Aukaþáttur / Diogo Jota – nýjasti meðlimur LFC (staðfest)

Það var flöskudagur á leikmannamarkaðnum hjá Liverpool í gær. Hentum í stuttan aukaþátt til að fara yfir þessi mjög svo spennandi leikmannakaup.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: Óli Haukur og Maggi Beardsley

MP3: Þáttur 301b


Það er semsagt orðið staðfest sem fór hratt af stað í gærmorgun, portúgalski framherjinn Diogo Jota hefur gengið til liðs við Liverpool frá Úlfunum, kaupverðið hans 41 milljón sem vonandi hækkar upp í 45 milljónir með sigrum í Úrvals- og Meistaradeild. Litlar sögur hafa verið af áhuga okkar manna á þessum strák og því er vert að fara yfir hans feril hingað til og leita að hvað það er sem við erum að fá með honum.

Jota er fæddur 4.desember 1996 og verður því 24ra ára á þessu ári. Hann er fæddur í Porto og bjó þar með foreldrum sínum í úthverfi þeirrar borgar og þar hófst fótboltaferill hans með litlu liði sem heitir Gondomar. Liðið þar hefur lengst af verið í C-deild portúgalska fótboltans og lifir í skugga margra fótboltaliða á Portosvæðinu. Jota spilaði lengi í yngri liðum Gondomar, allt frá 9 – 16 ára aldurs en þá náði hann athygli stærri liða á svæðinu og bæði Porto og Boavista höfðu samband við hann en hann valdi að ganga til liðs við það þriðja í nágrenni heimilisins, Pacos de Ferreira sökum þess að hann taldi mestar líkur til að hann fengi sénsa til að spila með aðalliði félagsins.

Það fór enda þannig að hann var ekki lengi að komast inn í þann hóp, fyrsta leikinn lék hann rúmlega 17 ára og varð frá áramótum 14/15 lykilmaður í liði Pacos sem var á þessum tíma um miðja efstu deild í Portúgal sem var býsna athyglisverður árangur út frá stærð liðsins og samkeppni. Á þessum tíma náði hann augum portúgalska landsliðsins, lék fyrst U19 leiki og síðan í U21s árs landsliðinu. Stóru liðin í Portúgal og Spáni eru fljót að snuðra svona leikmenn upp og það varð töluverður slagur milli stórra nafna um hann árið 2016. Að lokum fór það svo að Atletico Madrid keypti hann en eftir að hafa æft með þeim á undirbúningstímabilinu mátu Madridingar það þannig að hann væri ekki tilbúinn í aðalliðið þeirra en vildu að hann færi í alvöru lið.

Úr varð að helsti samkeppnisaðili þeirra um hann frá um vorið, Porto FC, fékk hann lánaðan og hann lék stórt hlutverk í liði þeirra leiktíðina 2016 – 2017 þar sem þeir urðu í 2.sæti á eftir mínum mönnum í Benfica en komust í Meistaradeild hvar þeir árið eftir féllu út eftir slæmt 0-5 tap á heimavelli með Einar Matthías og okkur Steina brjálaðan á pöllunum. Hann skoraði 8 mörk í deildinni og lék nær alla leiki með Porto, einungis meiðsli sem stoppuðu hann þar. Auk þess lék hann í Meistaradeildinni með þeim og má með sanni segja að hann hafi þarna stimplað sig vel inn.

Sumarið 2017 var Atletico enn ekki á því að hann réði við að komast í þeirra lið og þeir ákváðu að lána hann aftur. Öll stóru liðin í Portúgal vildu fá hann en nú fór svo að þeir spænsku töldu hann þurfa annars konar verkefni og þá steig inn Jorgé nokkur Mendes sem var þá orðinn umboðsmaður Jota. Sumarið 2016 var Mendes ráðinn til Wolves af nýjum eigendum þess félags, Fosun International, til að leiða þeirra atlögu að efstu deild enskrar knattspyrnu á ný. Eftir frekar rólegt fyrsta ár hjá Mendes og Fosun International réðust þeir í það að fá Nuno Espíriton Santo (gróf þýðing: Heilagur Andi Nuno) sem stjóra og Santo vildi ólmur fá Jota til liðs við sig þar sem hann taldi leikmanninn sniðinn til að koma með þann hraða í skyndisóknaleikinn sem hann vill spila. Atletico voru alls ekki sannfærðir, lið á Spáni og Frakklandi voru líka inni í myndinni og alls konar kjaftasögur eru í gangi að Mendes hafi beitt alls konar aðferðum við að troða sér framar í röðinni og svo fór að Atletico féllst á að Jota færi og spilaði í næst efstu deild Englands frá hausti 2017.Þar blómstraði hann strax og smellpassaði inn í lið sem vann deildina örugglega. Hann lék 44 af 46 leikjum deildarinnar og skoraði 17 mörk. Í janúar það tímabil var það svo tilkynnt að Úlfarnir hefðu keypt hann á 14 milljónir Evra og með einhverjum klásúlum.

Hann var svo lykilmaður hjá Úlfunum í EPL þau tvö ár sem hann var þar. Hann lék 67 af 76 mögulegum hjá liðinu í deildinni, skoraði 16 mörk og átti 6 stoðsendingar. Það er aðkoma að 0,33 mörkum í leik sem er býsna gott hjá liði fyrir neðan efstu tvö liðin í þeirri deild. Leikstíll Úlfanna er sniðinn að styrkleikum Jota, þeir eru með massíva þriggja varnarmanna línu, þá fjóra menn á miðju þar sem þeir ystu eru hugsaðir sem kantbakverðir og eru oftast varnarmenn að upplagi en eiga þó að koma upp (nokkuð sem ég held að gæti hæft Ki Jana Hoever nokkuð vel þegar hann mætir á svæðið) en í ákveðnum leikjum var Jota látinn spila þar, í leikjum þar sem þeir pressuðu hátt á liðin. Fyrir framan þessa fjóra eru svo tveir sem oft voru Traore og Jota með Jimenez fyrir framan. Öskufljótir gaurar með klassískri níu og þessi uppskrift hefur svo sannarlega valdið mörgum vanda síðustu tvö leiktímabil og virðist eftir fyrstu umferðina ekkert vera á neinni niðurleið.

Diogo Jota er portúgalskur landsliðsmaður. Hann var í hóp landsliðsins sem vann hina stórkostlegu Þjóðadeild á heimavelli vorið 2019 en lék þó ekki sinn fyrsta leik fyrr en í nóvember í fyrra þegar hann kom inná fyrir Cristiano Ronaldo sem kantframherji í 4-2-3-1 leikkerfi. Hann hefur síðan leikið þrjá leiki í viðbót og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sterkum 4-1 sigri á Króatíu nú 5.september síðastliðinn.

Það er alveg ljóst að Jota er keyptur til að veita sóknartríóinu okkar heilbrigða samkeppni og koma inn ef þeir þreytast eða meiðast. Umræðan um þessa stöðu hefur nær algerlega einskorðast við Sarr hjá Watford en þetta virkar á mig bara endurtekning á Lewis/Tsimikas umræðunni í sumar. Það er klárt mál að Klopp hefur haft augastað á Jota lengi og Pep Lijnders auðvitað gjörþekkir portúgalskan fótbolta og tengslin við Porto eru mikil þar sem einn úr þjálfaraliðinu Vitor Matos kemur þaðan og var í starfsliði þeirra hluta af leiktíðinni 2016/2017. Watford hefur verið að draga LFC á peningaeyrunum og þá var bara keyrt af krafti á Jota. Sagan er að hann hafi viljað fá nýtt verkefni og eftir að hann lék ekki með þeim í miðri viku þá virðast hlutir hafa gerst hratt, hann er orðinn leikmaður þeirra alrauðu og íslenska útgáfa aðdáendaklúbbs Portúgals (held að ég sé mögulega einn í honum samt) gleðst yfir því að fá þennan strák inn í liðið.

Hér er á ferð öskufljótur og aggresívur framherji sem hefur spilað pressufótbolta í háum gæðum á Englandi í þrjú ár, þekkir allt sem þarf að þekkja á þessari ágætu eyju og ekki nokkur ástæða til að ætla annað en að hér sé á ferðinni töluvert upgrade í “backup” fyrir tríóið okkar magnaða hið minnsta. Þetta er mikill karakter og með gríðarlegan sigurvilja, var fyrirliði U21s árs liðs Portúgals síðustu tvö árin sín þar og ætlar sér að taka við kórónu Ronaldo þegar hún verður lögð til hliðar í því dásemdarlandi – þetta skref ætti að hjálpa til við það að hrifsa hana frá öðrum manni sem er að gera tilkall til hennar með að skora fullt af mörkum úr vítum, nóg um það!

Með þessum kaupum hafa farið í gang sögur að bæði Brewster og Origi verði seldir…sjáum til hvernig það allt fer en eftir þurratíð í leikmannakaupum í sumar hreinlega rignir leikmannaslúðri í því magni að mér skilst að Óli Haukur verði í fríi í vinnu næstu vikuna því hvað vitum við hvað hendir næst!

Velkominn Diogo Jota!!!

19 Comments

 1. Frábært, svona á að gera hlutina.
  Verður frábært að horfa á þá í vetur. 1 kaup/lán í viðbót og þa er þetta orðið gott. Svo þarf bara að losa nokkra af launaskrá??

  3
 2. Mér líður eins og ég staddur DC8 flughreifli þessa stundina. Eftir tvo rólega glugga fer allt einu “aur”skriða af stað og ég hef ekki við því að kynna mér leikmenn sem eru á leiðinni til félagsins. Fyrst kemur þessi Grikki í byrjun sumars, sem er vonlaust að segja nafnið á og í fljótu bragði virtist hann verða eini leikmaðurinn sem yrði keyptur, þó við aðhangendur óskuðum örugglega flestir eftir því að þessi orðrómur um Thiago hafi verið sannur.

  Svo allt einu er eins og Michael Edwards fái viðþolslaust kaupæði og fer að versla inn af svipað mikillri ástríðu og Íslendingar gerðu þegar Coscto opnaði hérlendis. Ég hygg þó að þetta sé allt úthugsað hjá honum og hann sé núna á góðri leið að gera liðið að einum allra stærsta klúbbum veraldar.

  Fyrst kemur Thiago, fullslípaður hágæðademantur, sonur brasilísks heimsmeistara og spænskur landsliðsmaður. Leikmaður sem er með góðan orðstýr og sjaldséður hvítur hrafn á leikmannamarkaðnum og með gæði sem eru á við Gerrard og Alonso.

  Áður en ég náði að anda inn tvisvar bárust fréttir af þessum Diego Jota. Fyrst leist mér ekkert á hann en eftir að hafa kynnt mér hann betur, þá er mér ljóst að hann hentar leikstíl Liverpool fullkomnlega og hann gæti mjög auðveldlega komist í byrjunarliðið með tíð og tíma.

  Núna í lok gluggans fór svo allt að meika sens en það eru góðar líkur á því að miðvörður sé á leiðinni að nafni Ozan Kabak. Leikmaður sem ég veit ekkert um en hann hlýtur að hafa verið lengi undir smásjánni hjá njósnurum okkar sem eru heldur betur búnir að sanna sig sem mikilvægan hlekk í FSG keðjunni.

  6
 3. James Pearce sem hefur frá í vor talað um áhuga Liverpool á Thiago, sagði nýlega að það væri verið að skoða kantmann og miðvörð. Svo það má búast við einum í viðbót.

  6
 4. Gollum að gera góða helgi enn betri. Tapaði á heimavelli fyrir snillingnum Roy Hodgson!

  13
 5. Um ca miðjan þátt fannst mér einhver segja Yoda og þá var ekki aftur snúið, táraðist úr hlátri í hvert skipti sem einhver nefndi hann á nafn.

  4
 6. Yes yes!

  Thiago… Thiago Alcantara!

  Og þegar maður hélt að lífið gæti ekki orðið betra! hahahhahhaa

  4
 7. Takk fyrir að koma með auka Gullkast á eftir að hlusta…er búinn að lesa um Diogo Jota virkilega spennandi leikmaður sem virðist smellpassa í þetta leitarkerfi sem klúbburinn okkar byggir kaupstefnuna á sem er hulin ráðgata hvernig virkar….þetta kerfi byrjaði í hafnarboltanum í usa sem FSG hefur góða reynslu af…það er mynd á Nettflix um þetta kerfi þegar það var prufað í fyrsta skipti…FSG kemur fram í myndinni sem er gaman að sjá og vekur spurningar og svarar þeim nokkrum um þetta kerfi….

  6
 8. Kaup inn
  Tsimikas 11,8 – Thiago 20,0 – Jota 41,0 – Alls 72,8
  Seldir
  Lonergan 0 – Lallana 0 – Lovren 10,9 – Ejaria 3,0 – Jana Hoever 9,0 – Alls 22,9
  Á síðasta tímabili, kaup inn 8,5 – seldir 39,1
  Er þetta ekki fullmikill undirballas hjá eigendunum á þessum tímabilum samtals, ég bara spyr??

  3
  • Ég held örugglega að það muni koma sirka: Brewster 20m, Wilson15m og jafnvel Grujic12m inn þannig þegar glugginn lokar þá verðum við enn eina ferðina í plús.

   Edwards… þetta er alvöru gæji.

   2
 9. Mjög flott kynning á Jota Meistari Maggi – það verður skálað í einum Super Bock þegar hann skorar fyrsta mark sitt fyrir Liverpool, portúgalski Egils Gull.

  Þessi yfirferð sýnir einmitt ágætlega hversu galið það var að Wolves fengi hann, Neves og fleiri niður í Championship deildina en líklega var það eftirá að hyggja frábært move fyrir hann. Spilaði nánast alla leiki í góðu liði sem fór beint upp. Fyrir utan stóru þrjú í Portúgal er Championship líklega ekki mikið síðri en Portúgalska deildin. Leeds sem dæmi hefði líklega ferið mjög gott í Portúgölsku deildinni á síðasta tímabili.

  Jota var lykilmaður í Wolves liði sem fór úr því að vera miðlungslið í Championship í Evrópukeppni. Hann er ekki orðin 24 ára.

  Mest spennandi er að fá alvöru góðan leikmann til að keppa við hina heilögu þrenningu. Jota og vonandi Minamino eru miklu betri kostir en Origi og Shaqiri hafa verið þó þeir eigi ekkert slæmt skilið frá stuðningsmönnum Liverpool.

  Hann er svo frá Porto þannig að þetta er klárlega okkar maður.

  2
 10. Ég hlustaði á podcöstin ykkar back to back og það var svo augljóst í fyrra podcastinu að mannskapurinn hafði enga trú á því að eitthvað væri að fara að gerast meira í þessum glugga og svo boom, kemur þessi svakalega innkoma á föstudaginn.

  Ég veit ekki með ykkur en ég er alveg til í að splæsa í nokkur 2 fyrir 1-tilboð í Rúmfatalagernum á sokkapörum og svo verður heilt podcast bara að hlusta á menn éta þessi pör ofan í sig 🙂

  Létt grín, það er yndislegt, sem fyrr, að vera Liverpool-maður þessa dagana!

  1
  • Maggi mætir ferskur í kvöld og étur þetta allt ofan í sig, braut alveg niður allar vonir okkar Steina í síðasta þætti 🙂

   2

Upphitun: Chelsea á brúnni

Byrjunarliðið gegn Chelsea klárt: Thiago á bekknum, Fabinho í hafsent