir af smitum víðar, þá sérstaklega hjá West Ham þar sem David Moyes og tveir leikmenn reyndust smitaðir. Allavega endaði það þannig að Spurs var dæmdur sigur þar sem Leyton náðu ekki að smala í ósýkt lið. Við vonum nú að það séu engin smit hjá okkar andstæðingum og að leikurinn fari fram eins og áætlað er.

Víkur þá sögunni að fyrri viðureignum þessara liða. Samkvæmt internetinu hafa liðin att kappi 23svar áður, Liverpool haft betur í 13 leikjum, en 5 hafa endað með jafntefli og 5 með sigri Lincoln. Það eru ekki nema rétt tæp 60 ár síðan að liðin léku síðast, eða í febrúar 1961, og þá unnu okkar menn nokkuð sannfærandi 2-0 sigur. Mér skilst að bæði lið verði að mestu með breyttan mannskap síðan þá.

Lincoln City er sem stendur í “League One”, sem myndi teljast vera 3ja efsta deildin. Í þeirri deild sjáum við nokkur nöfn sem ættu að hringja bjöllum, nöfn eins og Hull, Sunderland, Wigan, AFC Wimbledon, MK Dons og fleiri. Það voru einmitt MK Dons sem voru síðustu mótherjar Lincoln City, en sá leikur fór 2-0 fyrir Lincoln. Á síðasta ári urðu Lincoln í 16. sæti af 24 liðum (þó aðeins 23 hefðu klárað leiktíðina), voru semsagt nokkuð fjarri því að gera atlögu að næstefstu deild. Sæti í næstefstu deild er líka besti árangur liðsins, og meira að segja náði liðið 5. sæti í þeirri deild, en það eru reyndar meira en 100 ár síðan því það gerðist veturinn 1901-1902. Þá hefur liðið lengst komist í fjórðu umferð deildarbikarkeppninnar, en það gerðist leiktíðina 1967-1968. Liðið hefur heldur ekki riðið neitt afgerandi feitum hesti frá keppninni síðustu ár, en í ár er liðið reyndar búið að vinna fyrstu tvo andstæðinga sína í keppninni, og mæta sjálfsagt dýrvitlausir til leiks með það að markmiði að jafna sinn besta árangur í keppninni hið minnsta.

Hvað svo með okkar menn? Jú, Klopp hefur á síðustu árum sýnt að þessi keppni er talsvert aftarlega á merinni yfir þær keppnir sem hann leggur áherslu á. En á hinn bóginn er þetta vissulega einn af þeim bikurum sem Klopp á enn eftir að vinna með Liverpool, svo hver veit nema hann leggi skyndilega óvænta áherslu á þennan leik? Við skulum nú ekki gera okkur of miklar væntingar um slíkt. Lang líklegast er að hann gefi þeim leikmönnum sem ekki eiga fast sæti í byrjunarliðinu séns á fimmtudaginn. Það er vitað að Alex Oxlade-Chamberlain er meiddur og verður enn um sinn, og eins er Joel Matip frá í einhverjar vikur. Aðrir ættu að vera leikfærir, þó svo að bæði Joe Gomez og Billy Koumetio hafi verið að glíma við smávægilegt hnjask um helgina.

U21 liðið var að leika í kvöld gegn Wigan (og steinlá), þar voru Kelleher og Woodburn í byrjunarliði og við getum því nokkurnveginn slegið því föstu að þeir komi ekki við sögu á fimmtudaginn. Eins ætla ég að gerast svo djarfur að spá því að enginn þeirra sem var í byrjunarliðinu á sunnudaginn byrji á fimmtudaginn, þó við gætum alveg séð eitthvað af bekkjarandlitunum í byrjunarliði, og eins er ekkert útilokað að þeir sem byrjuðu á sunnudaginn fái einhverjir það hlutverk að vera á bekknum og geta hleypt leiknum upp í síðari hálfleik ef þörf krefur.

Prófum a.m.k. að stilla þessu svona upp:

Adrian

Williams – van den Berg – Koumetio – Tsimikas

Jones – Milner

Elliott – Minamino – Jota
Brewster

Hér er prófað að henda í 4-2-3-1 uppstillingu, en auðvitað er líka vel mögulegt að það verði farið í 4-3-3 með Grujic á miðjunni. Eins kæmi ekki á óvart þó Origi fái tækifærið, mögulega Shaqiri ef hann þykir leikfær en er hann ekki meira og minna alltaf eitthvað að glíma við hnjask? Svo gætum við séð Karius á bekknum, ásamt Nat Phillips, og svo mögulega eitthvað af fyrstu 11. Og hver veit, kannski fær Harry Wilson að byrja eða vera á bekk, a.m.k. er ekki búið að selja hann ennþá.

Annars er mín ágiskun líklega jafn mikið út í loftið eins og annarra. Það hverjir byrja getur ráðist af fjölmörgum atriðum: hversu duglegur Michael Edwards er við samningaborðið fram að leik, hvernig mönnum gengur á æfingasvæðinu á morgun og svo á leikdag, hvort mönnum takist að halda sér veirufríum o.s.frv. Þið megið endilega henda ykkar spá varðandi byrjunarliðið í athugasemdir hér undir.

Og spá um úrslit? Við skulum a.m.k. vona að þetta gangi betur en leikurinn gegn Northampton fyrir 10 árum síðan – vill einhver rifja þann leik upp? Nei ég hélt ekki. Ég hef fulla trú á því að liðið sem gengur inn á völlinn á fimmtudaginn verði talsvert ríkara af gæðum heldur en liðið sem spilaði forðum daga. Spáum 0-2 sigri, með mörkum frá Elliott og Jota, hvort í sínum hálfleiknum. Elliott mun svo í framhaldinu fara í klippingu eins og hann er búinn að lofa að hann geri eftir fyrsta opinbera markið með Liverpool.

KOMA SVO!!!

5 Comments

 1. Flottur pistill, er spenntastur fyrir að sjá Jota og Kometio sem gerði lukku á undirbúningstímabilinu.
  Verðum að vinna þetta svo aukaleikarar, menn að koma úr meiðslm og framv., fái sem flesta leiki.

  3
 2. Sælir félagar

  Ég ætla henda í þessa uppstillingu:

  Karius

  Williams – van den Berg – Koumetio – Tsimikas

  Jones Milner Grujic

  Elliott – Minamino – Jota

  Ég held nefnilega að Klopp sé að pæla í Kariusi fram fyrir Adrian þar sem Adrian sló okkur út úr Meistaradeildinni og Klopp hefur áhyggjur af gæðum hans. Klopp setti traust sitt á Karius á sínum tíma og ég held að hann sé ekki búinn að afskrifa hann. Karius er töluvert hæfileikaríkari en Adrian og ef hægt er að skrúfa hausinn rétt á hann verður hann betri og það töluvert betri en Adria (hvað segir Maggi um það). Brewster er farinn nánast og því ekki ástæða til að spila honum nema til að herða á sölunni ef það þykir þurfa. Grujic þarf að selja og þarna getur hann glansað og aukið söluverð og söluhæfni. Aðrir eru þarna til að bæta sig (nema Millner sem er alltaf í toppformi) því þeir eru ekkert á förum. En hvað veit ég sosum?

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
 3. Góð upphitun

  Fáránlegt hvað þetta vara vara lið okkar er spennandi á pappír. Man vel þá daga þegar maður píndi sig til að horfa á bikarkeppnina.

  Kannski ekki vinsælt en mikið er ég glaður ef Origi er ekki fyrsti maður inn ef sóknarmaður meiðist. Bind vonir við þessa þrjá sem þið teljið líklega frammi í þessum leik.

  3
 4. “Mér skilst að bæði lið verði að mestu með breyttan mannskap síðan þá.”

  Er ekki James Millner sá eini sem kom við sögu síðast þegar þessi lið áttust við? 🙂

  8

Gullkastið – Gleðivísitalan í hæstu hæðum

Liðið gegn Lincoln – Van Dijk byrjar