Swiss Ramble um Liverpool á leikmannamarkaðnum

Swiss Ramble er yfirburða langbesti twitter aðgangurinn þegar kemur að því að rýna í fjárhagsupplýsingar knattspyrnufélaga. Hann skoðaði í dag ársreikninga Liverpool með það fyrir augum að skýra út hvort og/eða afhverju Liverpool er ekki jafn öflugt á leikmannamarkaðnum og keppinautarnir.

Liverpool er núna búið að kaupa Minamino og Tsimikas undanfarin tvö tímabil fyrir £21m en selja leikmenn á móti fyrir £31m. Sigur í Meistaradeildinni í kjölfar tímabils þar sem liðið fór alla leið í úrslit var fylgt eftir með Englandsmeistaratitlinum á síðasta tímabili með tilheyrandi auknum tekjum, samt virðast leikmannakaup alveg útilokuð. Hin liðin í þessum svokallaða stóru sex liða hópi eru búin að eyða á milli £175m og £241m í nýja leikmenn á sama tíma.

Til að fá samhengi er nauðsynlegt að lesa þráð Swiss Ramle og skoðum við nokkra punkta frá honum. Eins bendum við á flottan þátt hjá vinum okkar á The Anfield Wrap um þennan þráð Swiss Ramble

Tekjur félagsins hafa aukist stjarnfræðilega síðan Jurgen Klopp tók við liðinu árið 2015 eða um 79% en rétt eins og FSG sagði frá upphafi hefur allur sá gróði farið aftur í rekstur félagsins. Velgengni innanvallar hefur á móti verið mjög vel verðlaunuð og hefur launakostnaður hækkað um 87% á þessu sama tímabili sem er hlutfallslega meiri hækkun en aukning tekna. Leikmenn sem komu ódýrt hafa náð að þróast í súperstjörnur hjá félaginu og í stað þess að missa bestu leikmenn liðsins ár eftir ár hefur verið lögð áhersla á að halda þeim kjarna sem fyrir er og byggja ofan á hann. Erfitt að kvarta yfir þessu núna u.þ.b. mánuði eftir að Englandsmeistaratitlinum var loksins landað.

Eins er gott að Liverpool er alls ekki líklegt til að beygja eða brjóta FFP reglurnar, þið munið þetta sem öll liðin fyrir utan eitt þurfa að fara eftir

Hér er svo aðalástæðan fyrir því að Liverpool hefur ekki látið til sín taka í sumar og er ekkert endilega líklegt til þess. Þetta eru alvöru upphæðir

Öfugt við önnur lið hefur Liverpool ekki tekið nein lán (ennþá) en framkvæmdum við Anfield Road End var seinkað um ár sem gæti skapað fjárhagslegt svigrúm, eins gæti félagið slakað á í innborgunum á lán en skuldir voru lækkaðar um 34m skv. reikningum fyrir 2018/19. Tottenham tók t.a.m. £175m lán, Man Utd £140m og m.a.s. Stan Kroenke, nánösin sem á Arsenal lánaði félaginu sjálfur og greiddi upp bankalán til að spara vaxtakostnað. (Kroenke er moldríkur, hann bara hefur meiri áhuga á bókhaldinu en íþróttunum).

Lokapunkturinn er því:

Liverpool er bara alls ekki í neyð þetta sumarið til að styrkja leikmannahópinn og því skiljanlega reynt að selja leikmenn til móts við kaupum á nýjum. FSG hefur ekki viljað taka lán vegna leikmannakaupa líkt og önnur félög gera og þeir hafa ekki sett eigin pening í leikmannakaup þó vissulega hafi þeir bolmagn í það.

Ógeðslega pirrandi að Liverpool sé ekki með á leikmannamarkaðnum á meðan keppinautarnir eru að styrkja sig en mögulega er mikilvægara að halda núverandi stjörnum en að kaupa nýjar. Ef að það væri einhver leikmaður á markaðnum sem Edwards og Klopp teldu sig ekki geta verið án hef ég fulla trú á að FSG myndi finna lausn á því. Efast samt um að farið verði fram á slík leikmannakaup.

6 Comments

  1. Það er ekki gefið að FSG hafi bolmagn í að fjármagna félagið. Allar fjárfestingar FSG eru í uppnámi á sama tíma útaf Covid.

    1
  2. Það er auðvitað ekkert annað að gera en að treysta Klopp og FSG og vona að þær ákvarðanir sem verði teknar muni reynast happadrjúgar þegar fram í sækir.

    Manni myndi líða betur ef það yrði keyptur einhver öflugur miðvörður í stað Lovren, miðað við að Billy the Kid Koumetio sé kominn á undan Nat Phillips, Sepp VDB og Ki-Jana Hoever í þeirri stöðu, og miðað við mistökin sem Billy gerði í leiknum gegn Blackpool um helgina, þá held ég að veiti ekki af. Ég hef tröllatrú á þessum strákum og held að a.m.k. einn ef ekki fleiri af þeim gætu vel spilað sig inn í aðalliðið einhverntímann í framtíðinni, en efast um að þeir séu tilbúnir í slaginn á þessari leiktíð.

    Eins hefur maður smá áhyggjur af forminu á Salah og Firmino, og maður væri alveg til í backup í þeirri deildinni. Vissulega er Elliott gríðarlegt efni, og ég er að sama skapi ákaflega vongóður um að hann muni stimpla sig inn í byrjunarliðið á endanum, en hvort hann sé til í að vera meðal fyrstu manna af bekknum í deildinni í vetur er svo annað mál. Svipað í raun með Brewster, þó hann sé vissulega nær því að vera tilbúinn.

    Annars finnst manni undarlegt hvað það er lítið slúðrað um leikmenn eins og Harry Wilson og Marko Grujic. Leikmenn sem ætti að vera hægt að selja fyrir einhvern pening, og ef ekki, þá ætti að vera hægt að leita til þeirra í minna mikilvægum leikjum í vetur, en Harry hefur bara nákvæmlega ekkert sést, og bara eitthvað slúðrað um meiðsli án þess að taka fram hvers konar meiðsli eða hvenær sé von á honum aftur.

    1
  3. Ég vil frekar halda lykilmönnum og hafa leikmenn á góðum launum í stað þess að vera að missa bestu mennina á hverju ári.

    Ég furða mig samt á værukærð Liverpool. t.d varðandi kaup á miðverði í stað Lovren og svo væri ég ekkert á móti því að fá þennan Sarr frá Watford. Annars er ég nokkuð sáttur við hopinn.

    Ólíkt mörgum hef ég trú á vissum leikmönnum eins og Origi og Shaqiri og er því á því að breiddin sé nokkuð góð.

  4. Sælir félagar

    Ef Klopp og félagar telja sig geta varið titilinn með því sem þeir hafa í höndunum þá verður svo að vera. Mér finnst samt að það vanti tilbúið “bakkupp” fyrir framlínuna og ef Gini verður seldur þá verði að koma inn maður (Alcantare) fyrir hann. Það er magnað að það félag sem maður hélt að stæði bezt allra félaga í deildinni fjárhagsleg/rekstrarlega skuli ekki geta/vilja fjámagna þau kaup sem til þarf. En hvað veit ég svo sem.

    það er nú þannig

    YNWA

    3
  5. Klopp skildi Mains og Dortmund á mun betri stað eftir að hann tók við þeim. Ég tel að það sama muni eiga við Liverpool. Það er kominn annar strúktúr á allt. T.d er Michael Edward Spordirektor og er í raun yfirmaður Klopp og það stendur til að færa æfingarsvæðið á þannig stað að framkvæmdarstjórinn getur fylgst með efnilegum leikmönnum á sama tíma og hann er með yfirsýn yfir það sem aðalliðið er að gera. Liðið sjálft er líka á góðum aldri og því gæti góður framkvæmdarstjóri tekið við nokkuð fínu búi og byggt á þvi sinn stíl, ekki ólíkt því og þegar Paislay tók við Shankly á sínum tíma.

    En framkvæmdarstjórinn þyrfti að vera góður og vera á sömu línu og FSG. Ef það væri – trúi ég því að góður framkvæmdarstjóri gæti gert góða hluti með Liverpool eins og það er í dag. Enda var mesta vinnan að byggja liðið upp.

    1

Tímabilið hefst hjá kvennaliðinu: Durham mæta í heimsókn

Gullkastið #300 / Spá Kopverja – fyrri hluti