Man City – Liverpool 4-0

Það er svo sem ekki mikið að segja eftir þetta. Sleggjudómar og annað slíkt eiga auðvitað ekki rétt á sér og maður hafði alveg velt fyrir sér hvernig Liverpool liðið kæmi stemmt til leiks. Við sáum það ágætlega, þeir voru í hlutlausum og varla það.

Heimamenn stóðu heiðursvörð í upphafi leiks og það var líka í eina skiptið í dag sem var klappað fyrir Englandsmeisturunum. City menn mættu hungraðir til leiks og þó að Liverpool hafi á köflum spilað ágætlega í fyrri hálfleik þá var ljóst þegar það fór að líða á hann að kvöldið yrði okkur erfitt og ekki margir, utan Klopp, sem tóku verkefninu alvarlega.

1-0  – 25 min, De Bruyne (Víti)
2-0  – 35 min, Sterling
3-0  – 45 min, Foden
4-0  – 66 min, Ox (sjálfsmark)

Fyrri hálfleikur

Liverpool byrjaði bara ágætlega, pressuðu hátt upp völlinn og vorum líklegri aðilinn fyrstu 15-20 mínúturnar eða svo. Salah tók hlaupið á milli miðvarða City, fékk boltann frá Virgil á 4 mínútu og tók boltann á kassann og skaut viðstöðulaust – Ederson varði og Firmino náði ekki að nýta sér frákastið, hefði líklega átt að leggja boltann til baka á Henderson.

Á 18 mínútu fékk Salah svo besta færi Liverpool í hálfleiknum þegar boltinn vannst ofarlega á vellinum og barst til Salah sem fór auðveldlega framhjá Garcia en skaut í stöngina.

Eftir þetta breyttist mikið, Liverpool gerði sig seka um slæm mistök trekk í trekk – fyrst eftir 25 mínútur þegar Gomez hékk allt allt allt of lengi í Sterling svo réttilega var dæmd vítaspyrna sem KDB nýtti örugglega og kom heimamönnum yfir, 1-0.

Tíu mínútum síðar var Sterling aftur að spila stóra rullu og, því miður, Gomez líka. City menn sóttu hratt á okkar menn, Gomez horfði of mikið á boltamanninn og spilaði Sterling réttstæðan, seldi sig svo illa þegar hann ætlaði að blokkera skotið og Sterling kláraði færið vel, 2-0.

Aftur tíu mínútum síðar, á 45 mínútu, skoruðu heimamenn. Í þetta skiptið var það Foden eftir frábært spil þeirra bláklæddu. Foden tók þrýhyrning við Bruyne en Robertson seldi sig illa i þeirri sókn þegar hann tók hlaup út úr karakter og opnaði svæði fyrir Foden til að fá boltann aftur og klára færið einn gegn Alisson. Tökum þó ekkert af City mönnum sem gerðu virkilega vel.

3-0 í hálfleik og, þrátt fyrir að manni hafi oft sviðið meira undan stöðunni, þá var manni hætt að lítast á blikuna enda engin ástæða fyrir slíku afhroði.

Síðari hálfleikur

Eftir slakan fyrri hálfleik þá tók lítið skárra við næstu 45 mínúturnar eða svo. Ég myndi eflaust leggja meira púður í að greina hvað fór vel og hvað fór illa ef meira væri undir en hef takmarkaðan áhuga á að dvelja lengur við þennan leik. Klopp gerði breytingu í hálfleik, Gomez fór útaf í stað Ox og Fabinho tók sér stað við hlið Virgil, kom ekki mikið á óvart svo sem enda Gomez átt betri daga svo ekki sé meira sagt.

City átti tvö fín færi fyrstu 10 mínúturnar eða svo þegar þeir voru trekk í trekk að ná í tvo á tvo án þess að ná að nýta sér það. Mané átti að gera svo mikið mun betur á 53 mínútu þegar góð sending Henderson slapp frá honum á óskiljanlegan hátt.

Það var svo Sterling sem bætti við fjórða markinu, eða réttara sagt Ox sem bjargaði okkur frá því að Sterling setti annað mark í dag þegar Sterling lék á Robertson og skaut að marki, framhjá Alisson en í Ox og inn – mér sýndist boltinn nú vera á leiðinni inn en markið skráð sem sjálfsmark til að byrja með hið minnsta.

Ég held ég hafi aldrei orðið jafn lítið pirraður yfir svona slæmum ósigri, enda eingöngu nokkur met eftir fyrir okkar menn til að keppa að. Svona spilamennska er samt ekki boðleg og það svíður alveg smá að vera flengdur á Etihad, þó vissulega sé það ágætis meðal að geta huggað sig við að vera Evrópu-, Heims- og Englandsmeistari.

Bestu menn Liverpool

Pass.

Umræðan

 • Liverpool mætti ekki til leiks. Maður hefur, blessunarlega ekki séð þetta Liverpool lið í örugglega meira en tvö ár! Það segir meira en mörg orð hve fáránlega gott þetta Liverpool lið er. Við þekkjum það ágætlega hvernig er að fara í þessa leiki gegn City og vinna stórt, að sama skapi þekkjum við það einnig að tapa stórt – það er stutt á milli í þessu.
 • 20. Að vera 20 stigum fyrir ofan þetta Man City lið er í raun ótrúlegt afrek. Menn geta sagt misgáfulega hluti um þetta tímabil og standið á öðrum liðum en að vera með þessa yfirburði gegn þessum milljarða liðum í þessari deild og þessu City liði er í raun fáránlegt.

Staðreynd dagsins

Þær eru tvær. Ég hef skrifað skemmtilegri leiksskýrslur og……við erum Englandsmeistarar (og ríkjandi Evrópu- og heimsmeistarar ef þið viljið fara út í smáatriði)!

Næsta verkefni

Næsta verkefni er Aston Villa á heimavelli, ég trúi því og treysti að við fáum að sjá viðbrögð í þeim leik.

YNWA

15 Comments

 1. Helvítist en skítur skeður og þeir ná að minka þetta niður í 20 stig, ég sofna alveg í nótt.

  4-0 eru lokatölurnar í algjörlega stórfurðulegum leik.
  Þetta var galopinn leikur þar sem þeir áttu 3 skot á mark í fyrirhálfleik og voru 3-0 yfir. Á meðan að við fórum illa með okkar færi og stöður sem við vorum komnir í.

  Gomez brýtur af sér klaufalega í vítinni en hann er búinn að sleppa Sterling þegar hann kasta sér niður. Já víti en Sterling að stefna á óskar.
  Mark númer 2 er þannig að þeir koma boltanum á fremstan mann og miðjan okkar er gjörsamlega týnd og þeir keyra á okkur 3 á 3 og skora.
  Mark 3 á Andy sem selur sig skelfilega.
  Mark 4 er allt galopið hjá okkur en guð séð lof að Sterling skýtur framhjá, nei bíddu Ox setur hann þá bara inn í staðinn.

  Þetta var leikur þar sem Man City menn voru betri en í stöðunni 0-0 eftir 25 mín fannst mér við vera líklegri til að skora og eiginlega mun grimmari en þeir.

  Það má alveg skrifa þetta á bikarfagnað og þeir að svara fyrir sig en ég held að það sé bara lítil afsökun. Við vorum galopnir varnarlega og klaufar sóknarlega. Við ákveðum að spila eins allan leikinn og var ekkert Plan B hjá okkur. Við vorum í hápressu í 90 mín og var hún ekki að virka í síðarhálfleik og það átti ekkert að þétta neitt heldur að halda þessu galopnu sem Man City menn voru bara ánægðir með.

  Það átti engin góðan leik hjá okkar liði og var maður að vonast eftir því varamenn myndu aðeins hrista upp í þessu. Gomez fór útaf eftir dapran leik og Ox kom inná og var skelfilegur, Origi kom inná og virtist varla nennu þessu og var það helst Keita sem var að reyna eitthvað en samherjar hans með hangandi haus. Mane/Salah/Firmino oft að komast í hættulegar stöður en tóku ranga ákvörðun eða náðu ekki klára þessar stöðu nógu vel. Varnarlínan okkar var verri í þessum leik en Watford leiknum og er þá mikið sagt.

  86 stig – 6 leikir eftir og kannski var þetta sparkið sem við þurftum til að klára þessa leiki eins og menn.
  Næsti leikur er gegn Aston Villa á Anfield og má reikna með að Klopp gerir breyttingar á liðinu. Lovren líklega inn fyrir Gomez og spái að Keita byrjar næsta leik.

  YNWA – Við erum meistarar og því engin ástæða að væla yfir þessu, þótt að framistaðan var döpur gegn góðu liði.

  9
 2. Sæl og blessuð.

  Þetta var phyrrosarsigur hjá þeim ljósbláu. Nú fer af stað frekari nabbblaskoðun hjá okkar mönnum og þeir eru líklegri en ekki til að styrkja liðið.

  1. Miðvörður óskast.
  2. Alvöru bakköpp fyrir sóknina
  3. Keita, Chambo, Origi eru ekki mikið að breyta leikjum þessa dagana. Minamino fær sénsinn en það vantar eiginlega supersub.

  Edwards og félagar eru með kveikt á spjaldtölvunum núna.

  Jamm, en ég tek undir það að sjaldan jafn stórt tap kostað jafn litla sorg, sem nú.

  4
 3. Jú, spekingarnir segja að hann sé sá mikilvægasti. Við hinir sjáum ekki það sem hann gerir svo vel.

  1
 4. Þetta var fínt plott hjá okkur því núna halda city-menn að þeir þurfi ekki að versla aftur fyrir 590 milljónir punda í næsta glugga!

  Við erum með 20 stiga forskot á þessa kubba þrátt fyrir þessar ófarir, það segir alla söguna um okkar stórkostlega lið!

  YNWA!

  13
 5. Það eina góða við þennan leik fyrir okkar menn kom frá City; heiðursvörðurinn.

  1
 6. Slæmur leikur, verri úrslit, en þokkaleg leikskýrsla.

  En eins og fram hefur komið, þá erum við meistarar. Það skiptir öllu máli.

  1
 7. Heyrði í einhverjum þulum að við höfum ekki unnið útileik úr síðustu 5-6 útileikjum, passar það? Ef svo er, pínu áhyggjuefni eða hvað.

  1
  • Liðið hefur ekki skorað eitt einasta mark í síðustu 5 útileikjum….

   1
 8. Just arguing for the sake of argument. Þessi leikur sýndi enn einu sinni að það vantar alvöru 9. Bobby sem hefur btw ekki skorað á anfield í epl var sorglegur. Vill helst sjá hann sem fremstan miðjumann með torres/suarez týpu uppá topp. Blauti draumurinn er Mbappe en sjáum til hverju Nike tíma. Annars var bara uppgjöf eftir 2-0 og það var ekki meisturum sæmandi. Fullt af fans all over the world sem voru að fagna og skála og liðið svo rassskellt. Everton leikurinn var sorglegur líka. Lítið að marka C.Palace sem voru stuttu áður búnir að eyða mikilli orku í að verja 3stig gegn bmouth. EPL titill er risastór og sérstaklega eftir 30 ár og ekki misskilja. Ég hef horft á 90% leikja síðustu 20 árin og farið 3svar á anfield og hefði tekið epl champ yfir allt annað…en city er líklegast að fara klára fa og cl. Plús deildarbikar. Klopp er maðurinn en hann verður að fara sýna öðrum bikurum virðingu. Skil ekki ennþá first11 gegn wolves í jan2019. Svo þetta varalið gegn chelsea núna í ár í fa cup. Þetta verður að fara breytast. Tek alltaf fa cup fram yfir supercup og deildarbikar framyfir þessa keppni í asíu eða whatever kjaftæði þarna í des. Ef engin kaup verða þá á ekki að selja H.Wilson eða Grujic auk þess að lána þá ekki af neinum af Brewster, Jones, Elliot og Williams. Amk að kaupa backup f. Robertson og miðvörð. Gomez spilaði sinn versta leik ever í rauðri treyju en er klárlega VVD partner eða 3rd option. Annars var pínlegt að horfa á liðið í kvöld. Mane, Bobby, Gini, Gomez og Robertson voru víðsfjarri og vonandi var þetta bara meistaraþynnka. Rant over. Til hamingju allir hér á Kop.is með EPL titillinn! Hlakka til að jafna manure 2021 og hoppa yfir þá 2022 !

  2
 9. Gleymum þessu bara, erum komnir með dolluna. Þeir voru allir eitthvað með svo miklar brauðfætur.

 10. Þetta kom nákvæmlega ekkert á óvart. Ég spáði 5-2 tapi í galopna leik . Maður er buinn að spila, þjálfa og horfa á fótbolta í rúmlega 30 ár.
  Ég hef séð nákvæmlega þetta dæmi svo oft.

  Lið sem er búið að fagna sigri og losa ótrúlega pressu . Getið þið ymindað ykkur spennufall þegar lið hefuf ekki orðið meistari í 30 ár . Ofan á þetta mæta þeir liði sem var að missa titilinn til okkar.

  Man City liðið er frábært lið og ef þeir ætla að sér að gera allt til þess að vinna og eru ógeðslega pirraðir yfir því að standa og klappa fyrir liðinu okkar þá getur farið nkl svona ef þú mætir i eftir mikinn fögnuð og eflaust lítið undirbúinn.

  Maður sá i þessum leik leikmenn Liverpool gera svo barnaleg mistök , mistök sem þeir hafa ekki gert í 2 ár.

  Hverjum er ekki sama í dag. Þessi leikur gleymist þegar dollar fer á loft. Eg er reyndar nánast búnn að gleyma þessum leik daginn eftir hann.

  20 stiga forusta og met yfir það að klára deild svona snemma. Eg bið ekki um meira.

  YNWA

  10
 11. Sælir félagar

  Þetta var skelfileg frammistaða og liðinu til skammar. Sem betur fer gleymist þetta fljótt enda mikið af leikjum á stuttum tíma og margt annað að hugsa. Það er samt ömurlegt að tapa 4 – 0 fyrir liðinu sem verið var að vinna dolluna af. Enginn leikmaður getur gengið hnarreistur frá þessum leik. Að því sögðu ætla ég að gleyma þessum leik hið fyrsta.

  Það er nú þannig

  YNWA

  3
 12. Frekar kærulausir en skiljanlegt bara ætla ekki að spá of mikið í þessu en já manni læddist sá grunur að þetta yrði ansi erfitt eftir djammið góða : D

 13. Liðið var þreytt fyrir covid og er þreytt ennþá þrátt fyrir frábæran leik gegn CP. Persónulega finnst mér vanta möguleika í sóknina. Mögulega miðvörð og jafnvel tíu, ekki alveg viss með hvernig Klopp myndi nota tíu en það þarf að ferska þetta fyrir næsta tímabil.

  Hef engar áhyggjur af þessum Man C úrslitum, nánast sama, við erum meistarar, allt ég ég vildi.

  Hef ekki trú á þetta lið óbreytt vinni aftur á næsta tímabili deildina. Við verðum að kaupa inn og dreifa álaginu. Það verða áfram leikir fyrir þessa ungu og efnilegu til að brjóta sér leið inn í aðalliðið.

  Ég þarf ekki Liverpool slái einhver stigamet núna – bara mæta til leiks á næsta tímabili eins tilbúið og hægt er. Við höfum tækifæri á að hvíla og undirbúa okkur ólíkt okkar helstu keppinautum sem eru á fullu að keppast um meistaradeildarsæti eða FA bikar í þéttu leikjaplani.

  Deildin á næsta tímabili takk. Allra annað er auka.

  2
 14. Hef miklar áhyggjur af liðinu. Erum vissulega Englandsmeistarar en sá titill var í raun unnin á árangrinum 2019, sem var okkar ár.
  Liðið er ekki svipur á sjón miðað við fyrir ári síðan. Meira að segja van Dijk leit illa út í þessu City tapi, þar sem karakterleysið frá því A. Madrid leiknum gerði vart við sig á nýjan leik.
  Vona að þetta séu undantekningar.
  YNWA.

  1

Liðið gegn Man City

Upphitun: Liverpool – Aston Villa