Liverpool 2 – Chelsea 0 – Skýrsla (Uppfærð)

Leikmenn Liverpool fóru í heimsókn til vestur Lundúna fyrr í dag og héldu brosandi til baka með þrjú stig og hreint lak í pokanum. Sadio Mané er nú komin í nítjánda sæti yfir markahæstu leikmenn Liverpool frá upphafi, með fleiri mörk en Fernando Torres og Luis Suarez. Já og Thiago mátaði rauðu treyjuna í seinni hálfleik og leið bara vel, með fleiri sendingar í einum hálfleik en nokkur leikmaður í einum hálfleik síðan menn fóru að halda utan um sú tölfræði. Ansi góður sunnudagur svo ekki sé meira sagt.

Fyrri hálfleikur.

Chelsea stilltu upp liðinu sínu með gífurlega þétta miðju og ætluðu greinilega að leyfa okkar mönnum að vera með boltann. Þeir virkuðu síðan stórhættulegir í skyndisóknum. Það tók mann smá stund að venjast að sjá Fabinho í hafsentinum. Werner virtist alveg átta sig á hvorn varnarmanninn var betra að sækja og heimamenn reyndu sífellt að skapa stöður þar sem Timo var einn á móti brassanum. Þrátt fyrir að leikplan Chelsea gengi ágætlega þá náðu þeir ekki skoti á markið í fyrri hálfleik.

Það var þó ekki þannig að okkar menn væru að skapa neitt mikið meira hinum megin. Eina dauðafæri fyrri hálfleiks kom vegna (hörmulegra) mistaka markmanns Chelsea þegar hann ákvað að fara í kapp við Mo Salah um boltann á hægri væng Liverpool. Salah glotti, náði boltanum og gaf afar fasta sendingu á Bobby Firmino. Christiansen náði að stinga sér fram fyrir brasilímanninn og bjarg í horn.

Það var svo á síðustu mínútu hálfleiksins sem dró til tíðinda. Alisson greip fyrirgjöf Chelsea manna og rúllaði boltanum til Jordan Henderson við vítateigslínu Liverpool, sem þrumaði boltanum inn á miðjan valarhelming Chelsea. Þar mættust Sadio Mané, Kepa og Christiansen. Daninn var langt á eftir senegalanum og brá á það ráð að rugby tækla okkar mann. Ég er reyndar ekki viss um að það sé rétt orð, því ég er nokkuð viss um að í rugby sé bannað að keyra beint í bakið á andstæðingum. Gjörsamlega glórulaus tækling. Í fyrstu vildi dómarinn bara gefa gula spjaldið en eftir að hafa skoðað brotið var honum ljóst að hann hafði rangt fyrir sér og gaf rétta litinn. Ljóst að Chelsea yrðu einum færri í heilan hálfleik.

Seinni hálfleikur

Klopp gerði skiptingu í hálfleik og koma nýja manninum Thiago inn á fyrir Henderson, sem hafði víst meiðst eitthvað smávægilega. Chelsea fóru í leikkerfið 6-3-0 og ljóst að þeirra eina markmið var að reyna að halda hreinu. Það gekk ekki.

Á 52. mínútu lék sóknarþríeykið okkar sig í gegnum vörn Chelsea eins og hún væri ekki þarna. Salah og Bobby tóku frábæran þríhyrning í teig Chelsea sem kom Bobby aftur fyrir varnarmenn heimaliðsins og brassinn sendi fyrirgjöf á Mané sem tók sturlaðan skalla og boltinn söng í netinu! 1-0 fyrir góðu köllunum.

Skömmu seinna sýndi Kepa afhverju hann er hataðasti maður Chelsea þessa stundina, allavega meðal sinna eigin stuðningsmanna. Hann fékk sendingu til baka og virtist missa hausinn þegar hann sá Mané koma hlaupandi í átt að sér. Hann gaf eins hratt og hann gat… beint á Mané sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði sitt 83. mark í rauða búningnum. 2-0 og þetta virtist bara ætla að verða öruggt. Það var á um það bil þessum tímapunkti sem pabbi ákvað að telja sendingar Liverpool í einni sókn. Hann hætti þegar okkar menn voru búnir að senda á milli fimmtíu sinnum án þess að Chelsea kæmi við boltann.

Heimamenn voru þó ekki alveg að baki brotnir og komust í fágæta skyndisókn þegar korter var eftir. Thiago kom hlaupandi til baka og stuggaði aðeins við Werner sem lét sig falla. Ætla ekki að segja þetta hafi verið dýfa, en ef Salah hefði gert nákvæmlega þetta hefði þetta verið kölluð dýfa. Jorginho fór á punktinn. Maður sem hefur ekki brennt af vítaspyrnu síðan 2017… þangað til hann skaut á Alisson Becker sem varði víti í fyrsta sinn í Liverpool búning. 

Werner náði svo einu skoti á markið undir lokin sem okkar maður varði líka. Þetta er það sem heimsklassa markmenn gera, geta stundum slappað af í heilan leik og svo verið tilbúnir í lokin að verja eitt þrumuskot.

Milner kom inn á um miðjan seinni hálfleik og þétti miðjuna hjá okkur, Minamino fékk síðan nokkrar mínútur í lokin. Hvorugur breytti svo sem leiknum, enda lítið sem þurfti að bæta.

Maður leiksins. 

Erfitt að líta fram hjá Sadio Mané eftir þennan leik. Tvö mörk og þess fyrir utan stórhættulegur, lýst mjög vel á að hafa hann og Salah í því formi sem þeir hafa sýnt í fyrstu tveim leikjunum.

Að lokum.

Orðið sem kemur upp í hug eftir þessa frammistöðu er fagmennska. Okkar voru betri í fyrri hálfleik en náðu ekki að komast yfir. Í seinni hálfleik byrjuðu þeir af miklum krafti og náðu í tvö mörk, eftir það settu þeir bara í rólegan gír og spöruðu orkuna fyrir komandi átök.

Thiago minnkaði ekkert spennuna okkar með þessari frammistöðu. Mér fannst blaðamaður BBC komast ágætlega að orði eftir leik: Thiago er eins og taktmælir á píanói, heldur öllu gangandi eins og það á að vera. Eftir að hafa séð Fabinho í hafsentinum í dag og hvernig miðjan okkar stóð sig án hans er ég ekkert viss um Klopp sjái þörfina á nýjum fjórða hafsent í stað Lovren.

En það sem skiptir máli er að liðið er komið með sex stig eftir tvo erfiða leiki og náðu að koma í veg fyrir að öflug sóknarlína Chelsea skoraði gegn þeim. Næst á dagskrá er deildarbikar leikur gegn Lincoln City, verður afar forvitnilegt að sjá hvaða byrjunarlið fær þann leik.

Hver er ykkar maður leiksins? Og hversu gaman er að halda með þessu liði!?!

28 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    1. Chelsea er í botnlausu rugli – í orðsins fyllstu merkingu. Þeir spreða í sókn og miðju en eru með þennan labbakút í markinu og sá danski er ekki upp á marga fiska.
    2. Mané er maðurinn – afburðasnillingur. Ég elska það þegar hann sýnir frammistöðu af þessum toga. Fiskar rautt – skorar tvö og var allt í öllu!
    3. Wernerinn heillaði mig ekki. Sýnist hann vera að ganga í gegnum Lazar Marcovic-syndrómið – of hátt verð og of há laun = of miklar væntingar og það eru ekki allir sem standa undir því. Hvað prísinn varðar Spyrjið bara M. Edwards.
    4. Fabinho að sama skapi geggjaður. Wernerinn átti aldrei breik.
    5. Af öðrum: Salah mergjaður, Firmino batnaði mjög í síðari hálfleik, Alison reddar málunum, flott fyrir Thiago að byrja svona leik (þetta var aldrei víti).

    Ljómandi alveg.

    22
    • Ef Werner er ekki heilla hvað er þá kai Havertz að gera fyrir þig ? það er ekkert að frétta þar! En okkar nýi Alcantara vá hvað hann heillaði varla lentur og það er eins og hann hafi bara alltaf spilað með þessum snillingum.

      YNWA.

      1
      • Chelsea birtist mér sem höfuðlaus her. Enginn stóð upp og axlaði ábyrgð. Stjörnuþjálfarinn þeirra sem spreðaði 200 mills í glugganum virðist ekki vera starfinu vaxinn!

        Hélt þeir yrðu erfiðari viðfangs en þeir hófu leika með því að leggjast í vörn og stóla á skyndisóknir. Í þeim efnum heilluðu hvorki Wernirinn né Havertzinn.

  2. Geggjað,
    75 – Half-time substitute Thiago completed more passes (75) than any Chelsea player managed in the entire match. Since full passing data is available for the Premier League (2003-04), his 75 successful passes are the most by a player who played a maximum of 45 minutes. Control.

    24
  3. Ég ætla persónulega að fara varlega í að meta frammistöðu Thiago út frá þessum eina hálfleik. Liðið var jú að spila á móti vængbrotnu 10 manna Chelsea liði, og það bara skekkir myndina allverulega. Ekki það að ég er handviss um að Thiago er að bæta lið Liverpool og á eftir að spila stóra rullu í vetur, og ég hlakka til að sjá hann á móti Arsenal að rúmri viku liðinni (á ekki von að sjá hann á móti Lincoln).

    Á annars erfitt með að ákveða hvort Mané eða Fabinho eigi skilið MOTM tilnefninguna, voru báðir að standa sig með þvílíkri prýði. Líka gaman að sjá Alisson aftur kominn í gírinn, hafði smá áhyggjur af honum eftir leikinn á móti Leeds.

    Ef maður á að nefna eitthvað neikvætt, þá var engin brjáluð sköpun í gangi í fyrri hálfleik, en það er vissulega oft þannig gegn Chelsea á Brúnni.

    8
  4. Mané fær einfaldlega 10 hjá mér með yfirburði og át Chelsea í seinni hálfleik. Skoraði þessi mörk og var alltaf líklegur til að bæta við..annars sáttur við alla..gaman að sjá Thiago koma inná flottar sendingar ekki svo flott að gefa víti en hverjum er ekki shit sama núna.

    Þetta var í raun með auðveldari leikjum sem Liverpool hefur spilað lengi ekki bjóst maður við því á móti Chelsea þeir hafa verið kokhraustir og aldeilis blásið í herlúðra á samskiptamiðlum og öðru og var gott að troða sokk upp í þá.

    6
  5. Flottur leikur hjá okkar strákum í dag. Þetta virtist allavega líkjast fótbolta annað en þetta skrítna fyrirbæri sem var 4-3 sigurinn gegn Leeds.

    Mane maður leiksins
    Fabinho frábær í miðverðinum.
    Andy mjög góður í bakverðinum.
    Alisson hafði lítið að gera en varði samt víti og telst það vera gott dagsverk.
    Thiago lítur vel út í Liverpool búning 🙂
    Búnir með Chelsea úti og fórum með 3 stig þaðan og komnir með 6 stiga forskot á Man City en þeir eru ekki byrjaðir að spila en maður veit ef maður myndi snúa dæminu við(þeir 6 stigum fyrir ofan) þá væri það pínu óþægilegt.

    YNWA – Vonandi er Henderson ekki mikið meiddur.

    13
  6. Ég segi bara vá – Thiago lofar góðu og hann virðist vera þyngdar sinnar virði í gulli og strax farinn að sýna af hverju hann hefur unnið 28 titla á sínum ferli.

    Soft víti og þetta var alltaf rautt,en þrír punktar í húsi og breiddin í hópnum víkkaði töluvert á 48 klukkutímum.

    Arsenal næst og ég geri kröfu á 3 stig þar en Arsenal er að bæta sig og gott væri að koma þeim aftur fyrir okkur.

    5
  7. Stórkostlegur sigur í dag! Fótboltalífið er fullkomið hjá okkur.

    4
  8. Fabinho bara flottur og fín innkoma hinna. Maður leiksins: Mane… Náttúrulega.

    4
  9. Við höfum ekki séð eins góða frammistöðu frá okkar mönnum síðan í febrúar. Auðvitað völtuðum við yfir þá í seinni hálfleik, en við vorum líka miklu betri í fyrri hálfleik á meðan jafnt var í liðum.

    – Fabinho er ekkert verri kostur í miðverðinum en Gomez eða Matip.
    – Thiago virðist hafa aðlagast við það eitt að klæða sig í treyjuna.
    – Kanntarnir tengdu vel við bakverðina.
    – Alisson varði víti.
    – VAR er mikilvægt, sanngjörn niðurstaða að senda Christensen af velli.

    9
  10. Frank sagði í viðtali við BBC að leikurinn hefði farið 1-1 ef ekki hefði verið fyrir mistök Kepa og vítavörslu Alisson.
    Ég er mest hissa á að hann hafi ekki bætt við að ef Mane hefði skallað í stöngina og ef Alisson hefði ekki líka varið vel síðla leiks þá hefði leikurinn farið 2-0 í stað 0-2.

    Þ.a Frank var bara frekar sáttur sýndist mér.

    12
    • Þetta var svo slæmt viðtal, að segja án mistaka og vítaspyrnukluðurs þá ef og hefði þetta farið 1-1. Svo Chelski eru þeir einu sem gera mistök…er ekki að gefa víti lika mistök….þannig að fréttamaður ef og hefði átt að gagnrýna þetta svar og ekki.leyfa honum að segja svona vitleysu.

      5
  11. Frábær sigur. Chelsea leggja upp með tvær mjög þéttar línur til að drepa niður sóknarleik Liverpool. Greinilega ekki stemming fyrir að fá aftur á sig fimm mörk eins og þegar þeir komu á Anfield. Lampard henti ekki nema fimm miðjumönnum í byrjunarliðið. Chelsea var ekki svona hrætt við mótherjann fyrir leiki á Stamford Bridge. Alltaf gott að sækja þrjú stig þangað.

    Skildi ekki alveg þessar rosalegu áhyggjur sem margir höfðu af Fabinho gegn Werner fyrir leik enda voru þær fullkomlega óþarfar. Ástæðan fyrir því að maður vill ekki sjá hann í vörninni er vegna þess að hann er alltof góður til að taka hann af miðjunni, ekki vegna þess að hann er áhyggjuefni varnarlega. Að líkja Werner við Markovic eftir þennan leik er fáránlegt, hann er gríðarlega spennandi leikmaður og verður pottþétt góður í þessu Chelsea liði. Mætti bara sterkri vörn í dag.

    Hrikalega hressandi líka að fá Thiago bara beint í þetta og guð minn góður hvað þetta er spennandi leikmaður. Yfirburðir Liverpool í byrjun seinni hálfleiks voru svakalegir og skiluðu tveimur góðum mörkum. Það lið sem er einum fleiri er ekkert sjálfgefið með svona mikla yfirburði. Liverpool slakaði líka aðeins og mikið á í restina en sigurinn var ekkert í hættu.

    Lampard kom kjánalega frá leiknum á Anfield og jafnvel ennþá verr frá þessum leik. Það er engu að síður frábært að Stamford Bridge er búið á þessu tímabili.

    Mané og Fabinho menn leiksins, guð hjálpi svo hinum liðunum þegar Thiago verður búinn að æfa eitthvað með Liverpool.

    15
  12. Erfitt að gera upp á milli Mané og Fabinho í þessum leik. Fab að spila út úr hefðbundinni stöðu en lék eins og hann hefði aldrei verið annars staðar en þarna. Þetta lið er uppfullt af fótboltasnillingum.

    5
    • Kemur því miður ekki á óvart. Manni finnast líkurnar hafa aukist til muna á því að nú verði keyptur miðvörður, og voru þær nú ansi háar fyrir.

      4
  13. Spurningin er með mann leiksins….það þarf að skora til að vinna og kom Mane sterkur inn í seinni hálfleik og með réttu er menn dæmdir fyrir það. En í mínum huga vel ég Fabinho…maðurinn snýtti sókn Chelski í 90 mín, ekki bara í seinni hálfleik. Hann var svo afgerandi stoppari í dag að fyrir mig er hann ástæðan við fengum engin mörk á okkur…fyrir utan vörslu Ali.

    5
    • Svo sammála þèr það var aðdáunarvert að sjá hvað hann gerði hlutina vel í dag og má hann eiga marga svona leiki um ókomna tíð! Chelsea Vissi oft ekki hvort þeir veru að koma eða fara þegar hann tætti þá í sig.

      YNWA.

      1
  14. Sælir félagar

    Ég spáði 1 – 3 fyrir þennan leik og hitti á sigur með tveimur mörkum. Ástæðan fyrir þessari spá minni var sú að olíuliðið á eftir að spila sig saman og þeir verða erfiðari eftir það þó leikaðferð þeirra sé anzi einföld.. Það er stjörnuval í sókn og miðju en vörnin og markmaður jafn lélegt og í fyrra. Leikaðferðin að kýla fram á Werner er svo fátækleg að það á að vera einfalt að verjast því. Enda tók Fabinho hann og stakk honum í vasann og ekkert að gerast fram á við hjá olíuliðinu eftir það.

    Maður leiksins er Mané en ég var í vandræðum eins og fleiri með hann og Fabinho. Þrátt fyrir að þeir fái sömu einkunn hjá mér (9,5) þá fær Mané tilnefninguna vegna þessara geggjuðu marka sem hann skoraði og annað markið var hans án stuðnings nokkurs nema Kepa. Það var svo vel gert að það hefði dugað til tilnefningarinnar því leikurinn hefði getað endað 1-2 ef ekki hefði verið maður að nafni Alisson í markinu.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  15. Leikurinn hefði aldrei getað lokið 2-1 eins og þú segir. Liverpool yfirburðir of milklir á öllum sviðum.

    1
  16. Er ekki allveg að skilja þá sem halda og vona að við séum að fara kaupa miðvörð. Erum með einhverja 5-6 sem geta leyst þá stöðu og hver myndi þora í samkeppni við þá. Slíkur myndi kosta 70 plús og varla eru þeir aurar til. Sjáum bara utd. t.d þeir finna engan og city eru að leita út um allt. Eigum við ekki frekar að eyða öllu í frakkann í psg næsta sumar?

    1
  17. Sá í gærkvöldi hluta af fyrri hálfleik í endursýningu, þetta var ljúft aldrei nein alvöru hætta fannst manni og flest vel hugsað sem verið var að reyna í sókninni. auðvitað veit maður að þeir bláu eiga eftir að slípast en þar var eingann neista að finna en hjá okkur fannst mér kominn viss yfirvegun en líka það sem sást í seinni hálfleik, miskunarleysi sem okkur hefur oft vantað. Það var einhver vissa yfir þessu öllu minnir góða leiki hjá Byern og að auki gleði og ástríða. Þurfti að koma þessari gleði frá mér, Takk.

    1

Byrjunarliðið gegn Chelsea klárt: Thiago á bekknum, Fabinho í hafsent

Gullkastið – Gleðivísitalan í hæstu hæðum