Tímabilið hefst hjá kvennaliðinu: Durham mæta í heimsókn

Núna kl. 13 að íslenskum tíma hefst fyrsti leikur kvennaliðsins á tímabilinu, en þá mæta stallsystur þeirra hjá Durham í heimsókn á Prenton Park. Sem betur fer var völlurinn tekinn í gegn í sumar, og er því í toppstandi.

Liðið lék fjóra leiki á undirbúningstímabilinu, tvo gegn liðum í úrvalsdeild og tvo gegn liðum í næstefstu deild. Liðið vann 3 leiki og gerði eitt jafntefli (gegn einhverju smáliði frá Manchester), og við skulum vona að þau úrslit séu fyrirboði um það hvernig liðinu gangi í deildinni í vetur.

Þá er jafnframt stutt síðan liðið bætti við sig einum leikmanni til viðbótar, en það er hin nýsjálenska Meikayla Moore sem kemur frá Köln.

Liðið sem byrjar leikinn í dag er sem hér segir:

Laws

Hodgson – Robe – Fahey – Hinds

Roberts- Rogers – Furness

Lawley – Thestrup – Babajide

Bekkur: Foster, Heeps, Clarke, Bailey, Kearns, Linnett, Ross, Parry

Hlustendur taka vonandi viljann fyrir verkið varðandi uppstillinguna. Mögulega er Vicky Jepson að stilla upp í meira 3-4-3 með Fahey, Hinds og Roberts sem öftustu 3 leikmenn, en það kemur allt í ljós þegar leikurinn hefst. Það hvar Ashley Hodgson spilar verður líka að koma í ljós, hún hefur spilað sem sóknarmaður síðustu ár en eitthvað var verið að prófa að færa hana neðar á völlinn. EDIT: breytti uppsetningunni, kom í ljós að Ashley Hodgson er í hægri bak en Rhiannon Roberts er á miðjunni.

Það er líka áhugavert að sjá að báðir varamarkverðirnir eru á bekknum, þ.e. Rylee Foster og Eleanor Heeps. 4 stelpur úr akademíunni eru á bekknum; áðurnefnd Heeps ásamt Bo Kearns, Miu Ross og Parry sem ég hef ekki upplýsingar um hver er eða hvaða stöðu hún spili.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player eins og á síðasta ári, það þarf vissulega að skrá sig en annars er sú skráning ókeypis. Það verða engir áhorfendur á Prenton Park frekar en á Anfield eftir viku, en vonandi breytist það þegar við komum lengra inn í haustið.

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.


Leik lokið með 1-1 jafntefli, Rachel Furness með mark á 39. mínútu en Durham konur náðu að jafna með marki á 87. mínútu. Svekkjandi jafntefli í byrjun, en þó jákvætt að liðið náði að skora. Það reyndist þrautin þyngri á síðasta tímabili, og gott að brjóta ísinn snemma.

Okkar konur voru frekar stirðar í fyrri hálfleik, Durham stelpur áttu jafnvel meira í leiknum, og markið kom kannski ögn gegn gangi leiksins. Í síðari hálfleik áttu stelpurnar okkar meira í leiknum, voru í raun óheppnar að skora ekki fleiri mörk, t.d. átti Furness skot í stöng og út rétt fyrir markið. Babajide er áfram óslípaður demantur, hefur hraðann en þarf að bæta bæði móttökur, sendingar og ákvarðanatöku.

Næsti leikur er svo á sunnudaginn eftir viku, en þá verða London Bees heimsóttar.

3 Comments

    • Það þarf semsagt að selja Wijnaldum, Harry Wilson, Marko Grujic eða einhvern áður en hægt verður að svo lítið sem bjóða í Thiago.

      3

Æfingaleikur gegn Blackpool á Anfield

Swiss Ramble um Liverpool á leikmannamarkaðnum