Arsenal 2-1 Liverpool

Mörkin

0-1   Sadio Mané 20.mín
1-1   Alexandre Lacazette 32.mín
2-1   Reiss Nelson 44.mín

Leikurinn

Fyrir leik fengum við fínan heiðursvörð frá heimamönnum og það er virðingarvottur sem vel er hægt að venjast. Fátt gerðist þó í sjálfum leiknum til að byrja með og rólegheit í gangi. Firmino var þó næstum búinn að blokka markspark frá Martínes á 12.mínútu en það fór í utanverða stöngina. Liverpool voru meira með boltann og fór aðeins að keyra upp sóknarfærslurnar. Það skilaði góðu marki á 20.mínútu þegar að gott samspil Firmino og Robertson vinstra megin í vítateignum losaði Skotann og góð fyrirgjöf með grasinu var snyrtilega slúttuð af Mané. 0-1 fyrir Liverpool og okkar menn rétt í öðrum gír og ekki þurft að hafa mikið fyrir hlutunum.

Heimamenn skoruðu reyndar næstum strax eftir að taka miðju en annars var lítið að frétta í leiknum þangað til að hálftími var liðinn af leiknum. Van Dijk var með boltann í öftustu línu og við smá pressu frá Nelson þá gaf hann arfaslaka sendingu beint á Lacazette sem kláraði færið snyrtilega framhjá Alisson í markinu. Mjög óvenjulegt að sjá VvD gera mannleg mistök enda varnarguðinn oftast nær yfir slíkt hafinn. Sumir vildu búa til dómsmál úr því að brotið væri á Hollendingnum með peysutogi en slíkum málatilbúnaði er vísað frá dómi enda ekki dómtækt.

Markið var löðrungur á vinstri vanga Liverpool en rétt fyrir hálfleik bættu Arsenal um betur og gáfu okkur hægri handar kjaftshögg. Alisson klúðraði sendingu frá marki sem Lacazette hirti og lagði á Nelson sem smellti skoti framhjá klúðurshafanum í markinu. Bras á Brassanum sem okkur var refsað grimmilega fyrir og Skytturnar komnar yfir í leiknum eftir að hafa gert lítið annað en að nýta sér hörmuleg mistök okkar manna.

2-1 fyrir Arsenal í hálfleik

Liverpool mættu ögn grimmari úr búningsklefanum og á fyrsta korterinu áttum við nokkur færi með skotum frá Mané og Salah en mannmörg vörn heimamanna blokkaði skotin eða Martinez varði í markinu. Margar innáskiptingar fylgdi í kjölfarið um miðbik síðar hálfleiks hjá báðum liðum. Skásta innkoma okkar manna var hjá Minamino sem var mjög líflegur, en var ónákvæmur sem fyrr í að reka endapunktinn á sínar aðgerðir og það sama mátti segja um restina af Liverpool-liðinu.

Sóknarþrýstingur Rauða hersins hélt áfram en þó var hann ekki nógu sannfærandi eða beittur til þess að maður sæi markið detta inn. Færi hjá Salah og Virgil fóru forgörðum en besta færið kom stuttu fyrir leikslok er Mané var við það að koma sér í gott færi í teignum en pressa frá varnarmönnum olli því að hann skaut framhjá. Arsenal hefðu jafnvel geta bætt við marki á lokamínútunum er Willock fékk skotfæri í teignum en setti hann framhjá.

Lokatölur 2-1 tap Liverpool.

Bestu menn Liverpool

Það var fátt um fína drætti í frammistöðu okkar manna í kvöld og fæstir komust upp úr öðrum gírnum og flestir sem fá falleinkunn. Af þeim sem geta labbað af velli með höfuðið hátt eftir góða kvöldvakt eru Robertson sem var sprækur og lagði upp eina mark okkar í leiknum. Firmino var einnig ágætur og átti sinn þátt í uppspili marksins og var næstum búinn að skora með góðri varnarvinnu. Þá átti Minamino líflega innkomu en Púlari leiksins var Mané sem var sá eini með meistarastandard í kvöld. Skoraði markið, var alltaf hættulegur og keyrði allan leikinn til þess að bjarga einhverju úr slakri liðsframmistöðu.

Vondur dagur

Svo bregðast krosstré sem önnur tré þar sem Virgil og Alisson gáfu skelfileg mörk með einbeitingarleysi og skussaskap í öftustu varnarlínu. Þar sem liðið hafði rétt verið að malla í öðrum gír fram að þessu þá reyndist okkur það lífsins ómögulegt að gíra okkur almennilega upp eftir þessi áföll og því miður skópu þau þetta þriðja tap tímabilsins í deildinni. Þá voru Salah og TAA mikið í boltanum en það vantaði mjög mikið upp á gæðin hjá þeim til þess að eitthvað kæmi út úr því sem máli skipti.

Tölfræðin

Arsenal átti tvö skot á rammann í kvöld og þau skiluðu sér bæði í netið. Vond tölfræði það.

Umræðan

Stigametið er úr greipum okkar með niðurstöðu síðustu tveggja leikja og við getum engum öðrum en sjálfum okkur um kennt. Komumst yfir í báðum leikjum og eigum að gera betur í okkar sóknaraðgerðum en lekum ódýrum mörkum sem valda því að við fáum bara eitt stig úr þeim. Það er ansi sérstakt að skítataktík Mourinho hafi skilað 2 mörkum og 3 stigum gegn Arsenal í leiknum á undan en okkar tæp 70% með boltann skilaði okkur bara einu skitnu marki og engu stigi. Svona er fótboltinn stundum en við höfum vanist betra frá þessu liði en að þeir kasti frá sér leikjum, mörkum og stigum í kæruleysi.

Við erum auðvitað ennþá Englandsmeistarar og það verður aldrei tekið frá okkur en í viku þar sem City gátu fagnað stærstu „dómgæslu“ áratugarins þá hefði það verið sætt að taka af þeim þetta stigamet sem þeir byggðu upp með fjárhagssvindli til margra ára. Réttlætinu ekki fullnægt hvað það varðar og ekki verður heldur framhjá því horft að Liverpool hefur tapað 6 af síðustu 13 leikjum í öllum keppnum. Það verður að teljast endasleppt miðað við hinn nær fullkomna standard sem var í boði 18 mánuðina fram að því. Við verðum að vona að þetta séu eingöngu timburmenn velgengninnar og að menn láti renna af sér fyrir byrjun næsta tímabils.

YNWA

28 Comments

 1. Ömurlegt úrslit. Miklu betri allan leikinn. Tveir af okkar bestu mönnum í vetur gefa tvö mörk.
  Við stjórnuðum þessum leik allan tíman en það er bara ekki nóg það þarf að drulla inn fleiri mörkum(sjá Burnley leikinn).
  Origi má fara að pakka, Ox ekkert að sanna sig, Trent virkar hálf áhugalaus, Salah er að fá dauðafæri en klikkar aftur og aftur og maður skilur ekki að taka Firmino útaf því að hann er mjög góður í að vinna á þröngum svæðum (Minamino þarf svo annað hvort að vera sterkari eða læra að detta).

  Já, við erum orðnir meistara og það er geðveikt og því verður fagnað vel og lengi en maður vill sjá okkur gera betur en þetta(og í Burnley leiknum).

  Maður leiksins: Mane var áræðin allan tíman, skoraði og maður sá að honum var alls ekki sama.

  Tveir leikir eftir Chelsea heima og Newcastle úti og vona ég að liðið klárar mótið af smá krafti.

  10
  • Virgil mjög slakur í kvöld, virkaði áhugalaus og í fyrsta markinu hjá Arsenal var þetta mjög veikt. Ef þetta hefði Skrtel eða einhver í þeim gæðaflokki þá yrði hann jarðaður eftir leik. VVD er hins vegar búinn að vinna inn fyrir þessu eins og Alisson en mistök VVD pirra mig mun meira, ekkert annað en kæruleysi og ekki einu sinni byrja að tala um brot. Það er aldrei gefið á svona í EPL.
   Annars ótrúleg úrslit, skil ekki hvernig við töpuðum þessum leik, Arteta leggur upp með Tony Pulis taktík og á einhvern ótrúlegan hátt vinnur. Sama og með Burnley leikinn, ótrúlegt en samt sem áður þurfa lykilmenn eins og t.d. Salah að girða sig í brók. Einu sem voru með lífsmarki voru Gomez, sem var mjög góður og með margfalt meiri áhuga en VVD og Mane, aðrir voru ekki að sýna sitt rétta andlit.

   4
 2. Sælir félagar

  Mér er sama hvað hver segir ég er brjálaður yfir þessari frammistöðu Liverpool Í undanförnum leikjum. Það er ekki boðlegt af meisturum að spila svona og verjast eins og gert var í þessum leik. Og sóknin, yfir 20 skot á markið og 1 mark segir meira um gæði skotanna en gæði leikmanna. Flest skotann voru ömurlega léleg og vandalaust að verjast þeim. Varnarframmistaða í fyrri hálfleik var með þeim hætti að til stórskammar er og vekur manni skelfingu. Maður er kominn með gömlu tilfinninguna “hvað ætli klikki núna” og kvíðir fyrir leikjum í stað þess að hlakka til

  Ég beinlínis skammast sín fyrir frammistöðu liðsins í öllum leikjunum nema gegn Crystal Palace. Það hefur enginn meistarabragur verið á þessu liði síðan sá leikur var leikinn og meistartitiillinn var í höfn.Það öskrar líka á mann ef ekki á að kaupa neitt inn í þetta lið sem er að skíta á sig leik eftir leik. Það virðist vanta allan metnað og vilja til að standa sig og svo eru verið að nota farþega eins og Uxann leik eftir leik. Mér rennur kalt vatn milli skins og hörunds að hugsa til næstu leiktíðar með þennan mannskap eins og hann er að spila núna.

  Það er nú þannig

  YNWA

  10
  • Leit að þú misstir af Brighton og Villa leikjunum. Nú ef þú gerðir það ekki þá er ansi erfitt að þóknast þér.

   2
   • Frammistaðan í >Villa leiknum var ekki til að hrópa húrra fyrir þó honum væri komið í höfn með litlum glæsibrag. Sama má eiginlega segja um Brigton leikinn þó hann hefðist líka. Svo eru þessi leikur, leikurinn gegn Burnley og M. City leikurinn sem voru ömurlegir. C. Palace er eini leikurinn sem liðið hefur sýnt meistaratakta í svo einfalt er það.

    5
   • En alltaf notar þú öll tækifæri sem gefast til ausa úr skálum reiðin þinnar yfir þitt lið.

    Margoft hefur þú kallað leiðsheildina og einstaka leikmenn aumingja og margoft hefur þú sagst skammast þín fyrir frammistöðu liðsins í vetur og undanfarin ár reyndar líka. Svo einfalt er það.

    Skammastu þín ekki líka fyrir þessa fjóra titla sem liðið hefur unnið á síðustu 14 mánuðum? Liðið sem þú kvíðir á að sjá á næstu leiktíð. Eða ertu kannski bara tækifærissinni?

    12
 3. Snillingar gera mistök eins og aðrir. Í dag kostaði þetta 2 mörk sem orsakaði tap.
  Það sem er hægt að gagnrýna finnst mér, er að við náum ekki að brjóta upp vörnina hjá Arsenal. Leyfum þeim að liggja allt of mikið aftur og múra sig svo inni í markinu nánast.

  En við erum samt MEISTARAR !!!!

  5
 4. Úff hvað þetta var dapurt – pirringur núna leik eftir leik. Okkar traustustu menn að gefa mörk á silfurfati gegn liði sem gat ekki blautan skít – ömurlegt á að horfa! Hvað er í gangi? Það fer allt á hliðina þegar Hendo dettur út!

  Get ekki að því gert að Salah pirrar mig meira með hverjum leiknum – þetta eilífa klapp og dútl með boltann í teignum og æfingaboltar á markið. Firmino týndur í markaskorun en er að vinna vel fyrir utan teig og skapa færi en því miður….. okkur vantar markaskorara af guðs náð til að klára þetta, þá meina ég alvöru “striker” – Salah er ekki þar.

  Mane að standa sig og kom öflugri til leiks í seinni – Keita sprækur, mér líkar þessi “direct” bolti sem hann er að spila – vantar meira svoleiðis hjá fleirum, þetta er of “kerfisbundið” og fyrirsjáanlegt.

  Segi aftur, ég trúi því ekki að óreyndu að við styrkjum okkur ekki nú síðsumars þegar glugginn opnar – annað á eftir að koma í bakið á okkur!

  YNWA

  3
 5. Sæl og blessuð.

  Úff hvað það hrópar á mann að breytinga sé þörf.

  1. Origi – bara það fyrsta sem poppar upp í hugann. Gerum af honum styttu, Nefnum einn innganginn á Anfield eftir honum, hneygjum höfuð okkar í lotningu í hvert sinn sem nafn hans ber á góma … en hann er hættur að bjóða upp á nokkurn skapaða hlut. Hann er enginn supersub, game changer eða hvað eina. Hann kemur inn, valhoppar, skottast um völlinn með þennan furðusvip en það er ekkert þarna sem kemur lengur á óvart. Sorrí glókollur en þetta er bara ekki sniðugt lengur.
  2. Minamino – er af einhverjum ástæðum næstur. Er hann dæmi um að stjórnin sé farin að fyllast einhverri oftrú á sjálfri sér. ,,Kaupum þennan gaur” – vinnur vel, skoraði gegn okkur, … u … hleypur um, en vantar haug af vöðvum, sjálfstrausti og agressjón. Er hann að læra á leikstílinn? Ég skal ekki segja. Hann bara dettur þegar þeir fara í hann. Átti vissulega skot á markið en gæðin eru bara ekki Liverpool class.
  3. Firmino – sem er jú sá sem mino leysti af. Ég er alveg hættur að hafa húmor fyrir níu sem virðist ekki hafa minnstu trú á því að hún geti skorað.
  4. Salah. Hvað getur maður sagt? Jú, ef mistök Alisons og Virgils voru katastrófur – hvað þá um færin sem Salah fékk í leiknum? Var það ekki jafn dapurlegt að skora ekki með frían skalla og fleira sem var borið á borð fyrir hann? Mark er mark.
  5. Gini og Fabinho – jú, menn eru mannlegir og allt það. Iðnaðarvörn þarf auðvitað baneitraða framherja. Þegar því er ekki að heilsa þá verður þetta bara eins og hver önnur fjöldaframleiðsla.
  6. Virgill og Alison – Varnarmenn gera ein mistök og eru krossfestir. Það er bara þannig. Fullt af plássi og tíma – framan af í leiknum en ekkert kom út úr því.
  7. Trent og Robbo – hvaða ónákvæmni er þetta í sendingum? Pláss og tími illa nýtt. Hélt við værum að fara í flugeldasýningu eftir stoðsendingu Robbo en …
  8. Mané – flott mark en það er eins og hann hafi vantað einhverja kemistríu í kringum sig.
  9. Chambo – hrikalega sárt en hann er ekki í Liverpool gæðum lengur. Náði sér aldrei úr meiðslunum.
  10. Keita – er það bara ég eða átti hann ekki að byrja frekar en ,,much ado about nothing” hér að ofan?
  11. Henderson – hvað verður um liðið þegar hann sest í helgan stein??? Töpum við þá öllum leikjum???

  Walk on walk on … Bless: origi og chambo og nú þurfum við beinskeyttari leikmenn.

  7
 6. Ekki sammála með Minamino hann gæti orðið flottur leikmaður en þarf meiri tíma, sýndi smá takta í þessum leik en þarf að sýna meira

  4
 7. Stundum koma mörkin ekki en liðið spilaði vel. Stundum koma dýr mistök sem kosta mörk en liðið spilaði vel. Nú ef svo vill til að þetta gerist í sama leiknum þá tapar maður undantekningarlaust.

  Það þarf ekkert að pirra sig á þessu. Nú ef Klopp vil styrkja hópinn enn frekar þá hljóta svona úrslit að hjálpa honum með það. Lítum á björtu hliðarnar við erum bestir, ekki lýgur taflan.

  6
 8. Met eða ekki met… Við erum meistarar og auðvitað er erfitt að halda haus þegar við erum búnir fyrir löngu að vinna deildina.

  4
 9. Ég er gamall stuðningsmaður Liverpool. Man vel eftir þeim tíma þegar Liverpool var stórveldi í fótbolta. Liðið spilaði á köflum vel í gær eins og í nánast öllum leikjum vetrarins en einbeitingarleysi og mistök lykilmanna kostuðu okkur sigurinn. Þeir eru einfaldlega ekki með rétt hugarfar og það er eins og þeir haldi að hlutirnir gerist af sjálfu sér. Einnig visst ofmat eins og sást vel hjá Virgill og Alisson. Fyrir stuðningsmenn Liverpool um allan heim sem hafa beðið svo lengi eftir Englandsmeistaratitlinum þá eru frammistöðurnar eftir coronahléð eins blaut tuska í andlitið á þeim og virðingarleysið er algert eins og dóttir mín sagði sem elskar Liverpool og slökkti á sjónvarpinu í hálfleik “ nú er nóg komið pabbi ég get bara ekki horft þá því þeir spila ekki eins og meisturum sæmir”. Ég fór strax að hlægja en ég verð bara að játa að það eru mikil sannleikskorn í þessu. Svona frammistöður eru vanvirðing við stuðningsmenn Liverpool. Þvílík vonbrigði með hugarfarið leik eftir leik þegar maður á að njóta þess á þessum sumarmánuðum að vera stuðningsmaður liðsins sem maður elskar. Ég ætla ekki að gagnrýna einstaka leikmenn eins og margir gera. Við vitum að þeir allir eru frábærir í fótbolta . Að dæma þá út frá frammistöðum í síðustu leikjum er hlægilegt. Klopp hefur heldur ekkert með þetta að gera. Allir leikmenn liðsins þurfa að fara í naflaskoðun. Svo einfalt er það. Sú gleði og ánægja sem ég upplifði þegar þeir urðu meistarar er að snúast upp í andhvefu sína. Pirringur og óánægja með mína menn.

  14
 10. Eru menn orðnir gjörsamlega veruleikafirrtir hérna og strax komnir í svartsýnisraus. Menn farnir að rakka hvern einasta leikmann liðsins niður svaðið og farnir að setja spurningamerki við getu þeirra og hvort þeir séu í Liverpool klassa. Sömu leikmenn og eru hluti af liði sem rústaði ensku deildinni með einum mesta stigamun sem þekkist í sögu deildarinnar.

  Það að menn séu að skammast sín fyrir liðið og lýsa yfir óánægju sinni með frammistöðu liðsins á þessum tímapunkti er einfaldlega hroki og vanvirðing við liðið. Sorry, en liðið á ekki skilið svona frá sínum “stuðningsmönnum”.

  Er það virkilega ófyrirgefanlegt að liðið eigi örfáa off leiki á einu tímabili? Sérstaklega í ljósi þess að flestir af þeim koma eftir að liðið vann sinn fyrsta meistaratitil í 30 ár og hefur að engu sérstöku að keppa. Það er eðlilegt að menn pirri sig eftir tapleiki en menn eiga nú að geta horft framhjá því og náð sér tiltölulega fljótt eftir alla þá velgengni og gleði sem liðið hefur fært stuðningsmönnum á þessu tímabili. Hvað mig varðar þá hef ég aldrei verið stoltari af mínu liði og þó svo að þeir lendi í að tapa leikjum, stigum eða gera mistök á vellinum þá leggst ég ekki svo lágt að skammast mín fyrir félagið.

  19
  • Vel mælt. Það er erfitt að átta sig á því hvað hrjáir suma sem tjá sig hérna inni á spjallinu en þeim virðist því miður líða eitthvað illa og telja sig þurfa að taka það út á okkar frábæra liði og leikmönnum sem hafa lagt allt sem þeir eiga til andlega og líkamlega í að vinna langþráðan titil.
   YNWA

   3
  • Sammála Einari. Skrítið að detta inn á spjallið og lesa neikvæðnina sem þó er í gangi hjá nokkrum stuðningsmönnum.

   Ég bara gæti ekki verið ánægðari með Liverpool þessa dagana og menn virðast búnir að gleyma hversu gríðarlegt átak þurfti til að landa meistaratitlinum. Þá hjálpaði Covid ekki.

   Markmiðið er að verða meistari aftur að ári og úrslitin núna sýna að við verðum að vera 100% á tánum til að slíkt náist. Ég lái leikmönnum ekki þótt þeir sýni að þeir séu mannlegir eftir það sem á undan er gengið. Þeir verða bara að mæta með öll ljós kveikt í upphafi næstu leiktíðar.

   Við erum meistarar og nákvæmlega ekkert getur dregið úr ánægju minni að halda með Liverpool nema þá kannski einstaka nöldur hér á síðunni.

   Áfram Liverpool!

   1
 11. Ég vil samt hrósa Joe Gomez eftir þennan leik, hann var einfaldlega frábær og virkilega skemmtilegt að sjá hversu yfirvegaður hann er á boltanum þegar hann er að spila úr vörninni. Hann og Mane voru bestu menn leiksins í gær.
  Leiðinlegt að tapa þessum leik því að yfirburðirnir gátu varla verið meiri og Liverpool yfirspiluðu þá í 80 mín en því miður þá klikkuðu 2 lykilmenn í gær og gáfu þennan leik frá okkur.
  Núna þurfa menn að gíra sig upp og klára Chelsea leikinn og helst enda tímabilið með táknrænum 96 stigum og vinna tímabilið þannig.

  5
 12. Sammála þeim sem segja að við þurfum að hafa einhvern annan til að skipta inn á heldur en Origi, ég reikna með að t.d. Brewster komi sterkur inn næsta vetur – vonandi.
  En varðandi þennan leik – Liverpool yfirspilaði Arsenal. Það gerist ekki á hverju ári og um að gera að njóta þess þrátt fyrir tapið.
  Ástæðan fyrir tapinu eru tvö einstaklingsmistök frá mönnum sem gera eiginlega aldrei mistök, augnabliks einbeitingarleysi. Mögulega kemur einbeitingarleysið vegna þess að liðið er búið að sigra deildina með yfirburðum, mögulega spilar einnig inn í tómir vellir og mögulega vantar leiðtoga inn á völlinn þegar Henderson er meiddur.
  En ég er stoltur af mínum mönnum og tek alls ekki undir með þeim sem sjá ekkert jákvætt við liðið í gær – en kannski hefði ég skrifað eitthvað annað ef ég hefði gert það fimm mínútum eftir leik.

  4
 13. Sælir félagar

  Maður á aldrei að skrifa status strax eftir vonbrigðaleik. Það býður uppá sleggjudóma og leiðindi sem eru ástæðulaus. Aðvitað var niðustaða leiksins í gær vonbrigði en enginn heimsendir. Eins og Klopp sagði þá voru einstaklingsmistök ástæða tapsins og þau gerast óhjákvæmilega í fótbolta. Mennirnir sem gerðu þau VvD og Alisson eiga hinsvegar svo gífurlega innistæðu að svona mistök einu sinni á leiktíð er í reynd auðvelt að fyrirgefa.

  Ég bið liðið í heild og þó sérstaklega VvD, Alisson og Klopp afsökunar á skrifum mínum í gær kvöld. Einnig bið ég félaga mína, stuðningmenn liðsins, afsökunar á geðvonsku minni og að láta vonbrigðin leiða mig í gönur. Liðið yfirspilaði Arsenal allan leikinn og andstæðingarnir áttu ekki nema eina sókn þar sem þeir bjuggu til marktækifæri sjálfir. Það segir í raun allt sem segja þarf um þennan leik. Lifið heil.

  Það er nú þannig

  YNWA

  23
  • Jú, maður á heldur betur að skrifa status eftir vonbrigða leiki(stundum gott að koma þessu út). Það er nefnilega allt í lagi að láta pirring, gremjum, reiði og vonbrigði í ljós einfaldlega af því að Liverpool skiptir mann svo miklu máli með þeim formerkjum að maður er líka tilbúinn að hrósa og vera glaður þegar vel gengur (c.a 95% af leikjunum í vetur)
   Svo má líða smá tími og maður sér þetta aðeins í stærra samhengi að við erum meistara, með okkar besta lið í sögunni, vorum að spila heilt yfir bara flottan fótbolta gegn liði sem pakkaði í 11 manna varnarpakka sem Móri hefði verið stoltur af.

   Þetta lið okkar er komið til að vera í toppbaráttu undir stjórn Klopp. Það er byggt á góðum grunni og það þarf bara að fínpússa það öðru hvoru og vonandi gera okkar menn það í sumar. Maður veit ekki hvernig framtíðinn verður og kannski verður þetta eini deildartitill með Klopp því að Man City/Chelsea eru að fara að kafa annsi djúpt í vasa eiganda sinna(fyrst að FFP virkar ekki) og má því reikna með stjörnuliði á þeim bæjum ár eftir ár en maður eiginlega vill ekki skipta við stuðningsmenn þessara liða því að maður finnst eins og að við erum að gera þetta á réttan hátt, gefa sér tíma og þróa lið og leikstíll í meistaralið með því að bæta það sem fyrir er en ekki alltaf vera fylla upp í göt með seðlum

   YNWA – SigKarl og megi þú hrósa og gagnrýna okkar lið að vildi enda er þetta algjör rússibani að styðja Liverpool en núna loksins eru við á toppnum 🙂

   10
  • Sigkarl Þú ert oft með fyrstu mönnum til að hrósa líka það má stundum pústa út.

   YNWA

   4
 14. Timburmennirnir halda áfram. Yfirburðir miklir út á vellinum en vantar mörkin. Ekkert alvarlegt að tapa svona leik, vorum miklu betri en bara ekki lukka okkar megin. En þetta vonandi opnar augu Klopp fyrir styrkingu fram á við. Höfum lítið keypt fram á víð eftir að við seldum Coutinho, Sturridge og núna fer Lallana.

  Við getum ekki treyst á fremstu þrjá til að spila alla leikina og performa alltaf og hvað þá ef einhver meiðist í lengri tíma. Origi og Minamino og Shaq eru bara númeri of litlir til að fylla þessi skörð. Það er fullreynt og tölfræði þeirra í ár segir það sem segja þarf. Minamino er kannski sá sem gæti verð fínn á bekkinn en ekki meira.

  Ég held að allt tal um að fá inn unga menn eins og Brewster, Elliot ofl. er bara ekki að fara skila okkur titlum á næstu leiktíð. Það er bara staðreynd að bestu klúbbarnir sem eru að berjast um titla í sínum deildum “framleiða” ekki mikið af leikmönnum sem komast í byrjunarlið sinna liða. Við erum aðeins með kannski örfá eins og Trent, Foden og Rashford sem virðast ná að brjóta ísinn.

  3
 15. 2019 var okkar besta ár. Enduðum með 97 stig og urðum Evrópumeistarar. Unnum svo hér um bil alla leiki fram að áramótum.
  Nú er svo komið að þrátt fyrir góða byrjun á þessu ári, að talsverðar líkur eru á því að við náum ekki uppí 97 stig (skiptir svo sem engu) og erum dottnir út úr CL.
  Mann í stað Origi og jafnvel annan miðjumann. Þurfum svo mann til að keppa við Robbo um stöðuna hans því leikjaálag verður meira en nokkru sinni.
  YNWA.

  7
 16. Ég er ekki stuðningsmaður Liverpool en skil ekki þessa áráttu varðandi stigametið. Þetta tímabil varð að algjöru rugli út af COVID og Liverpool getur þakkað fyrir það að hafa verið búið að rústa deildinni svona rækilega á þeim tímapunkti. Ef titillinn ynnist í þessu ástandi sem núna ríkir væri sett spurningarmerki við hann um allar aldir (“asterisk title” eins og Kaninn orðar það).

  Ef stigametið hefði verið slegið held ég að menn hefðu sett stjörnu við það og sagt að endirinn á mótinu hefði bara verið eitthvað rugl. Liverpool hefði auðveldlega náð 100 stigum ef tímabilið hefði klárast á eðlilegan hátt, en í þessu ástandi get ég ekki ímyndað mér hversu erfitt það er fyrir leikmenn Liverpool að gíra sig upp í þessa leiki.

  16
 17. Mín kenning er að forsetar séu valdir en ekki kosnir, og kosningaúrslit kölluð en ekki talin.

  1

Byrjunarliðin á Emirates Stadium

Verulega vanmetin árangur