Verðlaun ársins – samantekt

Tímabilið 2019-20 var lengra og betra en flest tímabil í sögu Liverpool. Nú þegar tímabilið er búið er kannski vert að staldra við og reyna að gera upp allan þann aragrúa af verðlaunum sem liðið og stakir leikmenn sópuðu til sín. Byrjum á liðinu, ég er að taka saman bæði verðlaun fyrir tímabilið 2019-20 og eitthvað af verðlaunum sem voru veitt á árinu, en fyrir síðasta tímabil.

Englandsmeistarar 2019-20

Ekki hægt að segja það nógu oft, Englandsmeistarar í fyrsta sinn í 30 ár. Sá lang stærsti og mikilvægasti í ár.

Heimsmeistarar 2019

Eftir Meistaradeildarsigurinn í fyrra fékk liðið að taka þátt í Heimsmeistaramóti félagsliða í Qatar. Úrslitaleikurinn gegn Flamengo var fjandi skemmtilegur og var það Bobby okkar Firmino sem skoraði markið í uppbótatíma.

Ofurbikarinn 2019

Spiluðum þennan leik gegn afar spræku Chelsea í byrjun tímabils. Adrian kom inn vegna meiðsla Alisson skömmu áður. Ætla ekki að segja að markmaðurinn hafi verið frábær en hann stóð sig þegar á reyndi og varði fimmtu vítaspyrnu Chelsea þegar í vítaspyrnukeppnina var komið. Held að þessi leikur hafi verið mikilvægari en margir átta sig á, þarna var sannað að sigurinn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar var ekkert slys, Liverpool voru búnir að læra að klára titla.

Þá er komið að einstaklingsverðlaununum. Þau eru um það bið fimmtíu, megið endilega skjóta inn ef ég hef gleymt einhverju

Þjálfarinn

Jurgen Klopp þurfti að kaupa sér nýjan skáp fyrir einstaklingsverðlaun eftir þetta tímabil. Hann var þjálfari mánaðarins í ágúst. Svo aftur í september. Og nóvember og desember. Svo ákvað hann að hirða einn þjálfari mánaðarins í janúar, bara svo hann væri með einn slíkan á árinu 2020. Svo fékk hann auðvitað titilinn þjálfari ársins. Þessi verðlaun eru veitt af deildinni sjálfri. Þessi fimm verðlaun eru met á einu tímabili og er hann komin í fjórða sæti yfir flest svona verðlaun í heildina, með átta eins Martin O‘Neill og Harry Redknapp.

Hann vann líka nokkur þjálfara verðlaun utan deildarinnar. Hann vann Onze d‘or verðlaunin í fyrsta sinn sem eru gefin út af Franska tímaritinu Onze Mondial. Vann líka þjálfari ársins hjá FIFA. Einnig vann hann þjálfari ársins hjá IFFHS (Alþjóðasamtök fótbolta tölfræði og sögu) sem eru ekki hæst skrifuðu verðlaunin í boltanum.

Ég er ekki búin með þjálfarann. Hann var líka valinn í Hall of Fame og vann þjálfari ársins hjá Þjálfarasamtökunum á Englandi. Hélt frábæra ræðu og mig grunar að honum þyki vænna um þessi verðlaun en mörg, þar sem það eru kollegar hans í þjálfarabransanum sem velja þau. Ég reyndi að finna mynd af honum með alla þessu litlu bikara en það var víst ekki til nógu stór breiðlinsa á Anfield.

Leikmenn.

Hefjum leik hjá fyrirliðanum, Jordan Henderson. Hann var valinn FWA (Football Writers Awards) leikmaður tímabilsins. Þetta eru verðlaun sem um 400 fótboltablaðamenn á Bretlandi kjósa um. Þau eru ekki bara valin fyrir afrek innan vallar heldur einnig fyrir hvernig menn standa sig utan vallar. Hendo var að sögn margra einn af leiðtogum deildarinnar þegar Covid var að gerast. Það hjálpar líka í þessum verðlaunum að eiga sér flotta „sögu,“ eins og til dæmis að hafa verið boðin í skiptum fyrir Clint Dempsey, neitað að fara, unnið sér sæti í liðinu, tekið við sem fyrirliði af lifandi goðsögn og svo unnið tvo stærstu titla sem í boði eru. Hendo var einnig valin leikmaður ársins af stuðningsmönnum liðsins og af FA í fyrra.

 Sadio Mane átti líka gott ár. Hann var valin leikmaður ársins af stuðningsmönnum ensku úrvalsdeildarinnar. Hann sjálfur er væntanlega ánægður með að taka við titlinum fótboltamaður Afríku, sem egypski kóngurinn var búinn að hafa heima hjá sér í tvö ár. Þetta er þriðja árið í röð sem þeir tveir verma tvö efstu sætin í því vali. Hann vann líka áður nefnd Onze d‘or fyrir síðasta tímabil og var ásamt Alisson í liði ársins hjá áður IFFHS.

Hér er vert að skjóta inn að í lok tímabilsins í fyrra valdi UEFA lið ársins fyrir meistaradeildina og þar voru Alisson, Trent, Van Dijk, Robbo og Mane. Set þetta bara inn vegna þess að það er ekki búið að tilnefna þetta lið í ár og það verða örugglega færri Liverpool menn en í fyrra og þar með er liðið í ár leiðinlegra lið.

Kóngurinn frá Egyptalandi átti hins vegar afar rólega tólf mánuði, svona miðað við hann. Hann var enga síður valinn einn af mönnum ársins af GQ tímaritinu og einn af hundrað áhrifamestu einstaklingum heims af Time tímaritinu. Ég minnist sérstaklega á þessi tvö vegna þess að það sýnir hvað hann er orðin ofboðslega vinsæll utan fótboltans, ein af þessum stjörnum sem er orðin að tákni. Efa að Salah sé orðin jafn vinsæll og Beckham var þegar hann var hvað stærstur, en þetta eru sams konar vinsældir.

Fyrir utan þessi verðlaun þá er það líka þannig að Salah vinnur um það bil allar kosningar á netinu. Egyptar elska sinn ástsælasta son og flykkjast til að styðja hann með einu klikki á vefsíðu.

En frá kónginum í Egyptalandi og að prinsinum á Anfield. Trent Alexander-Arnol er orðinn að lifandi goðsögn, scouserinn í liðinu. Hann var ungi leikmaður ársins (valið af FA), sá fyrsti til að vinna þau verðlaun. Svo eru önnur verðlaun, veitt af leikmannasamtökunum, fyrir unga leikmann ársins en þau skipta ekki máli því að það var ekki púllari sem vann þau ekki.

Í hverjum mánuði velur deildin leikmann mánaðarins, tveir púllarar tóku þau verðlaun í ár, Mane í nóvember og Trent í desember. Alisson vann árið 2019 verðlaunin Samba Gullið, tók við þeim verðlaunum frá Bobby Firmino. Þetta eru verðlaun sem er veitt í Brasilíu fyrir besta brassann í Evrópu. Það eru blaðamenn, leikmenn og stuðningsmenn sem kjósa um verðlaunin.

Ég renndi líka yfir maður leiksins tölfræðina, en síðan sem ég treysti á virðist hafa hætt að nenna að halda utan um verðlaunin um það bil þegar Covid gerðist. En af þeim 28 vikum sem voru á skrá þá var Mane oftast maður leiksins (8), Salah næstur (6) og svo hellingur af gaurum einu til þrisvar sinnum. Leikmann mótherja voru aðeins þrisvar með mann leiksins í sínu liði.

Kop.is verðlaunin

Við gerðum stutta en heiðarlega tilraun til að velja leikmann ársins að mati Kop.is. Van Dijk, Mane, Trent og Henderson voru allir nefndir strax. Svo var bent á hversu skrýtið væri að ekki væri minnst á Salah, Fabinho og Firmino. Það segir ofboðslega mikið um liðsheildina að hægt er að nefna sjö leikmenn sem ættu skilið að vera maður ársins. Enda er fótbolti liðsíþrótt. Þannig að við tilnefnum liðsandan leikmann ársins.

Ég veit að ég er að gleyma einhverju, þannig að ef það voru einhver einstaklings verðlaun sem ég missti af, endilega bendið á þau hér fyrir neðan. Og hver er ykkar maður ársins? Og nú er ekki nema rúmlega vika í Samfélagsskjöldin! Næsta tímabil að hefjast og þá hætta öll þessi verðlaun að skipta máli, we go again.

3 Comments

  1. Takk kærlega fyrir þessa upptalningu. Sannarlega frábært tímabil að baki sem skilaði titlum og viðurkenningum í tugavís.
    Spurt er um leikmann tímabilsins. Liðsheildin var einstök hjá liðinu en þó tel ég að fjórir menn eigi skilið að vera valdir bestir þetta tímabil, Hendo, TAA, VvD og Mane. Og Hendo bestur og þá ekki síst fyrir mikla leiðtogahæfni, dugnað og endalausa baráttu innan vallar. Utan vallar hefur hann verið til mikillar fyrirmyndar og er í raun leiðtogi leikmanna á Englandi. Ef Hendo á annað eins tímabil verður það mikil gæfa fyrir félagið. Ekki endilega besti fótboltamaðurinn en mikilvægi hans er ekki hægt að efast um.

    8
  2. Sælir félagar

    Leikmaður ársins er liðsheildin og erfitt að taka einhcver einn út úr. Auk þeirra sem Hjalti nefnir eru auðvitað Salah, Firmino og Robbo verðugir þess að vera þarna með. Einnig má nefna Gini og Fabinho og Gomes til sögunnar ásamt Alisson án þess að á nokkurn sé hallað. Þar með er allt byrjunarliðið komið svo niðurstaðan verður liðsheildin ásamt með Klopparanum sjálfum

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  3. Bara flott mál og gaman ad tessum vidurkenningum ollum . madur er samt svekktur med ad na ekki tessu stigameti vegan tess ad ef vid hefdum bara klarad burnley sem dæmi I lok timabilsins a anfield hefdum vid nad tesssu meti en tad nær ekki lengra. Klopp hefur pottett sagt vid leikmenn I fyrra ad þeir þyrftu fleiri en 97 stig til ad vinna deildina og ju við fengum 99 stig sem dugði og vel rumlega það.samt Klopp pottþett svekktur og leikmenn lika með að fara ekki I 101 stig.

    annars hef eg heitið a þessari siðu I mörg ár viðar ENSKI Skjoldal en eg for i þjoðskrá um daginn og breytti nafninu I Jurgen Viðar Viðarsson .., ætla að heita Jurgen stoltur alla ævina I höfuðið á manninum sem kom með titillinn heim. eg hef beðið alla ævina eftir þessu og var farin ad halda að þetta myndi ekki gerast aður en eg færi I grofina 90 ara þótt eg se bara 35ara nuna.

    eg vakna alla daga nuna og segi við konuna mina þetta verður besti dagur ævi minnnar og brosi og hun þolir það ekki en fyrir mer er besti dagur ævi minnar alla daga eftir ad tessi titill kom og verdur tad allavega þar til I mai a næsta ari a medan þessi bikar er a anfield. svo vinnum við þennan bikar sennilega næst lika eða eg held það.

    kær kveðja fra landspitalanum til ykkar fra Jurgen

    1

Gullkastið – L´OL

Æfingaleikur við Stuttgart