Staðan á liðunum eftir mót

Leikmannaglugginn er að opna og ljóst að töluverðar breytingar verða á mörgum liðum fyrir næsta tímabil. Skoðum aðeins stöðuna á hverju liði.

1. Liverpool

Eins ógeðslega pirrandi það er að sjá öll hin liðin kaupa heitustu bitana á leikmannamarkaðnum en Liverpool gera ekkert þrátt fyrir að vera ríkjandi meistarar í öllum stærstu félagsliðakeppnunum verður að hafa í huga að liðið hefur núna fylgt sínu besta tímabili hvað stigasöfnun varðar eftir með ennþá betra tímabili. Hópurinn var fyrir þetta tímabil nánast á fullkomnum aldri og það breytist ekkert rosalega núna í sumar. Svo lengi sem Jurgen Klopp er tiltölulega ánægður með hópinn getum við verið sæmilega róleg. Það er líka ljóst eftir þetta tímabil að hin liðin þurfa að styrkja sig töluvert til að brúa bilið og eru sum þeirra sannarlega að reyna það. Það eru auðvitað allir stuðningsmenn sammála um að liðið þarf að endurnýjast eðlilega milli tímabila og vonandi verður það raunin í sumar. Lovren og Lallana skilja t.a.m. eftir sig skarð sem þarf að fylla.

Líklega fáum við ekki svona Kai Havertz, Jadon Sancho eða Timo Werner kaup í sumar sem væru vissulega mikil vonbrigði en sem dæmi voru Robertson, Gomez, Matip, Henderson, Wijnaldum, Fabinho, Salah, Mané og Firmino ekki þannig kaup heldur á sínum tíma. Þ.e. þetta voru ekkert heitustu bitarnir í Evrópu þegar þeir komu. Það eru helst Van Dijk, Alisson og Keita sem falla í þann flokk í núverandi hópi.

Klopp fær núna undirbúningstímabil sem er nákvæmlega eins og hann vill hafa þau, engin ferðalög eða auglýsingaæfingaleikir. Það gæti reynst okkur mjög vel næsta vetur.

2. Man City

City er augljóslega með hóp sem getur aftur náð um 100 stiga tímabili eins og þeir gerðu tvö ár í röð fyrir þetta tímabil. Hvað þá ef þeir styrkja hópinn mikið í sumar. Ef að City styrkir hópinn mikið er það eitthvað sem Liverpool þarf að bregðast við, þeir eru ekki langt á eftir.

Sané er farinn og hinn 20 ára Ferran Torres er komin í staðin, það er ekkert víst að það sé mikil styrking strax þó hann sé vissulega geggjað efni. Phil Foden fær svo væntanlega mun stærra hlutverk næsta vetur með brottför David Silva.

Þetta fyrsta City lið Guardiola er farið að eldast og komið á endurnýjun sem hófst í fyrra með ekkert rosalegum árangri. Núna er t.d. Fernandinho orðin 35 ára, Aguero 32 ára og margir lykilmenn eru í kringum þrítugt.

3. Man Utd

Launahæsta lið deildarinnar og eitt það dýrasta slefaði í þriðja sæti og er látið með það eins og þvílíkt afrek þjálfarans og félagsins í heild. Solskjaer hefur samt vissulega tekið nokkrar stórar ákvarðanir og endurnýjað leikmannahópinn. Hann fékk líka 200m til þess í síðasta leikmannaglugga, Bruno Fernandes í vetur og virðist vera að fá 120m leikmann núna í Covid glugganum. Jadon Sanhco væri rosalega spennandi styrking fyrir United því miður og gæti alveg verið leikbreytir fyrir þá með núverandi sóknarlínu sem er orðin vel sterk fyrir. Ef allt er eðlilegt verður United ekki svona lélegt áfram en þeir fara vonandi ekki í 90+ stiga lið strax.

4. Chelsea

Það er jafnvel ennþá vitlausari umræða um tímabilið hjá Chelsea í vetur en United. Frank Lampard náði að rífa félagið úr 3. sæti í það 4. með sex stigum færra en liðið náði á síðasta ári. Hann er samt að gera marga góða hluti hjá Chelsea og hefur núna í höndunum gríðarlega sterkan hóp á frábærum aldri sem er verið að styrkja í hverri viku núna með alvöru gæðum.

Hakim Ziyech sem var frábær með Ajax í fyrra og Timo Werner eru staðfestir og Kai Havertz skrifar líklega undir líka á næstunni. Það er rosaleg bæting á liðinu en spurning hvort það sé á réttum enda? Þeir hafa verið orðaðir við menn eins og Chilvell hjá Leicester sem væru enn ein risakaupin.

Ungu strákarnir sem Lampard hefur gefið séns í vetur styrkja hópinn mikið en virðast reyndar ekki spara félaginu mikið í leikmannakaupum m.v. byrjunin á þessum glugga. Spurning t.d. hvort Tammy Abraham fái eins margar mínútur í þessu liði, eða Mason Mount og Hudson-Odoi?

Þeir eru reyndar að endurnýja líka, Pedro er t.a.m. búinn að kveðja og Willian fer væntanlega líka. Sama á líklega við um Giroud. Svo er spurning með menn eins og Barkley, Bakayoko, Drinkwater og fleiri sem þeir eiga ennþá.

Dýrasti markmaður í heimi var svo einn lélegasti markmaður deildarinnar og bara hlítur að vera töluvert áhyggjuefni fyrir Lampard.

Chelsea ætti samt að verða mun sterkara lið næsta vetur m.v. þessi leikmannaskipti.

5. Leicester 

Þvílíka dauðafærið sem þeir klúðruðu. Leikmannakaup United og Chelsea ættu fyrir næsta tímabil að vera meira áhyggjuefni fyrir lið eins og Leicester heldur en Liverpool og Man City. Bilið virðist vera breikka töluvert núna í sumar.

Þeir eru samt búnir að semja við James Maddison og eiga Chilwell á langtímasamningi, ef þeir fara fá þeir helling fyrir þá.

6. Tottenham

Þeir ættu ekki að eiga mikin pening í leikmannakaup sem er magnað í ljósi þess að Mourinho er stjóri félagsins. Hann átti oftast gott 1-2 tímabil með sín lið en eins og staðan er núna er erfitt að sjá Spurs fyrir sér ná Meistaradeild næsta vetur.

7. Wolves

Þeirra bestu leikmannakaup í sumar væri að halda núverandi hóp saman og mögulega hjálpar Covid þeim við það. Aðeins Liverpool og Man Utd töpuðu færri leikjum á síðasta tímabili en Wolves. Ætli þakið sé ekki nokkurnvegin 6. sæti hjá þessum hóp.

8. Arsenal

Sigur í bikar tryggði þeim sæti í Evrópudeildinni, líklega er það þeirra besta von um Meistaradeildarsæti næsta vetur. Öflugt hjá Arteta að vinna bikarinn á sínu fyrsta tímabili en það er auðvitað í keppni sem Liverpool t.a.m. notaði U18 ára liðið á þessu tímabili og varaliðið fram að því. Það verður líka mjög forvitnilegt að sjá hvað hann fær miklu úr að moða á leikmannamarkaðnum.

9. Sheffield United

Aðeins þrír sigrar í síðustu ellefu umferðunum draga aðeins niður annars frábært tímabil hjá nýliðum sem gera mjög vel með því að ná á topp 10. Þeir gerðu voðalega lítið á leikmannamarkaðnum fyrir mót og voru hunderfiðir við að eiga.

Sheffield komu ekki upp sem ríkjandi meistarar í Championship deildinni, Norwich vann deildina nokkuð sannfærandi 2019 og fór inn í mótið svipað og Sheffield með mjög lítið breytt lið. Því miður virkaði leikaðferð Sheffield, ekki Norwich.

10. Burnley

Það er öllum sama hvað Burnley ætlar að gera fyrir næsta tímabil. Þakið hjá þeim er í kringum 10.sæti og þeir gerðu vel að ná því í vetur. Kaupa líklega 2,5m háan sóknarmann og eitthvað sauðnaut í vörnina.

11. Southampton

Helsta afrek Southampton á síðasta tímabili er að liðið er aftur komið á svipaða braut og þeir voru,  Hasenhüttl vann geggjað starf með þetta lið í seinni umferðinni og náði að rífa liðið frábærlega upp eftir 9-0 tapið gegn Leicester. Vonandi finna þeir einhvern gullmola á leikmannamarkaðnum í sumar sem Liverpool kaupir svo eftir 1-2 ár. Halda þessum þjálfara ekki mikið lengur haldi liðið áfram að þróast eins og það hefur verið að gera á þessu tímabili.

12. Everton

Rosalegt vonbrigðatímabil hjá Everton í vetur enda keyptu þeir leikmenn fyrir 120m síðasta sumar. Moshri þarf að bakka Ancelotti hressilega í sumar til að koma Everton ofar og það þarf að taka duglega til í leikmannahópnum. Tímabilið endaði með einum sigurleik í síðustu sex umferðunum.

Byrja aftast og taka gott útspark á Jordan Picford væri sterk byrjun.

13. Newcastle 

Ef að þeir fá ekki Saudi-Arabíska eigendur í sumar er hætt við því að næsta tímabil verði mjög þungt hjá Newcastle. Þeir björguðu sér ágætlega frá falli en undirliggjandi tölur eru ömulegar hjá þeim og fótboltinn sem þeir bjóða oft á tíðum uppá ennþá verri. Nennir enginn að horfa lengi á 9-1-0 kerfið.

Vonandi verður þetta ekki næsta Man City eða Chelsea því að hópurinn sem hefur verið orðaður við félagið er jafnvel verri en þeir sem eru á bak við Man City og PSG.

14. Crystal Palace

Sjö töp og jafntefli í síðustu átta umferðunum og 37% stigasöfnun í vetur. Nokkuð gott ár hjá Hodgson bara, liðið sem féll var með 34 stig en Palace 43 stig þannig að þetta voru níu stig í yfirvinni í bókum Hodgson, holdgervingi meðalmennskunnar.

Það gæti orðið mjög erfitt að halda Zaha í sumar ef áhuginn á honum er eins og hann var t.d. í fyrra. Hann kom reyndar bara að sjö mörkum í 37 leikjum í vetur, fjögur mörk og þrjár stoðsendingar.

15. Brighton

Þetta félag virkar í miklu heilsusamlegra ásigkomulagi en liðið sem rétt bjargaði sér frá falli í fyrra. Harry Potter er að vinna flott starf virðist vera og að smíða vel spilandi lið. Lallana styrkir hópinn helling haldist hann eitthvað heill hjá þeim. Væri reyndar alveg dæmigert ef hann tekur núna 5-6 meiðslalaus ár.

16. West Ham

Allt of góður hópur á pappír til að vera í svona mikilli fallbaráttu. Moyes fær væntanlega aðeins meiri tíma núna og byrjar að smíða Everton 2 þarna í London.

17. Aston Villa

Rosalega mikilvægt fyrir þá að halda sér í deildinni, félag sem ætti núna að geta fótað sig aftur sem Úrvalsdeildarfélag. Allt of stór klúbbur til að vera í því bulli sem þeir hafa verið. Magnað að í nokkur ár var ekkert lið frá næststærstu borg Englands í efstu deild.

1. Leeds

Get ekki sagt að ég hafi saknað Leeds úr efstu deild en vissulega er þetta félag rétt eins og Villa sem á ekki að vera í því basli sem þeir hafa verið. Það gæti orðið áhugavert að sjá Biesla í Úrvalsdeildinni, hann er alveg snar en líklega um leið snillingur. Þeir eru að koma upp með nokkuð gott lið sem ætti alveg að geta haldið sér uppi. Biesla og þessir eigendur eru samt tifandi tímasprengja sem springur ef á móti blæs næsta vetur.

2. West Brom 

Erfitt að hrista af sér Tony Pulis ímyndina sem maður hefur á þessu félagi. Þeirra var heldur ekkert saknað. Slaven Bilic er samt hressari en Pulis, gef þeim það.

3. ?  Brentford – Fulham í kvöld. 

Brentford er mjög áhugavert félag sem hefur farið aðrar leiðir í leikmannakaupum og strúktúr. Ekki ósvipað Liverpool að mörgu leiti og það er að virka. Moneyball lið neðri deildanna. Félagið er í dauðafæri á að komast í efstu deild í fyrsta skipti í einhver 60-70 ár.

Fulham liðið hinsvegar féll fyrir þetta tímabil eftir mikið eyðslufyllerí sumarið áður.

2 Comments

 1. Ég skil alveg að Lpool haldi að sér höndum eftir að þeir ætluðu að henda slatta af starfsfólki yfir á ríkisspenan, og spara sér pening. Hefði litið illa út ef þeir hefðu svo keypt sér inn tugi milljóna virði af leikmönnum eftir að hafa vælt um peningaskort.

  Við vitum að það verður EKKERT keypt í sumar sem heitið getur “marquee signing”. Við verðum bara að horfa á önnur lið eyða helling af milljónum á meðan við gerum ekkert meira en að hnusa af unglingum og/eða bíðum eftir að finna einhvern sem er með djók klásúlu í samningnum.

  Ég endurtek það sem ég hef sagt að við erum ekki svona langt frá öðrum liðum og það kæmi mér MJÖG á óvart ef við myndum hlaupa i gegnum næsta tímabil eins og þetta. Vonandi gerist það þó.

  Við þurfum að styrkja okkur. Það er morgunljóst

  7
 2. Sælir félagar

  Segja má að það verði vonbrigði ef Liverpool kaupir ekki tvo til þrjá leikmenn sem styrrkja liðið. Það sem helst kallar á mann eru menn sem styrkja sóknina, það er að segja einhvern sem er nógu góður til að leysa af í sókninni og 3. til 4. miðvörð. Sala á mönnum í hópnum sem ekki hafa gæði fyrir liðið virðist ganga hægt. Undirbúningstímabilið verður stutt svo það þarf að hafa hraðar hendur. En samt, ég treysti Klopp og félögum fyrir þessu sem öðru.

  Það er nú þannig

  YNWA

  1

Gullkastið – Uppgjör á frábæru tímabili

Uppfært – Liverpool gerir tilboð í Lewis