Brighton 1-3 Liverpool

Englandsmeistararnir unnu enn einn sigurinn á leiktíðinni í kvöld þegar liðið vann fínan sigur á Brighton í ansi líflegum leik þar sem tvö mörk frá Mo Salah og eitt frá Jordan Henderson tryggði 3-1 sigur á útivelli.

Þetta er 30. sigurleikur Liverpool í deildinni og hefur ekkert lið verið eins fljótt að ná þessum fjölda sigurleikja og Liverpool sem tókst það í 34 leikjum. Þetta er aðeins einn af ansi mögnuðum áföngum og metum sem Liverpool liðið gæti slegið í vetur. Þegar fjórir leikir eru eftir er Liverpool nú aðeins níu stigum frá því að bæta stigamet Man City í deildinni sem er 100 stig en liðið er nú með 92 stig eftir 34 umferðir. 92 STIG!

0-1 Mo Salah 6.mín
0-2 Jordan Henderson 8.mín
1-2 Leandro Trossard 45.mín
1-3 Mo Salah 76.mín

Leikurinn
Klopp róteraði liðinu sínu aðeins fyrir þennan leik. Neco Williams byrjaði sinn fyrsta deildarleik og var í vinstri bakverði í stað Andy Robertson sem var eitthvað stífur í kálfanum. Chamberlain tók stöðu Sadio Mane á vinstri vængnum og Keita byrjaði á miðjunni í stað Fabinho.

Englandsmeistararnir byrjuðu af miklum krafti og skoraði Mo Salah fyrsta markið á 6.mínútu þegar hann mætti sendingu Naby Keita sem hafði unnið boltann rétt utan vítateigs Brighton og skoraði með fínu skoti. Augnabliki síðar lagði Salah boltann á Jordan Henderson sem skoraði með góðu skoti fyrir utan teig og Liverpool með 2-0 forystu eftir átta mínútna leik.

Liverpool átti sínar rispur en það kom mikið líf í Brighton sem eru enn að berjast við að halda sæti sínu í deildinni þó að þeir séu í þægilegri stöðu en mörg önnur lið þá er greinilegt að þeir vilji gulltryggja þetta sem allra, allra fyrst. Þeir voru að valda Liverpool töluverðum vandræðum og skoruðu laglegt og verðskuldað mark rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar Trossard mætti fyrirgjöf Lamptey sem var mjög sprækur í leiknum.

Brighton olli Liverpool hugarangri í leiknum en mér fannst þó ekki sem Liverpool hafi eitthvað verið að missa tökin á leiknum og verið eitthvað heppnir að hanga á þessu. Leikurinn var mjög hraður og opinn á báða bóga svo hann var að mér fannst nokkuð skemmtilegur.

Seinni part síðari hálfleiks fór Liverpool þó að herða tökin og kláraði Salah leikinn með góðum skalla á nærstöng eftir hornspyrnu Andy Robertson. Liverpool fékk svo nokkur góð tækifæri til að bæta við fleiri mörkum, Salah átti tvö ágætis tækifæri, Wijnaldum skallaði rétt yfir af stuttu færi og þeir Mane og Minamino komust í ágætis stöður.

Leikurinn var svo flautaður af og Liverpool verðskuldaður sigurvegari og heldur áfram að bæta við stigum á töfluna þó deildin sé löngu unnin og sigrarnir verða vonandi fjórir í viðbót!

Bestu menn Liverpool
Naby Keita átti frábæran leik að mér fannst. Hann var að vinna boltann mjög vel í hápressunni og gerði allt það sem Naby Keita á að vera að gera á miðjunni hjá okkur. Jordan Henderson var einnig að mér fannst mjög góður, hann stýrði spilinu vel, var nokkuð góður í varnarvinnunni og skoraði glæsilegt mark. Vonandi eru meiðsli hans ekki alvarleg en hann fór útaf rétt undir lok leiksins.

Virgil Van Dijk, afmælisbarnið sjálft, var einnig frábær í miðverðinum. Hann átti háloftin og swag-ið í leiknum hans, maður lifandi! Þegar hann var að dekka mann, elti bolta í loftinu, skallaði hann fyrir sjálfan sig og snéri á sóknarmanninn án þess að hækka í púlsi vá bara!

Ég ætla að skella maður leiksins titlinum á Mo Salah. Tvö mörk og stoðsending í dag, hann hefði átt að skora þrennu og það var snilld að sjá hve fúll hann var við sjálfan sig þegar hann klúðraði ágætis færi í restina. Hann vildi þrennuna og vill markatitilinn þriðja árið í röð og hann er nú með 19 mörk og 9 stoðsendingar í deildinni, tveimur mörkum á eftir Jamie Vardy. Það skildi þó aldrei vera að hann næði þessum gullskó aftur!

Næsta verkefni
Næsti leikur verður heima gegn Burnley um helgina. Burnley vann West Ham í dag og eru í Evrópudeildarpakkanum, þetta er lið sem getur verið erfitt að spá fyrir um hvernig verður því þeir geta verið algjörir jólasveinar og þeir geta verið ansi erfiðir viðureignar. Sjáum hvernig þetta verður um helgina, Liverpool setur stefnuna á að vinna alla heimaleiki sína í deildinni á leiktíðinni og verða fyrsta liðinu sem tekst það svo vonandi heldur það áfram gegn Burnley og Liverpool tekur stórt skref í átt að stigameti í leiðinni.

13 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Brighton liðið er alveg frábært og væri virkilega gaman ef það næði að hanga uppi í efstu deild. Þeir sóttu vel og börðust, lögðust aldrei í vörn, léttir og liprir. Miklu dýrari lið dirfast ekki til að spila svona mikinn sóknarleik gegn okkar fagurrauða her.

    Að okkar liði:

    1. Chambo þarf að bæta sig, enn einn leikurinn þar sem mér finnst hann ekki vera í takti.
    2. Gaman að sjá kraftinn í Neco. Robbo er samt nokkrum klössum betri.
    3. Keita var betri en ég hef áður séð hann. Vann hvern boltann á fætur öðrum, amk í fyrri hálfleik og átti stóran þátt í þessum tveimur mörkum.
    4. Firmino er svo einhver markfælnasti sóknarmaður sem ég hef séð. Það var fallega gert að láta boltann fara framhjá sér í marki Salah en trekk í trekk sýndi hann að rándýrseðlið sem á að vera greypt í DNA hverrar 9 er bara ekki að finna í hans kjarnsýrum. Aldrei sýnir hann hvöt til að skora og þegar hann skýtur er eins og hann sé þegar búinn að ákveða að boltinn fari ekki í mark.
    5. Salah var stórbrotinn. Það er svo gaman að sjá leikmann sem berst eins og óður, fer í hvert hlaup og hamast í hverjum leik. Sá var að standa sig.
    6. Ægilegur gæðamunur á Chambo (sbr. #1) og Mané.
    7. Gomezinn hefur átt betri leiki en þetta slapp nú allt hjá honum.
    8. Hugsa um VvD þegar ég vil sofna snemma á kvöldin. Þvílík yfirvegun.
    9. Hendo er vonandi heill heilsu – gríðarlega þýðingarmikill sem hann er.
    10. TAA – oft klaufskur í fyrirgjöfum og missti stöku sinnum boltann.
    11. Becker – jamm sá besti.

    Leikurinn breyttist skuggalega mikið þegar allt var orðið eins og það átti að vera – aðalmenn í hverri stöðu. Það segir manni að breiddin er ekkert til að hrópa húrra fyrir og enn bíðum við eftir að sjá hvað þeir sáu við Mini-me (sorrí).

    En þetta var sumsé met, ekki amalegt það.

    5
  2. Salah og Keita okkar besti menn í kvöld og var gaman að sjá Salah fúlan að hafa ekki skorað fleiri(alvöru markaskorari þar á ferð).
    Eftir að við komust í 0-2 þá hélt maður að við myndum keyra yfir þá en svo var aldeilis ekki, Brighton áttu góðan kafla og skoruðu sangjarnt á meðan við vorum sofandi í varnarleiknum.
    Síðarihálfleikur var í járnum þangað til að Fabinho/Mane komu inná fyrir Keita/Ox. Já Keita hafði verið okkar besti maður í fyrirhálfleik en með þessari skiptinu komst betra skipulag og flæði í okkar leik og fannst manni við taka öll völd. Salah kláraði leikinn með frábæru skallamarki og sangjarn sigur í höfn en við voru samt klaufar að skora ekki fleiri mörk síðustu 10 mín.

    Salah bestur heilt yfir, Keita bestur í fyrirhálfleik, Henderson mjög solid, Alisson með nokkrar fínar vörslur en var í smá sendingarvandræðum, Neco átti ágæta spretti en tapaði boltanum á hættulegu svæði tvisvar og var kominn með gult spjald og var ágæt að sjá Andy koma inná í hálfleik en Andy kom af miklu krafti inn í leikinn.

    92 stig eftir 34 leiki og eiginlega eina slæma við þennan leik var að Henderson meiddist og þurfti að fara af velli og vonandi er þetta ekkert alvarlegt.

    Næsti leikur er Burnley á heimavelli sem eru komnir í Evrópubaráttu eftir fínan útisigur á West Ham í dag.

    YNWA

    6
  3. Það sást greinilega í þessum leik að þó svo að Neco Williams sé þrælefnilegur og mjög líklega framtíðarleikmaður, að þá er bilið á milli hans og Robbo heilmikið. Skárra væri það nú, drengurinn er ennþá blautur á bakvið eyrun! En það að hafa örvfættan vinstri bakvörð með réttfættum vinstri kantmanni – sérstaklega í gæðaflokknum sem Robbo og Mané eru – er bara ljósárum betra heldur en hvernig þetta var í fyrri hálfleik með Neco og Ox. Það má segja að sem stendur eru bæði Neco og Minamino svona leikmenn eins og voru í Liverpool liðinu sem Klopp tók við (líklega svolítið betri samt): fínir fótboltamenn en ekki endilega leikmenn sem skipta sköpum þegar á reynir. En það er eitthvað sem gæti vel breyst með meiri reynslu, og eftir atvikum með nokkrum heimsóknum í lyftingasalinn.

    Núna er spurningin bara hvort Klopp sé að nota þessa síðustu leiki á leiktíðinni til að skoða hvort þessir leikmenn fyrir aftan fyrstu 11 séu nægilega góðir til að koma inn ef einhver meiðist eða til að hvíla menn. Manni finnst eins og að Keita sé alveg á góðri leið með að spila sig inn í slíkt, það sem hann vantar er kannski ögn meiri stöðugleiki og að ná að haldast heill yfir lengri tíma. Það bara vill til að þessir leikmenn sem eru í þessum hóp (þ.e. þeir sem koma á eftir fyrstu 11) eru að slást um að komast í líklega besta lið í heiminum í dag og eitt allrabesta lið sem Liverpool hefur nokkurntímann átt, áskorunin verður nú varla stærri!

    6
    • Já og … bla bla bla . Mátt vera beittari Daníel, segðu bara það sem þér finnst. Þú hefur ábyggilega margt fram að færa 😉

      1
  4. Mikilvægur sigur í erfiðum leik. Bráð nauðsyn að halda okkar gangandi, þó svo að við náum líklega ekki stigametinu í ár.
    Svona sigur sýnir að við erum fullfærir að veita öðrum liðum samkeppni um titilinn á næsta ári. Robertson minnti á sig með stoðsendingunni á Salah, en hann er einn þeirra sem að ég tel að hafi dalað hvað mest frá áramótum.
    Hendo frábær enn og aftur, leikmaður tímabilsins í PL. Dalað hvað minnst.
    Hópurinn þarf að halda vel á spöðunum í ágúst þegar að samkeppnisaðilar okkar halda í gleði Evrópukeppna, þannig að við mætum ekki flatir inn í næsta tímabil.
    YNWA.

    3
  5. Flottur sigur hjá frábæru liði.

    Það er ekki annað hægt að dáðst af þessu liði okkar. Löngu búnir að tryggja sér titilinn en samt að ná að halda svona gífurlega tempói og hungrinu. Þeir ætla greinilega að tryggja það að þeirra verður minnst sem BESTA liði sem spilað hefur í efstu deild í Englandi. Nái þeir stigametinu getur ENGIN fært rök gegn því.

    2
  6. Van Dijk. Maður er farinn að taka svona frammistöðum sem sjálfsögðum hlut. Brighton menn voru ágengir á köflum en Big Man var vandanum vaxinn.

    Williams. Var oft í vandræðum, þó svo krafturinn og hugarfarið sé til fyrirmyndar. Það sást vel að hann er ekki vanur að spila vinstra megin.

    Hendo. Finnst hann bestur sem aftasti miðjumaður. Dásamlegt hvað hann er að sýna mikinn stöðugleika.

    Winjaldum. Oft finnst manni hann of passívur og þannig var það í kvöld þó hann hafi leikið vel.

    Keita. Sýnikennsla í hvernig á að spila pressubolta. Síógnandi en vann líka vel til baka. Þetta er ástæða þess að maður var svo spenntur fyrir honum. Hann er enn aðeins 25 ára og á sín bestu ár eftir. Megi þau vera hjá Liverpool.

    Salah. Einfaldlega Salah á góðum degi. Allaf að koma sjálfum sér og öðrum í færi. 2 mörk og stoðsending.

    Ox. Breiddin sem við höfum á kantinum lítil sem engin. Ox hefur haldist meiðslalaus í langan tíma og þess vegna eru frammistöður hans í síðustu leikjum áhyggjuefni, (reyndar finnst mér hann ekki hafa verið góður allt tímabilið). Munurinn eftir að Mane kom inná var aðeins of mikill.

    Robbo. Minnti á sig eftir að hann kom inná. Næsta tímabil verður mjög þétt og við þurfum samkeppni og cover fyrir Skotann.

    5
  7. Sælir félagar

    Góður sigur gegn spræku liði BHA. Keita kom sér endanlega af sölulistanum með frábærri frammistöðu meðan hann var inná. Þar sást hvað Klopp var að kaupa á sínum tíma og vonandi heldur þessi þróun áfram hjá Keita og hann haldist heill. Það öskrar á mann að það vantar mann í fremstu víglínu sem er af sama gæðaflokki og Mané, Firmino og Salah. Ox og Minamo eru bara einum til tveimur númerum of litlir því miður.

    Graeme Souness er að skíta í Salah fyrir eigingirni en hvernig á markamaskína að hugsa – mér er spurn. Salah með tvö mörk og stoðsendingu og í baráttu um gullskóinn sér ekkert annað en markið og vinnuframlag hans í leikjum er ótrúlegt. Herra Souness má mín vegna finna sér einhvern annan til að pönkast á.

    Svo er ekki hægt að sleppa því að minnast á VvD sem er ótrúlegu leikmaður og í sama klassa og Salah í sinni stöðu. Eins og einhver minnist á þá mætti Firmino vera gráðugri en framlag hans í leikjum er ómetanlegt þó markaskorun vanti. Munurinn á Ox og Mané er með ólíkindum og Mino er duglegur en á ekki roð í þrjá fremstu frekar en Uxinn. Vonandi eigum við þó eftir að sjá af hverju Mino var keyptur.

    Enn berast fréttir af því að Kai Hawertz sé á leiðinni til dökkbláa olíuliðsins og mér finnst það einfaldlega ekki ásættanlegt meðan ekkert bakkupp fyrir þá þrjá fremstu sem nær máli er í meistaraliði Liverpool. Ég trúi ekki öðru en ráðamenn á Anfield girði sig í brók og kaupi mann á borð við Hawertz, mann sem nær máli og yrði í framtíðarplönum liðsins. Menn á þrítugsaldri þó sæmilegir séu eru ekki svarið við þessum skorti

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
    • Ég setti þetta komment inn á frétt á fotbolti.net. Tölfræðin er fengin af heimasíðu úrvalsdeildarinnar.

      Þessi gríðarlega sjálfselski leikmaður er engu að síður sá framherji sem er með flestar stoðsendingar (9), ásamt Son Heung-Min og Adama Traoré. Og í heildina er hann í þriðja sæti, ásamt þeim fyrrnefndu og Andrew Robertsson og David Silva. Það er nú öll eigingirnin

      5
  8. Furðulegt að sja hversu mikið af vítum MU fá á þessu tímabili miðað við t.d. Liverpool. Vilja menn ekkert ræða þessi mál? Að mínu mati er þarna verið að reyna að tryggja þeim CL-sæti. Það er svo augljost!

    4
    • Ég held að það sé ekkert verið að hjálpa neinu liði en þetta er samt stundum furðulegt.

      Man utd 13 víti
      Man City 10 víti
      Leicester 7 víti
      Chelsea 7 víti
      Watford 5 víti
      Liverpool 5 víti

      s.s Liverpool sem er eitt mest sókndjarfasta lið deildarnar og eyðir miklum tíma í vítateig andstæðinga er búið að fá jafnt mörg víti og Watford og 8 færri en Man utd sem meirihlutan á tímabilinu var að spila hundleiðinlegan fótbolta þar sem sóknarleikurinn var ekki merkilegur. Meiri segja Man City sem er með heimilisfang í vítateig andstæðingana hafa ekki náð nágrönnum sínum í vítum.

      Það er ekki hægt að segja að Liverpool hafi verið að græða eitthvað á VAR í vetur eða dómgæslu sem gerir þessa slátrun á deildinni bara skemmtilegri fyrir vikið.

      7
      • Ég finn skítafýlu af þessu. Það er nefnilega fnykur af mjög mörgu og FA er þar engin undantekning.

        EN, það verður aldrei hægt að segja að við höfum ekki unnið deildina á öruggan og sanngjarnan hátt. Það verður ekki hægt að segja um manhjúdd þegar þeir tryggja sér CL-sætið fyrir næsta tímabil.

        1

Byrjunarliðið gegn Brighton

Upphitun: Liverpool – Burnley