Jordan Henderson FWA leikmaður ársins 2019/2020

Í morgun var tilkynnt að Jordan Henderson fyrirliði Englands-, Evrópu- og heimsmeistara Liverpool FC hefði orðið hlutskarpastur í vali íþróttafréttamanna (FWA) og verið kjörinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni á núverandi tímabili. Heiðurinn og nafnbótin er sérlega verskulduð þar sem Jordan Henderson hefur staðið sig einstaklega vel innan vallar sem utan, fyrirmyndar fyrirliði og sjaldan verið betri í að spila hinn fallega fótbolta fyrir Rauða herinn. Hann á verðlaunin einnig skilið fyrir sitt einstaka titillyftutipl sem hefur verið margendurtekið síðasta árið er Liverpool hefur unnið að því hörðum höndum að stútfylla bikaraskápinn.

Nánar má lesa um þetta hérna á heimasíðu Liverpool FC og svo auðvitað horfa aftur og aftur og aftur á Henderson lyfta titlinum langþráða á loft:

Í öðrum fréttum dagsins þá greinir Liverpool Echo frá því að 11 milljón punda tilboð í Dejan Lovren frá Zenit St. Pétursborg hafi verið samþykkt og allar líkur á að Króatinn knái yfirgefi Liverpool þetta sumarið. Verðið virkar sanngjarnt miðað við Covid-tíma, aldur og meiðslasögu miðherjans og þá staðreynd að hann átti eingöngu eitt ár eftir af sínum samningi. Klopp, Edwards og tölfræðitröllin í kaupnefndinni eru klárlega með áætlun í gangi um það hvernig eigi að fylla í skarðið þannig að varnarinnkaup eru því líklega fyrir næsta tímabil.

Allar umræður um okkar frábæra fyrirliða og kaup & sölur eru Fowlers-velkomnar hér í kommentakerfinu.

YNWA

 

 

6 Comments

 1. Augljóst val, enda kafteinninn einstaklega vel að þessu kominn. Mikil ósköp sem hann hefur vaxið frá því að hann kom til Liverpool, gaf ekki mikið fyrir hann þá, ég viðurkenni það.

  En þetta er orðinn ekki bara einn af betri miðjumönnum í deildinni, heldur einn besti leiðtogi í íþróttaliði í dag.

  Ég tók einmitt eftir því þegar strákarnir voru að taka við dollunni og dansa á pallinum að Minamino virkaði svolítið afskiptur og hélt sig mikið til hlés. Hann er auðvitað “new kid on the block”, í nýju landi og ekki bara það, mjög ólíkri menningu en hann á að venjast í sínu heimalandi eða jafnvel sinni heimsálfu.
  Hendo skoraði fullt af stigum fyrir sína framgöngu þar þegar hann fór til hliðar, sótti Minamino og dróg hann inní fögnuðinn, þannig gera alvöru leiðtogar. Drengurinn var greinilega pínulítið feiminn og jafnvel lítill í sér þarna, og þurfti bara smá klapp á bakið til að taka þátt í fjörinu.

  14
 2. Það virðist gríðarleg óánægja með þetta val meðal stuðningsmanna annarra liða. Að einhverju leyti er það skiljanlegt ef þú horfir einungis á highlights úr leikjunum.

  Mane, VVD, Alisson og TAA komu líka til greina en Henderson hefur drifið þetta lið áfram öðrum fremur og er að mínu mati best að þessu kominn.

  Ekki sammála Siguróli?

  8
  • Það er alveg sama hvað er gert og hvað er ekki gert. Alltaf eru einhverjir sem væla og kvarta yfir öllu. Kjör á fótboltamanni ársins í EPL er ekki einfalt og allir halda með einhverju liði. Ég vissi reyndar ekki betur en að þetta væri kosning leikmanna og þjálfara liðanna í deildinni. Ef meirihluti þeirra kýs Hendó þá er hann talinn sá besti, þetta árið, í EPL.

   Núna þarf bara Salah að skora nokkur mörk í síðasta leiknum til að ná sér í annan gullskó.

   Við erum bestir, sko langbestir!

   2
 3. Hendo vel að þessu kominn, bæði sem fyriliði besta félagsliðs í heimi og einnig fyrir sína framistöðu. Reyndar hálft liverpoolliðið sem á þetta einnig skilið.

  Annars langar mig að tuða aðeins útaf framkomu lampard við klopp og bekkinn í síðasta leik. Á að fá bann fyrir finnst mér, fáránlegur dónakjaftur og vanvirðing. Þoli hér með ekki manninn.

  4
 4. Með Lallana, Lovren og Shaqiri léttast launagreiðslur um £300.000 á viku. Hvort það vegi á móti Covidtengdu tekjutapi eða skapi pláss fyrir leikmannakaup á eftir að koma í ljós.

  3
 5. Sæl og blessuð.

  Hendo er maðurinn og það er morgunljóst að þetta lið hefði endað í þriðja til sjöunda sæti ef hans hefði ekki notið við. Þrátt fyrir alla burðarása liðsins frá Alisons til Salah, þá virðist Hendó vera kíttið, límið, sementið og astralið sem tengir allt saman. Hann er leiðtogi sem þykist ekki vera sérfræðingur á helstu sviðum en gerir auðvitað alla miklu miklu betri þegar hans nýtur við.

  Það fyndna er að stærsta framlag hans og í raun undirstaða þess að hann verðskuldar þennan stórbrotna titil er þegar hann meiddist og gat ekki spilað með. Þá stóð ekki steinn yfir steini hjá okkar ástkæru og fagurrauðu. Takk Hendó og takk þið sem enduðu á því það falla frá þeim áætlunum að selja hann sem skiptimynt fyrir einhvern Kana sem ég man ekki lengur hver er eða hvað heitir.

  Hendo, the man.

  8

Liverpool 5-3 Chelsea

Lokaleikurinn á sunnudag